Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Sókn inn á við og út á við

 06_Rainbow-Unicorn-Works-L

1. Efla samhug þjóðar. Við þurfum að snúa af leið einstaklingshyggju sem klofið hefur og sundrað þjóðarvitund undir merkjum græðgi og sjálfselsku. Næra einstaklingshyggju sem byggir á sjálfsvirðingu og mannrækt. Að það verði áhugavert að setja sig inn í aðstæður annara, veita og þiggja stuðning, fá og gefa samkennd. Tryggja öflugt og skapandi mannlíf undir merkjum frelsis, jafnréttis og kærleika. ----> Traustir innviðir

2. Full þátttaka í samstarfi Evrópuþjóða. Á einni öld hafa samgöngur gert fjarlægðir afstæðar. Vegalengd að Selfossi álíka og til Kaupmannahafnar núna, ferð til Rómar álíka og til Akureyrar áður. Tækifæri okkar og réttindi liggja í samstrfi þjóða í álfunni. Þar liggur sjálfstæði okkar sem einstaklinga. Sjálfstæði okkar sem þjóðar skerðist ekki meira en nemur þeim kvöðum sem felast í að tryggja hin einstaklingsbundnu réttindi og frelsi. ----> Traustar brýr milli landa


Raunveruleikinn er í kálinu

Síðustu tvær helgar hef ég verið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að hjálpa til við kálskurð hjá Helga garðyrkjubónda á Reykjum í Mosfellsbæ. Akurinn er stór spilda fyrir framan húsið hjá mér og þar er mikil ræktun. Ég vona að þessu landi verði ekki breytt í byggingarland. Það er nóg til af hæðum, melum og hólum til að staðsetja byggð. Varðveita það sem er eftir af ræktanlegu landi á höfuðborgarsvæðinu.

Á vorin og haustin fer dráttarvélin rólega framhjá. Minnir mann á að grunnur samfélagsins liggur í fæðuframleiðslu. Reynt er að lámarka þann tíma sem kálið er í geymslu og því er stór hluti þess hafður óskorinn á akrinum eins lengi og hægt er út af veðri. Nú um þessa helgi var spáin orðin þannig að frost og vetur yrðu ríkjandi út vikuna. Því var nú farið í mikla törn og stór hluti af því sem eftir var skorið. Það hafa margir hausar verið látnir fjúka í gær og dag.

Vanalega er týnt upp og flutt í geymslu jafnóðum og skorið er. Nú voru kálhausarnir skornir og snúið við til að verja þá frostskemmdum. Hver röðin afgreidd á eftir annari. Til að halda góðri vinnustemingu er tilvalið að hafa tónhlöðuna með og slatta af orkuríkri suðrænnri músik. Eftir törn gærdagsins brá ég mér á Hvolsvöll og hitti á hluta þeirra pilta og stúlkna sem hittust fyrst í menntaskólanum á Laugarvatni á haustdögum fyrir 30 árum.

Þrátt fyrir að hafa verið í góðri sveiflu inn í nóttina á grundum Suðurlands, þá var ég mættur á kálakurinn upp úr klukkan níu í morgun. Raunveruleikinn er í kálinu og það þýðir ekki að vera með neitt kæruleysi um hábjargræðistímann. Strengir í skrokknum eru hluti af uppskeru dagsins. Við tókum þetta með krafti, svo frostavetur kom þú sæll, ef þú vilt.

Kál

Kál2

Kál1


Róum álfíklana!

Skjótt skipast veður í lofti. Í lok júní gerðu spár á Wall Street ráð fyrir að framundan væri yfir 30% hækkun á álverði í heiminum. Meginástæðan væri hátt verð á raforku og erfiðleikar við að finna svæði með nógu áreiðanlegt framboð á raforku. Athygli áliðnaðarins var af þessum sökum á Íslandi. Nú hefur verð á áli hinsvegar fallið um 37% síðan í júlí.Ál

Áframhald uppbyggingar í áliðnaði þarf að fara fram af mikilli yfirvegun. Helguvík, Bakki og stækkun í Straumsvík er alltof djarflega teflt miðað við stöðu á fjármálamörkuðum. Andstaða við slíkar hugmyndir á ekki að hafa meginstoð í umhverfisvernd heldur fyrirhyggju í fjármálum. Það er ekkert vit í því að skuldbinda orkufyrirtæki með opinbert eignarhald meira á þessum sveiflukennda markaði.

Ef þið hittið á Kristján Þór Júlíusson og hans líka, sem heimta að fá nú stærri skammt en nokkru sinni fyrr, innspýtingu, til að viðhalda veislunni, veitið honum hugarró. Segið honum að það sé allt í lagi að ljúka heildstæðu umhverfismati á Bakka og fáið hann til að draga nokkrum sinnum djúpt andann. Felum síðan einhverju ígildi Þjóðhagsstofnunar að gera kalt mat á áhættu okkar.

Afrakstur orkufyrirtækja ríkis og borgar er tengdur álverði. Svo er komið að við getum ekki sett öll eggin í þessa körfu. Við getum ekki haft ríkistryggðan hallarekstur orkuframleiðslu til áliðnaðar í heiminum. Þá fyrst yrði Ísland gjaldþrota


mbl.is „Höldum ótrauð áfram“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

My other car is a Unimog

Þá kom að því að ég keypti sparíbauk, en það er Fiat Panda. Hann er með sparneytnustu bílum á markaðnum. Síðan mun ég eiga fyrir fjallamennskuna Benz Unimog, sem ég keypti í vor. Þetta eru ólíkir bílar en miklir karakterar. Það er aðalmálið.

Við Magnús sonur sæll, vorum að skoða "nýja bílinn" í kvöld og hann tók með sér nýju byssuna, sem er sko alvöru því hún er úr ekta málmi en ekki plasti eða einhverju drasli. Hann sat alvopnaður á toppnum og miðaði inn í garð.

Panda2

 


Uppsögn EES eða aðild að ESB

Framtíðarkostir þjóðarinnar eru í meginatriðum tveir við endurreisn fjármálaumhverfis. Að viðhalda krónu sem sjálfstæðum gjaldmiðli og hverfa aftur fyrir opnun EES í alþjóðlegum viðskiptum eða að auka sjálfstæði okkar í hinu evrópska samstarfi með aðild að ESB og fullri þátttöku.

Lítið og einfalt hagkerfi sem getur haldið utan um sjálfstæða peningastefnu með eigin seðlabanka eða að leita inn á meiri stöðugleika í efnahagsmálum. Skapa grundvöll og sóknarfæri fyrir útflutning á vöru og þjónustu.


mbl.is Ingibjörg Sólrún vill að stjórn Seðlabankans stigi til hliðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rauði kjóllinn Ragnhildar

Ríkissjónvarpið virðist ætla að ylja okkur með smá kynþokka í kreppunni. Eftir að hin aldraða og að mörgu leyti ágæta Spaugstofa var búin, stormaði á sviðið hin frísklega og sæta kona Ragnhildur Steinunn. Það var laugardagsstemming í loftinu. Kjóllinn stuttur, hárið sveiflast, allt getur gerst.

En svo áttaði ég mig á misréttinu. Jón Ólafsson var um langt skeið með þátt sem hafði svipaðan efnivið þ.e. að gefa nærmynd af tónlistarmanni. En afhverju var hann ekki sýndur í netbol maðurinn og meira eggjandi til að kítla aðeins sjónsviðið hjá kvenþjóðinni?

Ekki er ég á móti söng- og dansprógrammi, eitthvað "dirty dancing" þema á laugardagskvöldum. Fínt að ná stemmingu kjötkveðjuhátíða í lok vikunnar. En það að hafa bert læri inn í mynd heilann viðtalsþátt finnst mér örlítið truflandi.

TV1TV2

TV3TV4


Frystum West Ham

Samkvæmt mati formanns félags verðbréfaeigenda eru það um 20 einstaklingar sem bera ábyrgð á áhættutengdri útrás sem að skattgreiðendur virðast eiga að gerast ábyrgir fyrir að hluta. Það eru eðlileg viðbrögð Breta að vilja að Íslendingar standi við skuldbindinagar. En það hljóta líka að vera eðlileg viðbrögð Íslendinga að sveit útrásarvíkinga axli sína ábyrgð. Það voru tilteknir einstaklingar sem gengu fram með græðgi og sækni í áhættusöm verkefni.

Margt bendir til að við verðum gerð ábyrg fyrir stórum hluta af IceSave reikningum Landsbanka. Þó ég skilji ekki afhverju Edge reikningar Kaupþings séu á ábyrgð Breta. Skil heldur ekki hvernig og hvaða íslenskir ráðamenn höfðu heimildir til að setja upp ríkisábyrgð á þessari erlendu bankastarfsemi.

Björgólfur Thor Björgólfsson var fyrir stuttu skráður sem einn af 500 efnuðustu einstaklingum í heiminum. Þó að sjálfsagt sé mikið af þeim fjöðrum fokið, þá má ætla að enn séu þar mjög miklar eignir. Faðir hans Björgólfur Guðmundsson er einnig stóreignamaður. Þeir feðgar verða fyrst og fremst að bera ábyrgð á kröfum frá Bretunum. Einkavæðing fjármálafyrirtækja átti að fela í sér að einstaklingar eru ábyrgir fyrir skuldbindingum þeirra.

Þarf ekki að frysta eignir þeirra feðga á meðan heildarbúið er gert upp til að vernda ríkið og almenning gegn því að sitja uppi með tjónið?


mbl.is Ekki bara hryðjuverkalög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Faglegan Seðlabanka

Í ljósi þess að Þjóðhagsstofnun var lögð niður, þá er fátt mikilvægara en að fullt traust sé borið til fagmennsku Seðlabanka Íslands. Það þarf ekki að vera óeðlilegt að seðlabankastjóri tjái sig um efnahagsvanda þjóðarinnar á yfirvegaðan máta. Þannig varð Alan Greenspan þekkt persóna sem seðalabankastjóri Bandaríkjanna.

Við þær aðstæður sem ríkja núna í þjóðfélaginu er það óheppilegt að mikil orka fari í umræður um persónu Davíðs Oddssonar. Hann kom þó að mörgu leyti vel út úr viðtalinu í Kastljósi í fyrradag. Ókosturinn er sá að þar var stjórnmálamaður að tala, en ekki embættismaður að reifa möguleika í stöðunni út frá fagþekkingu.

Það er til dæmis ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á yfirlýsingar um að þeir sem vilji skoða kosti evru sem gjaldmiðils séu "lýðskrumarar". Hann sagði í þættinum að hann hefði aldrei tekið undir "þann útrásarsöng" en í gær var birt í Fréttablaðinu yfirlit af tilvitnunum sem sýna fram á annað. Margt bendir til að gjörðir hans og yfirlýsingar hafi valdið skaða.

Davíð Oddsson er umdeildur stjórnmálamaður sem bjó til það fjármálaumhverfi í landinu sem að nú er hrunið. Hann hefur ekki tiltrú almennings sem slökkviliðsstjóri í því mikla starfi sem að er framundan. Fyrrum forsætisráðherra á að geta gengið af sviðinu með þokkalegri reisn. Hann hefur fengið fleiri tækifæri en allir aðrir á opinberum vettvangi.


mbl.is Vill seðlabankastjórana burt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Happy go Lucky

Hamingjulukka

Ákváðum að skella okkur í bíó, sem varð til þess að seinka stjórnarfundi í landsþekktum umhverfissamtökum. En það hversu sannfærandi Sally Hawkins hlær á innsoginu í myndinni Happy go lucky mun ilja um hjartarætur næstu dagana. Gott mótvægi við öllum alvarlegu tíðindunum. Söguþráðurinn er reyndar hálfgerð steypa á köflum. Það er fínt ef maður er orðinn þreyttur á öllum þeim sem telja sig vera að segja eitthvað af viti. Bara einfalt og smitandi hláturjóga.


Hver voru mistökin?

Hvar liggja helst ástæður þeirra mistaka að hugsanlegt sé að íslenska ríkið og skattgreiðendur sitji að einhverju leyti uppi með skaðann af vaskri framgöngu útrásarvíkinga;

1. Að ríkið skyldi selja bankana sem höfðu skilað samfélaginu arði um langt skeið til einstaklinga?

2. Að Alþingi skyldi ekki setja lög á sínum tíma sem takmörkuðu skuldsetningu íslenskra banka erlendis?

3. Að veita óábyrgum stjórnendum og eigendum svigrúm til að fara með vald sem þeir kunnu ekki að fara með?


mbl.is Hundruð milljarða vegna Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband