Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

"Slátrið slær í gegn"

Svo virðist sem að Fréttablaðið hafi algjörlega misst af öllum fínu bílunum, upplýstu herbergjunum og jakkafataklæddu bankastjórunum kvöldið og nóttina örlagaríku í bankamálum. Fyrirsögn á forsíðu blaðsins um morguninn var; "Slátrið slær í gegn í harðnandi árferði".

Atburðarás og aðalleikarar gefa fullt tilefni til samsæriskenninga. Lán til íslenska ríkisins til að auka gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans leiðir til uppsagnar hins þýska Landesbanken á lánafyrirgreiðslu til Glitnis. Síðan þegar leitað er til Seðlabanka  með fyrirgreiðslu eru eingöngu afarkostir í boði.

Já, vissulega er sláturtíð og nú eigum við von á að sláturhússtjórinn yfirfæri haustinnleggið á góðu kapitalistana og vin sinn í stjórn Landsbankans.


Listrænir tónar náttúrunnar

Þann 30. apríl í vor fengum við hvassan skafrenning á leið okkar á Móskarðshnjúka sem var fyrst í seríu af fjallgöngum til undirbúnings ferðar á Hvannadalshnjúk. Við komumst reyndar ekki á  Hnjúkinn í fyrstu tilraun og fékk hún á sig óvænta atburðarás. Síðan fórum við um mánuði síðar upp á einum sólríkasta degi sumarsins.

Verkefninu að fara á topp Móskarðshnjúka var sem sagt enn ólokið. Úr því var bætt í dag. Ég og Magnús Einarsson samkennari minn lögðum af stað klukkan tíu. Veðrið var reyndar ekki eins hagstætt og ég hafði búist við miðað við veðurspána. Set hér inn myndir sem sýna stemminguna.

Á sama tíma var upp á Hvanneyri ráðstefna um menningu og list í landslagi og skipulagi. Ég sleppti því að fara, en betri helmingurinn fór og er afskaplega hrifinn af því hvernig til tókst. Ráðstefnunni lauk með því að gestir skoðuðu sýningu átta listamanna í Jafnaskarðsskógi.

Mósk Lágaf netMósk nátt net

Mósk nátt3 netMósk nátt4 net

Mósk útsýni1 netMósk útsýni11 net

Mósk útsýni3 netMósk útsýni9 netMósk útsýni7

 


Að vanda til verka

Tunguvegur

Mikilvægt er að vandað sé til verka við framkvæmdir þar sem takast á ríkir hagsmunir náttúruverndar og nauðsynlegra umbóta í samgöngum. Lítlar framfarir hafa orðið í vegamálum Vestfjarða síðan forseti Íslands hvatti til úrbóta frá hinum holóttu malarvegum, sem byggðarlögin hafa mátt búa við um langt skeið.

Það virðist nauðsynlegt að vanda sig vel þegar sporin eru stigin í þessum dansi. Leita að millistefi sem stórspillir ekki náttúru svæðisins með stórkarlalegri útfærslu í vegagerð og uppbyggingu vega milli nesa þvert á firðina. Ef að krafan um þverun er ófrávíkjanleg þá þarf að íhuga vel að fara frekar út í jarðgangnagerð.

Nú liggur fyrir úrskurður héraðsdóms um að þáverandi umhverfisráðherra hafi ekki haft nægjanlegar forsendur til að kveða upp sinn dóm. Að það hafi vantað ítarlegri rannsóknir á umhverfisáhrifum vegalagningarinnar. Katrín Theódórsdóttir lögmaður á hrós skilið fyrir að landa þessum úsrskurði.

Þann 8. október standa Varmársamtökin fyrir baráttufundi gegn fyrirliggjandi áformum um lagningu Tunguvegar frá Leirvogstungu þvert yfir árósasvæði Mosfellsbæjar, nálægt hesthúsahverfi og skólasvæði að Skeiðholti.

Mörgum þykir þessi vegur óþarfur þar sem Vesturlandsvegur geti þjónað hinu nýja hverfi með fullnægjandi hætti. Í það minnsta þurfi að hverfa frá stórkarlalegri þverun beint yfir og sveigja veginn í átt að Vesturlandsvegi þannig að hún fari einungis yfir Köldukvísl en ógni ekki sérstæðri náttúru og útivist.

Ég hef fullan skilning á að frændgarður minn í Austur - Barðastrandasýslu vilji róttækar úrbætur í samgöngumálum, en ég held þeir vilji ekki umbylta umhverfi og ásýnd hinna fögru fjarða, ég hef fullan skilning á að íbúar Leirvogstungu vilji góðar samgönguæðar að hverfinu, en það má útfæra þannig að komi ekki niður á umhverfi og lífsgæðum Mosfellinga sem heildar.


mbl.is Úrskurður um Vestfjarðaveg ógiltur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég boða yður mikinn fögnuð - smástund

"Hann" ætlar að taka einhverjar pásur í stórrigningum á fimmtudag og laugardag. Jafnvel má þá búast við sólskinsstundum. Seinni part sunnudags og á mánudag verður aftur komið í sama farið.

Hvar er þessi heiðríkja, stilla og haustlitir sem að maður vill hafa á þessum árstíma? Hlýindi sem fygja rigningu geti þó haft sína kosti. Hitaveitureikningurinn verður lægri.

Reglan um að ef þú ert óánægður með íslenskt veður þá þurfir þú ekki að bíða nema fimm mínútur og þá séu orðnar veðurbreytingar, virðast ekki eiga við þetta haust frekar en í fyrra.

Til stóð að safna í fjallarútu og sigla af stað í Núpstaðaskóg um síðustu helgi, en hætt við vegna rigningarútlits. Hver veit nema að veður verði fyrir fjallaferð um helgina. 


Hver á heldur?

"Veldur hver á heldur" segir máltækið. En hverjir eru það sem eru að láta krónuna hoppa eða réttara sagt detta? Yfir 15% verðbólga og 50% gengisfelling frá áramótum krefst mikils þanþols og aðlögunarhæfni heimilanna í landinu. Hafa þau svigrúm til að hagræða?

Sálfræðilega er óvissan versti óvinurinn. Ef það kemur óveður, þá fara menn út og festa niður öllu lauslegu, björgunarsveitir negla niður járnplötur og binda báta í höfnum. En hvað geta bændur gert til að ná heyjum í hús, svo öruggt sé um bústofninn yfir vetrarmánuðina.

Er ekki hægt að komast á eitthvað síldarplan um helgina? Moka og salta í akkorði til að tryggja hagsældina, frekar en að örlög ráðist af íslenskum bönkum sem stilla af vexti og gengi eins og þeim hentar, hvort bandarísk stjórnvöld redda Wall Street eða hvort einhverjir meta það löglegt að taka upp evru.

 


mbl.is Afar fátt sem styður við krónuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lausn til lengri og skemmri tíma?

Staksteinar snupra í gær Davíð Oddsson og Geir H Haarde fyrir óþol þeirra gagnvart Evrópu-umræðunni. Þeir hafa ekki viljað ræða upptöku evru sem hluta af aðgerðum til að komast út úr þeim vanda sem við stöndum nú frammi fyrir. Það muni taka að lágmarki fimm ár að ganga í ESB og því sé umæðan um evru tímabær „einhvern tímann í framtíðinni“.

Það er nýmæli að ekki bara einn heldur tveir af forystumönnum Sjálfstæðisflokksins fái ágjöf í þessum dálki, sem ritstjórn hefur yfirleitt tekið frá til að tala neikvætt til flokks og fólks í Samfylkingunni. Þetta sýnir okkur að það er mikill þrýstingur úr atvinnulífi og víðar að Evrópumálin fái fulla athygli í flokksstarfinu. Þau eru á dagskrá núna og líka „einhvern tímann í framtíðinni“.

Yfirlýsing Oli Rehn um að samningaviðræður milli Íslands og ESB þurfi ekki að taka nema ár, gera það raunhæft (miðað við svigrúm á þjóðaratkvæði og fleira) og mögulegt að Ísland verði orðin fullgild aðildarþjóð innan tveggja ára. Stefnumörkun um aðild og upptöku evru er líklegasta leiðin til að styrkja krónuna við núverandi aðstæður.

Því virðast skammtíma- og langtímalausnir hanga á sömu spítunni.


mbl.is Tvíhliða upptaka evru óraunhæf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er Hannes?

HannesDavíð

Ég hef verið latur að blogga síðustu vikurnar. Hinsvegar sakna ég þess að sjá ekki eitthvað frá Hannesi Hólmsteini á þessum örlagatímum. Hann þarf að útskýra fyrir okkur afhverju George Bush nýtir hundruði milljóna dollara úr vösum skattgreiðenda til að bjarga einkafyrirtækjum sem eiga í erfiðleikum. Eiga markaðsöflin og hin ósýnilega hönd ekki að sjá um þetta allt saman sjálf?

Stundum getur reyndar verið gott að hafa skýran lagabálk í Evrópskri eftirlitsstofnun sem stoppar af hina frjálsu og bláu hönd. Þar reyndust íslenskir skattgreiðendur hafa haldreipi gegn því að 20 milljarðar króna yrðu sóttir í vasa íslenskra skattgreiðenda vegna ríkisábyrgðar Davíðs Oddssonar á Íslenskri Erfðagreiningu.

Þetta kallast víst pilsfaldakapítalismi. Að passa upp á að fjármagnið streymi frá almenningi til réttra aðila og að hinir ríku verði ríkari. Að kunna að mjólka kerfið en bera síðan enga samfélagslega ábyrgð. Flytja fjármagnið út úr sjávarútveginum og bera síðan enga ábyrgð á vandanum. Sólunda eiginfjárstöðu bankana og án efa fara sömu leið og í USA að láta ríkið síðan sitja uppi með skuldirnar.


Í sveitarinnar sælu

"Sveit í borg" eru hinir formlegu vegvísar í aðalskipulagi Mosfellsbæjar. Þorri íbúa hefur valið sér stað vegna góðra tengsla við náttúruna og til að fá notið útivistar af ýmsum toga. Hver og einn hefur sett mælistiku á kosti og galla staðarvalsins. Vægi heilbrigðrar umgjörðar fjölskyldulífs og útivistar hefur verið metið meira en óþægindi vegna fjarlægðar frá margs konar þjónustu.

Fyrir tveimur árum skrifaði ég grein í Morgunblaðið sem hét; "Að vernda og efla ímynd Mosfellsbæjar". Þar hvatti ég til þess að leitað yrði allra leiða til að halda í þennan kjarna í áherslum samfélags og bæjarbrags. Einnig að skoðaðir yrðu allir möguleikar til að afstýra áformum um staðsetningu Helgafellsvegar. Fyrstur til að hringja í mig og hrósa fyrir greinarskrifin var Karl Tómasson forseti bæjarstjórnar.

Mál þróðust þó ekki þannig að sameinast væri undir áherslum náttúruverndar og útivistar. Gullæði ríkti í landinu og verktakar fóru mikinn. Það var þekkt stærð af langri sögu Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ að hann gengur hart fram til að tryggja hagsmuni verktaka og mætir iðulega athugasemdum og umræðu meðal íbúa af miklu fálæti. Skipulagsáform eru kynnt en ekki rædd. Athugasemdir eru sagðar byggja á misskilningi.

Það kom hinsvegar verulega á óvart að Vinstri grænir sem mynduðu meirihluta með Sjálfstæðisflokknum stilltu sér upp með hagsmunum fjármagns og verktaka. Að þeir eyddu öllu sínu púðri í baráttu gegn opnum umhverfis- og íbúasamtökum, Varmársamtökunum. Höfðu engin spil á hendi í umræðu um náttúruvernd. Talsmaður þeirra festist síðan í pitti sjálfsvorkunar og er þar enn, þó hann gangi samkvæmt viðtali óttalaus innan um skurðgröfur.

Mikið vantar upp á að eðlilegt andrými sé fyrir aðkomu almennings að þróun síns samfélags. Að það sé talið eðlilegt og sjálfsagt að vera virkur og skapandi einstaklingur. Að fulltrúar flokka eða meirihluta séu ekki þeir einu sem að megi hafa orðið. Það hefur verið skoðun mín að það sé að vissu leyti sameiginlegur vandi Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna að líta á sig sem fulltrúa sannleikans í mörgum málaflokkum. Hafa lítinn áhuga á að fara leiðir í átt að auknu íbúalýðræði.

Að geta hlustað og tekið tillit er ekki merki veikleika. Að bjóða upp á valmöguleika, umræðu, kosningar er styrkleiki. Mál geta orðið snúnari þegar skipulagsferlið hefst á því að hníta alla hnúta þannig að þjóni verktökum og framkvæmdaaðilum. Fulltrúar umhverfissamtaka voru boðaðir snemma sumars af bæjaryfirvöldum á kynnningarfund vegna fyrirhugaðs Tunguvegar. Þar undirstrikaði skipulagsarkitekt að það væri pólitísk stefnumótun sem ákvarðaði hvort svæði væru tekin frá til útivistar og náttúruverndar, ásamt því hvort umferðarmannvirki væru látin liggja utan slíkra svæða.

Ólafur Arnalds Mosfellingur og forseti umhverfisdeildar Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri skrifar nýlega blaðagrein sem nefnist "Vegur yfir lífsgæðin í Mosfellsbæ". Þar lýsir hann áhyggjum af vegagerð yfir árósasvæðið, sem hann segir verða mikil skipulagsmistök og rangt verðmætamat í nútímalegri skipulagsfræði. Valdimar Kristinsson reiðkennari, járningamaður, tamningamaður og blaðamaður og fleiri hestamenn hafa einnig lýst yfir þungum áhyggjum af fyrirhugaðri tengibraut út frá hagsmunum þeirra og hesthúseigenda.

Margt bendir því til þess að öfl sem vilja tryggja áframhaldandi gæði sveitasælunnar, þurfi að efla sitt samstarf og skerpa samhljóm. Það þarf að beita pólitískum þrýstingi til að tryggja áherslur náttúruverndar og útivistar. Kjörnir fulltrúar þurfa að hafa nógu breitt bak til að mæta slíkum þrýstingi á málefnalegan hátt og rökstyðja eigin framtíðarsýn á þróun bæjarfélagsins. Fyrirhugað er að Varmársamtökin haldi fljótlega opinn borgarafund til að mótmæla áformum um lagningu Tunguvegar.

Glutrum ekki niður ímynd og lífsgæðum Mosfellsbæjar fyrir steinsteypu og gullkálfa!

Skoðanakönnun til hliðar um afstöðu til Tunguvegar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband