18.10.2009 | 09:03
Draumar og þrár
Var að vakna. Beint úr draumi og þá er helst að maður muni eftir þræðinum. En hann var svona;
Byrjunin sem ég man er að ég kem að einhverju fjalli þar sem að fjöldi manns er að fara upp þverhníptan snjóvegg.
Það eru kaðlar sem að liggja niður skaflinn og fólk á að nýta til að toga sig upp. Ég geng að einum kaðlinum og byrja að toga mig upp, en spyr einhvern ókunnugan við hliðina á mér hvort að það sé ekki í lagi að fara á fjallið í kínaskóm. Ég hafi verið svo seinn fyrir að ég hafi ekki náð að græja mig almennilega.
Hann telur að það hljóti að sleppa enda mjúkur snjór og eftirgefanlegur. Við horfum upp eftir skaflinum og þar eru á undan fjórir karlar í rauðum göllum sem hafa "gripklær" sem þeir festa á kaðalinn sitt á hvað og eru mjög faglegir. Maðurinn segir við mig; "Þeir eru seigir Norðmennirnir".
Þegar komið var upp á stall tók einhver leiðangursmaður á móti göngufólki. Hann er að velja og hjálpa fólki í öryggisbelti fyrir línu (kallað "stóll" að mig minnir). Hann spáir í breidd á miðju og mjöðmum og segir svo; "Er einhver álíka grannur karlmaður og þú á leiðinni upp". Ég verð hissa á spurningunni og svara; "Hef ekki hugmynd um það, horfði ekki einu sinni á "botninn" á konunum á leiðinni upp".
Síðan vaknaði ég.
Í vikunni var ég að kenna um heilann. Þá fór af stað umræða um drauma. Sagði nemendum frá því að ein kenning um eðli þeirra gengi út á að þá væri að eiga sér stað tiltekt í huganum. Það væri verið að taka til í minninu og hugsunum.
Veit ekki hvort að þetta er rétt, en þessi draumur styður kenninguna, því ég er á leiðinni á Skessuhorn núna klukkan tíu og var að lesa mig til um leiðina áður en ég fór að sofa.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:59 | Facebook
Athugasemdir
Gunnlaugur, undirmeðvitund þín virðist eiga í erfiðleikum með að sættast við það að Norðmenn komi til bjargar!
Ívar Pálsson, 18.10.2009 kl. 14:26
Gæti verið, Ívar. Þessi Norðmannavínkill á draumnum er áreiðanlega framsóknarmönnum að þakka. Þó jafnvel með aðstoð Spaugstofunnar í gærkvöldi. Ég veltist um undir söng Jóku og Jens um lánamálin.
Gunnlaugur B Ólafsson, 18.10.2009 kl. 21:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.