Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Blóm vikunnar Holurt

nullBlóm vikunnar er Holurt eða Silene Uniflora. Nafnið er rakið til Silenus hins belgmikla fósturföður Bakkusar, vínguðsins, í grískri goðafræði. Þeir feðgar voru óhófsmenn og bumbulaga blómbikar holurtarinnar hefur minnt á líkamslögun þeirra. Eitthvað á þeim nótum sem nú er vísað til sem bjórvömp. Það er því fátt nýtt undir sólinni. Holurt er algeng um allt land. Vex einkum í sendum jarðvegi og melum. Þessi belgdi sig út í skriðu innan við Brenniklett, Kollumúla, Stafafelli í Lóni í ágúst 2004.


Kvefpestir

Kvef2Á þessum tíma árs valda kvefpestir og flensur röskun á daglegri rútínu. Í síðustu viku voru margir nemendur mínir fjarverandi vegna veikinda. Nú hef ég verið að berjast þessa baráttu með beinverki, þurran hósta og sáran háls. Hef búið nokkur ár erlendis og man ekki eftir því að kvefpestir væru að taka svona mikinn toll frá hversdaglegu amstri. Er tíðni og algengi eitthvað meira hér á landi? Allavega, ég hugga mig við það að þegar maður er búin að þrauka pestatímabilið, sem stendur nú yfir, að þá fer að verða stutt í vorið og að klakaböndin bresti.


Skáldsagan Landnáma

Stærsti áhrifavaldur í eignaupptöku ríkisins, sem er að ganga fram þessi misserin, er Landnáma. Með Geitlandsdómi setti Hæstiréttur traust sitt og vægi á þessa bók. Að fullkominn eignarréttur verði vart sannaður nema að hægt sé að rekja það í Landnámu hver mörk jarðarinnar voru.

Slík krafa um að sanna eignarsögu aftur í tímann um rúm þúsund ár er með fádæmum. Auk þess eru fræðimenn í fornritum almennt á þeirri skoðun að Landnáma sé ekki áreiðanleg heimild. Það er því sérkennilegt hjólfar sem dómarar Hæstaréttar eru fastir í að virða hana meira en fjögur hundruð ára eignarsögu.

Stafafell í Lóni er skýrt afmörkuð heild sem í hundruðir ára hefur verið talin ná að vatnaskilum Nesja, Fljótsdals og Álftafjarðar. Héraðsdómur taldi það eðlilega "væntingu" núverandi landeigenda byggt á öllum gögnum að þeir ættu fullkominn eignarrétt. Jörðin var keypt af ríkinu 1913 og því er ríkið að ætla sér að fá frítt til baka það sem það seldi.

Það er í hæsta máta óeðlilegt að búa við réttarfar eins og varð í niðurstöðu Hæstaréttar. Það er gert að meginmáli að óljóst sé um landnám, byggt á skáldsögunni Landnámu. Um miðja 17 öld segir Brynjólfur biskup Sveinsson að Kollumúli og Víðidalur séu eign Stafafells, sem Hæstiréttur hefur nú dæmt aftur til ríkisins.

Það er von landeigenda að Mannréttindadómstóllinn í Strassburg leggji meira upp úr þinglýstum skjölum um sölu ríkisins og hina löngu eignarsögu, sem engin hefur véfengt, heldur en þjóðrembu og fornum sögnum af ferðum með kvígur og tendrun elda.


mbl.is Fundað um þjóðlendumál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

REI = D

ÁbyrgðSjálfstæðismenn hafa á hrokafullan hátt reynt að spyrða atburðarrás í REI málinu við borgarstjórn Dags B og Tjarnarkvartets. Hafa í skrifum talað um REI-listann og ekki axlað ábyrgð í málinu. Nú er eignarrétturinn á klúðrinu orðinn öllum ljós og það þarf mikið hugrekki til að styðja það plan að Vilhjálmur taki aftur við sem borgarstjóri.
mbl.is „REI - ætlar Sjálfstæðisflokkurinn ekki að axla ábyrgð?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

WOW!

WowNowÞetta slagorð (wow!) vilja Hornfirðingar nota til að selja "Í ríki Vatnajökuls". En það virðist í kvöld hafa verið viðeigandi strax við útgang flugvéla í Keflavík. Sjúkrabílar og slökkvilið í viðbragsstöðu, hávaðarok og lemjandi rigning. Vonandi að þeir túristar sem voru að koma til landsins hafi verið að kaupa "50/50 survival" reisu.
mbl.is Flutningi úr flugvélum lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blóm vikunnar Dýragras

nullBent var á fegurð Dýragrasins í síðustu viku. Þetta litla blóm grípur oft athyglina vegna sinnar vel formuðu fimm blaða og djúpbláu krónu. Það er algengt um allt land og vex einkum í mólendi eða valllendi þar sem að er þurr jarðvegur. Þessi tvö blóm voru í Víðidalshjöllum Stafafelli í Lóni, snemma í águst 2004.

Vetrarríki í listigarðinum

Fór út og tók nokkrar myndir af fegurðinni hér í garðinum í þeim mikla snjó sem liggur yfir í dag, en verður sennilega farinn eða í allt annarri mynd á morgun.

100_1498100_1500100_1525100_1539IMG_0550IMG_0558IMG_0560IMG_0554


Hugmyndaleysi og nauðhyggja

Magamál

Telja má víst að ákveðinn skortur á ferskum hugmyndum í pólitík sé fylgifiskur neysluhyggju sem ríkt hefur í landinu síðustu árin. Kjósendur leggja meira upp úr því að tryggja mettan maga, betri bíl og gott húsnæði, en umræðum og átökum um pólitík. Eðlilegt er þó að gera ráð fyrir að innan stjórnmálaflokkanna eigi sér stað umræða um stefnur og hugmyndir. Framtíðarsýn.

Leiðari Morgunblaðsins um helgina fjallaði um skort á nýjum hugmyndum í íslenskri pólitík um þessar mundir. Þar segir meðal annars undir yfirskriftinni "Hvar eru hugmyndirnar?"; "Þessi skortur á nýjum hugmyndum stendur öllum íslenzku stjórnmálaflokkunum fyrir þrifum. Þeir hafa ekkert nýtt fram að færa og þess vegna er ekkert merkilegt að gerast á vettvangi stjórnmálanna". Þetta er ágæt brýning til flokkanna.

Félagi og vinur Bjarni Harðarson gagnrýnir Samfylkinguna fyrir nauðhyggju í peningastefnu og efnahagsstjórn. Bent sé á aðild að EB sem lausn á öllum vanda á þessu sviði. Það er trúlega málað nokkuð sterkum litum eins og gengur í hanaslag stjórnmálana. En hefur aðildin að EES ekki einmitt verið að skapa svigrúm til atvinnu og mennta um mest alla Evrópu? Útrásin gert það að verkum að hin mikla skerðing í sjávarútvegi hefur ekki teljandi áhrif á efnahag ríkisins þó hún komi niður á sjavarbyggðum.

Hin íslenska nauðhyggja dreifbýlis hefur falist í því að fólkið hefur um of treyst á að Búnaðarfélagið og Framsóknarflokkurinn tryggðu mettan maga og góð lífskjör til lands og sjávar. Ólíkt farsælla hefði verið fyrir sveitirnar ef greiddir hefðu verið búsetustyrkir frekar en framleiðslustyrkir. Þá byggi dreifbýlið við fjölbreytt atvinnulíf, þar sem t.d. steinslípun hefði átt jafna möguleika að þróast og sauðfjárrækt. Það hefði gefið af sér mun meiri gerjun í hugmyndum heldur en að borga fyrir vöru sem að iðulega seldist ekki. En Framsóknarflokkurinn ákvað að vera áskrifandi að atkvæðum með þessu fyrirkomulagi. Síðan fluttu atkvæðin á mölina.

Íslensk stjórnvöld hafa síðustu öldina valið sér það hlutskipti að vera þiggjendur í utanríkismálum. Fylgja stefnu Nató og Bandaríkjanna, en reynt að selja þann stuðning og aðstöðu fyrir her háu gjaldi. Þetta hafa rannsóknir Vals Ingimundarsonar sýnt. Margt bendir til að hagsæld Íslands næstu áratugina muni tengjast aukinni samvinnu við Norðurlöndin og Evrópu, en vægi sambands við Ameríku minnka, þó það verði áfram mikilvægt.

Telja má víst að fólk og fyrirtæki muni vera gengið í EB áður en stjórnmálamenn komast að niðurstöðu í sínu karpi um stefnu í þessum málum. Betri vaxtakjör, lægra vöruverð, ásamt útrásinni hafa sett þessa þróun af stað og hún á eftir að ganga smátt og smátt lengra. Fyrirtækin munu gera upp í evrum, fólk mun geta valið um að fá laun greidd í evrum, búðir munu smátt og smátt birta verð í evrum og bankar munu bjóða upp á greiðslukort í evrum.

Þannig mun áherslan á mettan maga stuðla að áfram verður haldið á þessari braut. Einstaklingurinn hefur fengið aukið svigrum og athafnafrelsi með EES samningnum. Löggjöf og reglur sem þurft hefur að taka upp afa oftar en ekki aukið réttindi einstaklinga, til dæmis gagnvart stjórnvöldum. Almenningur sér ekki hvernig evrópusamstarfið þrengir að þjóðerni okkar eða sjálfstæði landsins. Þó mikill fjöldi erlendra verkamanna hafi sett svip sinn á mannlíf, þá má ekki gleyma því að við völdum að ráða það til vinnu.

Það er auðvitað ákvörðun stjórnmálamanna hvort þeir afgreiða Evrópumálin með einu pennastriki. Verðum við áfram óvirkir viðtakendur í stefnumótun eins og ríkti hér um varnarmál og efnahagstengsl við Bandaríkin? Skoðum bara hvað við getum grætt en ekki neinar meiningar í stefnumótun? Er það ekki versta form nauðhyggju að vera í EES, taka við reglum og lögum án nokkurrar aðkomu að hugmyndavinnu og stefnumótun?
 


Syndaselir og sægreifar

Hannes Hólmsteinn hefur farið mikinn í fyrirlestrum víða um heim, þar sem hann dásamar íslenska fiskveiðistjórnun. Hún geti verið módel fyrir önnur lönd. Hugmyndir hans hafa vakið mesta athygli í Suður-Ameríku. Veit ekki hvort að hann er jafn víða bókaður núna, eftir að fleiri og stærri gallar þess fá alþjóðlega athygli. Eitt er víst að full ástæða er fyrir þá sem aðhyllst hafa kerfið að breyta rökræðu sinni, því varla stendur þar steinn yfir steini lengur.

Frjálshyggjumenn halda því fram að með eignarhaldi á fiskveiðiheimildum hafi orðið til verðmæti sem að ekki voru til áður og að einstaklingum sé best treystandi til að fara vel með eignir og að tryggja ávöxtun þeirra. Raunin hefur orðið önnur. Sannleikurinn birtist í gífurlegri skuldsetningu greinarinnar. Þannig að það mikla fjármagn sem farið hefur út úr sjávarútvegi varð ekki til úr loftinu einu saman. Því er miklu nær að líta á sölu á fiskveiðiheimildum sem umfangsmikla eignatilfærslu.

FriðrikEkkert bendir til að útgerðarmenn fari vel með "eign sína". Tölur um gífurlegt brottkast og þróun í átt til sífellt stórtækari veiðarfæra, sem dregin eru eftir botninum og valda tjóni í viðkvæmum vistkerfum benda til þess að framganga útgerðar í núverandi kerfi einkennist af óþarfa sóun og græðgi. Eitt af meginmarkmiðum kvótakerfisins var aukin stofnstærð hjá þorski og fleiri tegundum. Eins og allir þekkja að eftir tveggja áratuga stjórnun með kvótakerfi hefur stofnstærð þorsks aldrei verið minni. Því virðist þurfa að hugsa nýjar leiðir sem ná þessu markmiði.

Samkvæmt niðurstöðu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðana er brotið á rétti einstaklinga að úthluta og binda veiðiheimildir við tiltekinn fámennnan hóp. Jafnræði þarf að ríkja í möguleikum fólks að nýta hina sameiginlegu auðlind. Gera má ráð fyrir að einnig komi fljótlega dómur þar sem að það verður dæmt ólöglegt að meina eigendum sjávarjarða að nýta hlunnindi og rétt til útróðra. Sjálfstæðismenn hafa brugðist við dómnum, með því að tala um sérálit hans í staðinn fyrir að fjalla um niðurstöðu tólf dómara nefndarinnar.

GudniNú er Guðni Ágústsson búin að lýsa því yfir að hann sé til í að vinna með öðrum flokkum að því að tryggja það að kvótakerfinu verði breytt þannig að það uppfylli viðmið um mannréttindi. Hann kemur fram sem syndari sem er tilbúin að snúa til betra lífernis. Ólíklegt er að Halldór Ásgrímsson, guðfaðir kvótakerfisins, stígi af friðarstóli í Kaupmannahöfn og lýsi yfir iðrun og vilja til að leita leiða til að tryggja réttindi og jöfnuð. Guðni er búin að tefla sinn fyrsta leik í refskák sen beinist að því að einangra Sjálfstæðisflokkinn, sem virðist vera orðinn einn flokka sem ekki vilja endurskoða stjórn fiskveiða.

Munu umræður um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða verða fleygur í stjórnarsamstarfið? Annað mál sem að er í eðli sínu svipað er ákvæði um eignarhald almennings á orkuauðlindunum sem er í tillögum Össurar Skarphéðinssonar að nýjum orkulögum. Þar virðist þingflokkur Sjálfstæðisflokks vera að tefja framgang málsins, þannig að óvíst er að þau verði að lögum. Á meðan bíður Framsóknarmaddaman og vonar að einhver sýni henni áhuga. Hver sem er, hvenær sem er og hvar sem er! Jafnvel við endurskoðun kvótakerfisins. Þeir horfa yfir sviðna akra sveitanna og draugabæina meðfram ströndinni. Iðrast.


Hvenær er svartur maður hvítur og hvítur maður svartur?

BarackOprah Winfrey hélt því fram í sjónvarpi að eftir forkosningar demókrata þá myndi kyn og litarháttur ekki lengur skipta máli í pólitík. Hún sjálf hefur gengt mikilvægu hlutverki við að brúa bilið í sjálfsmynd hvítra og svartra. Jafnframt er sagt að það hafi verið erfið ákvörðun fyrir hana hvort hún ætti að styðja þekkta konu eða þeldökkan mann í forvalinu. ´

Þegar Bill Clinton varð forseti hafði hann mikinn stuðning meðal svartra kjósenda. Hann naut reyndar það mikilla vinsælda að þekktur rithöfundur sagði að hann væri "fyrsti svarti forsetinn". Rökstuddi það síðan nánar á þann veg að það væri margt sem að hann ætti sameiginlegt með sjálfsmynd blökkumanna. Hann væri uppalinn í fátækt af einstæðri móður og spilaði á saxafón!

OprahFyrstu þrælarnir frá Afríku voru fluttir til Virginíu árið 1619. Síðan hefur átt sér stað blóðblöndun, þannig að stór hluti hvítra á einhvern svartan forföður og lítill hluti þeirra sem teljast svartir eiga eingöngu rætur að rekja til Afríku. Samt hefur það að vera African American og Caucasian mikla merkingu meðal bandaríkjamanna. Hjónabönd hvítra og svartra eru frekar sjaldgæf.

Þó að einstaklingur sé að meirihluta af öðrum uppruna en svörtum, þá flokkast hann yfirleitt þannig. Dæmi um slíkt er kylfingurinn knái Tiger Woods. Hann er einungis 1/4 af Afríku uppruna, 1/2 frá Asíu, 1/8 frá Evrópu og 1/8 Ameríku Indjáni. Nýlegar rannsóknir (Mark D. Shriver) sýna þó að minni genablöndun hefur átt sér stað en áður var haldið. Um 70% hvítra Bandaríkjamanna eiga engan forföður frá Afríku. En meðal svartra má rekja tæplega 20% erfða til hvítra.

TigerBarack Obama er 1/2 svartur og 1/2 hvítur. Faðir hans er frá Kenýa, þannig að hann er ekki afkomandi bandarískra innflytjenda eða þræla frá Afríku. Þannig að hann deilir ekki þeirri sögu með þeldökkum kjósendum. Af þessum sökum var forsíðu úttekt TIME undir yfirskriftinni; "Is Obama Black Enough?". Hvort hann væri líffræðilega, félagslega, sálfræðilega nógu tengdur svörtum bandaríkjamönnum til að þeir líti á hann sem sinn fulltrúa.

Ef til vill sýna dæmin af Opruh Winfrey og Bill Clinton hér í byrjun að þessi hugtök eru að stærstum hluta félagsleg eða sálræn. Við erum jú erfðafræðilega að stærstum hluta lík frekar en að vera ólík. Telja má víst að hverjar sem niðurstöður verða í forkosningum demókrata í dag þá muni þær ryðja úr vegi einhverjum af þessum hindrunum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband