RÚV ohf

Sjónvarpsáhorf á ríkisstöðina á eftir að verða vel ásættanlegt næstu árin mælt með Edduverðlaunum eða könnunum. Það er samt eitthvað við þessa þróun sem að mér líkar ekki við. Veit ekki alveg hvað það er. Ef til vill áherslan á front í stað inntaks. Ef til vill að markaðsáherslur verði fyrsta skref í átt að sölu. Hver er sérstaða þess?. Það eru hinar og þessar hefðir sem eru látnar víkja fyrir einhverju sem á að vera nútíminn. Í fyrra datt út hin gamla hefð um ávarp útvarpsstjóra, nú verða settar inn auglýsingar í áramótaskaupið. Þannig dregur smá saman úr þeirri ímynd sem undirstrikaði hið menningarlega hlutverk stofnunarinnar umfram aðra fjölmiðla.

SjonvarpidÞegar að spaugstofan verður búin að vera í þrjátíu ár. Vikulegur þáttur um eurovisionlög og spurningakeppnir, hvort sem þær heita Útsvar eða Gettu betur, verða búnir að malla í nokkur ár. Kostun og auglýsingar komnar inn á allt efni nema sjö fréttir, er þá ekki bara komin tími á að selja sjoppuna? Auðvitað horfir maður á allt þetta efni meira og minna. En stundum vantar safann, næringuna, nýjabrumið. Næturvaktin, sem að er ferskasta, frumlegasta og skemmtilegasta sköpunarverk í sjónvarpi þetta haustið er sýnt á einkarekinni stöð.

Það er allt morandi í landinu af einstökum snillingum, áhugaverðum sérvitringum, hetjulegum söngvurum, misskildum listamönnum, barngóðum konum, meiningamiklum trillukörlum, sagnaglöðum göngugörpum, fjaðrandi ballerínum, samlímdum elskendum, kraftmiklum íþróttahetjum, sigldum heimsborgurum, gamansömum hestamönnum, innblásnum guðsmönnum, verðlaunuðum kokkum, litaglöðum  listmálurum, fjölfróðum bílstjórum, forríkum sægreifum. Með því að virkja þetta fólk og aðra  er hægt að gera RÚV að kraumandi potti mannlífs og menningar. RÚV sjónvarp er að mörgu leyti ágætt, en tryggjum að það fari þá leið sem réttlætt getur að það verði áfram í sameiginlegri eigu allra landsmanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Ámeðan þetta er ríkisrekin stöð vil ég frið fyrir auglýsingum á hátíðisdögum. Skaupið sem slíkt er ekkert heilagt fyrir mér, hef oft misst af því vegna vinnu og jafnvel dottað yfir því. En mér er heilagt að þetta séu fjölskylduhátíðir og vil endilega halda í hátíðleikann. Hitt er annað, við þurfum að efla okkar eigin dagskrárgerð

Hólmdís Hjartardóttir, 20.12.2007 kl. 01:54

2 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir þennan pistil Gunnlaugur. Þetta eru verðug umhugsunarefni. Menningarstyrkurinn sem við nú köllum afnotagjald og rennur til einnar stöðvar ætti að renna til þeirra stöðva sem greiðendurnir kjósa og í réttu hlutfalli við framboð þeirra af innlendu menningarefni. Jafnframt þyrfti að huga betur að hljóðrituðum menningararfi og koma honum fyrir á hljóðritasafni en ekki hjá RÚV ohf eins og nú er. Annars er hætta á að það verði selt eða glatist.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 20.12.2007 kl. 10:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband