Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Stafafell - Gamli bærinn 110 ára

 StafafellC

Árið 1897 byggði séra Jón Jónsson á Stafafelli nýtt íbúðarhús. Það er eitt af eldri timburhúsum á Austurlandi og á sér merka sögu. Það stendur skammt frá timburkirkjunni sem er enn eldri eða frá 1868. Oft bjuggu hátt í tuttugu manns í þessu húsi. Séra Jón lýsir heimilsisfólki þannig 1911. 

Greina tvenn skal gömlu hjónin,

Guðný þá og Rannveig knáa,

Fríða og Sigga þráðaþrúðir,

Þóra, Möggur tvær og Dóra.

Enn skal telja af yngismönnum

Einara tvo og þrenning Jóna,

Sigurð, búi bezt er hagar,

Bjarna, Vigni, Gunnar, Ragnar.

Meðfylgjandi mynd er tekin skömmu eftir að húsið var byggt. Strákurinn sem stendur í bæjardyrunum með lambið er Sigurður Jónsson afi minn og er þarna um það bil 12 ára, en hann var fæddur 1885. Framan við hann til sitt hvorrar handar eru foreldrarnir séra Jón Jónsson frá Melum í Hrútafirði og Margrét Sigurðardóttir frá Hallormsstað. Sér Jóni á hægri hönd er Jón Jónsson faðir hans, sem sagt langalangafi minn. Það er fróðlegt að sjá þarna þrjá forfeður á þessari gömlu mynd.


Blóm vikunnar Einir

nullEinir er reyndar ekki blóm. Fræplöntum er skipt í berfrævinga, sem eru einkum barrtré og dulfrævinga sem einnig nefnast blómplöntur. Einir er eina barrtréð sem vex á Íslandi, en það er oftast sem runni, lágvaxinn og greinar skríða meðfram jörðu. Þar sem hin dæmigerðu grenitré sem nýtt eru til jólahalds voru ekki til hér á landi fyrr á tíð, voru heimagerð tré skreytt með eini og lyngi. Þar liggur merkingin í "göngum við í kring um einiberjarunn". Eitt slíkt gamalt heimagert tré er til á Stafafelli en þó var fyrir löngu hætt að skreyta það á gamla vísu, þegar ég er að alast upp. En það hefur verið í fullum skrúða í Gamla bænum á sínum tíma.

Þessi einiviður á myndinni var í Leiðartungum, Kollumúla þann 6. ágúst 2003 umlukin krækiberja- og bláberjalyngi. Hann er með mikla berköngla, sem eru kvenkyns, en karlkönglar eru minni. Einiberin eru mjög gott krydd á villibráð og lambakjöt. Þau þurfa þó að vera orðin þroskuð, en það er ekki fyrr en þau eru tveggja ára og bláleit á litinn. Þegar ég er með gönguhópa til fjalla þá er algengt að grillað sé síðasta kvöldið og kryddað með einiberjum, söxuðu birkilaufi og blóðbergi.


RÚV ohf

Sjónvarpsáhorf á ríkisstöðina á eftir að verða vel ásættanlegt næstu árin mælt með Edduverðlaunum eða könnunum. Það er samt eitthvað við þessa þróun sem að mér líkar ekki við. Veit ekki alveg hvað það er. Ef til vill áherslan á front í stað inntaks. Ef til vill að markaðsáherslur verði fyrsta skref í átt að sölu. Hver er sérstaða þess?. Það eru hinar og þessar hefðir sem eru látnar víkja fyrir einhverju sem á að vera nútíminn. Í fyrra datt út hin gamla hefð um ávarp útvarpsstjóra, nú verða settar inn auglýsingar í áramótaskaupið. Þannig dregur smá saman úr þeirri ímynd sem undirstrikaði hið menningarlega hlutverk stofnunarinnar umfram aðra fjölmiðla.

SjonvarpidÞegar að spaugstofan verður búin að vera í þrjátíu ár. Vikulegur þáttur um eurovisionlög og spurningakeppnir, hvort sem þær heita Útsvar eða Gettu betur, verða búnir að malla í nokkur ár. Kostun og auglýsingar komnar inn á allt efni nema sjö fréttir, er þá ekki bara komin tími á að selja sjoppuna? Auðvitað horfir maður á allt þetta efni meira og minna. En stundum vantar safann, næringuna, nýjabrumið. Næturvaktin, sem að er ferskasta, frumlegasta og skemmtilegasta sköpunarverk í sjónvarpi þetta haustið er sýnt á einkarekinni stöð.

Það er allt morandi í landinu af einstökum snillingum, áhugaverðum sérvitringum, hetjulegum söngvurum, misskildum listamönnum, barngóðum konum, meiningamiklum trillukörlum, sagnaglöðum göngugörpum, fjaðrandi ballerínum, samlímdum elskendum, kraftmiklum íþróttahetjum, sigldum heimsborgurum, gamansömum hestamönnum, innblásnum guðsmönnum, verðlaunuðum kokkum, litaglöðum  listmálurum, fjölfróðum bílstjórum, forríkum sægreifum. Með því að virkja þetta fólk og aðra  er hægt að gera RÚV að kraumandi potti mannlífs og menningar. RÚV sjónvarp er að mörgu leyti ágætt, en tryggjum að það fari þá leið sem réttlætt getur að það verði áfram í sameiginlegri eigu allra landsmanna.


Jólafrí og frelsi andans

TilbiðjaÞað eru fáir sem að upplifa árstíðirnar og frídaga hátíða, jóla og páska, jafn sterkt og nemendur og kennarar. Ég var með bunka, hátt í 150 lokapróf, fram eftir nóttu. Tölur áttu að liggja fyrir á hádegi. Þetta gekk allt eftir. Nú er því að slakna aðeins á kvöðum tengdum kennslunni. Útskrift stúdenta úr Borgarholtsskóla á fimmtudag og síðan að safna orku fyrir næstu törn. Ég er allavega ákveðinn að láta ekki kaupæði ná tökum á mér.

Guð er ástHljómar mjög undarlega, en ég stefni á að dansa mikið um hátíðirnar. Fór fyrir rúmum mánuði síðan í kennaranám í Zumba þolfimi til London. Það var skemmtilegt. Var í pakkaðri vél frá Keflavík til Heathrow. Mikið af körlum að fara á leik Arsenal-West Ham. Létu pelann ganga og sögðu mishrjúfa brandara hver í kapp við annann. Þarna var ég svo einn á leiðinni til London að læra þolfimi undir suðrænum takti. Ferlega "emo" gaur. Annars líður mér vel með það og helgin þarna var ótrúleg svita og gleðivíma. Dönsuðum tíu tíma hvorn dag. Síðan stokkið út á Heathrow og heim. Best var þó að kostnaður var greiddur úr Vísindasjóði Kennarasambandsins!

Heilagur andiÞetta verður líka timi lesturs góðra bóka og að lyfta andanum á ögn hærra plan. Skreppa til kirkju á Þingvöll, Lágafellskirkju eða Dómkirkju. Treysta á að presturinn verði ríkur af andagift og sendi mann heim með einhverja speki sem hreyfir við grámyglu hversdagsleikans. Mikilvægi góðra gilda og hugleiðingar um vegstikur á hinum gullna meðalvegi. Án þess að maður hafi samviskubit beint út af frekar litlu sambandi eða samskiptum við hann í efra, þá veit ég að efling andans gefur lífinu aukið inntak. Maður þarf að finna sinn tón og hlúa að honum.

Elskaðu Guð þinnRaungreinakennarinn ég, datt reyndar út af bylgjulengdinni nýlega, þegar ein andlega þenkjandi kona vildi sannfæra mig um að allir þyrftu að ganga aftur í gegnum sína eigin fæðingu. Nei, mamma mín, það er ekki á þig leggjandi, hugsaði ég. En sennilega tók ég þetta bara of bókstaflega. Ég er ennþá svo jarðbundinn. 


Málþóf

PlásturVinstri grænir hafa ekki fengið mikla samúð eða stuðning í baráttu fyrir réttinum til málþófs á Alþingi. Finnst allt að því að þetta sé vandræðalegt mál fyrir flokkinn. Þeir hafa ekki náð að útskýra fyrir almenningi afhverju málþóf eigi að vera nauðsynlegur hluti af lýðræðinu. Þeir hafa sett það fram sem rök að um sé að ræða neyðarrétt til  að vekja athygli á mikilvægum málum.

Á tímum netmiðla, sjónvarpsstöðva, útvarpsstöðva og dagblaða er það leikur einn að ná til mikilvægustu skynfæra kjósenda, án þess að tefja fyrir störfum löggjafarsamkomunnar og halda henni í gíslingu klukkutímum saman, ef ekki heilu og hálfu sólarhringana. Nei, það á eftir að sannfæra mig um að þeir séu að berjast þarna fyrir mikilvægu máli.

Því miður fer orka þingmanna VG oftar en ekki í að berjast gegn hinu og þessu án þess að skilgreina eigin framtíðarsýn. Það væri gott að heyra af einhverju öðru mikilvægara í draumum þeirra og þrám en að viðhalda málþófi. Reyndar á Atli Gíslason hrós skilið að leggja fram þá tillögu að kvótakerfið verði afnumið með lögum árið 2010. Ný sýn.


Tímamót

Mismunandi viðhorf eru uppi um hlut mannsins í þeirri staðreynd að hitastig jarðar fer hækkandi. PælingVísindamenn eru þó flestir sammála um að stærstur hluti hlýnunar sé af mannavöldum. Það sýnir alvöru málsins að allar þessar þjóðir hafi náð samkomulagi um að vinna gegn losun gróðurhúsalofttegunda. Jafnvel Bandaríkin ákveðið að vera með, þó þau hiksti eitthvað. Þjóðir ákveða að endurskoða lífsmynstur og neyslu til að spilla ekki skilyrðum lífs á jörðu. Svo virðist sem að hinn stóri skapari hafi úthlutað okkur vilja og ábyrgð til að móta framtíð okkar og vernda fjölbreytileika lífs á jörðinni. Þetta er auðvitað flókið ferli en frábært að sjá merki um ásetning í þá veru að gera skyldu okkar í þessum efnum. Óskum okkur til hamingju með þann árangur.
mbl.is Bandaríkin ósátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skógarferð er byrjun hátíðahalds

HamrahlidSkógræktarfélag Mosfellsbæjar er áhugamnnafélag sem að hefur meðal annars staðið fyrir umfangsmikilli skógrækt umhverfis Úlfarsfell. Hamrahlíð heitir sá hluti sem að er komin með myndarlegustu trén. Þessi fallegi skógarlundur sést á hægri hönd þegar ekið er til Mosfellsbæjar. Mín fjölskylda hefur haft þann sið um langt skeið að fara og velja tré þarna fyrir jólin. Ávallt er búið að innsigla mikilvæga byrjun á hátíðahaldinu, þegar tréð er komið undir húsvegg.

Feðgar-JólatréVið fórum í dag, laugardag og völdum fallegt tré. Gott hljóð var í skógræktarfólki. Gaman að ganga eftir spænilögðum stígunum og hugurinn fylltist þakklæti fyrir að það sé nú ekki búið að malbika yfir allt. Rétt fyrir lokun höfðu selst um 60 tré en á sama degi í fyrra seldust 90 stykki. Því þarf frekar að bæta í söluna í Hamrahlíð. Góð gönguferð, styðja við íslenskt og starfsemi þessa ágæta skógræktarfélags.

ALLIR Í HAMRAHLÍÐ AÐ KAUPA TRÉ !

Myndirnar eru annarsvegar mynd af vef skógræktarfélagsins og hinsvegar er ég og Orri, sonur sæll, að koma heim með tréð. 

Opnunartími og frekari upplýsingar;  www.skog.is/jolatre/mosfellsbaer.html


Blóm vikunnar Blágresi

nullBlágræsi er algengt um land allt. Það er einkum sem botngróður í kjarrlendi eða birkiskógum. Þessi blóm teygðu sig í átt til sólar umvafin birki og víði inn á Kinnum, skammt frá Hrafnagili, Stafafelli í Lóni þann 29. júlí 2003

Ofbeldi elur af sér ofbeldi

Efast um að nokkur trúi því að dráp á þúsundum manna, kvenna og barna í Írak með stríðsrekstri þar hafi dragið úr Ofbeldilíkum á hryðjuverkum í Bandaríkjunum. Rannsóknir hafa sýnt að dauðarefsingar eru tengdar við þau fylki þar sem glæpir eru mestir og að tíðni ofbeldisglæpa eykst þegar umfjöllun fjölmiðla beinist að einstaklingum sem teknir eru af lífi með dauðadómi.

Það sem verst er að stundum nýta misvitrir stjórnmálamenn sér það að kynda undir ótta í samfélaginu til að koma síðan fram eins og sá sem að muni einn geta frelsað lýð undan ógnuninni. Eftir að hafa búið í Ameríku í fjögur ár veit ég að þar á fólk betra skilið. Vonandi kjósa þeir Hillary sem næsta forseta. Hún væri líkleg til að treysta innviði samfélagsins, sem gæti dregið úr þeim ótta og tortryggni sem að er í þjóðarsálinni.


mbl.is Eru pyntingar góð hugmynd?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meyjanna mesta yndi

Mín bernskujól eru tengd tilhlökkun vegna jólaballsins í Fundarhúsinu, en það nefnist samkomuhús Lónmanna. Byggt 1911 og er eitt af elstu steinsteyptu húsunum á svæðinu. Það var eftirvænting að hitta á alla hina krakkana úr sveitinni í sparífötum, sjá stóra jólatréð og hitta jólasveininn, sem gaf öllum eitt epli. Það sem var þó sérstakt við þetta jólaball var að þar voru stignir sagnadansar. En hugtakið er notað yfir kvæði sem segja frásögn með viðlagi og voru sungin fyrir dansi. Kvæðin eru gjarnan um tilfinningar karla og kvenna. Þetta voru því dægurlög þess tíma. Sum þeirra eru þekkt í mismunandi útgáfum milli landa. Dansað var í Lóninu bæði parað og hringdansi fram á nótt. Það er áhugavert að sjá að orðin hafa breyst bæði í tímans rás og milli svæða. Einn vinsælasti söngdansinn var "Meyjanna mesta yndi".

Byrjunin er svona í texta úr Skagafirði;  

Meyjanna mesta yndi, Söngdansar2

það er að eiga vin.

Meyjanna mesta yndi,

það er að eiga vin.

Svo rétti ég þér höndina á mér

og tek þig blítt í armana á mér

og dansa við þig sérhvert sinn,

það saklaus skemmtun er. 

Í Árneshreppi á Ströndum er hún svona; 

Meyjanna mesta yndi, Söngdansar

það er að eiga svein.

Meyjanna mesta yndi,

það er að eiga svein.

Svo tek ég blítt í hendina á þér

 og legg hana í arminn á mér

svo dansa ég við þig sérhvert sinn,

það saklaus skemmtan er. 

Minnir að austur í Lóni hafi textinn verið svona; 

Meyjanna mesta yndi, Söngdansar3

það er að eiga vin.

Meyjanna mesta yndi,

það er að eiga vin.

Nú rétti ég þér höndina á mér

legg þig ljúft í faðminn á mér

og dansa við þig sérhvert kvöld,

það saklaus skemmtan er.

Sýnist að á þessu megi sjá að Lónmenn hafi haft djarfa og fumlausa framgöngu. Föðmuðu dömurnar en voru ekki með þær einhvers staðar upp á örmum. Langar að henda nokkrum af þessum söngdönsum inn á blogið yfir hátíðirnar. Fínt að nota það sem tilefni til upprifjunar. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband