Einangrun þjóðrembunnar

Tækifæri Íslendinga liggja í fullri þátttöku í Evrópusambandinu. Viðfangsefni framtíðar er ekki að sanna fyrir umheiminum að við getum staðið einir og sjálfstæðir, heldur að gera sér grein fyrir að í allri samvinnu liggja bæði kvaðir og möguleikar. Flest bendir til að fólk og fyrirtæki njóti ávinnings af aðild að sambandinu. Þar er ekki bara verið að líta til aðgengis að mörkðum og tengsl við traustan gjaldmiðil. Skilningur á mannréttindum á sér sterkar rætur innan sambandsins og búast má við miklu í samstarfi þjóða í mennta- og menningarmálum.

Það er merkilegt hversu fljótt veður skipast í lofti um Evrópumál í Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum. Bjarni Harðarson og Guðni Ágústsson helstu andstæðingar sambandsins komnir á hliðarlínuna í Framsóknarflokknum. Flestir aðrir í núverandi þingmanna- og forystusveit vilja stefna á aðildarviðræður. Varaformaður Sjálfstæðisflokks Þorgerður Katrín braut ísinn og þögnina sem ríkt hafði þar um Evrópusambandið. Arfleifð Davíðs Oddssonar gekk út á rembing um að við værum mest og best. Engum háð.

Annar fyrrverandi varaformaður, Friðrik Sophusson, bætist í hópinn í dag. Hann lýsir þeirri skoðun sinni að Sjálfstæðisflokknum beri að hafa aðildarviðræður á stefnuskrá sinni og það samkomulag sem út úr þeim kæmi færi síðan í þjóðaratkvæði. Þorsteinn Pálsson fyrrverandi formaður flokksins hefur haft nokkurt frumkvæði í umræðunni sem ritstjóri Fréttablaðsins. Nú virðist Morgunblaðið vera orðið afgerandi hlynnt ESB ef horft er til leiðara þess á laugardaginn. Atvinnulífið og verkalýðshreyfingin er nánast öll hlynnt aðildarviðræðum.

Bjarni Harðarson félagi minn á Selfossi hefur farið mikinn í að sortera samflokksmenn sína í sanna Framsóknarmenn og þá sem eru gervi eða kratar sem eiga heima í Samfylkingunni. Sama máli gegnir um íhaldið Hjört Guðmundsson sem er stjórnarmaður með Bjarna í Heimssýn. Hann skrifaði gegn Guðfinnu Bjarnadóttur þegar hún opnaði glugga til Evrópu. Einnig var hann með kratameldingar á Þorgerði Katrínu og taldi hana óverðuga að standa undir ránfuglstákninu. Vilja Bjarni og Hjörtur enn að allt þetta fólk fari í Samfylkinguna sem hefur haft aðildarviðræður á stefnuskrá um langt skeið?

Í dag bætist Jón Magnússon þingflokksformaður Frjálslyndra í hóp þeirra sem lýsa yfir stuðningi við aðildarviðræður. En mikið þarf að hafa breyst í þingflokknum til að hann hafi aðra þingmenn að baki sér í þessu máli. Ómar Ragnarsson formaður Íslandshreyfingarinnar hefur verið jákvæður gagnvart Evrópusambandinu. Það er því merkilegt að á nokkrum mánuðum er þingheimur og forystusveit flestra stjórnmálaflokka farin að ganga í takt við þjóðarvilja um samstarf innan álfunnar.

En hvar er endurmat Vinstri grænna í þessu máli? Er virkilega enginn þingmaður eða áhrifamaður í flokknum sem hefur opnað gættina gagnvart aðildarviðræðum og upptöku evru?


mbl.is Höft eða Evrópusambandið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Félagi Ögmundur Jónasson lýsir því yfir á heimasíðu sinni að hann styðji að þjóðin ákvarði um aðild að ESB. Telur sig vel fjaðraðan af lýðræðisást. En segist enn vera mótfallinn aðild. Ekki kemur fram á hvaða forsendum þingmaðurinn er á móti aðild.

Gunnlaugur B Ólafsson, 1.12.2008 kl. 11:08

2 Smámynd: Haraldur Hansson

Er það ekki með drjúgan hluta umræðunnar, að efnisleg umfjöllun er af skornum skammti. Þú skrifar t.d. "flest bendir til að fólk og fyrirtæki njóti ávinnings af aðild að sambandinu" sem er opið og almennt en segir ekki mikið.

Það sem Ögmundur er að kalla eftir er málefnaleg umræða um málið, sem allir ættu að geta tekið undir, hvort sem menn eru með eða á mót. Umræðan má ekki fara í þann farveg sem ég reyndi að lýsa í þessari færslu.

Haraldur Hansson, 1.12.2008 kl. 11:51

3 Smámynd: Þorvaldur Guðmundsson

Það er ótrúlegt að samfylkingarfólk skuli trúa því að sjálfstæðismenn séu eitthvað að huga að Evrópumálum. Þeir eru bara að kaupa sér frest og hafa ykkur að fíflum eins og þeir eru búnir að gera það sem af er kjörtímabilinu.

Þorvaldur Guðmundsson, 1.12.2008 kl. 16:39

4 identicon

Smjörklípa?

En annars góð blogfærsla Gunnlaugur!

Thor Svensson (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 19:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband