Möppudýr

Vatnajökulsþjóðgarður hefur verið í burðarliðnum um allnokkurt skeið. Margt bendir til að fæðingin geti orðið erfiðari en gert var ráð fyrir. Því það gleymdist að hugsa það til enda hverjir ættu að vera hagsmunir landeigenda í þessu samhengi. Komið hefur verið á flókinni stjórnsýslu, þar sem hver silkihúfan er sett yfir aðra. En landeigendur eru hvergi með í ráðum eða að það sé gert ráð fyrir því að þeir séu mótandi og gerandi aðilar. Ef að þessi hugsun um að kaupa ekki eignarlönd en vilja ná þeim undir þjóðgarðinn á að ganga upp, þá verður að gera samninga um náttúruvernd við landeigendur í líkingu við þá sem gerðir hafa verið við bændur varðandi skógrækt.

Ég hef verið tvístígandi hvort það séu fleiri kostir en gallar við að taka þátt í þessu verkefni. Stafafell í Lóni hefur verið skipulagt af landeigendum sem útivistar- og verndarsvæði. Það vantar fjármagn til uppbyggingar. En er framsal sjálfstæðis og ákvarðanatöku of mikið. Er þetta endanlegt afsal eða er hægt að gera samning til 20-30 ára og segja honum upp ef reynslan er slæm. Æskilegast væri að hafa samvinnu við ríkið en hafa svigrúm til að vera gerendur og ráðandi. Þannig er þetta að nokkru hliðstætt vangaveltum um kosti og galla við þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi.

Hitti áðan á reynslubolta í náttúruverndarmálum og prófessor í líffræði. Farið var að ræða um Hornstrandir og friðlýst svæði í framhaldi. Þá skelti ég á hann þeirri spurningu hvort að hin landmikla jörð Stafafell í Lóni og þar með það svæði sem síðustu árin hefur kallast Lónsöræfi, ætti að verða hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Lýsti áhyggjum landeigenda þess efnis að sjá sig áhrifalausa í þessu ferli. Þá var hann snöggur til svars og sagði; "Það er verið að hlaða undir möppudýr". Hér talar maður með áratugareynslu af þessum málaflokki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Leitaðu eftir tvíhliða samningi! Kv. B

Baldur Kristjánsson, 5.5.2008 kl. 08:02

2 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Árni - það eru einir fjórir prófessorar í líffræði sem hafa verið mjög virkir í náttúruverndarmálum. Ég vil ekki tiltaka með nafni slíkt tveggja manna tal.

Baldur - takk fyrir ráðgjöfina.

Það veldur mér áhyggjum að stærð þessa garðs og fjölgun ferðamanna virðast vera meginþema, frekar en leiðsögn náttúrufræðinga um hvað séu verndunarlega mikilvægustu svæðin, fræðsla og tengsl við náttúruna. Þarna virðast ráðuneytis- og sveitarstjórnarmenn í þrotlausri fundasetu og pappírsvinnu sem þeir senda síðan hver á annan til umfjöllunar.

Gunnlaugur B Ólafsson, 5.5.2008 kl. 09:05

3 Smámynd: HP Foss

"Möppudýrin" er hópur af fólki sem hefur atvinnu af því að halda utan um svona hluti, skipuleggja, móta stefnur, reka, halda uppi eftirliti, fræðslu, ásamt mörgu öðru. Þessi "möppudýr" er fólk sem er að vinna vinnuna sína eftir bestu samvisku og þarf varla að þola það að hljóta svona viðurnefni.

Hluti af þessum "möppudýrum" á líkast til eftir að flytja í sveitirnar með fjölskyldur sínar og það skiptir miklu máli fyrir byggðirnar fyrir austan, að einhverjir sjái sér fært að skapa aðstæður til nýrra starfa. Það er ekki nóg að við sem erum í fastri vinnu í bænum komum til að sleikja rjómann þegar okkur hentar, heilsársbúseta á þessum svæðum er það sem skiptir höfuðmáli og grundvöllurinn fyrir henni.

Því þykir mér ykkar tal um möppudýr og silkihúfur, ekkert sérstaklega "málefnalegt, "ef ég má taka þannig til orða.

Afsakið 
Helgi

HP Foss, 5.5.2008 kl. 16:28

4 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Það er ágætt að trúa á góða hluti en slæmt að vera auðtrúa. Helgi, þú segir að "líkast til" munu verða til störf í kringum skrifræðið í sveitunum. Veit nú ekki afhverju að þú ættir að verða til varnar þó ég noti aldrei þessu vant hraustlegt orðalag.  Veit ekki hversu vel þú þekkir til þessa máls í heild sinni, fyrir utan að hafa væntingar um að þjóðgarður verði atvinnuskapandi fyrir þína heimasveit. Ég hef líka mikinn áhuga á að sjá uppbyggingu atvinnutækifæra austur í Lóni. Þar eru hátt í fjögur hundruð ferkílómetrar innan hefðbundinna marka jarðarinnar Stafafells í Lóni. Einstakt þversnið af íslenskri náttúru þar sem eitthvað nýtt ævintýri verður á vegi manns við hvert fótmál. 

Það getur vel verið að þú viljir láta þína jörð Foss á Síðu inn í Vatnajökulsþjóðgarð og hafa síðan lítil áhrif á það samhengi og þróun sem að hún lendir í eftir það. Ef svo er þá þarftu endilega að láta samninganefndina hjá umhverfisráðuneyti vita af þessum áhuga þínum, sem síðan gæti virkjað sjö manna stjórn þjóðgarðsins sem skipuð er af umhverfisráðherra. Síðan væri gott að málið fari til umfjöllunar í svæðisráði þíns svæðis sem skipað er fulltrúum sveitarfélaga, ferðamálasamtaka og umhverfissamtaka. Eftir svona tíu fundi eða svo þá myndir þú átta þig á því að það eru allir nema þú búnir að vera á fínu kaupi. Landeigandinn á ætíð að vera kauplaus í fundahaldi um stofnun verkefnis sem gerir hann áhrifalausan.

Að vísa til umhverfisráðherra, umhverfisráðuneytis, framkvæmdastjóra þjóðgarðs, stjórnar þjóðgarðs, svæðisráðs þjóðgarðs í þá veru að þar sé hver "silkihúfan" yfir annarri er svona myndræn líking. Að nota stíl í frásögn í stað þess að telja upp öll þessi leiðinlegu og stofnanalegu heiti. Núverandi umhverfisráðherra hefur lýst því yfir á fundi sem ég var á að stjórnsýsla Vatnajökulsþjóðgarðs "væri óþarflega flókin". Með öðrum orðum og ef fært er í stílinn og notað orðalag gamla prófessorsins míns, það er verið "að hlaða undir möppudýr". 

Útgangspunktur náttúruverndar er ekki ferðamennska, atvinnusköpun eða að búa til fyrirbæri sem nær mikilli stærð að flatarmáli. "Þjóðgarðurinn verður sá stærsti í Evrópu og mun hafa mikla sérstöðu í náttúrufarslegu tilliti í heiminum". Það hljóta fleiri en ég að fá aulahroll þegar þeir lesa svona mikilmennsku yfirlýsingar, sem þó eru afleiðing af einhverri minnimáttarkennd. Áherslurnar eiga að vera á fyrirbæri náttúrunnar, gróðurfar, jarðmyndanir, dýralíf, veðurfar. Að skilja, skoða og miðla upplýsingum um náttúru svæðisins. Fyrst og fremst virðing fyrir náttúrunni og þekking á forsendum hennar. Það eru vegvísarnir.

Gunnlaugur B Ólafsson, 5.5.2008 kl. 18:56

5 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Hornstrandir eru dæmi um gjörsamlega mislukkað svæði ef það hefur verið ætlað til útivistar fyrir fólk.Sem það hefur trúlega ekki verið ætlað.Refurinn dafnar vissulega vel.Var þarna fyrir þremur árum og við rákumst á örfáar hræður á þriggja daga rölti.Og það voru íslendingar.Sú firra að meina fólki að koma þangað nema á bátum eða tveimur jafnfljótum hefur stórskaðað ferðaþjónustuna á Vestfjörðum. Öfgalið hefur tekið völdin af landeigendum á Hornströndum og meinað jarðareigendum að nýta jarðir sýnar.

Sigurgeir Jónsson, 6.5.2008 kl. 08:06

6 Smámynd: HP Foss

Sæll. 

Ég er nú ekki að dæma eða verja nokkuð af þessu tagi, Gunnlaugur, fólkið sem vinnur að þessu er aðeins að framfylgja ákvörðun stjórnvalda um stofnun þessa Þjóðgarðs. Ef það er þannig að landeigendur fá ekki neinu ráðið um afnot af sínu landi, þá er það slæmt, en þó eftir öðru hjá ríkinu.

Ég er nú reyndar sammála þér með það að mér finnst þetta hálfgerður hégómi með þennan þjóðgarð. En hvernig er það,  nær þjóðgarðurinn lengra inn í land Stafafells en kröfulína þjóðlendunefndar?

PS. Ég tel ólíklegt að Foss á Síðu lendi inn í Þjóðgarðinum, jörð foreldra minna nær nú ekki svo langt til fjalla.

kv-Helgi Páls

HP Foss, 6.5.2008 kl. 10:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband