28.10.2008 | 21:05
Draumaland sveitarinnar í borginni
Varmársvæðið frá upptökum að ósum er lífæð Mosfellsbæjar. Fyrir íbúana sem vilja næra sig með heilsusamlegum lífstíl og upplifa hin fjölbreytilegu tengsl við náttúruna. Góðærisglíja og græðgi blinduðu sýn bæjaryfirvalda og verktaka á mikilvægi þessara verðmæta. Tákn Mosfellsbæjar Álafoss var niðurlægður með ósmekklegri og groddalegri stígagerð. Kvosin er enn sundurskorin og óljóst hvernig vegtengingu við hana verður háttað. Varðstaða um þessi gildi tapaðist.
Næsta stórframkvæmd sem mun verulega spilla Varmársvæðinu er lagning Tunguvegar um árósasvæðið. Varmársamtökin héldu nýlega opinn málfund um lagningu þessarar tengibrautar frá Leirvogstungu að Skeiðholti. Frummælendur voru Valdimar Kristinsson blaða- og hestamaður og Ólafur Arnalds prófessor í umhverfisfræði. Mikil ánægja var með innlegg þeirra og fundarmenn hvöttu þá til að koma máli sínu á prent.
Ólafur Arnalds birti þann 20. október grein í Morgunblaðinu, sem nefnist Tunguvegur: Skipbrot umhverfisstefnu. Þar rekur hann óvandaðan samanburð á valkostum í umhverfisskýrslu. Þar sem mikilvægi svæðisins og framtíðarlandnýting fá ekkert vægi. En umhverfisskýrsla tengd Helgafellsvegi var sama marki brennd. Einungis horft til áhrifa af malbikuðum vegi hér eða þar. Ekkert um gildi útivistarsvæða fyrir bæjarbúa.
Í niðurlagi greinarinnar segir Ólafur: "Umhverfisslys í Mosfellsbæ hafa verið mörg og stór að undanförnu. Satt best að segja skil ég ekki lengur hvaða hlutverki grænn flokkur gegnir í þessari bæjarstjórn. Hann var örugglega ekki kosinn til þessara verka! Ég skora á bæjarstjórn að endurskoða hug sinn varðandi Tunguveg og líta til annarra kosta en þeir eru sannarlega fyrir hendi!".
Það er ýmislegt hægt að gera fyrir áætlaðan kostnað vegna Tunguvegar, sem er metinn 300-500 milljónir. Tengibrautin er óþörf að margra mati ef hið nýja hverfi nýtir Vesturlandsveg, en í besta falli afskaplega illa ígrunduð. Hægt er að leggja hana eins og Ólafur bendir á mun nær Vesturlandsvegi og með þeim hætti er svæðið ekki skorið í sundur og samnýtist vegtengingu við fyrirhugaðan ævintýragarð. Ávinningur íbúa í Leirvogstungu er mestur af því að hafa náttúruparadís við túnfótinn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:00 | Facebook
Athugasemdir
Yndislegt!
persóna, 29.10.2008 kl. 13:38
Akkúrat rétta orðið ef við hugum að þessum gildum. Bjó til dæmis í tvö ár í stáliðnaðarborginni Pittsburgh í Pennsylvaníu og það kom mér á óvart hvað þeir taka frá stór svæði sem "parks" eða opin græn svæði til útivistar. Mbk, G
Gunnlaugur B Ólafsson, 30.10.2008 kl. 10:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.