Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Aumingja Kjartan Gunnarsson

Ný ríkisstjórn ætlar að losa þjóðina úr fjötrum flokksveldis, endurreisa virðingu Alþingis með því að láta það ekki vera afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdavald, skipuleggja stjórnlagaþing til endurskoðunar á stjórnarskrá landsins og opna á persónukjör í kosningum. Allt þetta og fleira er sett fram til að efla lýðræðið í landinu.

Auk þess er ætlunin að styrkja innviði samfélagsins, eftirlitsstofnanir og ráðuneyti. Þannig hefur Fjármálaeftirlitið nú verið stokkað upp og skipuð þar ný forusta. Beðið er eftir að álíka endurnýjun eigi sér stað í Seðlabankanum. Eins og Gylfi Magnússon hefur réttilega bent á að þá liggur vandi okkar helst í því að eftirlitsstofnanirnar voru í liði með útrásinni og bönkunum.

Kjartan Gunnarsson virðist ekki geta tekið undir neitt af því sem sett hefur verið fram í mótmælum þúsunda síðustu mánuði og birtist nú í útfærslum nýrrar stjórnar til að tryggja heilbrigði og lýðræðislegar áherslur innan stjórnsýslunnar. Hann hefur bara áhyggjur af vini sínum, sem hann virðist halda að eigi að vera miðdepill sólkerfis og samfélags um ókomin ár.

Vinaböndin sem tryggt hafa fríðindi og störf eru nú að gefa sig. Þeir voru fjórir mest áberandi einstaklingar að innleiða sérgæsku Sjálfstæðisflokks inn í okkar samfélag; Kjartan Gunnarsson, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Davíð Oddsson. Allir þessir boðberar Thatcherismans, nema Kjartan Gunnarsson, nýttu flokkinn til að koma sér í opinberar stöður.

Þessir menn héldu því fram í orði að það væri fátt ömurlegra en vera ríkisstarfsmaður, áskrifandi að laununum sínum, í stað þess að vera í einkageiranum og þurfa að standa og falla með eigin rekstri. Þessi einstaklingshyggja í atvinnulífinu umbreyttist síðan í einkavinavæðingu, þar sem flokksskírteini voru notuð til að raða fólki á jötuna. Þetta þolir alveg smá tiltekt.


mbl.is Pólitískar hreinsanir og ofsóknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nauðsynlegar hreinsanir

Ný ríkisstjórn leggur áherslur á lýðræðisleg vinnubrögð. Eðli minnihlutastjórnar felst í að leita eftir samstöðu um mál. Þetta er holl tilbreyting. Forseti Alþingis gegnir þarna lykilhlutverki að tryggja sátt. Að frumvörp fái eðlilega meðhöndlun og meirihluta innan Alþingis. Þetta mun án efa efla sjálfstæði þingsins. Í þessu samhengi var nauðsynlegt að skipta um forseta þess, en hann var fulltrúi flokks og framkvæmdavalds sem hafði litið á þingið sem afgreiðslustofnun. Áhersla á sterkan meirihluta birtist í þeirri mynd að Flokkurinn þurfti ekki að hlusta á kóng né prest. Nægjanlegt var að tveir karlar hér eða þar ákveði hvort landið væri stuðningsaðili stríðs í fjarlægum löndum eða að yfirtaka banka.

Nú hefur Jóhanna Sigurðardóttir sett hina siðferðilegu kröfu á seðlabankastjórana um að semja um starfslok. Að þeir skynji ekki væntingar og nauðsyn þess að endurnýjað verði traust á forystu og banka er með ólíkindum. Ef að það kostar 44 milljónir til að gera þessa úrbætur þá verður svo að vera. Það fer ekki saman að aðalbankastjóri Seðlabanka Íslands sé á sama tíma guðfaðir stjórnmálaflokks. Það er þörf á að endurnýja lagaramma um bankann, en það á ekki að blanda því saman við þá staðreynd að bankastjórnin getur ekki límt sig við stólana þó hún hafi orðið uppvís að margvíslegum afglöpum. Það er ansi mörg spillingarhreiður íhaldsins í efnahagslífi og stjórnsýslu sem þola smá tiltekt.


mbl.is Biðlaunin áætluð 44 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefnuræða


mbl.is Opnað fyrir persónukjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjarni málsins

Því hefur verið haldið fram að hina skyndilegu kúvendingu íslensks fjármálalífs megi rekja til EES samningsins. Þar hafi skapast grunnur fyrir óhóf og stjórnleysi sem hleypti ofvexti í bankakerfi sem varð margfalt stærra en ríkisútgjöld.

Vissulega skapaði EES samningurinn frelsi og sóknarfæri en það er rangt að ekki hafi verið tæki til staðar að halda vexti og útrás innan viðráðanlegra marka. Kvaðir um bindiskyldu banka voru litlar og lítil áhersla á að tryggja gjaldeyrisforðann.

Norðmenn hafa síðustu áratugi verið að safna í sjóði til að tryggja að landið sé undirbúið fyrir kreppu. Á sama tíma var hér ráðandi græðgisvæðing og taumlaus skuldsetning. Treyst á að ný álver og þensla redduðu þjóðarbúinu frá ári til árs.

Hugmyndafræðin var vissulega röng. Gylfi Magnússon segir „Það var þvert á móti beinlínis ætlast til þess að þessar stofnanir væru ekki að hefta fjármálakerfið og vöxt þess heldur að styðja fjármálakerfið í frekari vexti og útrás.“

Erlendir sérfræðingar hafa verið á sama máli að við höfum ekki nýtt heimildir laga til að nýta taumhaldið. Kreppan gefur ekki ástæðu til að taka af okkur frelsið. Áfengi leiðir ekki til drykkjusýki, hún er afleiðing skertrar sjálfstjórnar.


mbl.is Hugmyndafræðin var röng
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær veiðir maður hval og hvenær veiðir maður ekki hval?

Leyfi til hvalveiða voru gefin korteri fyrir stjórnarslit af fyrrum sjávarútvegsráðherra. Hraustir sægarpar víða um land fagna og segja að þetta hafi verið eina vitið. Gamla viðhorfið um að við látum nú ekki hvern sem er segja okkur fyrir verkum heyrist bergmála í auglýsingum og heitu pottunum. Með því fylgir röksemdin um að það þurfi að tryggja jafnvægi í lífríki sjávar. Hvalir borði svo mikið af þorski og öðrum nytjafiskum mannsins.

Ef öruggt er að markaðir séu fyrir hvalaafurðir þá kemur til greina að heimila hvalveiðar, þó gjörningur Einars K Guðfinnssonar hafi verið valdníðsla og stendur þar sem eitt af minnismerkjum Sjálfstæðisflokks af þeirri sortinni. Hinsvegar áttu Norðmenn mjög erfitt með að selja afurðir sinna hvalveiða. Þessir konungar hafanna safna upp ýmsum þrávirkum mengunarefnum í umhverfinu í vefi kjötsins og því hefur það orðið óvinsælt til manneldis.

Því hefur verið haldið fram að alltaf sé hægt að nýta þetta sem loðdýrafóður. Ég hef ásamt fleirum staðið fyrir veiðum á útsel í sellátri fyrir austan síðastliðin haust. Útilokað er að selja selinn til manneldis og síðustu haust hefur ekki einu sinni verið hægt að láta hann frítt til loðdýrabúanna. Þau hafa ekki hakkavélar eða frystigeymslur fyrir miklar birgðir eða að veiðarnar eru ekki á réttum tíma miðað við hvenær þeir eru í mestri fóðurþörf. Hef trú á að svipað verði ástatt með hvalaafurðir og þá eru hvalveiðar bara þráhyggja.

Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor skrifar ágæta grein í Moggann um nauðsyn þess að endurskoða umrædda reglugerð þó ekki væri nema út frá sjónarmiðum um jafnræði einstaklinga til sjósóknar. Það væri í anda athugasemda mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Það er eðlilegt að slíkar heimildir fari á uppboð en standi ekki eingöngu til boða fyrir einhverja flokksgæðinga Sjálfstæðisflokksins. Þá væri meira segja hægt fyrir þá sem að eru verndunarsinnaðir að kaupa leyfin án þess að nýta þau. Afrakstur sölu þessara veiðiheimilda færi í bjargráðasjóð heimila landsins.


Fagrir dagar

"Pabbi, sjáðu trén. Svo er líka glimmer í snjónum. Takk fyrir". Þetta voru fyrstu viðbrögð fimm ára sonar þegar við komum út á föstudagsmorgni á leið á leikskóla.

Síðustu þrír dagar eru búnir að vera sérlega fagrir, hvort sem það er vísir á betri tíð í víðara samhengi mannlífsins.

Helgin er búin að nýtast vel til útivistar, farið í Bláfjöll og á hestbak upp í Laxnes. Set hér inn nokkrar myndir.

Jandag1 Jandag2

Jandag6 Jandag14

Jandag8 Jandag12 

Jandag10Jandag16Jandag11 

Jandag13 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband