Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

"Þið sjáið mig en ég sé ykkur ekkkki"!

Egill Ólafsson hefur oft sýnt tilþrif í leik og söng. Á einhverjum áramótadansleik í sjónvarpi lét hann frá sér þessa setningu. Datt hún í hug í gær þegar ég sá að 500 IP tölur höfðu kíkt í heimsókn, en ég hef ekki hugmynd um hvaða fólk þetta er.

Sennilega þarf ég að fara að skrifa meira um kynlíf og ofbeldi til að menn skrái athugasemdir. Storka femínistum virðist líka nokkuð auðveld leið. En ég held ég fari nú ekki út í neitt útlendingahatur.

Allavega, vona að þú, hver sem þú ert, sést á góðu róli með jólabaksturinn. Kökubaksturinn var hér á fullu í gær. Minn hlutur var rýr. Vonast til að geta bætt það upp með gyðingakökum og hálfmánum fylltum af góðri rabbabarasultu. Fannst þær bestar hjá mömmu í þá gömlu góðu daga.


Samningur varpar nýju ljósi á atburðarás

http://varmarsamtokin.blog.is


Merkustu menn

HaraldurStjórn Varmársamtakanna ákvað að gera sér glaðan dag á föstudagskvöldið. Farið var út að borða á Carúsó, frábær matur og Símon H. Ívarsson gítarleikari sterkur sem viðbótarkrydd í stemminguna. Mosfellingar ákváðu að nýta bæjarferðina til fulls og skoða helstu krár borgarinnar.

Þar sem ég kem inn á eina ölstofuna standa þar tveir aldnir halir í hrókasamræðum. Ég stoppaði við til að festa þessa mynd í huganum. Vissi að þetta myndi ekki endurtaka sig. Þarna voru prófessorarnir "emírutasarnir" Jóhann Axelsson og Haraldur Bessason að ræða málin.

Þegar ég var í Winnipeg ungur að árum að taka próf í sálfræði, þá var Haraldur þar ókrýndur forseti Nýja Íslands. Skemmtilegur maður, blanda af sveitamanni og heimsborgara með leiftrandi húmor og einstakt vald bæði á íslenskri tungu og máli engilsaxa.

JóhannSíðan vann ég á Lífeðlisfræðistofnun í nokkur ár og þar var Jóhann Axelsson minn yfirmaður. Hann var jú hinn stóri pater lífeðlisfræði á Íslandi. Maðurinn sem næstum því fékk Nóbelsverðlaunin. Man alltaf eftir því að Jóhann taldi einu sinni upp allra þá eðliskosti sem að hann taldi mig hafa, en sagði svo snöggt; "Það er þó eitt, ég held þú sérst ekki nógu geggjaður". En ég hef reynt að bæta úr þessu.

Þarna voru þeir strákarnir úr Skagafirðinum upptendraðir í andanum. Annar nýbúinn að gefa út bók um minningar úr Vesturheimi og hinn enn með markmið um tímamótarannsóknir. Gaman að hitta á menn sem að eru jafn sterkir karakterar en þó breiskir, ólíkir en þó úr sömu sveitinni. Þeir hafa ætíð farið ótroðnar slóðir og ef til vill liggur þar hin jákvæða merking þess að vera geggjaður.


Jólagestir - Stórveisla

Bo HVann miða fyrir tvo á jólatónleika Björgvins Halldórssonar úr lukkupotti Kaupþings. Þegar ég tjáði gleði um þessa heppni í vinnunni þá voru tveir listnámskennarar í skólanum sem efuðust um að ég hafi verið heppinn. Jafnvel vildi annar undirstrika meiningu sína með því að segja að hann þyldi ekki listamanninn. Þá rifjaðist upp fyrir mér að sennilega hefði ég sjálfur haft einhverja menningarstíflu af svipuðum toga. Stundum þótt hann óþarflega sykraður og einhvern tíma vildi maður að tónlist hans hefði meiri boðskap og inntak.

En nú vorum við að koma úr Laugardagshöllinni og erum í sæluvímu. Ef að þetta var sykur þá var hann allavega bráðhollur og ósvikinn, sennilega ávaxtasykur frekar en unnin sykur. Þarna var bæði fjölskipuð hljómsveit, strengjasveit, gospelkór, barnakór og auk Björgvins var fjölbreytilegt úrval reyndra og öflugra söngvara. Það var sérlega gaman að heyra í Helga Björnssyni og Svölu Björgvins sem gáfu kröftug innslög. Seinastur í hópi fjölda gestasöngvara var Raggi Bjarna.

Svala BÞegar Raggi ætlaði að fara að syngja spjallaði hann á léttan hátt og hugðist svo kynna lagið en þá reyndist minnið vera að stríða honum. Eftir smá spurningu til Þóris Baldurssonar þá kom það, "Já, Er líða fer að jólum, Er líða fer að jólum, heitir lagið". Síðan söng goðsögnin  lagið með tilþrifum eins og honum er einum mögulegt.

Svala Björgvins var sérlega glæsileg, kraftmikil og söng með persónulegum stíl, sennilega gert útsetningarnar við þá gömlu slagara sem hún tók. Hún hefur verið alltof lítið áberandi hér á landi síðustu misserin. Þó að einhver tilraun til að láta hana meika það í Ameríku í þröngum stakk, ætluðum ljósku og dúkkúlísu, hafi ekki gengið upp, þá hef ég trú á að hennar tími sé nú kominn. Slík blanda af frumleika, glæsilegri framkomu og flottri rödd hlítur að gefa af sér eitthvað spennandi á komandi misserum.

Björgvin á mikið hrós skilið fyrir þessa tónleika og ég þakka Kaupþingi pent fyrir að bjóða mér á svona einstaklega vandaða og góða skemmtun.

 

 


Eftirlit

Er fyllilega sammála Atla Gíslasyni um að best væri að hafa allt opið og öllum aðgengilegt í þessu máli. Varðandi sölu á opinberum eigum þá skal þess gætt að bjóða þær hæstbjóðenda í gegnum Ríkiskaup. Hér virðist Sjálfstæðisflokkurinn vera kominn í gamalt far sem að felst í því að úthluta fólki og fyrirtækjum eftir flokksskírteinum. Reyndar er það víst þannig að sumir sjallar á Suðurnesjum eru fúlir að hafa ekki fengið að komast að kjötkötlunum með félögunum.

Upplestrarvilla Bjarna var leiðrétt strax sama dag. Hann og Atli hafa staðið sig mjög vel í að veita það aðhald og eftirlit sem að Alþingi á að hafa með eigum og hagsmunum almennings. Það er margt sem orkar þarna tvímælis og Árni er að reyna að beina athyglinni frá aðalatriðum málsins með þessari afsökunarbeiðni. Bravó, fyrir Bjarna og Atla ef þeim tekst að ná umræðunni út úr bakherbergjunum. Finnst eðlilegt að þingnefndir séu oftar skipaðar í svona málum til að standa að hlutlausri úttekt.


mbl.is Árni krefst leiðréttingar á ummælum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blóm vikunnar Músareyra

nullMúsareyra vex um land allt og blómgast snemmsumars á láglendi en síðar inn til landsins. Þessi blómakrans lífgaði upp á annars hrjóstrugan mel upp á Söndum í Kollumúla, Stafafelli í Lóni, þann 20. júlí 2004.

Tímans fljót

Picture 222Stundum geta litlir hlutir sagt mikla sögu. Rakst fyrir nokkrum árum á þennan vírbút sem að er úr kláf yfir Víðidalsá, Stafafelli í Lóni. Þykktin á vírnum er tæp tomma og hafið yfir ánna er nítján metrar. Vírarnir voru tveir og þurftu að festast í land hvoru megin. Þannig að gera má ráð fyrir tveimur tuttugu og fimm metra vírum.

Það sem gerir þetta merkilegt er að Víðidalur er um 30 kólómetra inn til landsins umlukin af miklum torfærum á alla kanta. Kláfurinn er byggður um 1890. Sennilega hafa hestar verið nýttir til að draga vírana yfir fjöll og jökulvötn upp í Víðidal, frá Papósi sem þá var verslunarstaður í Lóni.

Picture 214Hann liggur þarna í grjótinu sem hógvært vitni um dugnað fólksins í Víðidal sem byggði kláfinn, kom upp miklum húsakosti og bjó þarna um árabil við erfiði og einangrun. Í sumar kom eldri maður frá Ísafirði með í gönguferð. Mikill höfðingi, Guðni Ásmundsson að nafni. Hann átti sérstakt erindi í Víðidal.

Hann hafði heitið sjálfum sér því að fara í Víðidal og þennan ásetning mátti rekja til uppvaxtarára hans á Djúpavogi. Faðir hans og aðrir höfðu oft vísað til þess, þegar erfið verkefni biðu og dugnaðar var þörf, að þetta eða hitt hefði nú ekki orðið vandamál fyrir fólkinu í Víðidal. Guðni varð sæll og glaður að sjá dalinn með eigin augum og upplifa þessa einangrun í hinum stórskorna fjallasal.


Fullveldisdagur

Byrjaði fullveldisdag í Hagkaupum með því að kaupa bók. Þar var á undan mér við kassann, ja hvað má segja, þeldökkur maður með barn örlítið ljósara á hörund. Á næsta kassa voru ítalskar mæðgur að versla og austurlensk stúlka í þjálfun átti í vandræðum með að losa þjófavörnina. Kortið hjá manninumm virkaði ekki og var hann óhress með það. Hringdi eitthvað og talaði hátt. Langur strákur um tvítugt var á kassanum og talaði við hann eins og hann kynni alla helstu takta máls og líkamstjáningar úr Bronx. Sá dökki ákvað að lokum að borga með peningum og sagði hressilega; "Have a nice day, man!" . Ég borgaði bókina og sagði við íslenska konu á sextugsaldri sem var að raða fötum á króka að við værum orðin aldeilis alþjóðleg. Hún gerðist íhugul og sagði; "Já, ég held við verðum nú að hægja eitthvað á þessari þróun".

Þá fór ég að hugsa um hversu magt og mikið hefyr breyst. Ég er af síðustu kynslóð sveitamanna sem elst upp við að vasast með kindur í torfkofum. Reka þær í bæjarlækinn til brynningar. Brjóta klakann ofan af honum þegar þess þurfti. Finnst núna merkilegt að hugsa til þess að hafa kynnast því hvernig Íslendingar bjuggu í þúsund ár. Það breyttist síðan allt á 30 árum. Bylting í búskaparháttum í sveitum og flestir fluttu í þéttbýli. Nú trúi ég að á næstu tíu árum eigi eftir að verða grundvallarbreytingar á eðli íslensks samfélags. Stór hluti allra þeirra útlendinga sem hingað hafa komið til starfa eiga eftir að setjast hér að. Hverjir aðrir eiga að kaupa allt það umfram  húsnæði sem að er í smíðum á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi?

Arngunnur Ýr

Dagur fullveldis var fjölbreytilegur og skemmtilegur. Skellti mér á Kaffi Sólon þar sem unhverfisráðherra ræddi sinn málaflokk. Skaut ábendingu um mikilvægi þess að landeigendur gengdu meira hlutverki innan Vatnajökulsþjóðgarðs, ef ekki væri ætlunin að kaupa land. Fór síðan og hlustaði á Berglindi leiðtoga okkar í Varmársamtökunum syngja eins og engil í Hallgrímskirkju við opnun á málverkasýningu Arngunnar Ýr. Himneskar myndir og söngur. Síðan lá leiðin á Korpúlfsstaði þar sem 29 listamenn standa að sýningunni Meter. Frábært að sjá þá miklu grósku sem að er þar. Stemmingin líktist því sem var á Álafossi þegar mest gróska var þar í listalífi fyrir um áratug. Tolli, Magnús Kjartans, Haukur Dór, Inga Elín, Þóra, Helga, Ólöf, Ásdís, Óli Már og fleiri. Það voru mistök að bærinn skyldi ekki kaupa húsin af Framkvæmdasjóði á sínum tíma þegar þau voru til sölu fyrir lágt verð. Þannig hefði verið hægt að tryggja grunn frjórrar listastarfsemi í Kvosinni og grósku í bæjarfélaginu til framtíðar.

Brunuðum síðan á heimaslóð að hlusta á Orra minn og fleiri í Skólahljómsveit Mosfellsbæjar spila þegar kveikt var á jólatrjám við Kjarna. Á eftir var söngur og veitingar skipulagt af Kammerkór Mosfellsbæjar. Frábær viðbót við dagskrána, gengið í kringum jólatréð, jólasveinar, söngur, kakó, rjómi, mandarínur. Flott. Enduðum síðan þennan fallega og fjölbreytilega dag á því að fara upp í Hvirfil í Mosfellsdal á opnun Þóru Sigurþórsdóttur leirlistakonu í nýju glæsilegu húsnæði.


Þátttaka almennings í stefnumótun

Háskóli Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga og Landsbankinn undirrituðu í gær yfirlýsingu um samstarf og stuðning við þróunar- og rannsóknarverkefni Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála um íbúalýðræði og félagsauð. Markmið verkefnisins er að leggja grunn að aukinni lýðræðislegri þátttöku með vandaðri aðferðafræði sem byggist á rannsóknum og umræðu.

Þessu ber að fagna af heilum hug. Varmársamtökin hafa beitt sér fyrir aðkomu almennings að skipulagsáætlunum í Mosfellsbæ. Reynslan hefur sýnt að bæjarstjórn Mosfellsbæjar á mjög langt í land með að tileinka sér nútíma vinnubrögð í anda opinnar umræðu og íbúalýðræðis. Þar hefur ríkt verktakalýðræði þar sem afskiptum íbúa hefur ýmist verið mætt með hroka eða skemmdarstarfsemi.

Sjálfstæðisflokkur í bæjarfélaginu virðist telja lokaðan klúbb innvígðra réttborna til valda en VG telja sig hafna yfir þátttöku í almennri umræðu. Mæta henni sitt á hvað með þögn eða bulli, sem er ætlað að spilla eðli hennar. Nú liggja fyrir stór viðfangsefni í bænum við þróun miðbæjarskipulags og brýnt að bæjarfulltrúar skynji ábyrgð sína í að leiða opna og heilbrigða umræðu. Hlusta á og bera virðingu fyrir væntingum almennings.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband