24.3.2008 | 04:25
Evrópa, Evrópa, Evrópa
Fátt er rætt meira en tengsl Íslands og Evrópu. Meðal forystumanna Sjálfstæðisflokks er málið óformlega komið á dagskrá. Mest fylgi við að hefja aðildarviðræður er innan Sjálfstæðisflokksins, en almennir flokksmenn bíða eftir forystumanni sem endurspeglar vilja þeirra. Þetta skynja þingmenn og vita að hefðbundnir frasar og þjóðhátíðarstellingar duga ekki lengur.
Það virðist ekki vera að Einar K. Guðfinnsson tali sem fulltrúi flokksmanna með væntingar í Evrópumálum í nýlegri grein þar sem hann segir að það sé offramboð á Evrópuumræðu og virðist ekki ánægður með þetta "sífur". Björn Bjarnason er þó með raunsærri nálgun og talar um nauðsyn þess að sameinast um vegvísir, ef meiningin sé að fara út í aðildarumsókn.
Slíkt framkvæmdaplan þróar síðan sjálfstæðismaðurinn Guðmundur Magnússon og nú virðast þeir vera farnir að mana hvern annan upp í þeirri sjálfsmynd að þeir séu athafnamenn í Evrópumálum. Ef það dugar til þess að þeir geti stoltir farið að vinna að hagsmunum Íslands í þessum málaflokki þá er það hið besta mál.
Guðfinna Bjarnadóttir er fram til þessa sá þingmaður Sjálfstæðisflokks sem skeleggast hefur gengið fram og lýst því yfir að Ísland ætti að sækja um aðild að ESB. Í framhaldi fékk hún skeyti frá helsta talsmanni flokksins í Evrópumálum að hún ætti enga samleið með flokknum en trúlega mun þessi yfirlýsing styrkja kjörþokka hennar meðal flokksmanna.
Andstaða vinstri grænna er að nokkru sérstök því að víðast hvar um Evrópu er stuðningur við ESB mikill meðal vinstri flokka. Mikilvægt er í framhaldi af hinni miklu umræðu sem hefur verið um þennan málaflokk síðustu vikur að fá fram hvort meirihluti er á Alþingi fyrir því að taka upp viðræður við ESB um aðild.
Nú þarf fólk úr öllum flokkum sem er fylgjandi frekari samvinnu Evrópuþjóða og að Ísland sé virkur og mótandi aðili í því alþjóðastarfi að halda uppi þrýstingi um næstu skref. Stjórnmálamenn sem eru andsnúnir ESB mega ekki þvælast fyrir lýðræðislegum vilja þjóðarinnar um aðildarviðræður. Þjóðremban má ekki standa okkur fyrir þrifum.
Á eftir UMRÆÐUM koma ATHAFNIR og þar fer eftirspurnin vaxandi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
23.3.2008 | 19:33
Núsi púsi
Litli Magnús er að verða stór manneskja á fimmta ári með sín persónueinkenni. Smábarnið víkur fyrir einstaklingi sem getur dansað, sungið, föndrað og lesið smávegis. Strákur sem er skapandi. Nýtir vilja sinn og ásetning til að leysa sífellt flóknari verkefni.
Nýlega fór hann allt i einu að bauka við kókflösku. Einbeittur að vöðla saman pappír og troða ofan í hana. Rúlla upp papír og stinga ofan í stútinn. Losa límmiðann af miðjunni og festa hann langs á flöskuhálsinn. Allt í einu segir hann; "Sjáðu karlinn". Útskýrði svo sköpunarverkið, þennan flotta karl sem hafði hendur, höfuð og að sjálfsögðu skykkju.
Tveimur dögum síðar var hann komin með skæri og byrjaður að klippa út ræmur og miða. Spurði um límband til að líma bútana saman, en það var ekki til. Hann var svo einbeittur í því hvað hann vildi að hann notaði bara kennaratyggjó til að setja þetta saman og sagðist vera búin að búa til prinsessu.
Fyrir nokkru hafði hann tekið öll spjöldin úr símanúmeraskránni og lagt þau á gólfið og raðað í langa röð og sagði að þetta væri risa dreki. Stórt og smátt í fari barnanna beinir athyglinni að hinu eina sanna ríkidæmi og allt krepputal verður svo víðs fjarri í huganum.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 20:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
22.3.2008 | 23:42
Að þjálfa þrek á fjöllum
Daginn er farið að lengja og innan tíðar munu sólargeislarnir losa landið úr klakaböndum. Í takt við þann gang náttúrunnar fer hugur minn og fleiri í ríkari mæli að leita til fjalla. Síðustu tvær helgar var sérlega gott veður. Fyrir tveimur vikum gengum við nokkur upp með Varmá, fjallalindinni sem rennur í gegnum Mosfellsbæ, en misvitrar gjörðir draga úr heilbrigðu flæði hennar í gegnum byggðina. Síðustu helgi var farið á Esjuna í einstakri blíðu og þá var mikill fjöldi þar á göngu. Farið var aftur í dag en þá var veðrið ekki eins gott. Snjóhraglandi í efsta hlutanum.
Hópur sem að er að undirbúa göngu á Hvannadalshnjúk um mánaðamótin Apríl/Maí mun ganga á fell og fjöll næstu vikurnar. Allir eru velkomnir að slást í för með ef tími og aðstæður henta. Næsta sunnudag eftir viku verður gengið á Móskarðshnjúka. Göngufólk hittist klukkan 11 á planinu fyrir framan Krónuna í Mosfellsbæ.
Feðgar við Varmá ofan byggðar fyrir tveimur vikum.
Fólk á göngu í Esjunni um síðustu helgi
Guðmundur Þórhallsson samkennari í snjóhraglanda í Esjunni í dag
Móskarðshnjúkar eru verkefni sunnudags eftir viku. Þeir liggja austur úr Esjunni í átt að Skálafelli. Á myndinni sést ofan í Mosfellsdal á vinstri hönd. Þessa mynd er að finna hér og vonandi er það eiganda að meinalausu að nýta hana til kynningar á næstu göngu.
Lífstíll | Breytt 23.3.2008 kl. 00:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.3.2008 | 02:16
Þjáning, ró og friður
Ég fór ríðandi upp í Laxnes í dag Föstudaginn langa. Fékk mér bjórglas, en það var bara lítið. Kom svo til baka og sá að það var sveifla og friðarrof í öðru hverju hesthúsi. En ég fór heim fyrir kvöldmát og tók lítinn þátt í þessu. Reyndar söng ég "Fram í heiðanna ró". Þar sem að áherslan í textanum er á sköpunarverkið og kyrrðina sem að þar ríkir þá vona ég að það hafi ekki brotið reglur um helgidagafrið.
Það sem gæti þó hafa rofið næði og frið almennings í Mosfellsdal má rekja til þess að Haraldur í Andra tók undir og hann er miklu kröftugri söngmaður en ég. En það var nú bara þetta eina lag. Auk þess var hún Lilla hestakona líka og henni liggur sjaldan lágt rómurinn. Nú er ég því orðin svolítið efins um hvort að þarna hafi verið brotin lög og vanvirtur hinn kristni siður þegar maður sér að snarólöglegt er að spila bingó á Austurvelli.
Það er mikið af forpokuðum íhaldskreddum í færslu Guðmundar Jónasar "Vantrúaðir vanvirða kristna trú!" en ég er sammála meginpunkti í færslu Ómars Ragnarssonar "Skynsemi hvíldardagsins". Það er sameiginlegt flestum trúarbrögðum að taka frá ákveðna daga eða tímabil til hvíldar og föstu. Mikilvægt er að við eyðileggjum ekki það svigrúm sem tekið er frá fyrir kyrrð og að hægja aðeins á amstri og stressi dagana.
Þetta er speki sem er forn og meitluð inn í trúarbrögð og helgidagahald af nauðsyn. Þó Föstudagurinn langi hafi verið allra daga leiðinlegastur í minningunni sem barn, að þá var gott að fá einn dag á ári sem að allt var meira og minna stop. Þunglamaleg dagskrá á Gufunni o.s. frv. Hinsvegar tókst Vantrú með bingóinu á Austurvelli að benda réttilega á kjánalegt valdboð sem að er sett inn í lög. Að bingó skuli brjóta í bága við lög en ekki ýmislegt annað.
Vantrú skautar hinsvegar alveg fram hjá þeirri staðreynd að píslargangan og frásagnir henni tengdar eru að stórum hluta spurningar um meginþætti í mannlegu eðli, glímuna milli hins góða og hins illa. Krossfesting Jesú er því á vissan hátt af holdi og blóði í nútímanum. Hún opinberar grimmd og þjáningu, sem verður til þess að á mörgum heimilum er dregið í hálfa stöng. Fáninn blaktir rólega í golunni af því að þessi saga hefur sígilda merkingu og inntak.
![]() |
Vantrúaðir spila bingó |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.3.2008 | 11:28
Að kætast á fjósbitanum
Vinstri grænir fara mikinn í að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir aðgerðaleysi. Vandi kjósenda er að vita ekki af áherslum þeirra í efnahagsmálum. Hvort flokksmenn eru fallnir frá hugmyndum um þjóðnýtingu fyrirtækjanna. Getur verið að meginkraftur fari í tilraunir til að fiska í gruggugu vatni og dvelja í vandamálum frekar en lausnum?
Í nokkurra dálksentimetra viðtali við Steingrím J. Sigfússon í einu blaðanna á dag komast fyrir orðin "skúffað", ótrúlega", "vandamál", "hrannast upp", "vonsvikið", "aðgerðaleysi", "ólíkindum", "slappa", "vandanum". Arrrg! Ég vona að Steingrímur ætli sér metnaðarfyllra hlutverk en að vera á launum hjá þjóðinni við að festast í einhverju eilífðarnöldri. Með því hefur hann innsiglað stöðu VG sem smáflokks sem er tækifærissinnaður í leit sinni að viðfangsefnum til að dæma og gagnrýna.
Steingrímur var ræðukóngur síðasta þings í mínútum talið en lítið var þar um vegvísa inn í framtíðina. Hvar eru hugmyndir formannsins til lausnar á efnahagsvandanum sem hann segir að þurfi að bregðast við? Maður fær á tilfinninguna að útgangspunktur í flokksstarfi sé að hugarástand vanlíðunar og pirrings skili sér sem fylgisaukning til vinstri grænna.
VG setjið aðra plötu á fóninn, þessi er orðin þreytt. T. d. "Allt fyrir ástina".
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.3.2008 kl. 02:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.3.2008 | 01:32
Einangruð sveit
Erfiðir fjallvegir við Eystra- og Vestra-Horn hafa um aldir einangrað sveitina Lón. Lónsheiði var lokuð stóran hluta úr vetri þegar ég er að alast upp í hinni fögru sveit. Vegur um Almannaskarð var ruddur vikulega til að tryggja að "kaupfélagsbíllinn" kæmist með vörur frá Höfn á bæina. En vegurinn að Hvalnesi gat verið ófær vegna snjóþyngsla vikum saman, en stundum var mögulegt að keyra þangað á ísilögðu Lóninu. Því varð heimilisfólk þar að birgja sig upp af vistum í kringum áramótin.
Á Jónsmessu árið 2005 voru opnuð göng undir Almannaskarð sem rufu einangrun sveitarinnar að vestan eða sunnan. Fyrir rúmum tuttugu árum var vegurinn um Lónsheiði lagður með vegagerð út fyrir Eystra-Horn um Hvalnes- og Þvottárskriður. Samkvæmt rannsóknum er það mjög kostnaðarsamt að gera þann veg þannig að líta megi til hans sem öruggs heilsársvegar. Mikið grjóthrun á sér stað niður á vegarstæðið og oft eru aftakaveður á leiðinni.
Á samgönguáætlun (vegaáætlun) 2007 til 2018 voru sett inn göng undir Lónsheiði. Ekki er vitað hversu mörg ár eru þangað til byrjað verður á þessari framkvæmd. En það hlítur að teljast brýnt verkefni að losna við slíka stórvarasama kafla á hringveginum ekki síður en að tengja saman byggðakjarna með jarðgangnagerð. Innan ekki langs tíma má gera ráð fyrir að með glæstum dyrum sitt hvoru megin verði einangrun Lónssveitar endanlega rofin. En fámennt er orðið í sveitinni og sennilega verður kaupfélagsbíllinn þá hættur að flytja pakka á bæina.
![]() |
Vegi lokað um Hvalsnes vegna mikils sandfoks |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.3.2008 | 22:55
Blóm vikunnar Gullbrá
Gullbrá er steinbrjótur í páskalitum, sem vex víðast hvar um landið. Það finnst þó ekki á Vestfjörðum og á eldvirka beltinu allt frá Melrakkasléttu út á Reykjanes. Það vex aðallega í rökum jarðvegi, einkum á hálendinu, en getur einnig verið á láglendi. Þessi blóm voru inn með Kömbum, milli Kjarrdalsheiðar og Jökulsárgljúfurs, Stafafelli í Lóni í júlí 2005.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.3.2008 kl. 11:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.3.2008 | 01:27
Að hindra mat á vilja þjóðar
Komið hefur fram í skoðanakönnunum að 2/3 hluti landsmanna vill aðildarviðræður við ESB og hefur sá vilji legið fyrir um nokkurra ára skeið. Aumt er hlutverk þeirra stjórnmálamanna sem torvelda og vinna gegn því að fólk fái valfrelsi um þessi mál. Það er ekki hægt að láta rétttrúnaðaröflin í Sjálfstæðisflokknum og Vinstri grænum hafa af okkur lýðræðið. Þjóðremban að vinna gegn þjóðinni.
Það eru einkum tvær tegundir af mótrökum. Önnur er sú sem að gengur út á þjóðerni og að við munum tapa sjálfstæði okkar með aðild. En ef Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna getur íhlutast um fiskveiðistjórn hér á landi, þá töpuðum við sjálfstæði með inngöngunni í SÞ árið 1946. Snýst spurningin frekar um að gangast undir alþjóðleg viðmið í samskiptum þjóða frekar en að meginmálið sé að við afsölum okkar sjálfstæði undir erlent vald?
Hin tegundin af rökum eru tilraunir til að að draga upp þá mynd af ESB að þar sé skrímsli sem að er ósveigjanlegt og Ísland yrði áhrifalaust innan. Þegar Íslendingar dæma ESB er eðlilegt að þeir miði fyrst og fremst við reynsluna af EES samningnum. Hún er mjög góð, margvísleg jákvæð lagasetning sem tryggir réttarstöðu almennings, jákvæð samskipti við ESB og margvísleg tækifæri opnast tengd menntun og viðskiptum.
Ályktun ungra framsóknarmanna gengur út á þjóðaratkvæði um aðildarviðræður. Persónulega finnst mér að Alþingi gæti ákveðið að fara í viðræður við ESB og trúi því að þar sé meirihluti fyrir slíku. Öll Samfylking, meirihluti Framsóknarþingmanna og sennilega um þriðjungur úr öðrum flokkum. Síðan færi samningur með kostum og göllum í þjóðaratkvæði. Hætta er á að þreyta kæmist í umræðuna ef kosið væri bæði um viðræður og aðild.
![]() |
Vilja aðildarviðræður við ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.3.2008 | 14:23
Hvenær sem er, hvar sem er ... tímamótaverk!
Ein leið til að draga úr áhrifum af falli krónunnar og taugaspennu sem fer um landann þessa dagana er að gera eitthvað gjörsamlega tilgangslaust í rigningunni eins og að horfa á skopstælingu af lagi hinnar þokkafullu Kólumbísku Shakira, Whwnever, whereever.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.3.2008 | 15:12
Nú árið er liðið
Fyrir ári síðan setti ég inn fyrstu bloggfærsluna "Stafafell á Víðidal allan". Upphaf þessarar iðju má rekja til blaðamanns á Mogga sem benti mér á að þessi "fjölmiðill" væri ein leið til að tjá sig um þjóðlendumál. En eins og gengur að þá hafa þær 200 færslur sem komnar eru fjallað um margvíslega hluti enda liggur áhugi minn á ýmsum sviðum. Þetta er búið að vera fjölbreytilegt og skemmtilegt ár. Merkileg reynsla að fylgjast með því hvernig þessi vettvangur hefur tekið þroska. Rúnnast af honum ókostir eins og ókurteisi eða ónot.
Áhugi á stjórnmálum er oft skammt undan, en langt frá því að ég sé fastur í slíku. Það er hinsvegar til íhugunar afhverju maður hefur áhuga á stjórnmálum. Nærtækasta skýringin er að ég vil lifa lífinu á virkan hátt og vera þátttakandi. Á mínu æskuheimili að Stafafelli í Lóni var mikið rætt um pólitík. Fram að fermingu var ég öfgasinnaður Framsóknarmaður. Minnist þess að til steypuvinnu komu margir karlar úr sveitinni og reyndi ég allnokkuð á mig kornungur til að kristna Sjálfstæðismennina í hópnum. Alþýðubandalag og þó sérstaklega Alþýðuflokkur voru varla til í sveitum austanlands.
Mikill stjórnmálaáhugi hefur verið hjá mörgum í móðurætt. En ættmenni afa og ömmu hafa verið áberandi á sitthvorum væng stjórnmálanna. Þannig er mamma þremenningur við Bjarna Benediktsson fyrrum forsætisráðherra öðrum megin og þremenningur við Hjörleif Guttormsson fyrrum iðnaðarráðherra hinum megin. Amma mín Ragnhildur var frá Lundum í Stafholtstungum bróðurdóttir Ragnhildar ættmóður Engeyjarættar. Afi var frá Stafafelli, en móðir hans frá Hallormsstað, en afkomendur systur hennar margir verið virkir á vinstri væng stjórnmálanna. Ólíkir menn en þó með áherslur á menntun og með rætur meðal embættismanna þjóðarinnar.
Hjörleifur og Bjarni tilheyrðu sitthvorum pól kaldastríðsátaka. Annar flokkaður af andstæðingum sínum sem austantjalds kommúnisti og hallur undir sovéska heimsmynd, en hinn verið flokkaður af andstæðingum sínum sem sá sem vélaði þjóðina án lýðræðislegrar ákvörðunar undir bandarískt herveldi. Einhver myndi kalla þá fulltrúa átakastjórnmála. Hjörleifur spurði mig eitt sinn um ætt ömmu minnar sem ég rakti og þá svarar hann sposkur og snaggaralegur; "Jááá, lítið þykir mér um þennan skyldleika!".
Án þess að ég sé að líkja mér við þessa menn þá má það teljast skiljanlegt að staðsetja sig í stjórnmálaflokki með áherslur á svigrúm fyrir ólík sjónarmið, umræðustjórnmál og lýðræðislegar áherslur. Meðal annars að styðja samvinnu þjóða í Evrópu. En það er merkilegt að hugsa til þess að fulltrúar hinna hörðu kaldastríðsátaka standa nú sameinaðir í andstöðu gegn ESB undir merkjum Heimssýnar. Ég met og virði þennan fjölbreytileika í lífsviðhorfum og dugnað við að afla hinum ólíku skoðunum fylgis. Hjarta mitt hefur þó ætíð verið og slegið vinstra megin.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)