Réttlæti og jöfnuð

Fyrir rúmum þrjátíu árum eignaðist fólk húsnæði með því að skuldirnar eyddust á báli verðbólgu. Árið 1979 er verðtryggingu komið á til að taka á þessari óeðlilegu tilfærslu eigna. Nú er vandamálið með öfugum formerkjum. Síðustu mánuði hefur verið mikil verðbólga og er verðtryggingin að éta upp eignarhluta fólks í íbúðarhúsnæði.

Hópurinn sem eignaðist húsnæði á auðveldan hátt gat lagt fyrir í sparnað í staðinn. Á sama tímabili var eignaskattur afnuminn. Tekjur af fjármagni eru einungis brot af því sem innheimt er af launatekjum. Samstaða hefur ríkt um að vernda sparífé landsmanna. Hér þurfa að verða eðlisbreytingar á skattakerfi þannig að fólk sem að leggur af dugnaði stærstan hluta tekna sinna í íbúðarhúsnæði sjái samt eignarhluta sinn í eigninni minnka á hverjum greiðsluseðli.

Það er sannfæring mín að Samfylkingin er á réttri leið með hugmyndum um greiðsluaðlögun og vaxtabætur. En hún þarf að vera meira afgerandi í að boða réttlátar eðlisbreytingar á skattkerfinu. Í prófkjöri Samfylkingarinnar í Kraganum er ég með slíkar áherslur. Eigendur húsnæðis geta ekki einir tekið á sig áhættu af verðlagsbreytingum. Hreinsa þarf af lánum þær viðbætur sem hafa lagst á höfuðstól í óðaverðbólgu síðustu mánaða.


mbl.is Hækki skatta og tvöfaldi vaxtabætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hreinsunarstarf

Hugmyndafræði Sjálfstæðismanna gekk út á að breyta Íslandi í alþjóðlega skattaparadís. Hannes Hólmsteinn talaði iðulega á þeim nótum að slík þróun væri æskileg og myndi laða að erlent fjármagn. Engar hindranir á fjármagn og ósýnilegar hendur.

Margt bendir til að íslenskt fjármálakerfi hafi verið flækt inn í vafasöm tengsl við skattaskjól erlendis, færslur KB tengdar Katar og Jómfrúareyjum, tengsl Landsbanka við rússneskt peningaþvætti. Þetta þarf að upplýsa og rannsaka.

Í slíkri vinnu er mikilvægt að hafa hér ríkisstjórn sem gætir hagsmuna fólks og þjóðar en er ekki hluti af tengslanetinu. En sennilega fáum við ekki heimildir til að yfirtaka búlgarska símann til að borga upp IceSave skuldir?

Það er mikill alþjóðlegur þrýstingur að uppræta skattaskjól. Við erum orðin hluti af einu alþjóðlegu fjármálakerfi. Þar þarf að ríkja gegnsæi og heilbrigði. Því er margt sem bendir til að fjármálaveldi Sviss gæti hrunið í slíkri hreingerningu. 


mbl.is Heimild til að frysta eignir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðir landar

Pembina1Frændur okkar í Manitoba eru margir áhrifamiklir og ætla að styðja við bakið á Íslendingum í atvinnuleysinu. Það er góð tilbreyting fyrir til dæmis ungt fólk að fara vestur um haf, kynnast heiminum, ná góðum tökum á enskunni, eignast nýja vini. Muna bara að koma aftur til landsins. Þrengingarnar nú mega ekki leiða til varanlegs landflótta. Árið 1983 fór ég til háskólanáms við Manitobaháskóla. Það var mjög skemmtileg reynsla. Var fréttaritari útvarps og sendi þó nokkuð af pistlum. Einnig var gerð þáttaröð sem kallaðist "Af Íslendingum vestanhafs". Það voru tíu þættir. Þá keypti ég mér mótorhjól og fór alla leið til Churchill við Hudson Bay.

BoggiGulliFljótlega eftir komuna hófum við Birgir Guðmundsson stjórnmálafræðingur á Akureyri búskap í "townhouse" við Pembina Highway. Þetta var glæsileg íbúð og ég var "strákurinn" meðal hóps okkar frá Gamla landinu. Ég var bara 22 ára. Leigði einnig með Borgþóri Magnússyni (við erum á myndinni) plöntuvistfræðingi og Jónasi G Halldórssyni sálfræðingi. Þarna voru um tíu Íslendingar í námi sem héldu vel hópinn. Einnig voru nokkuð mikil tengsl við aðra Íslendinga sem höfðu flust þangað og svo auðvitað Vestur-Íslendinga. Fyrri veturinn minn þarna var Baldur Hafstað að leysa Harald Bessason af sem yfirmaður Íslensku deildarinnar við háskólann.

Haraldur var miðpunktur alls starfs meðal Vestur-Íslendinga, þekkti betur sögu, ættir og þræði fólksflutninga heldur en flestir aðrir. En Íslendingar höfðu víða komist til áhrifa innan fylkisins og í Kanada. Þar má nefna Kristjánsson bræður frá Gimli sem að mig minnir voru fimm og allir luku doktorsprófi. Ég kynntist einum þeirra Albert Kristjánssyni af tilviljun á leið í banka. Við stóðum fyrir utan dyrnar upp úr klukkan níu og hann var enn lokaður. Hann horfir á mig snöggt, kankvís maður um sextugt og segir "I thought the bank opened at nine  o'clock". Ég svaraði "I thought so too!". Hann vatt sér þá snöggt að mér og rétti út höndina og sagði "Komdu sæll og blessaður, Albert Kristjánsson heiti ég". Þekkti framburðinn. Jafnvel afkomendur íslenskra innflytjenda í þriðja lið höfðu sín framburðareinkenni.

GunnlBaldurHringdi í hann seinna varðandi þáttagerð og vildi fá hann í viðtal vegna þáttana um Vestur-Íslendinga. Hann var snöggur til svars og sagðist ekki vera nógu gamall, ég ætti að tala við Baldur bróður hans (við mótorhjólið). Það varð raunin og fór ég á mótorhjólinu upp að Gimli og gisti hjá honum í húsi fjölskyldunnar. Hann hafði um langt skeið verið hagfræðiprófessor, mikilsmetin ráðgjafi víða um heim. Þessi maður var sérlega hlýlegur og greindur. Urðum við ágætir vinir á stuttri dvöl. Hann sagði mér frá því þegar hann var rekinn frá háskólanum í North-Dakota á McCarthy tímabilinu. Hann sagðist ekki hafa tilheyrt neinu stjórnmálastarfi en einungis verið að kenna nemendum gagnrýna hugsun. Ég gat síðan ekki notað hljóðupptökuna fyrir útvarp því þættirnir urðu að vera íslensku. En hef alltaf haft þá tilfinningu síðan að ég ætti eftir að gera þessum merka manni betri skil.

BjossiBombEftir dvölina hjá Baldri fór ég til Björns Jónssonar læknis í Swan River, "Bjössa bomb". Gisti þar og tók áhugavert viðtal við hann. Bjössi hafði á tímabili átt í baráttu við áfengishneigð og því greinilega haft þörf á að beina virkninni í annan farveg. Hann var skurðlæknir, flugmaður, bátamaður og síðast en ekki síst tileinkaði hann sér fræði sem hann skrifaði bók um og kallaði "Stjarnvísi í Eddum". Þar heldur hann því fram að Askur Yggdrasils, Mímisbrunnur og fleiri hugtök norrænnar goðafræði hafi verið kennileiti víkinga til að þekkja stjörnur himinsins. Hann rölti með mér út í skóg þegar að kvölda tók benti til hægri og vinstri af mikilli ástríðu til að útskýra samsvörun við kennileiti víkinga á himinhvolfinu.

Í viðtalinu sagði hann mér frá sérstæðri læknisvitjun lengst út í skóg með uxakerru til úkraínskrar fjölskyldu. Þar tók hann þá ákvörðun að brjóta læknaeiðinn og aflífa mann sem hrópaði af angist og kvölum vegna langvinns krabbameins. Hann sagðist hafa skynjað úr augnsvip allra, kröfuna um að leysa manninn frá þrautum. Ákvað að gefa of stóran lyfjaskammt. Skömmu síðar var honum boðið að borða með stórfjölskyldunni. Kvöldið þróaðist þannig að dreginn var fram einhver heimagerður úkraínskur mjöður og þar hófst á endanum kappdrykkja. En Bjössi sagði að hann hefði haft þá alla nema húsfreyjuna. Hún hefði drukkið hann undir borðið.

JohnsonGeorge Johnson hét læknir frá Gimli sem hafði verið heilbrigðisráðherra í fylkinu og varð á þessum árum gerður að fylkisstjóra. Kona hans var Doris Blöndal (Gillian dóttir þeirra teiknaði myndina) Þau voru bæði miklir Íslendingar og var Doris meðvituð um að það gæti talist fínt að vera Blöndal. Kynntist fjölskyldunni í gegnum dóttur þeirra í háskólanum, en við urðum nánir vinir. Önnur dóttir var Janis Johnson öldungadeildarþingmaður í Ottawa. Hún var skemmtileg blanda af íhaldi og kvenréttindakonu. Bæði glæsileg og skemmtileg, hörð og hlýleg. Hún var kosningastjóri Brian Mulroney þegar að hann sigraði og varð forsætisráðherra íhaldsmanna 1985. Hringdi í hana klukkan fimm að morgni þegar úrslitin lágu fyrir og viðtal kom við hana í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins.

Síðar árið 1993 fór ég með Lífeðlisfræðistofnun Háskóla Íslands til Winnipeg að vetri til í vísindaleiðangur vegna samanburðarrannsóknar á Vestur-Íslendingum og Héraðsbúum. Þá var heilsu George mikið farið að hraka, en hann leit við á rannsóknarhópinn. Man að ég var í lungnamælingum og það voru einmitt lungun sem voru að angra hann. Bað hann mig að fá mælingu og spurði svo með tóni sem að sagði mér hvert svarið ætti að vera "It´s not so bad is it?". Hann var dáin rúmu ári síðar.

HaroldFinnurÁður en ég fór vestur um haf vissi ég af frændfólki í móðurætt og föðurætt. Frændi minn Harold Bjarnason hafði verið einn fyrsti Vestur-Íslendigurinn til að fá eins árs námsstyrk til dvalar á Íslandi. Þegar ég kom út hafði ég fljótlega samband við hann, en hann var þá framkvæmdastjóri fyrir kanadískum hveitiútflutningi (Canadian Wheat Board). Áður hafði ég kynnst systrum hans frá Vancouver þegar þær komu til landsins. Við áttum ágæt samskipti og gaman að því þegar Finnur föðurbróðir, Anna María kona hans og Martha dóttir þeirra komu í heimsókn til okkar til Winnipeg (myndin er af Harold og Finni á göngu fyrir framan Fort Garry safnið).

Harold varð aðstoðarlandbúnaðarráðherra í landstjórn Mulroney, en síðar sneri hann aftur til Winnipeg og varð rektor landbúnaðarháskólans (School of Agriculture, University of Manitoba). Hitti hann fyrir nokkrum árum þegar hann kom í stutta heimsókn með fyrirlestur, ásamt þvi að fara á Hvanneyri og Hóla með viðræður um samstarf. Fengum okkur að borða í Perlunni. Hann sýndi mér teikningu af fyrirhuguðum glæsilegum sumarbústað við Winnipeg vatn. Rætur hans lágu til Gimli og Íslands

Landnám Íslendinga vestanhafs er merkileg saga. Þarna á milli liggja enn strengir og sterk tengsl. Þökkum löndum okkar og frændum fyrir stuðninginn.


mbl.is Samkomulag um atvinnumöguleika í Manitoba
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjósum ríkisstjórn

Mikilvægt er fyrir kjósendur að vita hvaða ríkisstjórnarsamstarf er verið að velja þegar krossað er við listabókstaf í kjörklefanum. Telja má víst að um 70% kjósenda vilji sjá ríkisstjórn með félagslegar og lýðræðislegar áherslur leiða endurreisnarstarfið.

Það væri mikil gæfa fyrir Ísland að sú hefð næðist að ef Samfylking og Vinstri grænir ná góðri kosningu að þá myndi þeir ríkisstjórn. Það er staðreynd að ekki tókst að sameina allt félagshyggjufólk undir einu merki en staðan bíður upp á spennandi tækifæri.

Systurflokkarnir tveir myndu stilla upp mismunandi málefnum. Kjósandinn ætti því val um tvo flokka, sem væru ákveðnir að vinna saman í ríkisstjórn. Til að auka vald kjósandans enn meira myndu listarnir báðir bjóða upp á persónukjör.

Þetta gæti gefið af sér vissa festu og jafnframt fjölbreytileika. Það er mikilvægt að mynda sterka félagshyggjustjórn tveggja flokka eftir kosningar, þar sem ríkir andi gróskumikillar endurnýjunar í áhöfninni.


mbl.is Gæti orðið mesta vinstri sveifla sem sést hefur hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæði og einhliða upptaka evru

Það hugtak sem að er á mestum villigötum í íslenskri stjórnmálaumræðu í dag er sjálfstæði. Í fyrsta lagi er það ekki boðlegt að halda því fram að lönd eins og Frakkland, Þýskaland og Ítalía séu ekki sjálfstæð, þó þau hafi valið sér samstarf innan Evrópusambandsins. Í öðru lagi er það óljóst hvað það er í samningi um aðild að Evrópusambandinu sem gerir okkur meira ósjálfstæð heldur en aðrar alþjóðlegar skuldbindingar.

Þeir sem að eru hreinir fullveldissinnar hljóta að vilja segja okkur frá ýmsum öðrum alþjóðlegum skuldbindingum. Sjálfstæðið sé algjört og þjóðin eigi ekki að lúta neinu erlendu valdi. Í þeim pakka væru Sameinuðu þjóðirnar, Atlantshafsbandalagið, EES samningurinn og margskonar samningar um norræna samvinnu. Samkvæmt þessu væri hægt að halda því fram að Ísland hafi bara verið sjálfstætt í tvö ár. Frá árinu 1944 þegar lýst var fullu sjálfstæði til 1946 þegar við gengum í Sameinuðu þjóðirnar.

Í reynd eru fullveldissinnar að tala fyrir því að taka frelsi og sjálfstæði af einstaklingum í nafni frelsis og sjálfstæðis landsins. Sameiginlegt er með flestum þessum samningum að þeir tryggja okkur ýmiskonar réttindi. Takmörkun á frelsi eða skuldbindingin sjálf er grunnurinn að tækifærum og réttindum einstaklinga. Þannig mun sjálfstæði Íslands ekki skerðast meira en nemur ábyrgðinni að gangast undir sömu leikreglur og tíðkast meðal annarra ríkja í álfunni.

Samkvæmt kvöldfréttum Ríkisútvarpsins er það til skoðunar innan Evrópusambandsins að heimila einhliða upptöku evru, vegna gjaldeyrishruns í Austur-Evrópu. Það er mín skoðun að eftir að við erum búin að styrkja gengi krónunnar, þá eigum við að skoða það að taka upp evru einhliða. Með þeim hætti næðist meiri stöðugleiki á myntkörfulán til lengri tíma, verðbólga yrði sú sama og á myntsvæðinu, vextir yrðu lágir, við losnuðum undan verðtryggingu. Sú ákvörðun myndi stuðla að auknu frelsi og sjálfstæði Íslendinga til athafna og meiri tækifærum fyrir komandi kynslóðir.


Ráðherraræði, flokksræði, þingræði

Nú reynir á að ríkisstjórn, flokkar og þingmenn bretti upp ermarnar fram að þinglokum. Krafan í landinu er að þingmenn fylgi sannfæringu sinni og nýjum tímum fylgi aukin lýðræðisvitund. Hluti þess er að efla sjálfstæði þingsins og að sjá markvissan árangur af störfum þess. 

Framsóknarflokkurinn kemur fram þessa dagana eins og sá aðili sem hefur alla þræði í hendi sér. Þeirra hlutur og loforð gengur eingöngu út á að verja stjórnina vantrausti. Við erum óvön þeim vinnubrögðum sem ríkja þurfa þegar minnihlutastjórn er við völd. Þar getum við lært af norrænum frændum okkar. 

Ríkisstjórnin á ekkert frekar að leita til þingmanna Framsóknarflokks heldur en annarra þingmanna til að tryggja meirihluta fyrir góðum málum. Þingmenn eiga að geta lagt til mál sem að fá stuðning ríkisstjórnar. Þingið má ekki vera afgreiðslustofnun fyrir lög úr ráðuneytum, sem að hafa fengið blessun í flokkum þar sem formenn lofa hlýðni sinna þingmanna


mbl.is „Þetta var góður fundur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Út með verðtryggingu af íbúðalánum

Var að koma úr Kópavogi af fyrsta opna fundi vegna prófkjörs Samfylkingarinnar. Það jaðraði við að það væri sviðskrekkur í mér. Óttaðist hanaslag þar sem hver ætti að selja sig og sitt á úthlutuðum þremur mínútum. Hamraborgin með sínum ferköntuðu útlínum er heldur ekki mjög ljóðræn og slökunarhvetjandi. Þá kom lagið "Undir regnbogann" inn á rásina í Pöndunni minni og bræddi upp klakaböndin í sálartetrinu. 

Mikið var talað um nauðsyn þess að leysa úr vanda heimilanna í landinu. Aðferð Framsóknarmanna um að gefa nammi á línuna með loforðinu um niðurfellingu 20% af skuldum var gagnrýnd sem ódýr kosningabrella. Hinsvegar finnst mér persónulega að Samfylkingin þurfi að vera þarna meira afgerandi. Það er ekki nóg að bjóða upp á greiðsluaðlögun og vaxtabætur á meðan verðtryggingin er alltaf að hækka heildartöluna.

Menn hafa orðið fyrir misjafnlega miklu tjóni af völdum bankahrunsins. Hornsteinn jafnaðarstefnu er ævinlega leitin að hinum hreina tóni réttlætis. Eigendur hlutafjár töpuðu miklu. Þeir vissu að þeir væru að taka áhættu. Þeir sem tóku myntkörfulán vissu af gengisáhættunni. Þó ég vilji sjá okkur vera hluta af stóru myntsvæði til lengri tíma litið þá mun krónan styrkjast og gefa okkur olnbogarými. Á meðan króna styrkist, þá er jen og franki að sogast inn í vandamál.

Sparifjáreign var tryggð, en verðtryggingin á þessum verðbólgutímum er að éta upp eignarhluta okkar í fasteignum. Við þessu þarf að bregðast og finna einhverjar leiðir til að miða við vísitölu á einhverri dagsetningu fyrir hrun og afskrifa það sem bæst hefur við. Það er grátlegt að horfa á eftir þeim fjármunum sem voru okkur mikilvægastir og útheimtu dýrmætustu svitadropana við að eignast húsnæði eyðast á báli, ásamt öðrum vanda.

Til að fá fleiri spil á hendi þarf að stórauka framleiðslu í landinu, innleiða að nýju verkmenningu, efla nýsköpun og sprotafyrirtæki. Mikilvægt er að þeim sem hafa fjárhagslegt svigrúm verði gert mögulegt að borga fyrir opinbera þjónustu. Hluti þess hóps sem að á óskertan sparnað vill hugsanlega leggja sitt af mörkum í endurreisnarstarfinu með því að afþakka stuðning ríkisins vegna tryggingagreiðslna, námskostnaðar barna og annarrar samfélagsþjónustu.


Jón Baldvin í öruggt sæti

Fyrir fimm dögum setti ég inn færslu þar sem að ég varaði við því að Jóhanna og Ingibjörg færu tvær að hanna einhverja atburðarás. Annaðhvort treysti Ingibjörg sér að gegna starfinu eða ekki. Ef svarið yrði neitandi að þá yrði að opna á lýðræðislegt uppgjör með formannskjöri. Síðan gekk þetta eftir og þá var ég enn nokkuð efins um þetta fyrirkomulag forsætisráðherraefni og formaður væri það besta og nægjanlega hreint yfir þeirri ráðstöfun.

Útspil Dags að gefa kost á sér í varaformannsstöðuna bætir verulega úr áhyggjum mínum varðandi skort á uppstokkun í forustunni. Athuga ber að veikindi Ingibjargar og kosningar bar bæði brátt að og held ég að skipan forustumála verði til mikils sóma og tekur tillit til veikinda formannsins. Eftir stendur að Jón Baldvin þarf að draga formannsframboð sitt til baka svo að honum verði ekki hegnt fyrir með litlu fylgi í prófkjörsframboði í Reykjavík. Þar á hann skilið að vera í öruggu sæti. Hann ásamt öðrum tryggir að Samfylkingin sé farvegur hugmyndalegs uppgjörs og heilbrigðasti vettvangur lýðræðis.

Ótrúlegt að lesa sum skrif sem að dæma hann úr leik vegna aldurs. Hann er einn öflugasti ræðumaður landsins og flottur penni. Hann hefur viljann og heilsuna. Líkt og því er hampað að jafnræði eigi að ríkja milli kynja að þá held ég að ef að breidd í aldri skiptir einhverju máli þá geti það ekki verið nema til góðs. Ef til vill ættum við að innleiða fléttulista að í sæti væri raðað þannig að sitt á hvað væru einstaklingar undir eða yfir fimmtugu. Er það nokkuð vitlausara heldur en að raðað sé sitt á hvað eftir kyni?


mbl.is 20 bjóða sig fram fyrir Samfylkingu í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Formið ákveðið

Það eru fimmtán manns sem gefa kost á sér í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi. Hópurinn var boðaður í myndatöku á Grand Hótel. Það var ánægjulegt að sjá þennan myndarlega hóp. Okkur voru í framhaldi kynntar leikreglurnar af kjördæmisstjórn. Auglýsingar eru takmarkaðar og svo er fléttulisti. Það er mjög gott að vera laus undan einhverju peningakapphlaupi og á fundinum kom fram að enginn hefur áform um að setja upp kosningaskrifstofu vegna prófkjörsins.

Ég tel að ákvörðun lista með uppstillingarnefnd sé versti kostur,  síðan er til eitthvað sem nefnist forval og skilst mér að það sé ekki mikill munur á slíku hjá VG og því sem kallast prófkjör hjá Samfylkingu. Félagsmenn kjósa milli nafna sem gefa kost á sér. Ég hef enn væntingar um að persónukjör verði tekið upp í komandi kosningum. Þá er verið að færa aukin völd inn í kjörklefann. Milliliðalaust umboð sem að kjósandi gefur frambjóðanda.

Eftir þennan fyrsta dag í prófkjörsundirbúningi, sem ég ætla reyndar að hafa mjög lágstemmdan, velti ég nokkrum hlutum fyrir mér. Ég held að það sé í fyrsta lagi útilokað að sigra slíkt prófkjör ef maður býr í Mosfellsbæ, sama hversu vel kynntur einstaklingurinn er eða vinnusamur í baráttunni. Félagsmenn í Kópavogi og Hafnarfirði kjósa sína fulltrúa og eru hlutfallslega það sterkir að þeir eru ráðandi.

Hættan við prófkjör er líka sú að það ýti einstaklingum í sundur og því myndist ekki nógu góð hópstemming. Persónukjör myndi að nokkru draga úr þessu þar sem að frambjóðandi þarf að huga að tvennu, að efla umræðu í flokknum og leita eftir umboði hins almenna kjósenda. Það eru meiri líkur á að menn geti hafið sig upp fyrir sitt "ego" og hrepparíg. Að málefnin væru í forgrunni. 


Ég er í framboði

Ákvað í gær að gefa kost á mér í 3-5 sæti Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi. Gerði það eftir að ég frétti að engin af forystufólki í Mosfellsbæ ætlaði að taka þátt í prófkjöri flokksins. Með þessu vil ég leggja mitt á vogarskálarnar að hægt sé að velja úr fjölbreytilegum hópi frambjóðenda.

En kæri lesandi, ég þurfti að taka mig á við að skrifa titilinn. Vildi fyrst hafa hann; "Gefur kost á sér í prófkjöri". En áttaði mig svo á því að útilokað væri annað en nota fyrstu persónu fornafnið "ég". Nú er ákvörðunin tekin og ég sæki fram með herlúðrum og trumbuslætti.

Stjórnmál eru leiðir fólks til að vera mótandi um eigið líf og umhverfi. Þau hafa verið mér ástríða um langt skeið. Var róttækur Framsóknarmaður til tólf ára aldurs, en reyndi síðar að vera menningarviti og Alþýðubandalagsmaður, en fann ekki reiðina.

Upp úr tvítugu sá ég að fjölbreytileiki í viðhorfum innan flokks er styrkleiki en ekki veikleiki. Að nauðsynlegt væri að fólk sem stendur fyrir félagslegar og lýðræðislegar áherslur myndi öfluga heild. Fyrsti boðberi slíkra viðhorfa var Þjóðvaki og var ég þar á lista.

Kjarni þess sem ég vil setja í forgang er að skilgreina bestu leiðir til að endurskoða lífstíl okkar svo að hann ógni ekki heilsu og náttúru. Hvernig við innleiðum ríkulegt samfélag velsældar án óhófs og skilum lífvænlegum auðlindum til komandi kynslóða.

Það eru spennandi tímar framundan. Í landinu er nóg af flestum veraldlegum gæðum, sem fást fyrir peninga. Stokka þarf spilin upp undir merkjum jafnaðarstefnu, þar sem innleitt er vægi manngildis og sköpunar í stað neysluhyggju og sóunar.

Menntun


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband