Hesthúsahverfin

Gustur

Var að koma í hús eftir að hafa lokið fyrsta almennilega útreiðatúr vetrarins, í góðu veðri en frekar köldu. Fórum upp í Laxnes. Tókum hring að Helgadal og Æsustöðum. Hann Ljómi minn tekur framförum, verður átta vetra í vor. Þarf að fella betur hausinn til að eiga auðveldara með töltið. Það verður verkefni næstu vikna að fara eitthvað með hann í reiðhöllina, þar sem að ágætt er að ríða honum á hring. Styrkja á báðar hliðar og auðvelda honum að bæta töltið, því ekki vantar hann kraftinn.

Hesthúsahverfið hér í Mosfellsbæ hefur verið mekka hestamennskunnar með góðri aðstöðu. Byrjað er á nýrri reiðhöll. Það verður þó að segjast eins og er að byggðin þrengir smátt og smátt að náttúrustemmingunni og möguleikum til útreiða. Sama þróun er víða annars staðar með hesthúsahverfin í borginni. Allir þekkja það hvernig Gustshverfið í Kópavogi lokaðist inni og fer undir íbúabyggð. Mikið hefur þrengst að Víðidal og Heimsenda.

Það hesthúsahverfi sem mér sýnist að eigi bjartasta framtíð fyrir sér eru Fjárborgir. Fór nýlega í útreiðatúr þar, eftir fallegum skógarstígum í átt að Rauðavatni og hinum megin Vesturlandsvegar eru spennandi reiðleiðir um Rauðhóla og í átt að Heiðmörk. Fátt bendir til að íbúabyggð muni þrengja að þessu svæði. Nú hefur hestamannafélagið Fákur byrjað mikla uppbyggingu húsa á þessu svæði. Ég hef trú á því að þetta verði, eftir nokkur ár, áhugaverðasta hesthúsabyggðin á höfuðborgarsvæðinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: HP Foss

Ég gegndi fyrir bróður minn hjá Sörla í Hafnarfirði um síðustu páska og varð afar hrifinn af reiðstígum þeim sem liggja um hraunið næst hesthúsunum. Mjög skemmtilegt svæði til styttri ferða. Vilji menn lengri ferðir er greið leið í Heiðmörkina, einnig upp með Helgafellinu og frá þessum stöðum  er opið til allra átta. Ég veit ekki hvort það má fara Undirhlíðarnar á hestum, hef ekki farið þær í mörg ár en þar er einnig afar fallegt um að litast og væri ekki úr vegi að ríða þar út í góðra vina hópi, nú eða bara einn með sjálfum sér.
Að mínu mati er þetta frábær aðstaða.

kv-Helgi Páls.

HP Foss, 13.1.2008 kl. 20:30

2 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Var ekki alveg viss hvort að byrjað væri að þrengja að Sörla en hef á tifinningunni að byggð liggji að annari hliðinni og því þurfi oftast að fara sömu leiðina að og frá hverfinu, sem að er ókostur. En vissulega frábær aðstaða, reiðhöll og alles. Mbk, G

Gunnlaugur B Ólafsson, 13.1.2008 kl. 20:45

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Fella betur hausinn segirðu. Hefurðu prófað að ríða honum lengi slökum á fetinu?

Árni Gunnarsson, 14.1.2008 kl. 00:08

4 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Þetta er örugglega góð ábending Árni. Hesturinn þarf sína slökun og sátt.  Áðan reið ég með teygjur sem skila jafnara átaki heldur en að beita sér með höndum, þá fór hann yfir á styttri skref og þennan mjúka tipltakt töltsins. Hann hefur verið meira á brokktölti og haft tilhneigingu til að vera með hausinn ofarlega. Í raun hafa verið gerðar of litlar kröfur til hans. Hluti af góðu taumsambandi við hest er að hann safni sér saman, gefi eftir með haus í beisli og hvatning að aftan þannig að afturfætur fari lengra inn undir. -Nú gætu komið einhverjir fagmenn sem að leiðrétta þetta ef hér er farið rangt með .... eða bæta einhverju við ...

Gunnlaugur B Ólafsson, 14.1.2008 kl. 00:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband