Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Hætt við flug milli Egilsstaða og Kaupmannahafnar

Iceland express ákvað nýlega að aflýsa fyrirhuguðu vikulegu flugi milli Egilsstaða og Kaupmannahafnar. Staðsetning höfuðstaðar Austurlands er að mörgu leyti ákjósanleg fyrir alþjóðlegan flugvöll milli Íslands og Evrópu. Það eru því vonbrigði að þetta flug hafi ekki náð að vaxa og dafna.

Margt bendir til að kynning og áform um flug á þessari leið hafi verið framkvæmd af hálfum hug. Erfitt var að fá uppgefið fyrr en seint og um síðir hvort af fluginu yrði. Það er mjög erfitt fyrir ferðaskipuleggjendur að markaðsetja ferðir, ef það er óljóst hvort flogið verður á tiltekinni leið.


mbl.is Iceland Express gefst upp á Egilsstöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rannsökum tilefni rannsóknar

Umfangsmesta viðskiptaveldi Íslandssögunnar hefur fengið heilbrigðisvottorð sem var reyndar allt of dýru verði keypt. Kostaði milljarðinn. Hvaða stórfyrirtæki stæðist fullkomlega slíka úttekt sem sett væri af stað undir formerkjum opinnar veiðiheimildar? Finnið hvað sem er, leitið að öllum tilefnum í bókhaldi og skattamálum.

Mikil umfjöllun var um innflutning á bílum og að reynt hafi verið að gefa upp lægra verð til að ná fram lækkun á innflutningsgjöldum. Spaugsamur félagi minn sem er í innflutningi sagði að það væri merkilegt ef að Baugsmenn yrðu þeir fyrstu sem samviskusamlega hefðu gefið upp rétt verð í bílainnflutningi.

Nú hefur komið fram krafan um að það verði skoðað hvort tilefnin hafi verið nægjanleg til að fara af stað með slíkum krafti og þunga gegn tilteknu fyrirtæki og stórskaða hagsmuni þess. Það er mjög eðlilegt að fara yfir forsendurnar og ástæður þess að þetta fyrirtæki fékk slíka úttekt en ekki önnur.

Allir vita að upphafið markaðist af persónulegri óvild og einkamálum. Það er auðvitað enn viðkvæmt mál fyrir Sjálfstæðisflokkinn að útfrá tölvupóstum Jónínu Benediktsdóttur kom í ljós að ritstjóri Morgunblaðsins, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og valdamikli leynivinurinn "hjálpuðu" Jóni Gerald Sullenberger af stað við að stíga fyrstu skrefin


Ekki sæla heldur ofbeldi

Er allur munur á því þegar áhangendur Þjóðverja hrópa ókvæðisorð að Pólverjum og þegar íslenskir foreldrar eru að fara á límingunum á hliðarlínunni og hrópa; "Jarðaðu hann!", "tæklaðu hann!" ? Ef til vill stigsmunur en varla eðlismunur.

En ekki er við mig að sakast, ég var búin að vara ykkur við. Það er kominn tími til að vinna gegn ýmsum neikvæðum hliðum fótboltakúltúrs. Enn og aftur ítreka ég að það er mín skoðun að hann sé algjörlega ósamrýmanlegur við fræðslu- og menningarhlutverk ríkissjónvarpsins.


mbl.is 100 Þjóðverjar handteknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstarf og sjálfstæði

Um leið og ég óska öllum þeim er unnið hafa að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðar til hamingju með daginn, þá vil ég leiðrétta það sem kemur fram í öllum blöðum í dag að friðlýstur hluti jarðarinnar Stafafells í Lóni sé í "umsjón Vatnajökulsþjóðgarðs". Stafafell er sjálfstæð heild í landfræðilegu, sögulegu og útivistarlegu tilliti. Það verður svo lengi sem Jökulsá í Lóni á upptök sín í Vatnadæld og á Vesturdal og rennur sína fjörutíu kílómetra til sjávar á móts við eyjuna Vigur.

Viðræður eru milli landeigenda og Vatnajökulsþjóðgarðs um tilhögun landvörslu og upplýsingagjöf í Lóni í sumar. Þar bendir margt til að finnist samhljómur og ekki þörf á að annar hafi "umsjón" með hinum. Mikilvægt er að vanda til slíks samstarfs og að jafnframt sé virðing fyrir því að líta til sjálfstæðis slíkrar nátturufarslegrar og menningarsögulegrar heildar. Ég hef trú á því að þegar áherslan færist frá snjóhettunni að þá komi þeir dagar að sjónum verði beint að uppbyggingu á því svæði sem hefur hvað mesta möguleika til útivistar og fjölbreytileika í náttúrufari.

Stafafell


Verra að vera "kerling" en "negri"

straujaðu skyrtuna mínaHin langa barátta um útnefningu forsetaefnis demókrata er á enda.  Þessi slagur var að verulegu leyti prófsteinn á það hvort bandaríska þjóðin væri frekar tilbúin að útnefna konu eða blökkumann. Kjósendur höfnuðu reynslumikilli konu og völdu þeldökkan ungan mann.

Fordómar tengdir kyni og litarhætti hafa áhrif. Í allri umfjöllun var mikil áhersla lögð á að koma í veg fyrir neikvæða umfjöllun tengda kynþætti. Slíkt væri vanvirðing við sögu þrælahalds og kúgunar á svertingjum. Hinsvegar var því oft tekið sem léttu spaugi að vera með kyntengdar glósur á konuna í framboði. Þar voru menn ekki á tánum gagnvart mismunun kynjanna og kúgun kvenna. 

Þannig virtist meira umburðarlyndi fyrir kyntengdum fordómum sem að án efa hafa skaðað ímynd Hillary Clinton. Umræða um að hún sé kona sem sé farin að eldast , að hún hafi feita ökla, að hún hafi ljóta hárgreiðslu o.fl. af slíkum toga varð hún að una við í sinni kosningabaráttu.

Sambærilegar árásir á Barack Obama byggðar á kynþætti hefðu vakið hneykslan og fordæmingu í fjölmiðlum. Það virðist því vera verra hlutskipti að vera "kerling" en "negri".


mbl.is Clinton dregur sig í hlé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afsökunarbeiðni væri sáttatónn

Hjörleifur Guttormsson skrifar góða grein í Morgunblaðið í dag. Þar rekur hann hvernig norsk stjórnvöld báðu fórnarlömb pólitískra hlerana þar í landi afsökunar. Um er að ræða mál sem að eru að mörgu leyti sambærileg við þau þrjátíu tilvik hlerana sem að hafa verið gerð opinber hérlendis.

Björn Bjarnason virðist fastur í þeirri einsleitu túlkun að annar aðilinn hafi alltaf haft rétt fyrir sér og hinn hafi alltaf staðið fyrir röngum málstað. Hannes Hólmsteinn kemur í kjölfarið og skrifar á þeim nótum að þetta hafi verið nauðsynlegar aðgerðir til að hafa hemil á hættulegu fólki.

Það vita allir að veröldin var ekki þá og ekki enn bara í svörtum og hvítum litum. Stærstur hluti þess fólks sem að varð fyrir hlerunum var með frómar óskir og væntingar um betri heim. Á þeim voru brotin mannréttindi og til þess þarf að taka afstöðu óháð pólitískum rétttrúnaði.

Telja má víst að ef dómsmálaráðherra hefði verið úr röðum Samfylkingar, þá hefði útspilið orðið annað. Sjálfstæðisflokkurinn hefur stolt sem að gerir afstöðu hans ósveigjanlega og ósanngjarna. Björn Bjarnason fékk kaldastríðið í arf og virðist á stundum fastur í stemmingu þess tímabils.

Afsökunarbeiðni á hlerununum, sem mannréttindabroti óháð því hvor hafði rétt fyrir sér í pólitík, hefði verið eðlilegur tónn sátta og sanngirni.


Fótboltabull

Bjórvambir

Evrópskri menningu stendur helst ógn af múgsefjun sem bundin er við fótbolta. Nú er ætlast til að við látum það yfir okkur ganga að fjölmiðlar verði gjörsamlega undirlagðir af sparkfréttum og tuðrutuði. Jafnvel á að hafa af mér sjónvarpsfréttirnar klukkan sjö, sem að ég er þó búin að borga fyrir. Svo er ég líka búin að borga Þórhalli fín laun fyrir að sjá um Kastljósið. Öllu skal endurraðað á þann máta að bjórþyrstar fótboltabullur fái sinn skammt. Hvað er orðið eftir af menningarlegu og fræðslutengdu hlutverki RÚV sem á að réttlæta tilgang þess?

Gert er ráð fyrir að ferðalög innanlands hefjist ekki fyrr en í júlí vegna útsendinga frá EM í fótbolta. Yfir vetrartímann fara flugfarmarnir af klámfengnum körlum til Englands í fótboltaferðir. Hópþrýstingurinn gengur út á allt annað en heilnæman ungmennafélagsanda. Myndast hefur kúltúr sem liggur oft nærri tónum ofbeldis. Það sem kórónar þó allt er að fótbolti er lítt spennandi sjónvarpsefni, þar sem að það telst líflegur leikur ef 2 til 3 mörk eru skoruð í heildina.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband