Heiðra skaltu afa þinn og ömmu

BoðorðOftast gildir sú regla að þeir sem látnir eru fá að njóta hvíldarinnar og samferðamenn fyrirgefa það sem borið hefur á milli í skoðunum. Jafna ágreining og ná sátt í huganum þegar árin færast yfir. Þannig fær fortíð mildara yfirbragð og þá verður allt betra "í gamla daga". Þegar leikarar í atburðarás liðins tíma eru allir fallnir frá er það erfitt að setja samræður og tilteknar setningar fólks í takt við þann tíðaranda sem ríkti. Það verður því í besta falli skáldverk með sögulegu ívafi. Ein af þeim bókum sem að kom út fyrir jólin er fjórða bindið í ritröðinni Gamla hugljúfa sveit eftir Þorstein Geirsson frá Reyðará í Lóni. Bókin ber elju og dugnaði hans gott vitni. Í byrjun bókar segir, hún "fjallar að meginmáli um fólkið í Lóni á fyrri hluta síðustu aldar". Í byrjun aldar er langafi minn séra Jón Jónsson síðastur klerka á Stafafelli, til 1920. Hann er fósturfaðir bæði föðurömmu Þorsteins og móður hans. Því má telja víst að ættleggur hans hafi notið ríkulega þess menningarheimilis sem var á Stafafelli í upphafi aldar.

Þorsteinn velur hinsvegar að segja frásögn sem að á væntanlega að varpa skugga á minningu Sigurðar Jónssonar afa míns á Stafafelli. Hans er að engu góðu getið í bókinni, þó að óumdeilt sé að hann hafi verið þar hvatamaður framfara og margra góðra verka. Það hefur ekki verið mitt hlutskipti til þessa að verja heiður og minningu forfeðra. Sigurður á Stafafelli var margheiðraður á sinni lífstíð. Fékk fálkaorðu fyrir félagsstörf, viðurkenningu Búnaðarfélags Íslands, fékk konunglega viðurkenningu fyrir skógrækt og svo mætti lengi telja. Í kirkjunni á Stafafelli er stór blómavasi úr silfri gefin af vinnufólki til minningar um hann með áletruninni; "Með þakklæti og virðingu". Hann var á sinn hátt héraðshöfðingi sem leiddi meðal annars í nokkra áratugi starf Menningarfélags Austur-Skaftfellinga sem formaður þess. Frásögnin í bókinni er hluti af skrifum þar sem að Þorsteinn heiðrar og minnist ömmu sinnar, sem var farsæll barnakennari í Lóni og víðar. Þar er vísað til ummæla af móti Menningarfélagsins 1940. Þar á afi að hafa sagt þessi orð; "Ég vil ekki hafa barnakennara sem kenna mínum börnum að Rússar taki aðeins það sem þeir eiga". Þetta er sagt í umræðum sem voru á mótinu undir líðnum; "Eiga kommúnistar að gegna trúnaðarstörfum í þjóðfélaginu?". Félagið setti ýmis efni á dagskrá á þessum mótum til að varpa á þau ljósi aukins skilnings og umræðu. Á þessum tíma stendur heimmsstyrjöldin síðari yfir og Rússar nýbúnir að ráðast inn í Finnland. Mikil gerjun hugmynda er í gangi á þessum árum, uppgangur kommúniisma og nasisma. Margir óttast íhlutun erlendra aðila í stjórn landsins. 

Á Stafafelli er á þessum tíma ein meginæð Framsóknarflokksins í sýslunni, en á Reyðará eru í upphafi aldar að vaxa úr grasi öflugir fylgismenn kommúnisma eða sósíalisma. Trúlegt er að þessi staðreynd hafi gefið tilefni til ágreinings milli þessara heimila í pólitík, eins og gengur. Hinsvegar segist Þorsteini svo frá í bókinni að þessi ummæli afa míns hafi orðið til þess að amma hans hætti kennslu. Hann setur málið allt í þá umgjörð að afi hafi farið fram gegn fóstursystur sinni með níðingslegum hætti. Ummælin hafi hún tekið til sín og þau valdið henni miklum sárindum. Sagt er að þau hafi verið ómakleg, köld kveðja og jafnvel dylgjur um að þau megi skýra með vanmætti í gáfum. Mér finnst þessi framsetning vera bókinni til minnkunar og skrifara til hnjóðs. 1) Ummælin sjálf eru ekki rætin í ljósi ástands heims og þjóðar. Ef til vill eru þau einmitt merki um gáfur og framsýni afa míns að vara við trú manna á Rússa og þeirra þjóðskipulag. Það er ekki fyrr en töluvert eftir 1960 sem að Alþýðubandalagið hættir að horfa í austurveg í leit að fyrirmyndarríki. 2) Afi er ekki til staðar til að útskýra þessi orð, sem sumir eldri heimildarmenn úr Lóni segja mér vera beina tilvísun til ummæla hennar í kennslu. 3) Enginn af þeim eldri heimildarmönnum í Lóni sem ég hef haft samband við hafa heyrt áður þessa söguskýringu að ummæli afa hafi stuðlað að því að hún ákveður að hætta kennslu í sveitinni. 4) Það eina sem hver og einn hefur á valdi sínu er að stjórna eigin gerðum, en ekki er hægt að stjórna viðbrögðum annarra. 5) Fyrst að amma Þorsteins ræddi þetta mál ekki við fósturbróðir sinn eða nokkurn mann hlítur það að vera vafamál hvort rétt sé af Þorsteini að rifja það upp út frá þröngu sjónarhorni, tæpum 70 árum síðar.

Í uppvexti mínum heyrði ég aldrei á slæmt umtal um nokkurn mann frá Reyðará né öðrum bæ í Lóni. Það var því ákveðinn hreinleiki yfir mannlífinu í þessari fögru sveit. Einn mikilvægur þáttur í því að tryggja hugljúfa stemmingu og heiðríkju hugans er að fyrirgefa og gleyma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Kæri Gulli. Engan dóm get ég lagt á þetta. Hitt veit ég að við viljum heiðra minningu afa og ömmu og ekki vil ég heyra mikla gagnrýni um mínar ömmur og afa. En öll erum við mannleg. Líka amma og afi. Mér sárnar ef ég heyri gagnrýni á þau en sem betur fer er það sárasjaldgæft. Allir sem viðra skoðanir sínar fá á sig gagnrýni. Vert áfram stoltur af þínu fólki. Þú veist hvað það hafði að geyma.

Hólmdís Hjartardóttir, 2.1.2008 kl. 03:26

2 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Takk Hólmdís. Einn af kostum bloggsins er að geta á auðveldan hátt sagt sína skoðun og losað sig við meiningar sem maður hefur í hugarfylgsnum. Hálfgerð hreinsun. Það þarf svo sem ekki neinn að hafa fyrir því að setja sig inn í þetta, en nú er ég búin að segja mitt álit á þessum skrifum og þá get ég sett þetta niður í skúffu.

Gunnlaugur B Ólafsson, 2.1.2008 kl. 16:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband