11.7.2008 | 14:02
Kennaragöngur
Síðastliðið haust samdi ég við Kennarasamband Íslands um að skipuleggja gönguferðir um Stafafell í Lóni sem er að ná fullum þroska sem eitt stærsta og fjölbreytilegasta útivistarsvæði landsins. Eskifell og Kollumúli voru aðalbækistöðvar okkar eins og tíðkast hefur hjá smalamönnum um langt skeið.
Í gær kom síðasti hópurinn af þremur til byggða. Hann var 27 manna, sem er með allra stærstu hópum sem ég hef farið með, en auk fararstjórnar var matreiðsla á mínum höndum. Verð að viðurkenna að í mér var örlítill beygur að vegna fjöldans yrði erfitt að halda utan um verkefnið.
Nú er fimmtán dögum á fjöllum með kennurum lokið. Ég hef fulla trú á þessu stefi í orlofsmöguleikum. Svona pakki með göngu í fimm daga, gistingu í skálum, kvöldmat, trússi og rútuferð til baka er á svipuðu verði og sumarhús í viku.
Hópurinn sem kom til byggða var sá besti og skemmtilegasti sem ég hef farið með til fjalla. Það hefur mér reyndar fundist um flesta hópa áður, sem farið hafa í slíkar lengri gönguferðir. Það er alltaf ánægjulegt að finna þá sterku samkennd sem yfirleitt myndast í ferðunum.
Hendi hér inn myndum úr KÍ göngum.
Athugasemdir
Það er ekki amalegt þetta - þú ert sannarlega öfundsverður af "vinnustaðnum" þínum.
Ásgeir Eiríksson, 11.7.2008 kl. 16:29
Já, Ásgeir, flottur vinnustaður og starfið skemmtilegt. Góð tilbreyting frá innivinnu vetrarins og viðheldur líkamlegu þoli. Mbk, G.
Gunnlaugur B Ólafsson, 11.7.2008 kl. 21:33
Rosaleg harka er þetta í karlinum! Og matreiðir líka?!
Svona á þetta að vera :)
Berglind Rúnars. (IP-tala skráð) 11.7.2008 kl. 21:48
Hæ Berglind, eins og þú veist þá var slurkur af Borghyltingum í síðustu ferðinni. Heyrði aðstoðarskólameistara vorn melda sig í síma þegar komið var til byggða; "Þetta var ógeðslega gaman, en ég er líka ótrúlega ánægð með að vera lifandi". Ekki var þó neinn lífsháski, en landið er allt stórskorið og drjúgur dagskammtur í göngu hvern dag.
Gunnlaugur B Ólafsson, 11.7.2008 kl. 22:12
undurfallegt landslag
Hólmdís Hjartardóttir, 12.7.2008 kl. 01:03
Tek undir ummæli Ásgeirs fyrrum sveitunga okkar beggja um „vinnustaðinn“ þinn, Gunnlaugur!
Ein allra skemmtilegast ferð sem Mosi hefur tekið þátt í var ferð undir mjög góðri og skemmtilegri stjórn þinnar Gunnlaugur um Lónsöræfin fyrir nokkrum árum.
Mjög miður er að ríkisvaldið hefur sölsað þetta fagra land undir sig og það í krafti þessara dæmalausu þjóðlendumála. Þetta svæði, Lónsöræfin, hafa tilheyrt Stafafelli um aldir og einkennilegt að allt í einu tilheyra þau ekki lengur þeim Stafafellsmmönnum þrátt fyrir kaupsamning sr.Jóns Jónssonar í Stafafelli, forföður Gunnlaugs við ríkisvaldið frá upphafi síðustu aldar. Þeir Stafafellsmenn hafa ekki afsalað í hendur neins aðila landinu og því mjög undarlegt að ríkisvaldið telji þetta allt í einu „sína eign“!.
Hvet þig Gunnlaugur að halda þessari útivistarperlu - með góðu eða illu í eigu ættmenna þinna. Þú ritaðir frábæra grein í Moregunblaðið hérna um árið um málefnið og hvet þig eindregið að endurbirta bæði seint og snemma sem nauðsyn ber til og þá sem víðast. Þessi úrskurður óbyggðanefndar var gjörsamlega óskiljanlegur og rökin ótrúlega glannaleg að ekki sé meira sagt. Úrskurðinum þarf að hnekkja enda byggist hann fremur á ágirnd og óskhyggju en lögfræðilegum staðgóðum rökum!
Baráttukveðjur!
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 12.7.2008 kl. 16:40
Já, það er undarlegt að þurfa að vera í vörn árum saman gagnvart ásælni ríkisins í land sem það sannanlega seldi séra Jóni langafa mínum.
Hæstiréttur studdist við tvær stoðir sem mér finnst báðar veikburða. Önnur var að ekki hefði verið sýnt hvernig farið var með kvígur eða eldar kveiktir við landnám fyrir meira en þúsund árum. Hin var að þjófkenna séra Jón. Að hann sem kaupandi hafi skrifað upp landlýsingu sem náði yfir meira land en honum bar. Landlýsing hans ber þó saman við fyrri heimildir og var uppáskrifuð af öllum öðrum aðliggjandi jörðum.
Niðurstaða Héraðsdóms var rökrænni og dæmdi hann út frá fyrirliggjandi gögnum að allt landið væri eignarland Stafafells. Vatnaskil og ár hafa verið hin rökrænu mörk jarðarinnar, hreppa og sýslna. Ný strik þjóðlendumanna standast enga skoðun hvorki sögulega né landfræðilega.
Óháð því hver eigandinn er þá væri það menningarsögulegt slys að líta ekki til þessarar einingar, Stafafells í Lóni sem einnar heildar. Einnig liggur verndargildi hennar í hinum stórfenglega fjölbreytileika náttúrunnar sem er á hinu 40 km þversniði frá vatnaskilum til sjávar.
Mál Stafafells bíður meðferðar Mannréttindadómstólsins. Ef það fæst tekið til meðferðar þá verður að teljast líklegt að 400 ára skýr eignarsaga Stafafells og sala ríkisins vegi þyngra heldur en skortur á heimildum af 1000 ára gömlu kúahaldi.
Landnáma hefur verið biblía Hæstréttar í þjóðlendumálum. Sérfræðingum um áreiðanleika þeirrar bókar ber þó saman um að hún hafi takmarkað heimildargildi. Hún var skrifuð löngu eftir landnám, breyttist í gegnum aldirnar og höfundar verið af suðvesturhorninu, sem gefur ástæðu til að ætla að þeir hafi haft minni aðgang að sögusögnum um landnám t.d. á suðausturlandi. Mbk, G
Gunnlaugur B Ólafsson, 13.7.2008 kl. 10:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.