18.12.2010 | 12:36
Flugeldasýning á aðventunni
Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.12.2010 kl. 09:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.9.2010 | 13:32
Flokksræðið er glæpurinn
Það er ekki óalgengt að einstaklingar í glæpagengjum séu búnir að samsama sig það sterkt ríkjandi innanbúðarkúltúr að þeir hafi eingöngu trúnað gagnvart genginu en ekki samfélaginu. Ábyrgð Sjálfstæðisflokksins er að innleiða flokksræði og foringjadýrkun sem veikti lýðræðið, eftirlitsstofnanir og dómstóla.
Glæpur Ingibjargar Sólrúnar er að gangast undir þennan ofríkiskúltúr Sjálfstæðisflokksins. Hún sem boðaði "samræðustjórnmál" og þátttöku fólks í mótun samfélagsins virðist hafa talið nægjanlegt að hún væri í takt við forsætisráðherra í lykilmálum. Útilokaði meira að segja Björgvin G Sigurðsson viðskiptaráðherra og samflokksmann frá umræðu og ákvörðunum.
Áhugavert viðtal er við Svan Kristjánsson í þættinum um þróun lýðræðis í morgun. Þar heldur hann því fram að flokkarnir séu óagaðar stofnanir til að móta pólitíska stefnu. Þar hafi prófkjörin leitt til innanflokksmeinsemda þannig að verstu óvinir þínir verða samflokksmenn. Flokkarnir verða ekki maskínur hugmyndavinnu heldur safn einstaklinga sem detta inn á eigin forsendum og undirliggjandi tortryggni í hópnum.
Áhugavert er að hann telur úrkynjun íslensks lýðræðis hafi byrjað með stofnun lýðveldis 1944, sem hafi verið gerð af óheilindum. Mikil gerjun og háleitar hugmyndir hafi ríkt um lýðræði á millistríðsárum og allt til Jóns Sigurðssonar. Síðan blandast lýðræðisþróunin eftir stríð við hin pólitísku tengsl við Bandaríkin, sem leiðir til pólitískrar spillingar innan Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.
Röng niðurstaða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.3.2010 | 23:47
Leið forsetans var dýr en lýðræðisleg
Innan tíu daga mun líta dagsins ljós nýtt samkomulag þar sem að gert er ráð fyrir því að Íslendingar borgi tryggingaupphæðina en með hagstæðari greiðslutilhögun, þó sér í lagi mun lægri vöxtum. Allir stjórnmálaflokkar hafa lýst því yfir að þarna liggi skuldbindingar landsins. Síðan detta formenn stjórnarandstöðunnar í gír lýðskrumsins þegar þeim hentar. InDefence hefur einnig lýst því yfir að okkur beri að greiða tryggingar upphæðina og virðast því líka vera að eyða heilu ári í baráttu um greiðslutilhögun.
Forseti Íslands sem nú er dáður af Sjálfstæðismönnum aldrei þessu vant sagði í dag; Íslenska þjóðin, bændur, sjómenn, kennarar, hjúkrunarfólk er reiðubúin að greiða Bretum og Hollendingum jafnvirði rúmlega 20 þúsund evra vegna hvers reikningseiganda. En hún er ekki tilbúin til að greiða háa vexti svo bresk og hollensk stjórnvöld hagnist á öllu saman." Með þessari yfirlýsingu má ljóst vera að hann skrifi undir lög sem falla að þessum ramma.
Innan tíðar þegar þetta mál hefur horfið sem meginverkefni stjórnmálanna verður áhugavert að sjá hvort að menn eins og Sigmundur Davíð eigi líf eftir IceSave. Þá þarf að reikna það út eins og Valgerður Bjarnadóttir hefur réttilega bent á að hún telji ekki útilokað að best hefði verið að ganga frá samningnum strax. Vextirnir eru klárlega óhagstæðir en telja má víst að við höfum tapað gríðarlegum upphæðum á óvissunni og töfunum í að koma málinu í fastan farveg.
Þannig hefur leið forsetans að vísa málinu í þjóðaratkvæði reynst dýr og óvíst um fjárhagslegan ávinning. En persónulega held ég að til lengri tíma litið hafi hún verið skynsamleg. Það var ekki hægt að samþykkja lögin í því mikla umróti sem að ríkti. Það var ekki hægt annað en koma sjónarmiðum Íslands skýrar til skila í alþjóðasamfélaginu. Að við eigum skilið réttlátari meðferð í málinu heldur en sá tónn sem gefin var með setningu hryðjuverkalagana í Bretlandi. Síðast en ekki síst þá hefur forsetinn bjargað eigin skinni. Athygli og ásakanir tengdar þátttöku hans í útrásinni hafa fallið í skuggann.
Í framhaldi hefst uppbyggingartíminn og þá þarf Jóhanna að íhuga hvort ástæða sé til að fríska upp á stólaskipan ríkisstjórnarinnar. Þar á meðal hvort að hún vilji sjálf gera kaflaskil í sínum ferli. Því er haldið fram að Samfylkinguna skorti forsætisráðherraefni til að taka við. Þar er sérstaklega tekið fram að fólk vilji ekki sjá Össur Skarphéðinsson í því starfi. Mitt útspil hér rétt fyrir miðnætti á þessum kosningadegi er að Guðbjartur Hannesson geti komið inn í staðinn fyrir Jóhönnu sem forsætisráðherra en hún verði áfram formaður að næsta landsfundi.
Ríkisstjórnin hefur fulla trú á viðunandi niðurstöðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.3.2010 kl. 00:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
5.3.2010 | 22:58
Virðing fyrir kosningaréttinum
Nei umræðan er á glæfrastíg sem enginn veit hvar endar.
Já umræðan er orðin marklaus miðað við yfirlýsingar ráðamanna um að drög að betri samningi séu á borðinu.
Mætum á kjörstað og skilum auðu. Þannig fögnum við lýðræðinu og berum virðingu fyrir kosningaréttinum. Þó að í þetta sinn höfum við fengið óaðgengilega valkosti.
Ólafur Ragnar ætlar að kjósa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.3.2010 kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
4.3.2010 | 12:54
Málefnalistinn í Mosfellsbæ
Mikilvægt að félagshyggjufólk í Mosfellsbæ finni sér umræðuvettvang um málefnalegar áherslur í komandi kosningum. Bæjarfulltrúar eiga að "vera þjónar, en ekki kóngar". Því miður virðast Vinstri grænir vera í pattstöðu. Fulltrúi þeirra dregur ekki fram málefnalegar áherslur umhverfisverndar eða samfélagslegs réttlætis. Hann virðist fastur í eigin naflaskoðun og reynir að ófrægja einstaklinga til að viðhalda konungdómnum.
Forystumaður Samfylkingar er að nokkru sama marki brenndur. Hann lætur sem að tilvera hreyfingar jafnaðarmanna standi og falli með honum. Að hann njóti einstaks "trausts" og hafi mikilvæga reynslu. Hún sé það mikilvæg að sitjandi bæjarstjóri Sjálfstæðisflokks leiti til hans í stóru og smáu. En þó að VG sé vorkunn yfir málefnafátæktinni og erfiðleikum við að greina sig frá samstarfsflokki sínum, þá er Samfylkingunni engin vorkunn. Þar hafa verið bæjarfulltrúar á launum og fólk í nefndum sem hefur verið úthlutað því hlutverki að bjóða upp á aðrar leiðir til betra og huggulegra samfélags.
Sú saga gengur nú sem eldur í sinu að Samfylkingu verði skipt út fyrir VG af Sjálfstæðisflokki eftir næstu kosningar. Það má ekki gerast að hinn almenni félagshyggjumaður sé ekki þátttakandi í þessari þróun og berist sofandi að feigðarósi. Við þurfum að segja okkur frá konungveldi þessara einstaklinga sem að virðast spilla fyrir einhug og samstarfi félagshyggjufólks. Nauðsynlegt er að búa til samstarf um málefnakröfur á Samfylkingu og VG. Ef þeir mæta ekki til slíks samstarfs til að tryggja nýjan meirihluta án Sjálfstæðisflokks, þá gæti þurft að mynda nýtt framboð. Þar sem að fyrst er náð samstöðu um málefnin en síðan valdir þjónar til að fylgja erindinu eftir. Ekki öfugt.
3.3.2010 | 19:16
Máttlitlir vinstriflokkar í Mosfellsbæ
Í Reykjavík eru miklar líkur á að hægt verði eftir komandi sveitarstjórnarkosningar að mynda hreinan meirihluta Vinstri grænna og Samfylkingar. Síðasta könnun benti til að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking væru álíka stórir flokkar og fengju sex menn hvor, en Vinstri grænir fengju þrjá menn. Hefðin fyrir samstarfi félagshyggjufólks í háskólanum undir merkjum Röskvu og samstarf þess undir merkjum Reykjavíkurlista hefur stuðlað að því að vinstri gerjun hefur fest sig í sessi í borginni. Telja má mjög ólíklegt að Sjálfstæðisflokkur nái hreinum meirihluta þetta vorið. Það sem áður gat talist næstum því regla er nú að verða fjarlægur draumur í Valhöll.
Garðabær, Seltjarnarnes og Kópavogur eru bæjarfélög þar sem að Sjálfstæðisflokkur hefur lengi haldið um stjórnartaumana. Þetta eru að verulegu leyti svefnbæir þar sem að íhald hefur sótt fylgið út á framkvæmdir í bæjarfélaginu. Vísað er til Kópavogs í því samhengi. Að á tímum meirihluta vinstri manna þar í bæ hafi ríkt stöðnun. Engin uppbygging og holóttar götur. Síðan reið í hlað tími malbiks og steinsteypu. Nú er Kópavogur dæmi um bæ sem leggur litla áherslu á græn svæði og tengslin við náttúruna, ef frá er talin Fossvogsdalurinn. Þannig að sennilega gildir um þann bæ líkt og Mosfellsbæ að betur hefði farið á því að ganga fram í uppbyggingunni af meiri yfirvegun, frekar en að gróði á byggðan fermeter væri eina leiðarljós og drifkraftur.
Mosfellsbær er að mörgu leyti með allt annan bæjaranda heldur en áðurnefnd sveitarfélög. Þar býr fólk sem að vill vera í góðum tengslum við náttúruna, heilsueflingu og útivist. Þar má Sjálfstæðisflokkurinn ekki festast í sessi sem hryggjarstykkið í bæjarmálapólitík. Vissulega tókst þeim prýðilega að innleiða steinsteypukultúrinn. Haraldur Sverrisson fyrrum formaður skipulagsnefndar og núverandi bæjarstjóri taldi flokkinn hafa uppgötvað mikið undarverk, að láta landeigendur og verktaka sjá um uppbyggingu stórra svæða eins og Helgafells og Leirvogstungu. Það væri stórkostlegt að láta þá sjá um uppbyggingu skóla og annars sem vanalega var á ábyrgð sveitarfélagsins.
Hlutverk sveitarfélagsins breyttist frá því að úthluta lóðum í það að úthluta hverfum til uppbyggingar. Tónninn var gefinn með sölu á Blikastaðalandinu. En í stað þess að tempra framboð íbúðarhúsnæðis í takt við þörf var innleitt allsherjar græðgivæðing og verktakalýðræði. Drifið var í skipulagningu Helgafellshverfis og byrjað á uppbyggingu þar. Ekki nóg með það heldur var uppbygging í Leirvogstungu sem samkvæmt aðalskipulagi átti hugsanlega að koma inn upp úr 2020 líka sett af stað. Hver er eftirtekjan. Kjánaleg skella er í byggðinni milli Grafarvogs og Reykjavíkur í landi Blikastaða. Helgafellslandið er að mestu óbyggt af því að Leirvogstungu var hleypt samtímis af stað. Leirvogstungan er í pattstöðu, víða með hálfbyggð hús og grunna.
Eru samfélags- og lýðræðissinnuð öfl í Mosfellsbæ að standa fyrir einhverju uppgjöri á þessu og öðru sem misfarist hefur undir forystu Sjálfstæðisflokksins síðustu tvö kjörtímabil? Nei. Er hægt að sjá trúverðugan valkost sem að hefur greint sig frá stefnu Sjálfstæðisflokksins. Nei. Framsóknarflokkurinn hefur klárlega verið beittasta stjórnarandstaðan, en í ljósi sögunnar þá þarf mikið að gerast til að félagshyggjufólk sameinist um þann valkost. Samfylkingin hefur tvo bæjarfulltrúa og fólk í nefndum. Erfitt er að benda á öfluga málefnavinnu þar sem fulltrúar flokksins hafa sett fram aðra sýn heldur en meirihlutinn. Þeir taka þátt í nefndarstarfi um að velja verðlaunatillögu að kirkju, en vita ekki hvort þeir vilja byggja kirkju á umræddum stað. Þeir taka þátt í fjárhagsáætlun með meirihlutanum, þannig að þar koma ekki heldur fram séráherslur. Þegar spurt er um áherslur í nefndum þá er sagt að það sé "enginn málefnalegur ágreiningur".
Vinstri grænir í Mosfellsbæ eru sérkapítuli. Þeir náðu einum fulltrúa í síðustu kosningum. Hann gekk ljúflega í sæng með íhaldinu og kokgleypti einu helsta kosningamáli sínu um að það yrði "stórslys í umhverfismálum" ef að breiðstræti væri lagt um Álafosskvos að hinu nýja Helgafellshverfi. Enginn möguleiki var að innleiða vitræna umræðu eða faglega úttekt. Þó það sé almenn viska úr skipulagsfræðum að betra sé að tengja stofnæðar í jaðri byggðar heldur en að leggja þær um miðbæ eða nálægt útivistarsvæðum. Bæjarfulltrúinn hefur síðan ekki greint sig frá Sjálfstæðisflokknum í neinu máli nema ef vera skyldi að fara í ófrægingarherferð gegn íbúa- og umhverfissamtökum í bæjarfélaginu. Nú berast þær fréttir að erfiðlega gangi að manna lista VG í Mosfellsbæ. Þar vill samfélagssinnað og umhverfisvænt fólk ekki lúta forsæti hins öfluga liðsmanns Sjálfstæðisflokksins.
Nú þarf eitthvað að gera til að vinda ofan af þessum vanda. Brýnt er að félagshyggjufólk í hvaða flokki sem þeir eru komi saman og hefji málefnavinnu. Breiðan vettvang sem setur sér það skýra markmið að tryggja að Sjálfstæðisflokkurinn verði ekki þriðja kjörtímabilið við stjórnartaumana. Trúlega er of seint að vinna að framboði sameinaðs lista félagshyggjufólks, M-lista. Þörfin er til staðar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.2.2010 | 01:32
Þjóð meðal þjóða
Það er fagnaðarefni að framkvæmdastjórn ESB hefur gefið grænt ljós á viðræður við Íslendinga um að þeir gerist fullgildir þátttakendur í samstarfi lýðræðisþjóða í Evrópu.
Tel að það séu í raun aðeins tveir kostir. Að segja sig frá EES samstarfi og taka upp sem meginstef að eiga tvíhliða samskipti við önnur lönd´um öll viðskipti og milliríkjasamskipti. Hinn kosturinn er að stíga skrefinu lengra en felst í núverandi fyrirkomulagi. Í stað þess að standa óvirk og áhrifalaus í dyragættinni með aðildinni að EES samningnum þá gerumst við fullgildir meðlimir.
Umræðan um skerðingu á sjálfstæði þjóðarinnar með aðild er á villigötum. Hvaða rök eru fyrir því að við töpum sérstöðu og sjálfstæði sem þjóð frekar en Finnar, Svíar, Danir, Þjóðverjar, Pólverjar, Portúgalir, Ítalir eða aðrar þjóðir í samstarfinu? Þó við séum fámenn þjóð þá er landfræðileg einangrun landsins með þeim hætti að ekkert bendir til annars en hér verði áfram sjálfstætt stjórnvald.
Mikilvægt er að Norðurlöndin stilli saman strengi og komi fram sameinuð eining gagnvart Evrópusambandinu. Þannig getum við tryggt vægi okkar og hlut gagnvart stórþjóðunum í ákvarðanatöku. Við þurfum að eiga opna umræðu við Noreg um samspil aðildar og yfirráð yfir auðlindum, þannig að frændur okkar sjái sér hag í því að vera samhliða með í að búa til möguleika á að þeir gangi til samstarfsins.
Ísland fær ekki flýtimeðferð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.2.2010 | 00:11
Valgerður og Hreinn um réttar og rangar skoðanir
Valgerður Bjarnadóttir skrifar í gær um beitingu þöggunar í íslenskri stjórnmálaumræðu. Þar sem skoðanir eru flokkaðar í góðar skoðanir og slæmar skoðanir. Í frmhaldi eru viðkomandi flokkaðir hvort þeir eru á vetur setjandi. Þar rekur hún meðal annars sérkennilega framgöngu Sigmundar Davíðs í afstöðu til Ann Sibert fulltrúa í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands og Þórólfs Matthíassonar prófessor í hagfræði. En formaður Framsóknarflokksins vill helst reka þau úr starfi vegna þess að þau hafa "rangar skoðanir"
Í athugasemdum skrifar Hreinn Loftsson frásögn þar sem að hann greinir frá samskiptum sínum við Hannes Hólmstein Gissurarson og leyfði sér að fara gegn leiðtoga sínum Davíð Oddssyni með því að mótmæla meðferð íslenskra stjórnvalda á Falun Gong hópnum hér um árið. Að sjálfsögðu sá Hannes eftir þessu eftir að hafa fengið trakteringar frá Davíð og sór þess eið að hann myndi fylgja honum í einu og öllu jafnvel þó það snérist um að berja niður friðsöm mótmæli fólks sem vill aukin lýðréttindi og losna undan oki kommúnismans. Fylgispekt við foringja var æðri lífsafstöðu.
Þetta tónar vel við fyrri færslu mína hér fyrir neðan um að þöggunin sé helsta ógnin við heilbrigt lýðræði hér á landi. Hroki Sjálfstæðisflokksins og sannfæring hefur gefið af sér þöggunartilhneigingu. Ótti vinstrisinna við fólk og flokka með rangar skoðanir hefur stuðlað að því að vinstri menn voru lengst af sundurleit hjörð í eyðimörkinni í leit að vatni. Heilbrigt lýðræði var það vatn sem að Samfylkingin var stofnuð til að veita þjóðinni. Flokkshollusta er slæm þegar hún fer að blinda mönnum sýn á persónuleg gildi og sannfæringu.
Grein Valgerðar Bjarnadóttur er mjög þarft innlegg í þessa umræðu. Hún er líka verðug áminning um að Samfylkingin má aldrei gleyma því að fjölbreytileiki í skoðunum á að vera helsti styrkur flokksins.
1.2.2010 | 16:54
Þöggun er versti óvinur lýðræðisins, nærð af hroka og ótta
Það er þreyta hjá fólki gagnvart flokkum og pólitík. Því finnst að þetta sé bara einhver veruleiki sem það hefur ekki nein tengsl við. Það er lítið svigrúm á gagnrýna umræðu innan flokka eða að flokkar leiti eftir og hlusti á almenning.
Flokkar verða því oft sjálfhverfar stofnanir. Það birtist meðal annars með þeim hætti að sitjandi sveitarstjórnarmenn voru almennt á móti persónukjöri á meðan að hinn almenni kjósandi vill hafa slíkt val. Sitjandi valdaöfl vilja hafa alla þræði á sinni hendi og hafa ekki þolinmæði gagnvart fjölbreytileika í skoðunum.
Skýrasta dæmið um þetta er hvernig haldið var á endurskoðunarvinnu innan Sjálfstæðisflokksins. Þar leiddi Vilhjálmur Egilsson nokkuð vandaða vinnu þar sem að farið var yfir veikleika og styrkleika í starfi Sjálfstæðisflokksins. Að sjálfsögðu var þar margt sem að betur hefði mátt fara. En á endanum þoldi umræðan ekki dagsljósið.
Hin hrokafulla hópsál Sjálfstæðisflokksins náði sér á skrið þegar Davíð Oddssson birtist utan dagskrár í pontu á landsfundi flokksins og skaut föstum skeytum út og suður. Gerði lítið úr endurskoðunarvinnunni og réðst persónulega á Vilhjálm Egilsson. Þetta dugði til að þagga niður allar gagnrýnisraddir og nú er keyrt áfram á endurnýjuðum hroka.
Flokksstarf til vinstri hefur oft nærst á óttanum. Ekki síst að það sé mögulegt að einhverjir með "rangar skoðanir" nái of miklum áhrifum í flokksstarfinu og allt þurfi að leggja á sig til að tryggja kosningu þess sem að hefur "réttar skoðanir". Þess vegna var krafan um lýðræðið helsti ótti flokkseigendanna í Alþýðubandalaginu.
Samfylkingin er byggð á kröfunni um lýðræði. Hennar helsti veikleiki er að vera stofnuð af flokkum en ekki fólki. Þess vegna vantar tengslin við grasrót, vonir og væntingar, tár og svita. Það þarf að ljúka því verkefni sem stofnað var til að Samfylkingin sé sá flokkur sem að er í bestum tengslum við kjósendur og þar sem ríkir vitund og hefðir öflugs lýðræðis.
26.1.2010 | 23:11
Drossíur velferðarinnar
Það er ánægjulegt að Saab verksmiðjurnar munu halda lífi. Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga tvisvar Saab bíla og tvisvar Volvo. Átti Saab 96 þar sem hægt var að skipta um gíra án þess að kúpla, átti líka Volvo Amason sem var svo sannarlega fasteign á hjólum.
Þessir tveir bílar eru þeir einu sem ég hef séð eftir að selja af hátt í tuttugu bílum sem ég hef átt um dagana. Sannir gæðingar með góða sál.
Spyker kaupir Saab | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sjálfstæðisflokkurinn í Mosó er búin að vera með endalausar rakettur og endurteknar undirskriftir í þessu máli. En staðreyndin er sú að verkefnið hefur tafist. Bygging hússins átti að hefjast síðastliðið vor. Framkvæmdastjóri Primacare sagði síðastliðið vor að það ætti að skýrast um sumarið hvort næðist að fjármagna verkefnið. Þess vegna var komin þörf á að setja upp nýja flugeldasýningu í málinu.
Enn er því haldið að okkur að þetta sé allt mest og best í hemi, þó fjármögnun verkefnisins sé tveimur árum síðar óljós. Lóðargjörningurinn núna auðveldar veðsetningar fyrirtækisins á landi Mosfellsbæjar uppá 400 milljónir. Það er aðalatriði þessarar fréttar. Veit ekki hvort nokkuð er stórkostlegt við það. Þetta er afbrigði frá því sem hefur viðgengist. Gæti sýnt að fjármögnun hefur ekki gengið sem skyldi og að verkefnið er í meiri vanda en búist var við.
Við lestur þessarar fréttar er því allt í lagi að setja upp sólgleraugu til að fá ekki ofbirtu í augun. Hún er svolítið 2007 í eðli sínu.