Heilbrigði næst ekki með húsbyggingum

Tækni- og lyfjalausnir við sjúkdómum taka langstærstan hluta útgjalda heilbrigðiskerfis. Svo langt er gengið að á stundum lítur út fyrir að fólkið sé til fyrir kerfið en ekki að kerfinu sé ætlað að sinna þörfum fólksins.

Menningarsjúkdómar geta talist þeir kvillar sem hrjá okkur í meira mæli vegna breytinga á lífsvenjum. Þar eru offita, hjarta- og æðasjúkdómar, fullorðins sykursýki og ýmiskonar geðraskanir að valda stórum hluta af útgjöldum til heilbrigðismála.

Við þurfum að færa athyglina frá sjúkdómum yfir á heilbrigði, frá forvörnum yfir á heilsueflingu. Setja okkur markmið um að gera okkur gott, hámarka heilbrigði. Þjálfun í sjálfstjórn, bætt vitund og efling atorku gerir meira en stærstu lyfjabúr og sjúkrahúskastalar.

Gefum okkur tíma til að lifa og njóta.


mbl.is Háskólasjúkrahús á áætlun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Það er alveg auðheyrt að þú hefur aldrei unnið á Heilbrigðisstofnun. Húsakostur LSP er orðinn vægast sagt afar lúinn og var byggður fyrir áratugum þegar sjúkrarúm og annar tækjabúnaður var mun smærri í sniðum. Þú ættir að prófa að hlynna að mikið veikum einstaklingi í svona þrengslum. Það er mjög erfitt og slítandi, að þurfa stöðugt að smeygja sér og troða milli rúms og veggjar. Að reyna að sofa sem inniliggjandi manneskja í 5 manna stofu þegar tveir hrjóta einn stynur og annar talar upp úr svefni. Einu sinni var ég lögð inn og var að bíða eftir minniháttar aðgerð. Var lögð inn á þröngan gang þar sem hægt var með góðum vilja að ganga við fótagafla rúmanna, sem var raðað svo þétt, að ætti að hlynna að manneskju í næsta rúmi, var rassinn á starfsmanninum aðeins feti frá mínum rúmstokk.

Hús eitt og sér bjargar kannski ekki mannslífum, en góð vinnuaðstaða, gott aðgengi stuðlar að betri aðhlynningu, heilbrigðara starfsfólki, lægri launakostnaði vegna veikinda þeirra. Fyrir nú utan hvað sjúklingum líður betur í þægilegu umhverfi, þar sem hægt að að nota öll hjálpartæki rétt þar sem svigrúm er nægt og fleira og fleira.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 18.3.2009 kl. 20:34

2 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ekki orð um það meir að ekki eigi að byggja yfir LSP, slíkur sparnaður er fásinna og gamaldags hugsun. Það er nóg komið af henni. Fátæktartal alla daga gerir okkur fátæk. Við erum ekki fátæk, en lausafjárstaðan mætti vera aðeins betri nú um stundir. Annað var það ekki, kæri vinur.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 18.3.2009 kl. 20:38

3 Smámynd: Karl Tómasson

Sæll ágæti Gunnlaugur.

Það er athyglivert að lesa skrif þín oft sem áður og athugasemdir Hólmfríðar, vinkonu þinnar, Bjarnadóttur eru einnig oft áhugaverðar.

Talandi um aðstöðu sjúkra og þeirra sem að þeim hlúa. Þá er hún því miður oft á tíðum algerlega óviðunandi. Á sama tíma höfum við þegjandi og hljóðalaust, gert litlar sem engar, athugasemdir við þá aðstöðu sem upp hefur verið komið í kringum peningaseðlana okkar sem við áttum ekkert í þegar upp var staðið, svo ekki sé talað um launakröfur "snillinganna" sem þar stjórnuðu.

Bestu kveðjur frá Kalla Tomm.

Karl Tómasson, 18.3.2009 kl. 21:06

4 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Takk fyrir bæði tvö. Nú datt ég út af sakramentinu hjá Hólmfríði, vinkonu minni í norðri. Mitt innlegg er hugmyndafræðileg pæling. Hún gengur út á að við fáum aldrei nógu stór sjúkrahús og borðum aldrei nógu mikið af lyfjum ef við höldum áfram á þeirri braut sem við erum á núna og endurskoðum ekki okkar hugsunarhátt. 

Vona að einhver kunni að meta innlegg Dean Ornish sem fyrstur sýndi fram á að einfaldar lífstílslausnir geta snúið við hjarta - og æðasjúkdómum. Þróun þeirra getur einnig unnið gegn offitu, sykursýki og geðröskunum. Slík nálgun er vænlegri heldur en að ætla sér að skera kransæðar og stytta þarma hjá þjóðinni á hátæknisjúkrahúsi.

Ég hef verið með endurmenntunarnámskeið við HÍ um sjúkdómsvæðinguna í samfélaginu ásamt Jóhanni Ágústi Sigurðssyni prófessor í heimilislækningum. Svo var ég einu sinni með mjög skemmtilegt námskeið sem nefndist "Opnaðu hjarta þitt" þar sem voru teknir fyrir allir lífstílstengdir þættir sem koma að þróun hjarta- og æðasjúkdóma.

Persónulega finnst mér að við höfum nóg af húsum til að meðhöndla sjúkdóma en þurfum að stórefla þróunarstarf í heilsueflingu til að vinna gegn sjúkdómsferlum. Einnig þurfum við að efla rannsóknir í veirufræði, því fyrr eða síðar munu þær gera skurk í tilverunni.

Vonandi móðgast enginn þó fleiri en ein sýn sé sett fram í mikilvægum málum.

Gunnlaugur B Ólafsson, 18.3.2009 kl. 22:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband