Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010

Þjóð meðal þjóða

Það er fagnaðarefni að framkvæmdastjórn ESB hefur gefið grænt ljós á viðræður við Íslendinga um að þeir gerist fullgildir þátttakendur í samstarfi lýðræðisþjóða í Evrópu.

INATIONAL

Tel að það séu í raun aðeins tveir kostir. Að segja sig frá EES samstarfi og taka upp sem meginstef að eiga tvíhliða samskipti við önnur lönd´um öll viðskipti og milliríkjasamskipti. Hinn kosturinn er að stíga skrefinu lengra en felst í núverandi fyrirkomulagi. Í stað þess að standa óvirk og áhrifalaus í dyragættinni með aðildinni að EES samningnum þá gerumst við fullgildir meðlimir.

Umræðan um skerðingu á sjálfstæði þjóðarinnar með aðild er á villigötum. Hvaða rök eru fyrir því að við töpum sérstöðu og sjálfstæði sem þjóð frekar en Finnar, Svíar, Danir, Þjóðverjar, Pólverjar, Portúgalir, Ítalir eða aðrar þjóðir í samstarfinu? Þó við séum fámenn þjóð þá er landfræðileg einangrun landsins með þeim hætti að ekkert bendir til annars en hér verði áfram sjálfstætt stjórnvald.

Mikilvægt er að Norðurlöndin stilli saman strengi og komi fram sameinuð eining gagnvart Evrópusambandinu. Þannig getum við tryggt vægi okkar og hlut gagnvart stórþjóðunum í ákvarðanatöku. Við þurfum að eiga opna umræðu við Noreg um samspil aðildar og yfirráð yfir auðlindum, þannig að frændur okkar sjái sér hag í því að vera samhliða með í að búa til möguleika á að þeir gangi til samstarfsins.


mbl.is Ísland fær ekki flýtimeðferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valgerður og Hreinn um réttar og rangar skoðanir

Valgerður Bjarnadóttir skrifar í gær um beitingu þöggunar í íslenskri stjórnmálaumræðu. Þar sem skoðanir eru flokkaðar í góðar skoðanir og slæmar skoðanir. Í frmhaldi eru viðkomandi flokkaðir hvort þeir eru á vetur setjandi. Þar rekur hún meðal annars sérkennilega framgöngu Sigmundar Davíðs í afstöðu til Ann Sibert fulltrúa í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands og Þórólfs Matthíassonar prófessor í hagfræði. En formaður Framsóknarflokksins vill helst reka þau úr starfi vegna þess að þau hafa "rangar skoðanir"

Í athugasemdum skrifar Hreinn Loftsson frásögn þar sem að hann greinir frá samskiptum sínum við Hannes Hólmstein Gissurarson og leyfði sér að fara gegn leiðtoga sínum Davíð Oddssyni með því að mótmæla meðferð íslenskra stjórnvalda á Falun Gong hópnum hér um árið. Að sjálfsögðu sá Hannes eftir þessu eftir að hafa fengið trakteringar frá Davíð og sór þess eið að hann myndi fylgja honum í einu og öllu jafnvel þó það snérist um að berja niður friðsöm mótmæli fólks sem vill aukin lýðréttindi og losna undan oki kommúnismans. Fylgispekt við foringja var æðri lífsafstöðu.

Þetta tónar vel við fyrri færslu mína hér fyrir neðan um að þöggunin sé helsta ógnin við heilbrigt lýðræði hér á landi. Hroki Sjálfstæðisflokksins og sannfæring hefur gefið af sér þöggunartilhneigingu. Ótti vinstrisinna við fólk og flokka með rangar skoðanir hefur stuðlað að því að vinstri menn voru lengst af sundurleit hjörð í eyðimörkinni í leit að vatni. Heilbrigt lýðræði var það vatn sem að Samfylkingin var stofnuð til að veita þjóðinni. Flokkshollusta er slæm þegar hún fer að blinda mönnum sýn á persónuleg gildi og sannfæringu.

Grein Valgerðar Bjarnadóttur er mjög þarft innlegg í þessa umræðu. Hún er líka verðug áminning um að Samfylkingin má aldrei gleyma því að fjölbreytileiki í skoðunum á að vera helsti styrkur flokksins.


Þöggun er versti óvinur lýðræðisins, nærð af hroka og ótta

Grasrótin

Það er þreyta hjá fólki gagnvart flokkum og pólitík. Því finnst að þetta sé bara einhver veruleiki sem það hefur ekki nein tengsl við. Það er lítið svigrúm á gagnrýna umræðu innan flokka eða að flokkar leiti eftir og hlusti á almenning.

Flokkar verða því oft sjálfhverfar stofnanir. Það birtist meðal annars með þeim hætti að sitjandi sveitarstjórnarmenn voru almennt á móti persónukjöri á meðan að hinn almenni kjósandi vill hafa slíkt val. Sitjandi valdaöfl vilja hafa alla þræði á sinni hendi og hafa ekki þolinmæði gagnvart fjölbreytileika í skoðunum.

Skýrasta dæmið um þetta er hvernig haldið var á endurskoðunarvinnu innan Sjálfstæðisflokksins. Þar leiddi Vilhjálmur Egilsson nokkuð vandaða vinnu þar sem að farið var yfir veikleika og styrkleika í starfi Sjálfstæðisflokksins. Að sjálfsögðu var þar margt sem að betur hefði mátt fara. En á endanum þoldi umræðan ekki dagsljósið.

Hin hrokafulla hópsál Sjálfstæðisflokksins náði sér á skrið þegar Davíð Oddssson birtist utan dagskrár í pontu á landsfundi flokksins og skaut föstum skeytum út og suður. Gerði lítið úr endurskoðunarvinnunni og réðst persónulega á Vilhjálm Egilsson. Þetta dugði til að þagga niður allar gagnrýnisraddir og nú er keyrt áfram á endurnýjuðum hroka.

Flokksstarf til vinstri hefur oft nærst á óttanum. Ekki síst að það sé mögulegt að einhverjir með "rangar skoðanir" nái of miklum áhrifum í flokksstarfinu og allt þurfi að leggja á sig til að tryggja kosningu þess sem að hefur "réttar skoðanir". Þess vegna var krafan um lýðræðið helsti ótti flokkseigendanna í Alþýðubandalaginu.

Samfylkingin er byggð á kröfunni um lýðræði. Hennar helsti veikleiki er að vera stofnuð af flokkum en ekki fólki. Þess vegna vantar tengslin við grasrót, vonir og væntingar, tár og svita. Það þarf að ljúka því verkefni sem stofnað var til að Samfylkingin sé sá flokkur sem að er í bestum tengslum við kjósendur og þar sem ríkir vitund og hefðir öflugs lýðræðis.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband