Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009
28.2.2009 | 07:52
Ég er í framboði
Ákvað í gær að gefa kost á mér í 3-5 sæti Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi. Gerði það eftir að ég frétti að engin af forystufólki í Mosfellsbæ ætlaði að taka þátt í prófkjöri flokksins. Með þessu vil ég leggja mitt á vogarskálarnar að hægt sé að velja úr fjölbreytilegum hópi frambjóðenda.
En kæri lesandi, ég þurfti að taka mig á við að skrifa titilinn. Vildi fyrst hafa hann; "Gefur kost á sér í prófkjöri". En áttaði mig svo á því að útilokað væri annað en nota fyrstu persónu fornafnið "ég". Nú er ákvörðunin tekin og ég sæki fram með herlúðrum og trumbuslætti.
Stjórnmál eru leiðir fólks til að vera mótandi um eigið líf og umhverfi. Þau hafa verið mér ástríða um langt skeið. Var róttækur Framsóknarmaður til tólf ára aldurs, en reyndi síðar að vera menningarviti og Alþýðubandalagsmaður, en fann ekki reiðina.
Upp úr tvítugu sá ég að fjölbreytileiki í viðhorfum innan flokks er styrkleiki en ekki veikleiki. Að nauðsynlegt væri að fólk sem stendur fyrir félagslegar og lýðræðislegar áherslur myndi öfluga heild. Fyrsti boðberi slíkra viðhorfa var Þjóðvaki og var ég þar á lista.
Kjarni þess sem ég vil setja í forgang er að skilgreina bestu leiðir til að endurskoða lífstíl okkar svo að hann ógni ekki heilsu og náttúru. Hvernig við innleiðum ríkulegt samfélag velsældar án óhófs og skilum lífvænlegum auðlindum til komandi kynslóða.
Það eru spennandi tímar framundan. Í landinu er nóg af flestum veraldlegum gæðum, sem fást fyrir peninga. Stokka þarf spilin upp undir merkjum jafnaðarstefnu, þar sem innleitt er vægi manngildis og sköpunar í stað neysluhyggju og sóunar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.3.2009 kl. 01:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
26.2.2009 | 22:27
Hvað gerir Ingibjörg?
Formaður Samfylkingarinnar mun tilkynna framtíðaráform í stjórnmálum á morgun. Það er ánægjulegt að sjá að henni virðist heilsast vel. En samkvæmt eigin frásögn þá á hún um tveggja mánaða endurhæfingu framundan til að ná sér eftir veikindin og það fari ekki vel saman með kosningabaráttu.
Því má telja líklegt að hún gefi ekki kost á sér að þessu sinni. Það er freistandi að hanna einhverja atburðarás. Jóhanna verði formaður þar til hún hættir í stjórnmálum og þá geti Ingibjörg komið inn aftur. Slíkt þarf að forðast og ef að núverandi formaður gefur ekki kost á sér er eðlilegt að spilin séu stokkuð og hugsanlegt að kynslóðaskipti eigi sér stað.
Samfylkingin má aldrei óttast lýðræðislegt uppgjör og endurnýjun. Þó að kosningabarátta Ingibjargar og Össurar hafi verið langdregin og erfið fyrir flokkinn að þá gæti formannskjör við þessar aðstæður verið sem frískandi stormsveipur. Það væri gaman að geta kosið á milli Dags B. Eggertssonar, Stefáns Jóns Hafstein og Jóns Baldvins Hannibalssonar.
Telja gjaldeyrissamstarf Íslands og Noregs óraunhæft | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.2.2009 | 14:24
Á móti ESB framboðið
Herstöðvaandstæðingar buðu aldrei fram til Alþingis. Andstæðingar EFTA eða EES buðu aldrei fram til Alþingis. Andstæðingar Sameinuðu þjóðanna buðu aldrei fram til Alþingis, þó að ákvörðunin um aðild að þeim hafi lagt á okkur kvaðir sem skertu sjálfstæðið. Almennt held ég að það sé óskynsamlegt að mynda ný stjórnmálasamtök um andstöðu við tiltekna hluti.
Samkvæmt frétt á Eyjunni er framboð andstæðinga Evrópusambandsins í burðarliðnum. Margt bendir til að leifarnar úr frjálslynda flokknum fari að verulegu leyti inn í þetta framboð. Þar er fyrstan að nefna Kristinn H Gunnarsson. Frjálslyndi flokkurinn er gott dæmi um flokk sem að átti aldrei miklar lífslíkur, þar sem að hann var myndaður um eitt mál.
Þó stór hluti þjóðarinnar sé hlynntur endurskoðun á fiskveiðistjórnuninni þá náðu frjálslyndir aldrei verulegu fylgi af því að tilvera þeirra snérist um andstöðu frekar en úrlausnir. Slíkt mun standa upp á framboð sem myndað er um andstöðu við ESB. Þeir þurfa að útskýra hvernig þeir vilja móta stöðu okkar í samfélagi þjóðanna, gerð alþjóðasamninga og framtíðargjaldmiðil.
Bekkjarfélagarnir og skólafélagar mínir frá Laugarvatni, Bjarni Harðarson og Þórhallur Heimisson eru nefndir sem hryggjarstykkið í hinu nýja framboði. Þar eru mætir menn á ferðinni, sem að er miður að sjá að festist í eins málefnis flokkaskaki. Þeir ættu betur heima í bandalagi fólks um félagslegar og lýðræðislegar áherslur. Þar sem stefna er mótuð með atkvæðagreiðslu félagsmanna. Líkt og stefna Íslands í málefnum álfunnar á að vera mótuð með aðildarviðræðum og þjóðaratkvæðagreiðslu.
Það er aumt hlutskipti ef framboð hefur það markmið að hindra að þjóðin ákveði hvort við göngum til virkrar þátttöku í samvinnu frjálsra lýðræðisríkja Evrópu. Ef að farið er fram einungis undir merkjum þjóðrembu og sjálfstæðis hlýtur framboðið að hafa þá stefnu að segja upp EES samningnum. Segja okkur frá Árósasamningnum sem nýlega var tekinn upp hér á landi, alþjóðlegum samningum um náttúruvernd og hugsanlega barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Sjálfstæðið skal vera algjört og án undantekninga?
Framtíðarsýnin gæti verið öflug hvalveiðiþjóð sem að lítur ekki neinu erlendu valdi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
25.2.2009 | 01:44
Vorkenni Davíð
Þegar horft er á viðtal Sigmars Guðmundssonar í Kastljósi við Davíð Oddsson og einungis er lesið út úr tilfinningalegum viðbrögðum, þá er þar eitthvað stórmerkilegt á ferðinni. Hann er ætíð á varðbergi gagnvart spyrlinum, ætlar honum slæman ásetning. Upplifir aðför gegn sér skipulagða af Baugsmiðlum. Gefur lítið fyrir það að hann njóti ekki trausts og að það þurfi að skapa frið um bankann. Viðurkennir engin mistök.
Þessi einstaklingur sem aldrei hætti að vera formaður Sjálfstæðisflokksins heldur áfram eins og hann gerði á meðan hann var það opinberlega að sortera fyrirtæki. Hann átti erfitt með að ræða ummæli Sigurðar Einarssonar að hann hafi nefnt nauðsyn þess að "taka Kaupþing niður". Honum tókst líka að bendla hugsanlegar færslur hjá Kaupþing í London við setningu hryðjuverkalaga. Hann lýsir því yfir að hann hafi látið lögreglu vita af tengslum Kaupþings við auðjöfurinn í Katar.
Hin flokkslega vinátta við Björgólfsfeðga birtist á þann veg að þar eru engar meldingar látnar falla um nauðsyn á rannsóknum á hugsanlegu peningaþvætti tengdu Landsbankanum, tengslum við Rússnesku mafíuna o.fl sem legið hefur í loftinu. Nú, þarf þessi pólitíski vígamaður sem sorterar samferðamenn í vini og óvini, vonda kapitalista og góða kapítalista að fara að fá hvíldina. Eitthvað sem gefur honum sálarró og svigrúm til að gera upp málin frá sínu þrönga pólitíska sjónarhorni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
23.2.2009 | 23:00
Engin ný framboð?
Rúmu korteri fyrir kosningar bendir fátt til að ný stjórnmálasamtök bjóði fram. Hið nýja kvennaframboð er sprungið á limminu, framboð um séráherslur til úrbóta á lýðræðisskipan er ekki líklegt ef persónukjör og stjórnlagaþing eru á dagskrá, ekki er líklegt að nema tveir til þrír fyrrum Framsóknarmenn séu viljugir til framgöngu undir merkjum andstöðu við samband Evrópuríkja.
Þá er spurningin hvort að Íslandshreyfingin og Frjálslyndi flokkurinn geti náð til sín auknu fylgi í komandi kosningum. Þrátt fyrir mikla virðingu sem þjóðin ber fyrir Ómari Ragnarssyni þá eru engar líkur á að hreyfingin nái árangri. Fyrst að þeim gekk ekki betur meðan að virkjanamálin voru raunverulegt hitamál, þá er ólíklegt að fylgið verði meira á samdráttarskeiði 2009.
Sjálfseyðingarhvötin virðist vera það sterk í Frjálslynda flokknum að honum virðist ætla að takast það hjálparlaust að þurrkast út af þingi. Jón Magnússon er kominn heim og líklegt að Guðjón Arnar fari sömu leið. Fáir vita hvort Kristinn H. Gunnarsson er í flokknum eða ekki. Guðrún María tilkynnti framboð en ætlar ekki fram skömmu síðar. Spámiðill er á vettvangi og leitar að lífsmarki, en það liggur fyrir að Grétar Mar er greindastur og Sturla Jónsson efnilegastur.
Það er því margt sem bendir til að fjórflokkurinn standi einn eftir. Það verða ekki tveir turnar og því mögulegt að mynda ríkisstjórnir til hægri eða vinstri. Það er stærsti galli okkar kosningafyrirkomulags að geta ekki kosið ríkisstjórn. Það auðveldaði málið ef að ljóst væri á kosninganótt að ef Sjálfstæðisflokkur og Framsókn næðu meirihluta að þá yrði mynduð borgaraleg stjórn og að ef Samfylking og Vinstri grænir næðu meirihluta væri mynduð félagsleg og lýðræðisleg stjórn.
Ég tel það mikilvægt fyrir Samfylkingu og Vinstri græna að bera fram lista með mögulegu persónukjöri. Sjálfstæðisflokkur hefur vísað því frá sér og pabbadrengirnir í Framsóknarflokknum þora ekki að taka áhættuna. Röðun þarf að byggja á trausti kjósenda frekar en tengslamyndun flokksforystu. En öflugur listi þarf mannaval og ég hef áhyggjur af Samfylkingunni, því að þar er meiri umfjöllun um þá sem ekki ætla að bjóða sig fram heldur en þá sem eru að melda sig til þátttöku.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.2.2009 kl. 08:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
23.2.2009 | 01:50
Með tortryggni í vegarnesti
Björn Bjarnason og Hjörleifur Guttormsson hafa verið sammála frá upphafi nýrrar aldar, að helsta ógn Íslands sé þátttaka í samvinnu fullvalda ríkja innan Evrópu. Til þess að viðhalda hugmyndum ógnarjafnvægis úr kalda stríðinu skáldaði George Bush gereyðingarvopn upp á Írak, en þegar að það reyndist rangt þá fór hann um eins og fíll í postúlínsbúð. Allt til að rökstyðja kenninguna um öxulveldi hins illa. Sumir hafa vanist því að eiga óvini.
Um langt skeið voru sitthvor póll óvæginna átaka, þeir sem voru sigldir úr austurvegi og þeir sem gengu erinda Bandaríkjahers. Eftir lok kalda stríðsins þá sameinuðust þessir andstæðingar sem höfðu fengið tortryggnina í vegarnesti í alþjóðastjórnmálum við að skilgreina Evrópusambandið bæði ógn og óvin íslenskra hagsmuna. Í stað þess að hjálpa til við að skilgreina það sem betur má fara í evrópskri samvinnu er leitað að öllu sem vakið geti ótta.
Björn Bjarnasom heldur því fram á síðu sinnni í gær að ein helsta osök efnahagshrunsins sé aðildin að EES samningnum. Undir þetta tekur Hjörleifur Guttormsson í færslu á síðu sinni. Evrópuandstæðingar endurteka klisjuna síðan nógu oft, þar til að það fer að verða möguleiki að einhver trúi. Þó þessir frændur mínir fari mikinn og sameinist í þessu máli þá skynja ég ekki ógn af þessari samvinnu þjóða og er ósammála slíkri sögutúlkun.
Ísland og Noregur eru bæði í EES en fóru sitthvora leiðina síðustu tuttugu árin. Noregur beitti ráðdeild og sparsemi, undirbjó sig fyrir samdráttarskeið, á sama tíma og Ísland innleiddi óhóf og neysluhyggju. Líkt og Gylfi Magnússon hefur bent á að í stað þess að eftirlitsstofnanir stæðu vörð um hagsmuni lands og þjóðar, gengu þeir í lið með útrásinni og bönkunum. Ekkert stóð í vegi fyrir að skikka íslenska banka til að stofna dótturfélög um starfsemi sína í öðrum löndum.
Undirbúa nýtt regluverk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.2.2009 kl. 16:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
21.2.2009 | 23:47
Dramb er falli næst
Getur einhver bent mér á Sjálfstæðismann sem kann að iðrast? Getur einhver bent mér á Sjálfstæðismann sem kann að skammast sín? Getur einhver bent mér á Sjálfstæðismann sem viðurkennir að þeir geti gert mistök? Flokkurinn er búin að vera öll þessi ár við völd og skipið er það illa strandað að það fer ekki fram hjá nokkrum manni að siglingaleiðin var röng. Það myndi hjálpa að þeir sem að voru við stýrið tækju þátt í endurmatinu og sýndu auðmýkt.
Árni Johnsen gerðist fingralangur um árið, en þrátt fyrir fangelsisdóm komst hann ekki lengra en að segja að hann hafi gert mistök. Ekki persónuleg, heldur tæknileg. Svo virðist sem að hann hafi smitað flesta í flokknum af þessari sömu siðblindu. Enginn má viðurkenna á sig persónulega ábyrgð á nokkrum hlut, nokkurn tímann. Hannes Hólmsteinn stendur sig vel í þessu hlutverki, Davíð Oddsson stendur sig vel í þessu hlutverki og Geir Haarde var líka á þokkalegu róli með þetta hlutverk í nýlegu BBC viðtali.
Róbert Wade prófessor við London School of Economics skrifaði í sumar úttekt þar sem að hann varaði við að skuldsetning bankana væri það mikil að íslenskt efnahagskerfi væri í miklu ójafnvægi. Skýrslunni var stungið undir stól og ríkisstjórn hafði lítinn áhuga á að ræða við hann eftir hrunið, þó það hafi verið gert fyrir kurteisissakir þar sem að hann var staddur hér á landi. Nauðsynlegt var að segja honum enn og aftur að gagnrýni hans væri á misskilningi byggð. Við værum mest og best í öllu, þrátt fyrir hrunið.
Gylfi Zoega lýsti áhyggjum sínum í vikulokin að við værum ekki að gera neitt til þess að auka traust okkar á alþjóðavettvangi. Þessi hegðun að láta eins og við séum einir í heiminum og haga sér eins og óábyrgir aðilar í alþjóðlegum samskiptum gæti leitt til langvarandi lánsfjárkreppu og erfiðleika í þjóðarbúinu. Ekki stóð á hrokafullum persónutengdum árásum á hann í anda þeirra sem vita allt og geta allt. Hann væri bara að reyna að ná okkur í Evrópusambandið og væri ekki merkilegur fræðimaður eða persóna, ef út í það væri farið.
Rögnvaldur Guðmundsson hjá Frostfiski í Þorlákshöfn óttast að vegna hvalveiða tapist stórir markaðir fyrir útflutning á íslenskum fiski. Hann óttast að tapa viðskiptum við bresku keðjuna Wairtose en viðskipti við þá hafi numið milljarði á síðasta ári. Bara með þeim viðskiptum gæti tapast jafnmikið og mögulegt sé að ná út úr hvalveiðum. En auðvitað afgreiða Sjálfstæðismenn þetta sem væl, því fátt er víst glæsilegra í þeirra huga en sólóleikur Einars K Guðfinnssonar. Í þessu máli hefur þjóðremban og hrokinn meitlast í farveg algjörrar blindu.
Það væri svo yndislegt að bæta meiri auðmýkt í þjóðarsálina, ásamt því að kunna að hlusta og taka tillit.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.2.2009 kl. 00:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
21.2.2009 | 00:14
Oye Como Va Helgarlagið
Tito Puente samdi lagið Oye Como Va en hann flytur það hér ásamt hljómsveit sinni. Lagið er þó einkum þekkt í flutningi gítarsnilklingsins Carlos Santana. Tito Puente fæddist í Harlem 1923, sonur suður-amerískra hjóna frá Púertó Ríka. Það varð hlutverk hans í lífinu sem lagahöfundar, hljómsveitarstjóra og skapandi listamanns að útbreiða áhuga á suðrænnri tónlist. Hjá honum mætast ólíkir straumar, hann sló fyrst í gegn með mambó tónlist og Kúbanskri danssveiflu, en gerist síðan útsetjari fyrir stórsveitir og blandar danssveiflunni inn í spuna. Rekja má til Puente eitthvað sem kallast gæti suður-amerískur jazz (latin jazz).
Tónlist | Breytt s.d. kl. 00:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.2.2009 | 07:32
"Íslands óhamingju verður allt að vopni"
Hún er með ólíkindum Hómsteinska dagsins, eins og hún birtist í Fréttablaðinu. Þar útatar hann forseta og forsætisráðherra aur og saur. Byrjar á þrástagli um fjölmiðlalögin sem áttu að koma í veg fyrir að "einstakir auðjöfrar" réðu fjölmiðlun í landinu. Það var einmitt vandamálið að frumvarpið var samið gegn Fréttablaðinu til að gæta hagsmuna Morgunblaðsins. Það var ekki sama hver auðjöfurinn var. Forsetinn tók ákvörðun um að vísa lagasetningunni í þjóðaratkvæði, en íhaldinu er ekki vel við lýðræðislegar leiðir til að skera úr um ágreining og því gugnuðu þeir á málinu.
Það er yndislegt að sjá hversu mikið úthald Hannes Hólmsteinn hefur í afneitun. Nýlokið er 18 ára forystu Sjálfstæðisflokks við landstjórnina og þjóðarbúið er í kalda koli. Það vottar ekki fyrir snefil af sjálfsgagnrýni, en vælt eins og smákrakki yfir því að nýju frumvarpi um Seðlabanka sé beint gegn Davíð Oddssyni. Hann lætur eins og honum sé annt um sjálfstæði bankans, en á sama tíma finnst honum eðlilegt að starfandi formaður Sjálfstæðisflokksins sé einnig bankastjóri. Maður sem að hefur í embætti sínu leikið hlutverk pólitísks vígamanns, nefnt áhugamenn um upptöku alþjóðlegrar myntar "lýðskrumara" o.s.frv.
Það er mikil góðvild af "Baugsmiðlinum" að birta þessa veruleikafirringu, því óhamingja og fráhvarf höfundar er mikið þessar vikurnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.2.2009 kl. 00:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
18.2.2009 | 23:18
Plágur samræðunnar
Eyjaskeggjum á ísaköldu landi norður við heimskautsbaug hefur iðulega verið lýst sem lokuðum persónum. Við erum víst afkomendur víkinga, sem voru í senn hetjur og sagnamenn. Allskyns sögur af snarræði og mannraunum komu fólki í gegnum myrkur og kuldatrekk aldanna.
Nú í dag gæti orðræðan verið breytt, orðin persónuleg og hlýleg. Að fólk skiptist á skoðunum, viðruðu hvert við annað sína drauma og þrár. Tjáningin væri opin og einlæg, óvænt og litrík. Þroskandi fyrir mannleg samskipti, lofsöngur til sköpunarverks og tilvistar.
Margir hafa flóttaleið út úr núinu inn í samræðu um fótbolta og bókmenntir. Án þess að hika er ætlast til þess að maður viti eitthvað um knattleiki eða skáldsögur. Yfirleitt er ekki ætlast til að sami maðurinn sé fjölvitur nema um annaðhvort boltann eða sagnamálin.
Venjulega er auðvelt að átta sig á því hvorum hópnum fólk tilheyrir. Bókaormar eru ekki í trimmgöllum og boltamenn eru ekki með kringlótt gleraugu. Þannig gengur þessi félagslega sortering upp og það er sjaldan að annar hópurinn sé áreittur af hinum.
Síðan eru það menn eins og ég sem að eru í senn vörpulegir og gáfulegir, klæðumst lopapeysu og erum í strigaskóm, hláturmildir og alvarlegir. Það er útilokað að átta sig á því hvorum hópnum slík manngerð tilheyrir. Áreitið verður tvöfalt og við erum alltaf reknir á gat.
Er satt að segja alveg uppgefinn á að reyna að skálda í eyðurnar við slíkar aðstæður. Ef einhver spyr mig um hvernig leikurinn hafi farið hjá Liverpool í gær eða hvort ég hafi lesið tiltekna bók eftir Kafka þá langar mig mest að knúsa þá og spyrja hvernig þeim líði, innra með sér, núna.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 23:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)