Faglegan Seðlabanka

Í ljósi þess að Þjóðhagsstofnun var lögð niður, þá er fátt mikilvægara en að fullt traust sé borið til fagmennsku Seðlabanka Íslands. Það þarf ekki að vera óeðlilegt að seðlabankastjóri tjái sig um efnahagsvanda þjóðarinnar á yfirvegaðan máta. Þannig varð Alan Greenspan þekkt persóna sem seðalabankastjóri Bandaríkjanna.

Við þær aðstæður sem ríkja núna í þjóðfélaginu er það óheppilegt að mikil orka fari í umræður um persónu Davíðs Oddssonar. Hann kom þó að mörgu leyti vel út úr viðtalinu í Kastljósi í fyrradag. Ókosturinn er sá að þar var stjórnmálamaður að tala, en ekki embættismaður að reifa möguleika í stöðunni út frá fagþekkingu.

Það er til dæmis ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á yfirlýsingar um að þeir sem vilji skoða kosti evru sem gjaldmiðils séu "lýðskrumarar". Hann sagði í þættinum að hann hefði aldrei tekið undir "þann útrásarsöng" en í gær var birt í Fréttablaðinu yfirlit af tilvitnunum sem sýna fram á annað. Margt bendir til að gjörðir hans og yfirlýsingar hafi valdið skaða.

Davíð Oddsson er umdeildur stjórnmálamaður sem bjó til það fjármálaumhverfi í landinu sem að nú er hrunið. Hann hefur ekki tiltrú almennings sem slökkviliðsstjóri í því mikla starfi sem að er framundan. Fyrrum forsætisráðherra á að geta gengið af sviðinu með þokkalegri reisn. Hann hefur fengið fleiri tækifæri en allir aðrir á opinberum vettvangi.


mbl.is Vill seðlabankastjórana burt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórbergur Torfason

Er nú ekki full djúpt í árinni tekið að segja að maðurinn hafi komið vel út úr kastljósviðtalinu. Ljóslega vissi hann ekki að þarna var hann sem embættismaður en ekki hraðlyginn pólitíkus. Merkilegur andskoti hvað kratadindlarnir eru þaulsætnir í plussinu með þennan endalausa bullara í Seðlabankanum.

Er ekki tími til kominn að fagaðilar taki við að reyna að leysa þetta vandamál.

Getur ekki verið trúverðugt, hvorki útávið né fyrir okkur landsmenn að aðalleikararnir í fjóshaugnum skuli vera þeir Davíð og Geir sem mykjan í haugnum er úr. Það getur ekki verið trúverðugt þegar afbrotamenn fá að rannsaka sinn eigin brotaferil.

Þórbergur Torfason, 9.10.2008 kl. 13:39

2 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Heill og sæll kæri sýslungi, þú mælir hraustlega og réttilega. Mbk, G

Gunnlaugur B Ólafsson, 9.10.2008 kl. 13:53

3 identicon

Nýlega var birtur listi yfir seðlabankastjóra víða að úr heiminum. Allir með hagfræðimenntun og margir með doktorspróf. Engu að síður hafa þessir ágætu fagmenn ekki ráðið neitt við neitt.

Enginn þeirra hét Davíð Oddsson.

Ragnhildur (IP-tala skráð) 9.10.2008 kl. 13:54

4 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Ragnhildur er þinn punktur að það sé æskilegt að umdeildir stjórnmálamenn taki við seðlabankastjórn eftir að þeir hætta í stjórnmálum (gleyma reyndar stundum að þeir eru hættir) ?

Gunnlaugur B Ólafsson, 9.10.2008 kl. 19:55

5 identicon

Minn punktur er að færustu fjármálasérfræðingar heims hafa ekki fundið nein ráð sem duga í þessu fárviðri sem nú geisar. Milljörðum er dælt inn í kerfið og síðan bíða menn bara og vona. Vonin skilar ekki miklum arði, eins og við erum að upplifa þessa dagana.

Aðeins á Íslandi telja menn sig hafa fundið stórasannleik. Hann felst í að losa sig við Davíð. Það er eitthvað ótrúlega barnalegt við það að halda að allt verði gott ef Davíð væri ekki til. Samfylkingin er enn stödd í anno 2003. Hún hrærist í eftirstöðvum átaka sem áttu sér stað milli Davíðs og Ingibjargar Sólrúnar fyrir kosningar það ár. Því miður virðist  Samfylkingin vera svona hjólfaraflokkur sem grefur sig niður og spólar.

Hvern á að hata þegar Davíð er ekki lengur í veginum?

Ragnhildur (IP-tala skráð) 9.10.2008 kl. 21:41

6 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Takk fyrir svarið Ragnhildur. Þetta hljómar allt saman skynsamlega. En því miður eru það ekki bara Samfylkingsrfólk sem finnst sú staðreynd að hafa hinn umdeilda og aldna "fyrrum" stjórnmálaleiðtoga í þessu embætti. Framsóknarmenn eru með tillögu á Alþingi um menntunarkröfur seðlabankastjóra sem er ekkert annað en sneið á veru Davíðs í þessum stóli.

Ég á mikið af kunningjum og vinum sem eru í sama flokki og Davíð og þeir eru mjög gagnrýnir á hann þó að Geir Haarde og Björn Bjarnason hafi valið að standa í skugganum af honum. Einn þeirra sagðist þekkja Davíð nokkuð vel og það væru afskapkega skýrir litir hverja hann talar við og það eru þeir sem að eru honum sammála.

Varðandi spurninguna í lokin þá á engan að hata og ég held þú getir ekki lesið þá tilfinningu úr mínum skrifum. Ég vann eitt sinn sem fréttamaður útvarps um sumartíma og þá var Davíð borgarstjóri. Mér fannst hann skemmtilegur og óvæntur í svörum. En aðalpunkturinn er sá að hann á ekki að vera "í veginum" með sína flokkspólitík.

Það er eki sæmandi að hann kalli þá sem efist um krónuna sem framtíðargjaldmiðil "lýðskrumara". Þú hljómar það skynsöm að ég trúi að þú sjáir að slíkt mat á framtíðarstöðu okkar meðal þjóða á ekki að vera byggt á tilfinningalegri og neikvæðri yfirlýsingagleði frá seðlabankastjóra. Hann er maður með meiningar út og suður, hvatvís og tilfinningaríkur. Slíkt getur fleytt mönnum vel í pólitík en skapar ekki tiltrú á embættismanni. Mbk, G

Gunnlaugur B Ólafsson, 9.10.2008 kl. 23:12

7 identicon

Það má iðka hina íslensku þrætubókarlist eins og fólk lystir. As you like it. Hitt er annað mál, að Bretar munu taka Ísland upp í skuld. Allt. Fasteignir, auðlindir, jeppana, lífeyrissparnað, allt sem er einhvers virði. Allt verður síðan selt hæstbjóðanda, svo framarlega að þjóðerni bjóðenda sé ekki íslenskt. Íslendingar, þ.e.a.s. þeir sem ekki geta flúið land, verða hér ánauðugir um aldir og fá ekki að eignast neitt.

Portkonan (IP-tala skráð) 10.10.2008 kl. 06:55

8 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Áhugaverð færsla hjá Vilhjámi Þorsteinssyni

Gunnlaugur B Ólafsson, 10.10.2008 kl. 10:33

9 identicon

Það var ekki meiningin að leggja upp í langan leiðangur, þegar ég kommenteraði á síðu þinni í gær - aðeins að benda á grundvallarfeil í umræðunni um fræðimennsku vs reynslu. Til að bæta við það sem ég sagði í gær er gott að hafa í huga að hagfræði er ekki vísindi. Hagfræði er hugmyndafræðilegar kenningar sem menn gera tilraunir með.

Ég trúi því varla að þú sért að mæla með Framsókn sem leiðarljósi í þrengingum. Þeir sendu einn mesta afglapa Íslandssögunnar í Seðlabankastjórastólinn. Það sem bjargaði málum var að enginn tók mark á honum svo að hann endaði bara í grænum málum. Þeir hafa kannski lært sína lexíu og þess vegna koma þeir fram með þessa tillögu. En tilgangsleysi þeirra í íslenskum veruleika sést einna best á þeim frumvörpum sem þeir eru setja fram þessa dagana; menntunarkröfur seðlabankastjóra, þjóðaratkvæði um ESB viðræður (stofnun sem er að gliðna vegna innri ágreinings) og tilfærsla frídaga þjóðarinnar að helgum. Come on. Þér er ekki alvara. Er ekkert mikilvægara í umræðunni í dag?

Lýðskrum er það þegar gefið er í skyn að leið út úr vanda okkar sé í aðildinni að Evrusvæðinu. Í þessu gjörningaveðri sem nú geisar í heiminum hefur dugleysi ECB orðið öllum ljóst. ECB veitir engin þrautavaralán, hvorki þeim sem aðild eiga að evrunni né öðrum ESB ríkjum. Nú er það hver-sér-um-sig aðferðin sem bliver og því standa lýðskrumararnir nú berrassaðir í dagsbirtunni.

Samfylkingin virðist ekki getað áttað sig á að aðild að ríkisstjórn felur í sér ábyrgð. Þeir verða að vinna með, ekki á móti. Mér sýnist að eini samfylkingarmaðurinn sem sýnir ábyrgð sé Björgvin G. Hann kemur fram af stillingu og reynir að róa fólk. Það er það sem fólk þarf á að halda núna.

Óánægja með DO er kapituli sem ég ætla að sleppa í þetta sinn. Menn eru frjálsir að skoðunum hvort sem þeir eru ónafngreindir sjálfstæðismenn eða ekki. Ég get hins vegar sagt að margir sem við mig hafa talað hafa lýst ánægju með viðtalið í Kastljósinu, þ.á.m. "ónafngreindir" hreintrúa samfylkingarmenn. Fólk segir að hann tali mannamál. Ég vona að þú sjáir að umræða á þessum nótum skilar ekki nokkrum manni áleiðis.

Þessi ilmolía sem þú úðaðir yfir mig er dálítið yfirlætisleg - að ég sé svo skynsöm að ég hljóti að átta mig á að ég vaði villu vegar. Á fyrri hluta síðustu aldar notuðu gömlu bolsévikarnir þetta orðalag þegar þeir voru að tæla sakleysingjana til fylgis við sig. Þeir notuðu reyndar orðið "gáfur" og fiskuðu vel í hópi óharðnaðra ungmenna. Ég hélt reyndar að þessi aðferð væri úrelt. En allt kemur til baka og þetta er bara enn ein útgáfan af retro-tískunni, rétt eins og brauðristarnar, útvörpin og kaffivélarnar sem hafa verið ómissandi á hverju heimili síðustu árin.

Ragnhildur (IP-tala skráð) 10.10.2008 kl. 11:47

10 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Ég verð að svara Ragnhildur. Búin að skipta um skoðun. Held að trúin á Flokkinn og Davíð blindi þig. Rætur vanda þjóðarinnar liggur í "góðæri Davíðs" sem byggðist á ofmetinni krónu sem var haldið hárri og opnaði á gífurlega skuldsetningu og viðbrögðin við vandanum eru "klúður Davíðs" 

Það er margt sem bendir til að við hefðum ekki lent í þessum vanda hefðum við haft evru. Þú þarft að sannfæra New York Times um að við séum á réttri leið með Davíð og trú hans á að krónan geti verið framtíðargjaldmiðill. Þú gætir líka hringt í Danske Bank og bent þeim á sannfæringu Davíðs að við eigum bara að sitja hér og bíða eftir því að einhverjir fái tiltrú á krónunni. Einn stærsti banki Danmerkur treystir sér ekki að til að millifæra í þessum gjaldmiðli.

Auðvitað eru þeir bara lýðskrumarar og liðleskjur sem ekki fylkja sér á bakvið Davíð á þessum tímapunkti. En hrósið á skynsemina byggðist á því að mér fannst þú ekki vera með innantóm slagorð hversdagslegrar íslenskrar þrætupólitíkur. En ekki skal ég kæfa þig í þeirri ilmolíu.  Mbk, G

Gunnlaugur B Ólafsson, 10.10.2008 kl. 13:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband