Mikil óánægja með aðferðir við val í framhaldsskóla

Unglingar

Lykilorð síðustu ára var samkeppni. Framhaldskólarnir lögðu fjármagn í að byggja upp ímynd og orðspor. Metnaður að ná í sterkustu nemendurna eða þá sem að eru með hæstu einkunnir. En síðan er tekin sú ákvörðun að leggja af samræmd próf og þar með nákvæm viðmið í samanburði milli skóla. Nú erum við komin með þessa keppni skóla um "bestu" nemana á villigötur.

Nýútskrifaðir tíunda bekkingar sem verið hafa saman í sínu hverfi alla skólagönguna eru látnir taka þátt í rússneskri rúllettu. Fylla út umsókn á netinu og merkja við skóla í fyrsta val, annað val og þriðja val. Þannig tvístrast vinahópar og út frá tilviljunum geta nemendur sem eru með háar einkunnir, ef til vill með um átta í meðaleinkunn staðið uppi án skólavistar.

Engin trygging er að einkunnir úr Valhúsaskóla og Varmárskóla séu að mæla sömu hluti. Síðan er munur upp á 0,2 að ráða því hvort nemandi kemst inn. Þetta kerfi þarf að endurskoða. Sjálfræðisaldur er átján ár og gert ráð fyrir að framhaldsskóli verði þrjú ár með breytingum á lögum sem taka gildi árið 2011. Ef til vill þarf að hugsa framhaldsskóla aftur sem hverfisskóla.

Ganga út frá því sem meginviðmiði að þorri nemenda komi úr tilheyrandi bæjarhluta. Síðan verði samræmd framhaldsskólapróf sem meta það hvort viðkomandi nemendur séu nægjanlega sterkir fyrir áframhaldandi háskólanám. Með þessu væri tryggt að innan hvers hverfis þróuðust öflugar menntastofnanir.

Þannig verði til sterkar bóknámslínur í öllum bæjarhlutum, en skólunum verði gert mögulegt að þróa líka sínar séráherslur. Með því geta nemendur með mikinn áhuga á tónlist, dansi, margmiðlun eða tilteknum sérsviðum og faggreinum valið skóla sem hæfir áhugasviði. Það er ágætt að geta farið yfir lækinn ef vilji stendur til, en líka gott fyrir samfélagið að hafa öflugan skóla í heimahverfi.


mbl.is 143 stúdentar útskrifast frá MA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

sonur minn lenti í þessu og missti af vinahópnum.. fáranlegt system.

Óskar Þorkelsson, 17.6.2009 kl. 17:54

2 identicon

Mikið til í þessum hugleiðingum Gunnlaugur. Börnunum er í raun stillt upp við vegg og um leið og þau númera skólana á umsóknareyðublaðinu eru þau að útiloka skóla númer 2 og 3 í mörgum tilfellum. Afleiðingin er að ef þau fá ekki inni í skóla nr. 1 þá komast þau ekki inn í þá skóla sem þau helst vildu og missa í mjög mörgum tilfellum af sínum félögum. Því stór hluti krakkanna velur skóla sem félagarnir eru að velja. Félagslega netið sem er svo mikilvægt á þessum unglingsárum er hrifsað undan þeim af "kerfinu". Þannig sitja margir góðir námsmenn jafnvel með 8,25 til 8,5 í meðaleinkunn eftir með sárt ennið fá jafnvel ekki inni í neinum skóla eða fá tilboð um inngöngu í skóla nr. 4 þar sem engir vinir eru eða ekki í boði þær áherslur í námi sem nemandinn sækist eftir.

Krakkarnir eru settir í samkeppni en það er engin föst viðmiðun til þar sem fyrrverandi menntamálaráðherra ákvað að fella samræmd próf niður á þessu ári.

Hvers eiga þessir krakkar að gjalda? Þetta kerfi er ómanneskjulegt og ósanngjarnt!

Anna Sigríður Guðnadóttir (IP-tala skráð) 17.6.2009 kl. 18:39

3 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Ég á gaur sem að er efnilegur ungur maður með ágæta meðaleinkunn, en var nokkuð agalaus á haustönn og er því með tæplega 8 í heildina. Það dugði ekki í versló þangað sem slatti af vinum fór, en hann er kominn inn í MS og er sáttur við það. Slatti af krökkum úr Mosó fer þangað. Mbk, G 

Gunnlaugur B Ólafsson, 17.6.2009 kl. 19:40

4 identicon

Það er líka til annað sjónarhorn á þetta - reyndar mörg. Sumum finnst gott að fara eitthvað annað en bekkjarfélagarnir. Það líður ekki öllum vel innan síns hverfisskóla. Svo eiga nemendur að geta valið sér leiðir strax við 16 ára, bóknámið hentar ekki öllum og þá er gott að geta valið sér iðngrein og farið í skóla sem sérhæfir sig í þeirri grein. Það geta ekki allir skólar sérhæft sig í öllu. Við erum það fá að þjóðfélagið ber það ekki uppi. Framhaldskólarnir verða að meta þá nemendur sem hann fær inn í sinn skóla - alveg eins og háskólarnir sem hafa enginn "samræmd próf" - Samræmd próf hafa hingað til stýrt allt of mikilli kennslu í 10. bekk og er ég fegin að búið er að breyta því fyrirkomulagi. Það kemur að því að leiðir vina skilja en ef að vináttan er sterk ætti val á framhaldsskólum ekki að vera ástæða fyrir vinaslitum.

Bára (IP-tala skráð) 17.6.2009 kl. 21:47

5 identicon

Ekki taka frelsi til að velja framhaldsskóla frá nemendum. Með sjálfsaga og mettnaði nær nemi góðum árangri. Af hverju ekki verðlauna hann/hana með skóla að eigin val. Því fyrr sem síunin á sér stað því betra. Betra fyrr en seinna að fá skell fyrir námsagaleysi. Þú uppskerð eins og þú sáir!

Palli (IP-tala skráð) 18.6.2009 kl. 12:06

6 identicon

Ja við hér á mínu heimili erum í þeirri stöðu að stúlkan okkar sem stóð sig svo ljómandi vel í vorprófum (var með meðaleinnkun 8.3) kemst ekki í neinn skóla. Með 10 í ástundun og mætingu.

Fékk nei frá öllum þeim 4 skólum sem hún sótti um.  Skemmtilegt eða hitt þó heldur.

Nú bíðum við eftir því að vita hvert menntamálaráðuneytið ráðstafar henni.  Við lifum í voninni að það verði ekki í skóla í Grafarvogi eða Breiðholti sem væri hreint "helvíti" fyrir fjölskyldu með einn bíl búandi í suðurbæ Hafnarfjarðar.

 Ástæða þess að hún fékk nei frá öllum skólunum sem hún sótti um var sú að allir þessir skólar taka bara inn nemendur sem setja skólann í fyrsta sæti.  Þannig að þegar fyrsti skólinn (MR) var búinn að segja nei átti hún engan sjens.  Þannig er nú bara það.  Það væri gott að vita fyrirfram þ.e áður en börnin sækja um að það er í raun ekki val um marga skóla.

Ásta B (IP-tala skráð) 18.6.2009 kl. 13:07

7 identicon

Vil taka það fram að við vitum um fleiri börn héðan úr Hafnarfirði sem eru í nákvæmlega sömu stöðu og mín dama.  Hér erum við að tala um samviskusama, duglega nemendur sem líða fyrir fuðulegt kerfi sem gerði ekki ráð fyrir stórum árangi í framhaldsskóla.

Einnig hafa skólameistarar sem við höfum talað við sagt okkur að þeir nemendur sem komu úr skólum þar sem engin vorpróf voru (heldur símat) voru mun hærri en þau sem tóki próf í vor. 

Talað er um að sumir skólar fellt  niður einkunir fyrir ástundun og mætingu til að nemendur hefðu meiri möguleika á skólavist í skólum sem eftirstóttir eru.

Þetta síðasta er þó óstaðfest en ég veit að hér í Hafnarfirði útskrifuðust 10. bekkingar á mjög mismunandi forsendum.

Ásta B (IP-tala skráð) 18.6.2009 kl. 13:13

8 identicon

Ég er ekki vön að lesa og hvað þá kommenta á Moggablogg, en varð aðeins að fá að tjá mína skoðun hér. Ég er í raun sammála öllum um að þetta sé mjög slæmt ástand og náttúrulega út úr korti að krakkar með góðar einkunnir fái ekki inn í neina skóla. En ég er svo hjartanlega ósammála því að þetta verði lagað með því að gera aftur hverfisskóla. Ég er sjálf utan af landi og fór í menntaskóla á árum hverfisskólanna. Ég átti forgang í heimavistarskóla úti á landi, sem ég hafði svo innilega ENGAN áhuga á! Ég var mjög góður nemandi með mikinn metnað og langaði í stóran og góðan skóla á höfuðborgarsvæðinu. Það hentaði mér jafnframt betur, þar sem ég gat flutt inn til systur minnar sem þar bjó. Það voru margir af mínum skólafélögum í sömu sporum. Sem betur fer var ég með það háar einkunnir að ég gat valið um skóla í Rvk, en það voru ekki allir jafn heppnir og ég. Þetta hverfisskólasystem fannst mér mjög ósanngjarnt og fáránlegt, þar sem það mismunaði mjög krökkum utan að landi. Einnig er rétt sem ein minntist á hér að ofan að það er mjög algengt að krakkar vilja einmitt komast úr sínu hverfi í menntaskóla og kynnast nýju fólki og nýju umhverfi. Enda er það hverri manneskju mjög hollt.

 Ástandið þarf að laga, það fer ekki á milli mála, en það á EKKI að gera með hverfisskólum.

Heiðrún Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 18.6.2009 kl. 13:40

9 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Þakka umræðuna, sem er góð. Þar sem ég er utan af landi þekki ég ekki það sem menn eru að upplifa neikvætt við hverfisskóla. Með breytingunni í þrjú ár til studentsprófs (sem verður hvort sem menn eru því hlynntir eða ekki) og líka að sjálfræðisaldurinn er átján ár og því eru nánast allir sendir áfram í skóla eftir grunnskóla er æskilegt að bjóða upp á vandaða bóknámslínu í hverfisskólunum, en síðan sérlínur og faggreinar í tilteknum skólum.

Þekki dæmi um strák með einkunn um átta af sömu ástæðu og var nefnd, náði ekki viðmiði versló og er ekki kominn með skólavist af því að MR gekk ekki sem annað val. Heyrst efur að skólar afi sett viðmiðið hærra vegna þess að samræmdu prófin eru ekki lengur, Mbk, G

Gunnlaugur B Ólafsson, 20.6.2009 kl. 01:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband