Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Öflugur áætlanabúskapur

Aðgerðir stjórnvalda til að bregðast við meiri hremmingum íslensks fjármálamarkaðar en nokkurn gat órað fyrir hafa verið fumlausar og til fyrirmyndar. Standa vörð um sparífé, störf og heimili í landinu. Lagasetningin í gær, að frysta gengi krónunnar og rússneska lánið til að tryggja gjaldeyrisforðann eru allt þættir sem stuðla munu að því að hjólin halda áfram að snúast.

Staðan sem upp er komin gefur fullt tilefni til skoðunar hvers og eins á sínu gidismati og þátttöku í veislunni sem verið hefur síðustu ár. Græðgi og sóun eru aldrei gott vegarnesti. Þetta var í raun löngu fyrirséð. Við höfum flest ef ekki öll verið í partýinu. Létum sannfærast um að lífsorkunni væri helst ætlað að fara í eltingarleik við gullkálfa og gylliboð.

Naflaskoðunin getur gefið af sér nýja og betri tíma sem byggðir eru á jafnvægi og meiri yfirvegun. Í stað þess að dæla fimm þúsund króna seðlum í börnin okkar á fermingum og afmælum, þá förum við ef til vill að láta gjafirnar hafa persónulega merkingu og gildi. Heyrði svo í morgunsárið að Skógræktarfélagið er á svipuðum nótum. Er að fara af stað með námskeið í handunnum gjöfum.

Til að ná sér út úr vandanum þarf samstillt átak. Öflugan áætlanabúskap næstu árin. Síðan taka við tímar jafnvægis milli einstaklingsfrelsis og opinberra umsvifa í anda rómantískrar og skapandi jafnaðarstefnu. Stjórnmálakreddur mega aldrei verða að slíkum trúarsetningum að forystumenn í þjóðlífi nýti ekki skynfærin til að sigla bestu siglingaleiðir.

Nú hefur gullkálfurinn verið tjóðraður og verður næstu árin undir merkjum öflugs áætlanabúskapar til að "bjarga því sem bjargað verður". Við þurfum að halda vel á spöðunum til að geta staðið við skuldbindingar. Það er spurning hvort að við þurfum ekki að setja aftur upp verksmiðjurnar í gamla Álafosshúsinu. Fyrir teppin fengust olía og bílar. Hvað sendum við nú fyrir Rússagullið? Þá fimm ára áætlun þarf að skipuleggja.


mbl.is Gengi krónu fest tímabundið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkurinn klofnar

Það er svo gott að hafa tannlæknir sem veit allt um pólitík og maður þarf bara að kinka kolli. Á föstudag fór ég að láta sparsla í eina holu og þá sagði tannsi mér, eftir áreiðanlegum heimildum, að Samfylkingin setti fram þrjú skilyrði fyrir efnahagsaðgerðunum; 1) Davíð Oddsson væri látinn fara úr Seðlabankanum. 2) Farið verði í aðildarviðræður við ESB og stefnt að upptöku evru 3) ....... jahhh, þarna hlitur hann að hafa verið að bora því mig brestur minni.

Hann sagði að þessi skilyrði myndu valda klofningi í Sjálfstæðisflokknum. Þorgerður Katrín muni ákveða að fara með Samfylkingunni, allir ungliðarnir og atvinnulífið vildi aðildarviðræður og upptöku evru. Þannig að eingöngu ættarveldin yrðu eftir í flokknum og sameinuð í andstöðu gegn ESB. Þó taldi hann að ættarlaukurinn Bjarni Ben yngri vildi frekar fylgja ungu kynslóðinni heldur en ættarveldinu og myndi fara yfir í Samfylkinguna. Út úr þessu myndaðist langstærsti flokkurinn, með hreinan meirihluta.

Ég var sáttur við alla þessa spádóma og lét bara troða upp í mig bómul og slöngum. Nú, reynir bara á hvað morgundagurinn ber í skauti sér.


Kapitalisminn og kommúnisminn

Nú segir Hannes Hólmsteinn að þó að einhverjir kapitalistar hafi klúðrað málum þá sé það enginn stóri dómur yfir kapítalismanum og þeirri stefnu að markaðurinn þurfi að vera frjáls og afskiptalaus. Þetta minnir mann á þá sem aðhylltust blinda miðstýringu kommúnismans þegar þeir sögðu að í Rússlandi hefði bara ekki ríkt rétti jarðvegurinn fyrir forskriftina að draumaríkinu.

Í báðum tilfellum neita menn að tapa trúnni á ismann sinn. Kreddurnar blinda og koma í veg fyrir að skynfærin séu nýtt til að sigla eftir baujunum og finna bestu siglingarleið til að efla eigin hag og þjóðar.


Hreinsun

Varmársamtökin voru stofnuð um góðan málstað. Göfug gildi náttúruverndar, útivistar og íbúalýðræðis. Baráttan um verndun Álafosskvosar var hörð, en bærinn og verktakar náðu sínu fram. Sjálfstæðismenn mættu umræðunni með fálæti  en VG með aðför forseta bæjarstjórnar og vina hans að samtökunum. Eftir stendur tilfinningin um að langt sé í land að tryggja eðlilega lýðræðisvitund í þróun bæjarfélagsins og heilbrigðan skilning á að það sé æskilegt að almenningur sé virkur og mótandi í skipulagsmálum. 

Mistökin blasa við öllum. Komin er vegtenging við hið nýja hverfi, en þar er ekkert í gangi og engin uppbygging á því fallega svæði. Búið er að loka af Álafosskvos og enn óljóst hvernig eðlilegri vegtengingu verður komið þangað. Hinn risavaxni þríbreiði og uppbyggði göngustígur meðfram bæjartákninu Álafossi, sem byrjað var á í fyrrahaust er ennþá ófrágengin sem opið sár. Ef til vill verður hann hafður hálfkaraður sem tákn þeirra tíma þegar stórkarlaleg verktakahugsun réð för í skipulagsmálum og framkvæmdum. Skynsamlegast væri að fjarlægja malarhaugana sem áttu að verða göngustígur um verndarsvæði.

Í byrjun október á síðasta ári hvatti ég forseta bæjarstjórnar og vinafólk til að láta af níðskrifum sínum um Varmársamtökin. Þar beindi ég athyglinni að gildi jákvæðra samskipta. Þar skrifa ég meðal annars; "Ég er tilbúin að hitta á þessa aðila og vinna að því að hreinsa ágreining og draga lærdóm fyrir framtíðina. Vilja þau það? ". Ekkert svar. Hinsvegar hefur forsetinn eytt út fjölda eigin athugasemda og færslna þar sem að hann hefur metið svo að gætu skaðað hann persónulega. Einnig er vinkona hans og helsti málsvari, sem iðulega virtist ekki ganga heil til skógar, búin að loka sinni síðu og allar athugasemdir á öðrum síðum dottnar út. Með þessu tvennu hefur átt sér stað verðugt hreinsunarstarf.

Eftir standa þó margvísleg ósannindi, sem að mér finnast ekki ásættanleg. Látum vera að forystumaður VG í bæjarfélaginu finni sínum pólitísku áherslum helst farveg í tilfinningatengdri baráttu við opin umhverfissamtök og látum vera að hann lýsi persónulegri óvild gagnvart hinum og þessum einstaklingum, sem að kosnir hafa verið til starfa fyrir íbúasamtök í bæjarfélaginu. Persónulega fannst mér hinsvegar óásættanlegt að ráðast opinberlega að atvinnustarfsemi minni í bænum með háðsglósum. Þannig að ég ákvað í haust að bjóða ekki lengur upp á dans- og jóganámskeið líkt og ég hef gert. Heldur kenni annarsstaðar. Persónulega finnst mér óásættanlegt að forseti bæjarstjórnar gangi fram með ósannindi um að ég tengist einhverjum nafnlausum skrifum.

Nú er svo komið að ég vil að hann biðji mig afsökunar á þessum dylgjum. Ég hef aldrei skrifað neitt undir nafnleynd á blogginu og hef heldur aldrei þurft að hreinsa neitt út af því sem að ég hef skrifað. Skrif forseta bæjarstjórnar og félaga hans á Moggabloggi undir leyninöfnum urðu hinsvegar að því sem nefnt var Mosfellsbæjarmálið fyrir um tveimur árum og voru aðför að Varmársamtökunum. Aðdróttanir forseta bæjarstjórnar um að ég tengist hliðstæðum nafnleyndarskrifum gegn honum er orðið svo langdregið og endurtekið útspil að ég er búin að fara fram á að hann biðji mig opinberlega afsökunar. Frestur sem ég gaf honum gildir fram á miðnætti í kvöld, en annars verður þess freistað að fá slíkum ósannindum hnekkt fyrir dómstólum.

Afrit eru til af öllum færslum hjá Morgunblaðinu og aðgengileg í málarekstri. Líka þau sem búið er að eyða.


Fjólubláir draumar

Þó haust og vetrarstemming hafi tekið völd síðustu dag, þá er enn hægt að upplifa fjólubláa drauma líkt og á vorkvöldi í Reykjavík. Það getur hjálpað að ganga á hið fagurskapaða Akrafjall til að komast í réttu stemminguna. Við Magnús Einarsson samkennari tókum slaginn og brunuðum úr borginni áleiðis upp á Skaga.

Ferðin byrjaði reyndar á því að það sprakk framdekk á bílnum upp í Kollafirði, en því var reddað á innan við tíu mínútum og haldið til móts við fjallið þar sem Akraneskaupstaður segir að taki 3-5 klst. að ganga hring efir brúnunum á Háahnjúk öðrum megin og Geirmundartind hinum megin. Í bók Ara Trausta er talið að gangan hringinn og á tindana tvo taki 5-6 klst. 

Við lögðum af stað kl. 11 í nokkrum vindi sem lægði flótlega, en heiðskírt og flott útsýni. Vorum komnir tveimur tímum síðar á Háahnjúk. Ég hljóp síðan eftir brúnum og vel innan veið Berjadal, en Magnús ákvað að þvera milli tindana og tapa þá hæð og þurfa að fara upp aftur. Skýr gönguleið er mest allann hringinn, en þó lentum við í óvissu og áttuðum okkur ekki á leið meðfram og niður frá Guðfinnuþúfu. Krossuðum á endanum yfir Berjadalsá á stíginn þeim megin í dalnum niður að bílastæðum.

En frábær dagur sem mun örugglega gefa góða drauma og vekja nýja. Set hér inn nokkrar myndir.

Akrafjall netAkr Magnús Akranes net

Akr fisk netAkr Kjalarnes net

Akr Bergrisi netAkr Háihnjúkur netAkr snjórtúnsjór net

Akr Botnsúlur netAkr Akranes net

Akr Keilir netAkr Skarðsheiði net

Akr Snæfellsjökull netAkr Hafnarfjall net

Akr túnAkr Guðfinnuþúfa net

Akr snjór2 netAkr snjór4 net


Bubbi rokkar

Nú ætlar Bubbi Morthens að undirbúa mótmæli á Austurvelli vegna efnahagsástandsins. Rykið verður væntanlega dustað af gömlu góðu slögururunum um arðræningjana og gúanórokkið mun svífa yfir Austurvelli. Það er vissulega rétt að það er fullt tilefni til að fólk komi saman með skýrar óskir um markvissar aðgerðir.

En Bubbi Morthens getur ekki skipt um hlutverk eftir því hvernig vindar blása. Leikið einhverja alþýðuhetju þegar harðnar á dalnum, eftir að hafa hvatt til kaupa á tólf milljón króna silfruðum eða svörtum jeppum í þenslunni. Hann getur ekki bara gert kröfur á stjórnvöld, heldur þarf hann nú að semja nýja söngva svo að jeppaklúbburinn hans axli ábyrgð og taki á sig stærstu birgðarnar.


Hollt að ræða málin

Í Mosfellsbæ hefur verið mikill verktakabragur síðustu misserin og sumum finnst vera farið fullgeyst. Tengibrautir að nýju hverfunum Helgafelli og Leirvogstungu liggja yfir svæði sem hafa mikið gildi fyrir útivist og umhverfi. Víðtæk samfélagsleg áhrif, þar sem eðlilegt er að málin séu rædd og krufin.

Þann 13. október kl. 20:30 efna Varmársamtökin til málþings um Tunguveg. Þar verða frummælendur Ólafur Arnalds jarðvegsfræðingur og prófessor í umhverfisfræði og Valdimar Kristinsson blaðamaður og hestamaður.

Ólafur skrifaði nýlega grein í Morgunblaðið sem nefndist "Vegur yfir lífsgæðin í Mosfellsbæ". Þeir bræður Ólafur og Andrés Arnalds hafa verið meðal þeirra fremstu í umhverfismálum hér á landi. Rannsóknir þeirra á jarðvegseyðingu hafa vakið mikla athygli og viðurkenningar

Það er gæfa fyrir Mosfellsbæ að hafa slíka menn í bæjarfélaginu. Andrés Arnalds hafði forgöngu um starf umhverfissamtakana Mosa, sem gengust fyrir víðtækri stígagerð og uppgræðslu. Það gjörbreytti eðli samfélagsins. Náttúrustemmingin breyttist úr mold- og sandroki í rómantíska skógarstíga.

Valdimar Kristinsson hefur á margan hátt verið forystumaður í málefnum hestamanna í Mosfellsbæ síðustu áratugina. Hann skrifaði margar góðar greinar um hestamennsku í Morgunblaðið um langt skeið. Margt bendir til að þó að lagning Tunguvegar skerði verulega svigrúm og þar með hagsmuni hestamanna og hesthúseigenda að þá þori forystumenn tilsvarandi félaga ekki að vera afgerandi í þessu máli. Það er gott að hafa bæjaryfirvöld góð til að landa byggingu reiðhallar og það er gott að hafa eigendur Leirvogstungu góða til að fjármagna unglingastarf.

Hér til hliðar er könnun um viðhorf til lagningar Tunguvegar um árósasvæði Mosfellsbæjar. Svo virðist sem íbúar sem eiga hagsmuna að gæta við lagningu vegarins hafi tekið vel við sér því á einum degi komu skyndilega um sextíu manns sem lýstu sig hlynnta veginum. En vonandi fáum við almennar kosningar í jafn umdeildu máli, sem að klárlega skerðir ákveðin grunngildi í bæjarfélaginu.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband