Eyðimörk íhaldsins

Aumt er að sjá fyrrum stórveldi í pólitík arka um stefnulaust eins og dýr sem leitar að vatninu í eyðimörkinni. Þessi píslarganga verður pínlegri eftir því sem styttist í kosningar. Innvígðir stíga í pöntu til að tefja fyrir stjórnarskrárbreytingum sem ætlað er að tryggja lýðræðislegar umbætur og eignarrétt þjóðar á auðlindum.

Sjálfstæðismenn virðast ekki hafa neitt til að sameinast um. Nýfrjálshyggjan hrunin og þeir munu ekki sjá sinn Messías krossfestan á Skólavörðuholtinu nú á Páskana. Hann er orðinn útlægur úr öllum betri samkvæmum í borginni vegna óheflaðrar framkomu. Nýi foringinn veit ekki hvort að hann vill ræða við Evrópu eða ekki, veit ekki hvort að hann er á móti skattahækkunum eða ekki.

Staðreyndin er sú að meirihluti er á Alþingi fyrir þessum breytingum. Þær hafa líka breiða skírskotun til vilja almennings um pólitískar áherslur. Innlegg sjálfstæðismanna er brekkusöngur og upplestur úr lýsingum á veðurhorfum næstu daga. Að leggja sitt af mörkum til málefnalegrar umræðu færi betur en eyða orku í að reyna að skola umbótum út af borðinu.


mbl.is Sjálfstæðismenn leggja fram sáttatillögu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég heyrði í lóunni inn um gluggann

loaNýlega vaknaður fann ég goluna koma inn um gluggann og það voru vorlegir vindar. Snjólaust og hlýtt.  Frá húsinu okkar liggja akrar og ásar í átt að Úlfarsfelli. Allt í einu heyrði ég skýrt og greinilega lóu syngja dirrindí. Var reyndar búin að heyra í fréttum að hún væri búin að sjást við suðausturströndina, en að heyra söng hennar á vorin er alltaf fagnaðarefni.

Þessi fugl sem dvalið hefur einkum í Skotlandi og með vesturströnd Evrópu allt suður til Marokkó í vetur er nú kominn til að ná okkur út úr hinum kreppta þankagangi. Hún ætlast til þess að maður teygi vel úr sér, dragi djúpt andann, líti út um gluggann og segi fullur bjartsýni; Það er að koma sumar.

Lóan er komin að kveða burt snjóinn.

Kveða burt leiðindin, það getur hún.

Hún hefur sagt mér að senn komi spóinn,

Sólskin í dali og blómstur í tún.

Hún hefur sagt mér til syndanna minna,

Ég sofi of mikið og vinni ekki hót,

Hún hefur sagt mér að vaka og vinna

og vonglaður taka nú sumrinu mót.


Mestur árangur miðað við útgjöld?

Þegar kostnaði mínum við þátttöku í prófkjöri er deilt niður á fjölda atkvæða sem mér voru greidd þá eru það rúmar 50 kr per atkvæði. Helst hefði ég viljað framkvæma mína tilraun í lýðræði algjörlega án útgjalda og athuga hvort hægt væri að ná árangri. En þátttakendur voru skikkaðir til að greiða 40 þúsund krónur í sameiginlegan kynningarkostnað.

Svæðisblaðið í Mosfellsbæ telur í síðasta eintaki upp alla þátttakendur í forvali og prófkjörum úr bænum. Þar er útbúin einhver árangurskvarði eftir því hversu ofarlega þeir lentu á lista. Þar er Ragnheiður Ríkharðsdóttir tilgreind sem sigurvegari og mál kynnt þannig að ég sitji á botninum í samanburðinum. En það eru fleiri fletir á málinu. 

Í prófkjöri Samfylkingar var auglýsingabann en í raun lítil sameiginleg hugmynda og málefnakynning. Þannig að póstnúmer, smalamennska stuðningsmanna og samtryggingar milli frambjóðenda höfðu of mikið vægi í úrslitum. En úrslit hjá Sjálfstæðisflokki ráðast að stórum hluta út frá fjármagni sem sett er í auglýsingar og kosningabaráttu.

Þannig hef ég trú á að mín kæra Ragnheiður hafi eitt hundraðfalt meira í sína kosningabaráttu heldur en ég. Þannig er ekki ólíklegt að kostnaður á hvert atkvæði hjá henni sé í kringum eitt þúsund krónur. Svo er Davíð Oddsson líka búin að setja nýtt viðmið í samkeppni. Fjöldi birtinga í google leit sé rétti mælikvarðinn á hvort einstaklingur teljist verðugur sem seðlabankastjóri. 

Út frá þessu viðmiði er ég sigurvegarinn. Gunnlaugur B. Ólafsson 47.800 vs Ragnheiður Ríkharðsdóttir 42.900. En annars vona ég að vilji til þátttöku í lýðræðinu verði ekki settur upp með þessum hætti sem einhverskonar kappreiðar. Þá gæti verið fráhrindandi fyrir fólk að leggja út á völlinn og vera virkir einstaklingar í eigin samfélagi.


Um 70% hlynnt persónukjöri

Það er ótækt að láta Sjálfstæðisflokk stöðva möguleika á persónukjöri við komandi kosningar. Þörf er að halda hinum flokkunum við efnið. Nú er stór hluti þingmanna sannfærður um að prófkjörin séu búin að skila þeim í örugg skjól. Það er því lítill hvati fyrir þá að tryggja kröfunni um persónukjör framgang inn á Alþingi. Því er nauðsynlegt að kjósendur sýni áfram vilja sinn í þessu máli. 

Hér til hliðar er búin að vera skoðanakönnun í tvær vikur og sýnir hún að 70% prósent þátttakenda eru hlynntir persónukjöri við þingkosningar 2009.


Ein 16" pizza á 6000 kr

Pizza_hutFór með frænku minni eftir landsfund á Pizza Hut í Smáralindinni. Verð að viðurkenna að það jaðraði við að ég þyrfti áfallahjálp þegar ég sá reikninginn. Hafði búist við að ein flatbaka með kóladrykk fengist fyrir um þrjú þúsund krónur en þá var heildarverðið rúmar sex þúsund.

Þegar ég spurði piltinn á kassanum hvort að þetta væri rétt þá sagði hann brosmildur að þeir væru dýrastir á markaðnum, ef það er borðað á staðnum, en til að vera samkeppnishæfir þá væri álíka verð og hjá öðrum pizzastöðum eða um tvö þúsund krónur þegar að hún er send eða tekin.

Samkvæmt þessu hefði ég getað fengið sömu pizzuna fjögur þúsund krónum ódýrari ef ég hefði borðað hana við bekk eða borð á opna svæðinu í Smáralind utan veitingastaðarins. Ma... ma.. maður áttar sig ekki alveg á þessu ...!!


Til lukku með kjörið Dagur!

Það var sérlega góður andi á landsfundi þegar úrslit höfðu ráðist í varaformannskjöri og forsætisráðherra hafði tekið við formennsku. Jóhanna var kröftug og sýndi skemmtilega takta þar sem hún blés á væntingar andstæðinga um að hún væri puntudúkka í formannsstóli.

Það var auðvelt að vera Þjóðvakamaður með stolti og síðan hafði ég lýst yfir stuðningi við Dag í varaformannsslagnum. Held að hann eigi eftir að vera öflugur fyrir innra starf flokksins. Ásamt því að tengja saman landsmálin og sveitarstjórnarstigið.


mbl.is Tengir ríki og sveitastjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hræddir íhaldsmenn

Eftir hrun frjálshyggju, peningahyggju og óheftrar markaðshyggju er Sjálfstæðisflokkurinn í alvarlegri tilvistarkreppu. Þó að hann viti ekki hvert hann stefnir að þá er það jákvætt að sífellt fleiri innanbúðar viðurkenna mistökin. En fráfarandi formaður taldi einungis þörf á að biðja flokkinn afsökunar. Eina sem eftir stendur er íhaldsstefna eða andstaða við breytingar.

Endurreisnarskýrslan er harðorð í garð flokksstarfsins. Ein leið, eins og framkvæmdastjórinn kynnir, er að láta svo að flokkurinn sé opinn og lýðræðislegur. Allir geti haft áhrif á störf og stefnu. Andstaða við persónukjör og stjórnlagaþing bendir þó einmitt til að helsta innanmein hans sé einmitt óttinn við lýðræðið.

Frá því fyrir áramót var blásið í herlúðra um mikla vinnu í Evrópumálum. Nú hefur komið í ljós að út úr allri þeirri vinnu kom minna en ekki neitt. Óbreytt stefna. Tek undir með Ragnhildi Helgadóttur fyrrum ráðherra og frænku minni af Lundaætt að ótti flokksins við aðildarviðræður er óskiljanlegur. Það er ónothæfur flokkur sem ekki getur tekið afstöðu í jafn mikilvægu máli.


mbl.is „Þurfum að opna flokkinn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gróðurinn byggir allt sitt á dagsbirtunni


Mannaval og málefni

Samfylkingin var stofnuð af flokkum frekar en fólki. Það er galli, því hættan er á að andagift og innblástur sem verður til í hjörtum einstaklinga lendi utangarðs. Til að fullkomna sköpunarverkið þarf því að efla grasrótarstarf. Efla virkni í hinum ýmsu sellum þar sem allt er til skoðunar, lífsins gildi, æskilegar umbætur og nauðsynlegar breytingar. Í fremstu sveit veljist fólk með meiningar, ástríðu og köllun, sem kann að hlusta og taka tillit.

Formaður kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í suðvesturkjördæmi hringdi í mig "með þann kaleik" í gærkvöldi að tilkynna mér að ég yrði ekki á lista flokksins fyrir næstu kosningar. Eftir á að hyggja var þetta örlítið eins og það væri verið að hafna mér og mínu. En ég veit að ég stóðst vel samanburð á fundum í prófkjörinu, var málefnalegur og prúðmannlegur í framgöngu. Ég veit líka að ég hef verið virkari en margur í varðstöðu og málefnalegri umræðu fyrir flokkinn á síðustu árum.

Auðvitað er ánægjulegt að þegar valið er í liðsveit að þá sé mikið mannaval. En samt finnst mér það óþægilegt að vita ekki hvaða viðmið eru notuð þegar einstaklingar eru valdir. Veit að í boltaíþróttum er það færni með knöttinn, í söngvakeppni velja dómarar þann sem að sýnir mesta hæfileikana. En í pólitík ætti það að vera hæfileikinn til að vera hugmyndaríkur og skapandi, ásamt því að hafa breidd í karakter, reynslu og menntun.

Persónulega finnst mér ekki slæmt að vera á varamannabekknum með Benedikt Sigurðssyni á Akureyri og Jóni Baldvin Hannibalssyni. Það er lífleg og frjó umræða í því partýi. Þegar ég hugsa til þeirra þá hvarflar að manni sú hugsun að þeim sé refsað sem að ekki fylgja flokkslínu, tengslaneti og staðalmynd. Það má aldrei gleymast að breytileiki viðhorfa er styrkur lýðræðislegs flokks en ekki veikleiki. Ég ætla að hafa áfram trú á minni rödd í slíkum kór.

Hlakka til að fara á landsfund og ég treysti á að Dagur B. Eggertsson komi með vel kryddaða sýn til framtíðar. 


Mismunun eigna - ........focking fock

Trygging íslenska ríkisins á sparifjáreign gekk út á 3 milljónir á hvern reikning í bönkunum sem rúlluðu. Síðan var það ákvörðun ríkisins að verja 600 milljörðum í að bæta íslenskum sparifjáreigendum allt tapið. Þannig að í raun leggjast þessar bætur ríkisins á almenning sem skattur. Af sparifé hefur fólk líka fjármagnstekjur en þær eru bara skattlagðar um 10% á meðan að tekjuskattur er fjórfalt hærri eða rúm 38%. Því verð ég sem vinnuhestur án sparifjár að borga fjórfalt meira í þessa endurheimt sparifjár heldur en sá sem fær tekjur af því að eiga það.

Miðað við breytingar á neysluvísitölu frá 1. apríl í fyrra þá hefur verðbólga verið síðasta árið um 18%. Því þarf sá sem að tók verðtryggt lán upp á 14 milljónir nú að borga af láni sem að er 2,5 milljónum hærra. Vinnuhestur eins og ég hefði þurft að bæta við aukalega vegna verðtryggingar um 208 þúsund á mánuði til að eignahlutinn héldi sér. Mér sem að hefur alltaf verið sagt að peningi sem að væri eytt í húsnæði væri vel varið. Síðan er slík eign ekki betur tryggð en svo að hækkun á kaffi í Brasilíu getur ásamt öðru étið hana upp á stuttum tíma.

Það sem að mér finnst þó allra merkilegast að ríkisstjórn sem kennir sig við félagslegt réttlæti sé ónæm á vandamálið, eignaupptöku verðtryggingar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband