Stækkandi Samfylking

SamfóTvær skoðanakannanir um fylgi flokka voru birtar í vikunni. Könnun Fréttablaðsins sýndi ómarktækan mun á fylgi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Capacent Gallup könnun sýndi Sjálfstæðisflokk töluvert stærri en Samfylkingu þó hún hafi bætt fylgið lítillega frá kosningum.

Staksteinar tóku þeim tíðindum illa að Samfylking væri á slíkri uppsveiflu eins og fyrri könnunin sýndi. Þar var Þorgerður Katrín gerð ábyrg fyrir því að gefa flokknum líf með ríkisstjórnarsamstarfi. Spurt er hvernig hún myndi bregðast við ef Samfylkingin verður stærri en Sjálfstæðisflokkur.

Þegar seinni könnunin kom fram, þá má telja líklegt að örlítil ró hafi færst yfir sali í Valhöll. Þetta gæti þó verið tímabundið logn. Ég hef þá trú að það séu ákveðnir kraftar í gangi í samfélaginu sem að eru frekar að styrkja vinstra fylgi og jafnaðarmenn. Endurreisa þarf innviðina eftir tímabil þenslu og gróðahyggju.

Flestir telja að tími Framsóknarflokksins sé liðin og það sem eftir lifir af honum einkennist af sundurlyndi og deilum. Vinstri grænir eru ekki búnir að hreinsa af sér ímyndina um að þeir séu óstjárntækir og finnst að óherslur þeirra séu á einhvern hátt utan og ofan við þau mál sem brenna á almenningi. Held að fáir vilji sjá frekari vöxt frjálslyndra eða annarra smáflokka sem rekið geta fleyg í lýðræðið.

Hef bent á það áður að það er óvenjulegt að samstarfsflokkur Sjálfstæðisflokks í ríkisstjórn fari stækkandi. Skaði Sjálfstæðisfloks af framgöngu í borgarmálum mun hafa áhrif á heildarfylgið. Það eru stóru nýju tíðindin að Samfylkingin er eini flokkurinn sem hefur gott heilbrigðisvottorð þessa dagana. Tilbúin að vinna klisjulaust að hagsmunum þjóðarinnar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er ekki sammála þér að Samfylkingin hafi hreint heilbrigðisvottorð, því ýmislegt á efitir að koma í ljós.  Aðgerðarleysi Samfylkingarinnar í málefnum landsins fara koma meira og meira í ljós.  Svokallaðar mótvægisaðgerðir sem eru ekkert annað en "mjúkur pakki" eru að koma í ljós sem gjörsamlega gagnslausasar, enda samdar af Samfylkingingunni að Skandinavískri fyrirmynd runnin úr ranni svokallaðra jafnaðarmanna þar. 

Samfylkingin er gjörsamlega stefnulaus í atvinnumálum.  Vita ekki hvort það eigi að reisa stóriðju eða ekki, tala fjálglega um netþjónabú og gagnavinnslustöðvar, en niðurstaðan verður ævinlega sú hjá Samfylkingunni, að reisa eigi slíka vinnustaði á Suð-Vesturlandi.   Það eina sem Össu hefur lagt til atvinnumála eru að flytja út störf til annarra landa í staðinn fyrir að byggja upp atvinnulíf hér á landi, sérstaklega á landsbyggðinni þar sem að ekkert góðæri ríkir.

Þó ég sé ekki framsóknarmaður, tel ég að fregnir af komandi andláti hans séu stórlega íktar líkt og þegar fregnir af dauða Paul McCartneys komust í hámæli árið 1969.  Flokkurinn hefur gott bakland og hefur reyndar níu líf.  Það er engin ástæða til Þórðargleði hjá Samfylkingarfólki út af lánleysi Framsóknar.  Samfylkingarfólk með málgagn sitt Fréttablaðið í broddi fylkingar, hefur elskað að skrifa illa um Framsókn og flokkurinn hefur hreinlega verið lagður í einelti af Samfylkingarfólki og öðru vinstrafólki.  En einelti hefnir sín.  Þetta mun einungis leiða til þess að Samfylkingin skýtur sjálfa sig í fótinn. 

Það hefur aldrei ríkt betra efnahagsástand í landinu en þegar að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn hafa verið saman í stjórn. 

Önundur Jóhannesson (IP-tala skráð) 4.2.2008 kl. 08:58

2 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Önundur - Þitt sjónarhorn er einkum á málefni landsbyggðar. Núverandi staða og sviðin akur skrifast að stærstum hluta á byggðapólitík Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Bændum, ekki síst sauðfjárbændum, er haldið í óhagkvæmum einingum kvótakerfis.

Kvótakerfið í sjávarútvegi hefur tekið lífskraftinn úr fjölmörgum bæjum og sjávarþorpum sem iðuðu af lífi áður en það var innleitt. Hvaða flokkar komu því á? Heldurðu að Hannes Hólmsteinn eigi marga fundi bókaða erlendis til að verja mannréttindabrotin, skuldsetningu greinarinnar og að mistekist hefur að endurreisa fiskistofnana?

Heldurðu að við getum átt von á því að Halldór Ásgrímsson, guðfaðir kvótakerfisins, komi fram á ritvöllinn núna og reyni að sannfæra okkur um að kvótakerfið hafi bætt þjóðarhag og stuðlað að vernd fiskistofnana?

Hinar "gagnslausu" mótvægisaðgerðir snúast um viðleitni til að draga úr afleiðingum hinnar háskalegu stefnu umræddra flokka í fiskveiðistjórnun. Hvort er nú meira viðeigandi að formæla þeim sem skapar vandann eða þeim sem er að vinna að því að áhrif hans leggist ekki á byggðirnar af fullum þunga?

Þá hefði nú verið betra bæði út frá mannréttinda þættinum og álagi á fiskistofnanana að fylgja tillögum Samfylkingar. Sennilega líka í landbúnaði. Man að Jón Baldvin talaði um það fyrir nokkrum áratugum að réttara væri að greiða búsetustyrki heldur en framleiðslustyrki. Með þeirri áherslu hefðu sveitir lands getað blómstrað með áherslu á fjölbreytta framleiðslu og starfsemi. Ekki væri verið að binda stuðninginn við framleiðslu á vöru (kjöt eða mjólk) sem að ekki selst, eins og var á tímum kjötfjallsins. 

Varðandi gott efnahagsástand þá var grunnur þess lagður af þjóðarsátt Steingríms Hermanns, Jóns Baldvins og Ólafs Ragnars. Síðan var alþjóðlegt efnahagsástand líka gott. Síðan búin til þensla með álversframkvæmdum. Hún hefur að mörgu leyti verið dýrkeypt ekki síst fyrir þá sem að eru að kaupa húsnæði sem fór upp úr öllu valdi í verði og leiddi af sér okurvexti á lánamarkaði.

Ég sé ekki að Framsóknarflokkurinn geti komið fram sem trúverðugur í að gæta hagsmuna dreifbýlis, þegar stefna hans hefur leitt til þess að borgríki hefur myndast á Íslandi.

Gunnlaugur B Ólafsson, 4.2.2008 kl. 11:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband