Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

"Ég er ekki skotinn í stelpum"

Strákarnir mínir tveir hafa báðir verið á frábærum leikskóla hér í Mosfellsbæ. Sérstaklega gott starfsfólk og þeim hefur líkað þar vel. Skólinn rekur starfsemi sína í anda Hjallastefnunnar. Eitt af þeim atriðum sem kenningar hennar ganga út á er að það sé æskilegt að hafa kynin að mestu aðgreind.

Ást erVið bjuggum í Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum og þá var eldri strákurinn fjögurra ára og hann átti vinkonur í leikskólanum þar og við buðum þeim jafnt og strákunum í barnaafmæli. Það var bara sjálfsagt og eðlilegt. Í framhaldi kemur hann aftur í þessa kynaðgreiningu sem að á að gera stelpurnar ákveðnar og sjálfstæðar, strákana mjúka og samvinnuþýða.

Nú er hann fjórtán ára en fram að tíu ára aldri voru stelpur meira og minna óæskilegur kynstofn sem lítil eða engin samskipti voru höfð við. Það er mitt álit að þessi neikvæða afstaða til stelpna hafi verið út af þessari aðgreiningu kynjanna. Strákarnir voru líka síður en svo mjúkir, gengu milli húsa með byssum og sverðum. Veit ekki hvort þessi stefna bjó til ákveðnari stelpur.

Nú er yngri strákurinn farin að spá töluvert í hvað felist í því að vera strákur og stelpa. Hann talar mikið um að hann langi að eignast systur. Mamman er eina daman á heimilinu og hann langar greinilega að eiga meiri samskipti við stelpur. En tekur jafnframt skýrt fram að hann sé ekki skotinn í stelpum.

Ég er ekki sannfærður um aðgreiningu kynjanna samkvæmt Hjallastefnu. Finnst að kynin eigi í aðalatriðum að vera saman sem eðlilegur hluti af undirbúningi fyrir heilbrigði í samskiptum. Hinsvegar getur verið æskilegt að hafa stráka og stelputíma, til að vinna gegn einhverjum staðalímyndum.


Traustsyfirlýsing til Varmársamtakanna

Nú er erilll í búðum Varmársamtakanna, blaðaútgáfa og aðalfundur þann 19. nóvember. Samtökin eru íbúa- og umhverfissamtök sem að hafa verið í forystu um aukna aðkomu almennings að þróun bæjar og byggðar. Félagar okkar á ritstjórn Morgunblaðsins hafa talað um vakningu og skorað á bæjarstjórnir að vinna með þessum öflum í þjóðfélaginu, frekar en á móti þeim. "If you can´t beat them join them".

VSÞað er því ánægjuefni að Bjarki Bjarnason sagnfræðingur/rithöfundur virðist hafa áhuga á því að vinna að starfi samtakanna og gefa kost á sér til stjórnarsetu. Í Mosfellingi hefur hann sett áhersluatriði sín á blað í tíu liðum. Það sem að er athyglisvert er að átta af þessum atriðum hafa nú þegar verið rædd sem áhersluatriði samtakanna. Þannig að annaðhvort er hann svona samstíga meginlínum samtakanna eða hann hefur ákveðið að gera áherslur þeirra að sínum.

Að skilgreina framtíðarhlutverk Brúarlands hefur jafnframt verið áhugamál mitt lengi og sendi ég erindi til menningarmálanefndar um það efni fyrir mörgum árum, án svars. Ég held að það séu fáir búnir að kaupa hugmyndir um ævintýragarð á milli Varmár og Köldukvíslar. Flestir trúi ég að vilji einbeita sér að verndun og eflingu Varmársvæðisins.

Útiloka ekki að ég geti stutt Bjarka til stjórnar, nái hann að sannfæra mig og aðra um að hann sé opinn og einlægur í ásetningi sínum um að vinna að vexti Varmársamtakanna. Íbúalýðræðið þróast best ef blandað er saman heilindum og kærleika inn í skynsemi og skipulagshyggju.

Skora á Mosfellinga alla að ganga í samtökin, gefa kost á sér til ábyrgðar, taka þátt í uppbyggingunni og láta samtökin verða enn sterkara afl umhverfisverndar, íbúalýðræðis og gróskumikils mannlífs.


Slæmt í dreifðri borg torfærujeppana

Fiat_500Hef oft verið að hugsa um það hversu lítil fyrirhyggja er í skipulagsmálum hér á landi varðandi þann þátt að hin dreifða byggð kallar á gífurlegan bílisma, sem byggir á takmarkaðri auðlind. Fyrst að borgin var ekki byggð í tengslum við öflugar æðar almenningsvagna, þá verðum við að leggja mikla áherslu á þáttöku í þróun einkabíls sem byggir á umhverfisvænni og endurnýjanlegri orku.

Hef verið síðustu mánuðina að skoða af og til spennandi eyðslugranna en svala smábíla. Langar að fjárfesta í einum slíkum, með eyðslu um eða innan við 5L/100 km. Þar hef ég verið spenntur fyrir hinum nýja Fiat 500 bíl, en hann er afrakstur Daihatsu_trevisflottrar hönnunar. Ókosturinn er að hann fæst bara tveggja dyra. Nú er ég orðin svolítið spenntur fyrir Daihatsu Trevis. Hann er fjögurra dyra og uppgefið, 4,6 L/100 km með þriggja sílindra vél, en alveg þokkalega sprækur.

Bíllinn verður að hafa karakter. Ef til vill eru þeir fleiri smávaxnir og svalir, en áðurnefndar tvær gerðir. Trúi því að það verði eitt af viðmiðum kynþokka á næstu misserum hvort þú ert á flottum smábíl. Stórir steravaxnir jeppar inn í borgarakstri er auðvitað bara bilun!


mbl.is Eldsneytisverðið á enn eftir að hækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

... í kringum kirsuberjatré, kirsuberjatré

LjosanottSettum seríu á kirsuberjatréð í kvöld til að láta síðustu færslu ekki vera bara orðin tóm. Ekki var verra að fá hvatningu frá Hrönn Laugarvatnssystur. Skora á hana að birta mynd af sér í ljósadýrðinni þegar hún er búin að kveikja. Það stefnir því í ljósanætur í görðum út um allan bæ. Myndin er af okkur Helgu þar sem við erum orðin þokkalega sátt við uppsetninguna.

 


Tökum til seríurnar og lýsum upp!

Vorum einmitt að spá í að smella einni seríu með hvítum perum á kirsuberjatréð fyrir framan stofugluggann. Það er ekkert að því að lýsa aðeins upp í skammdeginu. Myrkrið getur verið svolítið þrúgandi í snjóleysinu. Hinsvegar er ég á móti því að vera böggaður með auglýsingaflóði og að hvatt sé til kaupæðis í nóvember. Desember er meira en nógu langur tími fyrir gullkálfinn.
mbl.is Aðventuljós komin út í glugga í Eyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blóm vikunnar

nullÍ gamni og alvöru hefur verið sagt að skipta megi líffræðingum í tvo hópa; sloppalíffræðinga og stígvélalíffræðinga. Þeir vinna sem sagt annars vegar á rannsóknastofum eða athygli þeirra beinist að lífríkinu, umhverfinu. Minn grunnur er í lífeðlisfræði mannsins og því hafði ég lengi vel lítinn áhuga á plöntum. Hinsvegar hefur þetta verið að breytast með sífellt hækkandi aldri og auk þess verður kennari í líffræði að hafa þekkingu á þessu sviði. Því hef ég tekið töluvert af blómamyndum síðustu árin í gönguferðum á Stafafelli og langar að skreyta hausinn á síðunni með nýju blómi vikulega. Byrja hér á einni plöntu sem að er mér hvað kærust, enda vex hún bara á Austurlandi og nefnist Gullsteinbrjótur.  


Hvað með skuldir heimilanna?

Ríkið hefur með auknum tekjum verið að koma í plús. Nú á að tryggja grundvöll sveitarfélaganna. Hvar er viljinn til að styðja við þann hlekk sem að er mest skuldsettur þ.e. heimilin í landinu. Nú er nýbúið að hækka stýrivexti og vextir á íbúðalán hafa hækkað um þriðjung hjá bönkunum. Samfylkingin þarf að koma þarna sterk inn, snúa við þróun íhaldsáranna sem endalaust bætti aðstöðu fjármagseigenda og skapa fjölskylduvænt samfélag með auknum barna og vaxtabótum.
mbl.is Ríkið mun veita aðstoð við skuldagreiðsluna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aukin umferð milli Evrópu og Egilsstaða

EgilstadarflvollurFréttir eru af vaxandi umferð um Keflavíkurflugvöll. Töluvert styttra flug er milli Egilsstaða og meginlandsins. Yfir 90% ferðamanna koma til landsins til að njóta íslenskrar náttúru. Því ættu að liggja miklir vaxtamöguleikar fyrir Austurland með alla sína náttúrufegurð í sameinaðri Evrópu. Iceland Express var með flug tvisvar í viku beint frá Kaupmannahöfn síðasta sumar og verður líka næsta sumar.

Uppsprettur kærleikans

Fór í morgunmessu hjá séra Ragnheiði í Lágafellskirkju. Góð og innihaldsrík samverustund. KK og Ellen tóku nokkur lög sem gerði athöfnina enn fallegri. Á allra sálna messu, sem er í dag er látinna minnst. Ragnheiður fjallaði um ömmu sína sem var henni uppspretta og efling góðra eiginleika, jákvæðni og kærleika. Hún hvatti fólk til að minnast þeirra sem hefðu reynst fólki haldreipi og fyrirmyndir. Kærleiksríkar fyrirmyndir. Hugurinn ráfaði til minninga um ömmur mínar, Kristínu og Ragnhildi, fólksins í Hraunkoti o.fl.

LágafellskirkjaÍ raun eigum við öll þetta val að vera farvegur kærleikans. Við erum samfélag og erum allt lífið að hitta á fólk sem að hefur jákvæð áhrif á okkur. Því er haldið fram að sérstaða Íslendinga í trúmálum sé sú að langflestir aðhyllast hina lútersku þjóðkirkju. Ef kirkjan vill gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu þá þarf hún að skapa möguleika á að hinn almenni kirkjugestur upplifi sig áhrifamann í söfnuðinum. Kirkjan er að fikra sig inn á slóð opnunar hjartans. Í stað þess að mæta til messu líkt og ég kynntist í bernsku með óttasvip og erfðasyndina á bakinu er áherslan að færast á næringarríka samverustund.

Þarna liggja möguleikar kirkjunnar til að vaxa og dafna. Festast í sessi sem mikilvægt hreyfiafl í samfélaginu. Ástarmiðstöð, kærleiksmiðstöð, mannræktarmiðstöð. Farvegur næringarríkra samskipta, uppspretta inntaks og vegarnestis. Í ljósi þessa samfélagslega hlutverks finnst mér það við hæfi að hinn almenni meðlimur safnaðarins sé gerður að þátttakanda í tilhögun uppbyggingar á miðstöð safnaðarlífsins, nýrrar kirkju í miðbæ Mosfellsbæjar. Slíkt hús verður sem hljómandi málmur eða hvellandi bjalla, ef ekki er leitað eftir því að hún verði vegur kærleika allra sálna safnaðarins. 


Miðbær Mosfellsbæjar

Á næstu mánuðum bíða Mosfellinga spennandi tækifæri við stefnumótun um miðbæ. Tilfinning margra er að þar þurfi að trysta undirstöður gróskumikils mannlífs. Þó að mörg þjónustufyrirtæki í miðbænum hafi átt erfitt uppdráttar, þá hlítur það að vera metnaðarmál að gera bæjarfélagið að miklu meira en svefnbæ. Að í stækkandi bæjarfélagi geti íbúar sótt menningu og þjónustu í heimabæ.

Grundvöllur að því að vel takist til við að láta miðbæjarskipulag verða grundvöll mannlífs er að hafa málið eins opið og mögulegt er. Íbúarnir komi að hugmyndavinnu. Þar á bæjarfélagið hrós skilið að hafa leitað eftir áliti fólks með vinnu svonefndra rýnihópa. Mjög mikilvægt er að halda áfram á svipuðum nótum, að bæjarbúar geti tekið afstöðu til mismunandi hugmynda.

miðbaerSlík opin vinnubrögð þurfa hinsvegar leiðsögn og aðkomu fagfólks. Skipulagsfræðingar þurfa að meitla væntingar og óskir fólks inn í skynsamlegan farveg. Ef farið er út í deilur um kirkju hér eða þar, framhaldsskóla hér eða þar, þá getur það leitt til minnkandi trúar á lýðræðið.

Staðsetning framhaldsskóla og kirkju eru brýnustu úrlausnarefni miðbæjarskipulags. Hugsanlega dugir að festa fyrst staðsetningu þeirra niður. Síðan þarf að velta fyrir sér möguleikum varðandi verslunar- og þjónustusvæði. Eru menn alveg hættir við kardimommubæinn í Háholti eða væri æskilegt að byggja hliðstæða lengju á móti sem færi að gefa heildstæða götumynd?

skipulagEf til vill þarf að hugsa málin á djarfan og nýstárlegan hátt. Flestir vilja orðið versla inni, en þó held ég að menn vilji ekki fá annað Krónuhús í stækkaðri mynd. Ef til vill er hægt að gera eitthvað spes. Byggja upp verslunarhús með rómantískri ásýnd og umgjörð. Staðsetja það í fallegum garði eða að láta það forma einhverja Versali með garði og útiaðstöðu í miðjunni.

Setjum fram hugmyndir! Sköpun og þátttaka íbúa er forsenda þess að vel takist til. Annars munu hagsmunir byggingaraðila og aðila með lóðaréttindi ráða för. Þá þarf eftir nokkur ár aftur að fara af stað með nýja leit að miðbæjarskipulagi með sál og hjarta.

Hvað finnst þér?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband