Pennsylvanía skapar sigurvegara

Útgönguspár í Pennsylvaníu eru það afgerandi að ljóst má vera að 44. forseti Bandaríkjanna verður Barack Obama. Jafnframt er ljóst að demókratar ná afgerandi meirihluta í þinginu.

PennsylvaniaVið bjuggum um skeið í Pittsburgh, Pennsylvanía og frá þeim tíma hef ég haft áhuga á bandarískum stjórnmálum. Í Philadelphia borg og Pittsburgh eru vígi demókrata, en republíkanar eiga mikið fylgi í miðhlutanum.

McCain/Palin framboðið bjóst við sóknarfærum í fylkinu enda hafði Sarah Palin komið þangað ellefu sinnum á síðustu dögum.

Farin að sofa -- sáttur.


Að vera krati

Í roki og rigningu á krepputímum eru kjöraðstæður fyrir naflaskoðun, uppgjör og endurmat. Bjarni Harðarson þingmaður og Laugvetningur, vinur og félagi, skrifaði í sumar að ég væri "krati af guðs náð". Þó við fyrstu sýn gæti þetta verið hrós og ekki síst að benda á að slíkir séu guðlegir. En í uppsveitum Árnessýslu og Skaftafellssýslum austanverðum var það ekki hrós að teljast af því sauðahúsi. Því hef ég hann grunaðan um að hafa með húmor og öfugmælum verið að segja að skaparinn hafi þarna verið nískur á pólitískar innréttingar.

"Að vera í sambandi við annað fólk, það er lífsnauðsyn. Ég er félagshyggjumaður eins og hann afi minn." segir í Stuðmannabrag. Á mínu æskuheimili var öll fjölskyldan samstíga í trú á sauðkindina og Framsóknarflokkinn. "Nei, hún er frjálslyndur félagshyggjuflokkur eins og Framsóknarflokkurinn var" sagði Steingrímur Hermannsson spurður um Samfylkingu sonar hans og hvort uppeldið hafi mislukkast. Sennilega var Framsóknarflokkurinn á vissan hátt hið skynsamlega stef á síðustu öld, milli stefnu kommúnista um einn allsherjar ríkisbúskap og íhaldsins um að láta taumana í hendur kaupmanna og heildsala.

Vanskaplingar eða rýrir hrútar voru nefndir Gylfi (Gíslason) eða Jón Baldvin í sveitum lands. Bændur hossuðu sér af kátínu yfir gríninu. Jón sagði mér að hann hafi þó farið keikur á bændafundi og predikað um nauðsynlegar umbætur á landbúnaðarkerfinu. Blómlegri byggð gæti nú verið í sveitunum ef að stuðningur ríkisins hefði verið í formi búsetustyrkja frekar en framleiðslustyrkir á kjöti eða mjólk, sem að iðulega seldist ekki. Jón sagðist eitt sinn hafa verið á fundi í Skagafirðinum og eftir ræðu hans, þá komu bændahöfðingjarnir ævareiðir í pontu og formæltu "krataforingjanum", en þó var þar reiðust kona sem kom á eftir körlunum og talaði til bænda og sagði; "Hvurslags liðleskjur eruð þið, afhverju drekkið þið ekki manninum!".

Meðal frændþjóða okkar á Norðurlöndum og víðar um Evrópu hafa þróast þjóðfélög með hvað mestum lífsgæðum í veröldinni. Góð blanda af félagslegu öryggi og frelsi einstaklings til athafna. Hinn lýðræðislegi farvegur hefur skapað hina sósíaldemókratísku áherslur sem þriðju leiðina. Mótleik við kommúnisma og kapítalisma. Eftir hrun kommúnismans og Sovétríkjanna elfdist trú á frjálshyggju, markaðshyggu og efnishyggju. Þar gengu Íslendingar lengra og ákafar fram en aðrar þjóðir. Afleiðingar þess ójafnvægis, pólitískrar stefnu Hannesar Hólmsteins og Davíðs Oddssonar, munum við glíma við næstu áratugina.

ObamaÞað er ef til vill bara allt í lagi að vera krati, ef það merkir að vilja opnar og lýðræðislegar áherslur í pólitík. Þegar ég bjó í Bandaríkjunum þá varð ég demókrati og mikill aðdáandi Bill Clinton forseta. Man að hann var svefnlaus í fimm daga við að vinna að samningum um frið á Norður - Írlandi, en svo kom George Bush með vanhugsaðan byssu- og bófaleik sem stórskaðað hefur ímynd Bandaríkjanna. Því binda margir vonir við kjör Barack Obama nú í dag. Það væri mikill sigur fyrir manngildi og nýjar áherslur í veröldinni.

 

Kröftugt krataknús þegar Obama hefur sigrað!!!!


Hagsmunir á manna máli

ThorgerdurÞað er skondið að sjá hvernig hin ýmsu innmúruðu íhöld bregðast við áhuga Þorgerðar Katrínar á að flokkurinn endurmeti afstöðu til Evrópusambandsins. Þar koma ásakanir um svik og meldingar um að í æðum hennar renni kratablóð! Hún sé að svíkja hin borgaralegu öfl og vörn um sjálfstæði landsins.

Sömu Sjálfstæðismenn virðast ekki hafa neinar áhyggjur af því þó allt atvinnulífið sé orðið viðskila við stefnu Sjálfstæðisflokksins í Evrópumálum. Sömu aðilar virðast ekki hafa neinar áhyggjur af því að fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist ekkki nema 10% í aldurshópnum 18-24 ára. Þeir virðast vilja breyta flokknum í huggulegan lítinn frjálshyggjuklúbb undir forystu Hannesar Hólmsteins.

Þorgerður! Vertu velkomin í hóp rómantískra jafnaðarmanna sem tryggja vilja sjálfstæði og tækifæri Íslendinga í samstarfi þjóða innan álfunnar.


mbl.is Tilbúin að endurskoða afstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósmekklegur Schwarzenegger og kjánaleg Palin

obama sundSchwarzenegger sund

Mikið var gert úr því í gær að Schwarzenegger hefði lýst yfir stuðningi við McCain. Gert var út á ofurmennis ímynd ríkisstjórans og haft var eftir honum að Obama þyrfti að fara að mæta í ræktina til að þjálfa "spóaleggina" sem væru á honum. Trúlegt er að svona ósmekkleg athugasemd hitti hann sjálfan. Sá sem að hann var að lýsa yfir stuðningi við er ekkert unglamb. Schwarzenegger sjálfur er nú ekki heldur í neinu formi og hefur átt við hjartavandamál að stríða.

Það er því fátt sem að frískar upp á framboð McCain á síðustu metunum. Sarah Palin sem að átti að vera hinn kvennlegi ungómskraftur við hlið hans hefur höfðað til hörðustu íhaldsmanna, en í heildina komið illa út og verið bæði illa upplýst og kjánaleg. Ekki bætti ímynd hennar hrekkur sem gerður var í gær af kanadiskum útvarpsmönnum sem þóttust vera Nicolas Sarkozy frakklandsforseti.


mbl.is Obama enn með forskot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krónulaus Norðurlönd?

Samkvæmt kvöldfréttum Sjónvarps kostar það meðalfjölskyldu í Danmörku um 22 þús. íslenskar krónur á mánuði að hafa ekki tekið upp evru. Óróleiki í litlu hagkerfi hefur kallað á hærri vexti heldur en í evrulöndum.

Getur einhver reiknað ávinning íslenskra fjölskyldna, ef landinu hefði ekki verið stjórnað af þjóðrembum síðustu áratugi? Hvernig staðan væri nú á Íslandi, ef við hefðum verið meðal þeirra þjóða sem tóku upp hina sameiginlegu mynt í byrjun árs 1999.

Sjálfsagt hefðum við ekki farið í gegnum eins mikla þenslu og sýndarhagvöxt og ekki heldur farið í þennan djúpa dal. Við hefðum búið við stöðugleika, sem hefði hjálpað iðnaði og fyrirtækjum að byggja sig upp í takt við raunhæfar áætlanir. 

Ræddur hefur verið sá möguleiki að taka upp norska krónu hér á landi. En hún hefur sveiflast verulega með breytingum á olíuverði. Þannig að það gæti verið að fara úr öskunni í eldinn að hætta með gjaldmiðil sem oft hefur sveiflast með fiskverði í sveiflur eftir olíuverði.

Það gæti því verið full ástæða fyrir Norðurlöndin að sigla sameiginlega inn í myntbandalag Evrópu. Ásamt því að koma fram sem öflug eining innan samstarfsins í álfunni.


Nýsir hættir rekstri sundlaugar í Mosfellsbæ

LagafellslaugÍ dag tekur Mosfellsbær yfir allann rekstur Íþróttamiðstöðvar Lágafells af fyrirtækinu Nýsi. Gerður hafði verið samningur milli Mosfellsbæjar og fyrirtækisins um uppbyggingu og rekstur. Þarna var bærinn að þróa sig í nýjungum sem voru á nótum einkavæðingar. Að slíkur rekstur væri betur kominn í höndum einkafyrirtækja heldur en bæjarins.

Þessi þróun hlítur því að vera pólitísk vonbrigði fyrir einkavæðingar og verktakastefnu Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks í Mosfellsbæ. Eitt af því sem að langtímasamningurinn við rekstraraðila gerði að verkum var að með honum færðust nokkur hundruð milljóna kostnaður við uppbyggingu íþrótta-miðstöðvar yfir á hlutafélag.

Nú hefur í hinn einkavæddi rekstur víða snúið heim í faðm mömmu, ríkis eða bæja, sem tekur við öllum jakkafatadrengjunum sínum. En líkt og í tilfelli ríkisbankana þá mun almenningur í Mosfellsbæ væntanlega þurfa að bera ábyrgð á vanefndum og skuldum sem tengjast þessu verkefni. Því geta fylgt kostir að virkja sköpun einstaklinga en of langt virðist gengið þegar einka-fyrirtækjum er falin ábyrgð á eign, uppbyggingu eða rekstri innviða bæjarfélags. 


La vida es un carnaval - Helgarlagið

Celia Cruz var kölluð "Queen of Salsa" í Bandaríkjunum, en þangað flutti hún frá Kúbu. Hún vann til margra Grammy verðlauna og var heiðruð æðstu orðu listamanna af Bill Clinton forseta. Hún var fædd 1925 en dó árið 2003. Hún varð goð spænskumælandi Bandaríkjamanna og fólks af kúbverskum uppruna. Þegar hún dó fylgdust hundruðir þúsunda með minningarathöfn á Miami og útför í New York. Meðal þekktustu laga hennar eru La vida es un carnaval, Yo viviere, Rie y ilora. Eftirfarandi myndbönd sína hana taka lagið á Miami, Florida, vera heiðraða af fjölda söngvara á tónleikum og Victor Manuelle söngvara flytja henni hinstu kveðju við útförina.

 

 

 


Vinstri sveifla

Fálki2Ránfuglinn missir flugið. Hann hefur ekki skilað æti í búið og trausta fylgið virðist týnast af flokknum. Hannes Hólmsteinn og fleiri sem breyttu landinu í tilraunastöð frjálshyggju og Thatcherisma eru ekki lengur fengnir til fyrirlestra um vel heppnaða markaðshyggju og fiskveiðistjórnarkerfi. Traustið á flokknum gekk að stærstum hluta út á að hann væri líklegastur flokka til að halda veislunni áfram. Ganga lengra í neysluhyggju og efnishyggju. Nú virðast plástrarnir búnir, spilaborgin hrunin. krepptur hnefiFuglinn og flokkurinn sem áttu að vera tákn staðfestu og ábyrgðar er allt í einu tákn kaldra og ómanneskjulegra gilda.

Um langt skeið hef ég átt þann draum að hér væru tveir nokkuð stórir vinstri flokkar, sem ljóst væri að vildu vinna saman. Líkt og verið hefur raunin á hinum Norðurlöndunum og hefur gefið af sér kjölfestu sem að stendur nú mun fastari fótum en sú kjölfesta sem okkur var talin trú um aðRósin væri mest og best en birtist okkur í klæðalítilli afurð langrar stjórnarstefnu Sjálfstæðisflokksins. Það er þó visst áhyggjuefni að forysta VG virðist ekki vera í takt við kjósendur sína í Evrópumálum. Mikið er um reiði og óróa í landinu. Fylgisaukning VG tengist slíkri stemmingu. En þar er ábyrgðin mikil að bjóða upp á huggun, mannúð og lausnir. Ekki að kynda undir eldi óróleika og óvissu.


mbl.is Fylgi VG meira en Sjálfstæðisflokks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Ragnar og Evrópusambandið

Á síðustu árum hefur Ólafur Ragnar Grímsson forseti talað gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Talið að styrkur Íslands byggi á þeim sveigjanleika sem felist í fullu sjálfstæði. Nýta EES samninginn til aðgangs að innri markaði Evrópu, en jafnframt að nýta sér tækifæri sem felast í beinum fríverslunarsamningum við önnur ríki.

Eftirfarandi frétt er í Morgunblaðinu 6. maí 2005

Ekki ESB- aðild í fyrirsjáanlegri framtíðÓlafur Ragnar
Efnahagslífið á Íslandi mun ekki hafa hag af aðild að Evrópusambandinu og það er engin pólitísk ástæða fyrir aðild Íslands að sambandinu, að því er fram kom hjá Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, í ræðu í Lundúnum og sagt er frá í dagblaðinu Financial Times.

Blaðið hefur eftir Ólafi að hann sjái ekki að Ísland muni sækja um aðild að Evrópusambandinu í fyrirsjáanlegri framtíð. Það sé engin pólitísk ástæða fyrir aðild Íslands. Það gæti gerst einhvern tíma í framtíðinni og gæti þá byggst á því hvað gerist varðandi evruna og hver afstaða Noregs verður.

Ólafur bendir ennfremur á að í aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu séu fólgnir kostir aðildar að Evrópusambandinu, auk frelsis til að eiga í samskiptum við önnur ríki á eigin forsendum, eins og við Kína og Indland.

EvrópusambandiðÍ frétt Financial Times er einnig haft eftir honum að á síðustu árum hafi Ísland sýnt hvernig lítið ríki geti brugðist við hnattvæðingunni með skipulögðum og árangursríkum hætti hvað efnahagslífið snerti. "Sérhvert fyrirtæki í landinu hefur nú einstakt tækifæri til að koma sér á framfæri. Ný fyrirtæki geta nú farið inn á heimsmarkaðinn án tillits til þess hvar þau eru staðsett og fljótlega haft allan heiminn sem sitt markaðssvæði," segir Ólafur einnig í frétt Financial Times.
"

Í ljósi þessarar afstöðu forsetans nýtti ég tækifærið og spurði hann þegar hann kom á mánudag í heimsókn í skólann minn hvort hann muni beita sér gegn þjóðarvilja í þessu máli miðað við stuðning við aðildarviðræður og upptöku evru. Forsetinn sagði að það hafi verið skoðun sín að í möguleikum til beinna viðskiptatangsla við önnur lönd lægju mikil tækifæri, hinsvegar væri vissulega þörf á að endurmeta og ræða mál útfrá þeim miklu sviptingum sem verið hafa síðustu vikurnar. Tiltók hann í því sambandi sérstaklega vandamál tengd sjálfstæðri peningamálastefnu og gjaldmiðli.

Það væri verðugt hlutverk forseta Íslands að krefjast þess fyrir hönd þjóðarinnar að hún fái að taka lýðræðislega afstöðu til framtíðarstöðu sinnar innan Evrópu. Embætti hans gæti verið rétti aðilinn til að stuðla að upplýstri umræðu og málstofum um þetta efni. Framtíð Íslands liggur ekki í sjálfstæði landsins heldur miklu fremur tækifærum og sjálfstæði einstaklinga sem byggja landið.


Draumaland sveitarinnar í borginni

Varmársvæðið frá upptökum að ósum er lífæð Mosfellsbæjar. Fyrir íbúana sem vilja næra sig með heilsusamlegum lífstíl og upplifa hin fjölbreytilegu tengsl við náttúruna. Góðærisglíja og græðgi blinduðu sýn bæjaryfirvalda og verktaka á mikilvægi þessara verðmæta. Tákn Mosfellsbæjar Álafoss var niðurlægður með ósmekklegri og groddalegri stígagerð. Kvosin er enn sundurskorin og óljóst hvernig vegtengingu við hana verður háttað. Varðstaða um þessi gildi tapaðist.Tunguv-ASbreyting

Næsta stórframkvæmd sem mun verulega spilla Varmársvæðinu er lagning Tunguvegar um árósasvæðið. Varmársamtökin héldu nýlega opinn málfund um lagningu þessarar tengibrautar frá Leirvogstungu að Skeiðholti. Frummælendur voru Valdimar Kristinsson blaða- og hestamaður og Ólafur Arnalds prófessor í umhverfisfræði. Mikil ánægja var með innlegg þeirra og fundarmenn hvöttu þá til að koma máli sínu á prent.

Ólafur Arnalds birti þann 20. október grein í Morgunblaðinu, sem nefnist Tunguvegur: Skipbrot umhverfisstefnu. Þar rekur hann óvandaðan samanburð á valkostum í umhverfisskýrslu. Þar sem mikilvægi svæðisins og framtíðarlandnýting fá ekkert vægi. En umhverfisskýrsla tengd Helgafellsvegi var sama marki brennd. Einungis horft til áhrifa af malbikuðum vegi hér eða þar. Ekkert um gildi útivistarsvæða fyrir bæjarbúa.

Í niðurlagi greinarinnar segir Ólafur: "Umhverfisslys í Mosfellsbæ hafa verið mörg og stór að undanförnu. Satt best að segja skil ég ekki lengur hvaða hlutverki grænn flokkur gegnir í þessari bæjarstjórn. Hann var örugglega ekki kosinn til þessara verka! Ég skora á bæjarstjórn að endurskoða hug sinn varðandi Tunguveg og líta til annarra kosta – en þeir eru sannarlega fyrir hendi!".

BirkivatnÞað er ýmislegt hægt að gera fyrir áætlaðan kostnað vegna Tunguvegar, sem er metinn 300-500 milljónir. Tengibrautin er óþörf að margra mati ef hið nýja hverfi nýtir Vesturlandsveg, en í besta falli afskaplega illa ígrunduð. Hægt er að leggja hana eins og Ólafur bendir á mun nær Vesturlandsvegi og með þeim hætti er svæðið ekki skorið í sundur og samnýtist vegtengingu við fyrirhugaðan ævintýragarð. Ávinningur íbúa í Leirvogstungu er mestur af því að hafa náttúruparadís við túnfótinn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband