14.5.2008 | 19:24
Girðingar og gaddavír, gyðjur og góðmennska
Ár er síðan ég gekk á vit frelsisgyðjunnar og fjarlægði girðingu og gaddavír sem sett hafði verið um skógarlund í Álafosskvosinni. Tilefnið voru framkvæmdir við það sem hét samkvæmt nýirði í skipulagsfræðum "lagnavegur". Eina sem bar gott skynbragð listrænt framlag gjörningsins var María Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur og leiklistarfrömuður í Mosfellsbæ til margra ára. Hún hafði fengið mig áratug áður með sem leikara í aukahlutverki við kvikmyndina Maríu, sem var um þýska konu sem flyst til Íslands eftir stríðið. Aðalhlutverk var í höndum Barböru Auer. Mikil dama og fegurðardís, þó hún væri áreiðanlega líka þýskur harðjaxl undir niðri. Samkvæmt handriti átti ég að vera hinn dæmigerði íslenski ruddi sem að ryður þessari þýsku konu um koll á horni Pósthússtrætis og Aðalstrætis.
Þarna var búið að loka fyrir alla umferð fyrir þetta tiltölulega litla atriði, tökuvélarnar á teinum og krönum. Það sem að mér var efst í huga var hversu falleg leikkonan væri og var það gjörsmlega fyrirmunað að lifa mig inn í þetta hlutverk að ég ætti að vera með ruðning og ruddaskap við slíka þokkagyðju, þar sem við kæmum úr sitthvorri áttinni á götuhorninu. Eftir að búið var að taka atriðið í 2-3 skipti þá segir Barbara í skipandi tóni og ber sér á brjóst; "You have to come more into me!". Eftir þessa hvatningu gerðist ég mjög ákveðinn í framgöngu og æddi áfram og lenti beint framan á hana og skammaðist yfir því hvað hún væri að þvælast fyrir. Heyrði svo í framhaldi "yeess!" frá leikkonunni. Stundum er nauðsynlegt að átta sig á því að kringumstæður bjóða ekki upp á huggulegt teboð.
Ég fékk sem sagt hrós frá leiklistardrottningu Mosfellsbæjar fyrir það að vera svona afgerandi með girðingarnar á þessum vordegi fyrir ári síðan, af því að hún vissi að ég gæti stundum verið huglaus gunga fyrir framan upptökuvélarnar. Henni fannst ég hafa tekið framförum. En á plakati með kvikmyndinni Maríu sem er ætíð notað til að kynna kvikmyndina þá er ég einmitt vinstra megin við Barböru Auer, standandi á spjalli við annan mann þar sem Óli blaðasali kallaði ætíð "Dagblaðið - Vísir", "Dagblaðið - Vísir" í mínum fyrstu minningum úr Austurstræti.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 15.5.2008 kl. 10:45 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.