22.3.2009 | 22:16
En hvað með Evrópu?
Þetta er skynsamleg nálgun hjá VG að lýsa yfir vilja til áframhaldandi stjórnarsamstarfs undir félagslegum merkjum og þar með útiloka samstarf við Sjálfstæðisflokk. Eftir stendur að VG þarf að lýsa yfir vilja til aðildarviðræðna við Evrópusambandið.
Augljóst er að eftir kosningar verður meirihluti á þingi úr röðum Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks fyrir því að leita eftir samningi sem borinn verður undir þjóðaratkvæði. Þetta mál má ekki leiða til mögulegs samstarfs Samfylkingar við íhaldið líkt og spilin lögðust árið 1991.
VG bundin - á móti Sjálfstæðisflokknum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.3.2009 | 12:58
Erum mest og best?
Ákvörðun Einars K Guðfinnssonar um hvalveiðar verður vonandi sú síðasta sem stjórnvöld taka út á þjóðrembinginn einan. Það er með ólíkindum að ógna hagsmunum okkar í fiskútflutningi og ferðaþjónustu á þessum forsendum. Þar að auki eru miklar blikur á lofti um sölu á halaafurðum, vegna uppsöfnunar þrávirkra efna í lífríkinu.
Við getum ekki látið eins og að við viljum spila einleik í veröldinni. Fyrst töpum við tiltrú á alþjóðavettvangi vegna græðgivæðingar í boði Sjálfstæðisflokksins og nú töpum við mörkuðum vegna þjóðrembings í boði Sjálfstæðisflokksins. Í sumum málum þarf að stilla strengi með alþjóðlegum viðhorfum. Við getum reynt að hafa áhrif á þau, en við getum ekki keyrt yfir þau með einföldum pennastrikum ráðherra.
Hætta að kynna íslenskar vörur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
20.3.2009 | 17:58
Er Guð íhald?
Fyrir nokkuð mörgum árum hringdi ég í Sigurð Sigurðarson vígslubiskup í Skálholti til að kvarta undan auglýsingu. Þá hafði endurtekið birst mynd af honum og Davíð Oddssyni undir fyrirsögninni "Flokksstarf". Þar sem tiltekið var að biskupinn myndi sjá um fræðslu og heimsókn hópsins í Skálholt. Ég sagði honum að þessi uppstilling þar sem að hann birtist sem virkur aðili í flokksstarfi væri óásættanlegt fyrir þá sem að tilheyrðu kirkjunni en ekki Flokknum.
Fyrstu árin mín hér í Mosfellsbæ skrifaði séra Jón Þorsteinsson ávallt hugvekju fyrir Jólin í blað sjálfstæðismanna. Þar kom einnig fram það helsta varðandi messur og hátíðahald kirkjunnar. Ég hringdi í klerk og lýsti þeirri skoðun minni að þessi dreifing á fagnaðarerindinu og fréttir af safnaðarstarfi ættu ekki að fara fram undir merkjum ránfuglsins. Það væri ekki viðeigandi og ekki í anda jafnræðis. Eðlilegra væri að söfnuðurinn gæfi út eigið fréttabréf sem varð svo raunin.
Nú var að koma inn um lúguna nýr Mosfellingur. Í honum er grein sem nefnist; "Búið um blómlegt starf í þágu menningar og samfélags". Höfundar greinarinnar eru Haraldur Sverrisson bæjarstjóri og Hilmar Sigurðsson formaður sóknarnefndar Lágafellssóknar. Þar rökstyðja þeir að kirkjan, safnaðarheimili og menningarhús eigi að vera undir sama hatti, sem samtengd eining. Ég efast um að þetta sé æskilegt að rugla saman með slíkum hætti menningarstarfi og trúarlífi.
Kristín Pálsdóttir hefur skrifað góða greinum þetta mál. Hún lýsir þessu sambandi; "Annar, kirkjan, er íhaldsamur og valdamikill aðili sem hefur vel skilgreindar þarfir og öfluga málsvara. Hinn, menningin, er frjálslynd, djörf og ögrandi. Hún virðist ekki eiga málsvara í þessu máli og augljóst að hennar þarfir hafa ekki verið skilgreindar á við makann". Hér er sterk rödd sem á rétt á sér og þarf að fá fulla athygli.
Kristið trúarstarf verður að vera borið uppi af þeim sem það stunda. Það verður að vera af þörf og ástríðu. Ríkið skapar Þjóðkirkjunni nú sterkari stöðu en öðrum trúfélögum. Slíkt er umdeilanlegt og telja má víst að á næstu árum muni krafan um aðskilnað ríkis og kirkju koma fram af auknum þunga. Bæjarfélag getur ekki tekið á sig vanda kirkjunnar að fjármagna byggingu safnaðarheimilis með þessum hætti.
Það er sannfæring mín að kirkjan eigi að vera stakstæð bygging helst þar sem að Bæjarleikhúsið stendur núna. Þannig að hún fái frið frá helsta skarkala miðbæjarlífsins, en sé samt á fögrum stað í miðbænum. Það er nóg að byggja turninn fyrst eins og algengt er við kirkjubyggingar. Í framhaldi kæmi kirkjuskipið og hugsanlega safnaðarheimili. Menningarhúsið væri stakstætt hús sem væri hugsanlega í nánum tengslum við framhaldsskólann.
Guð er ekki íhald, hann er róttækur boðberi réttlætis, siðferðilegra gilda og kærleika. Jesú Kristur var á sínum tíma helsta ögrun við valdakerfi og embættismenn. Þeir þorðu ekki að horfast í augu við eigin breyskleika og hans ágengu spurningar. Gefum trúnni líf þannig að hún geti staðið á eigin forsendum. Það eru gömul sannindi og ný að sumir vilja að "kristilegu kærleiksblómin spretti í kringum hitt og þetta". Það er þó enginn meiri umboðsmaður Guðs en annar.
Nauðsynlegt er að kirkjan og bærinn opni þetta mál og leyfi fólkinu að velja því farveg.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
20.3.2009 | 00:56
Vorvindar glaðir
glettnir og hraðir
geysast um lundinn rétt eins og börn.
Lækirnir skoppa
hjala og hoppa
hvíld er þeim nóg í sæ eða tjörn.
Hjartað mitt litla, hlustaðu á,
hóar nú smalinn brúninni frá.
Fossbúinn kveður,
kætir og gleður
frjálst er í fjallasal.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.3.2009 | 17:12
Heilbrigði næst ekki með húsbyggingum
Tækni- og lyfjalausnir við sjúkdómum taka langstærstan hluta útgjalda heilbrigðiskerfis. Svo langt er gengið að á stundum lítur út fyrir að fólkið sé til fyrir kerfið en ekki að kerfinu sé ætlað að sinna þörfum fólksins.
Menningarsjúkdómar geta talist þeir kvillar sem hrjá okkur í meira mæli vegna breytinga á lífsvenjum. Þar eru offita, hjarta- og æðasjúkdómar, fullorðins sykursýki og ýmiskonar geðraskanir að valda stórum hluta af útgjöldum til heilbrigðismála.
Við þurfum að færa athyglina frá sjúkdómum yfir á heilbrigði, frá forvörnum yfir á heilsueflingu. Setja okkur markmið um að gera okkur gott, hámarka heilbrigði. Þjálfun í sjálfstjórn, bætt vitund og efling atorku gerir meira en stærstu lyfjabúr og sjúkrahúskastalar.
Gefum okkur tíma til að lifa og njóta.
Háskólasjúkrahús á áætlun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.3.2009 kl. 09:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.3.2009 | 19:31
Afskriftir nauðsynlegar heimilunum
Tryggvi Þór gengur slóð Framsóknarflokksins að leggja til að allir fái jafnmikla niðurfellingu skulda. Slík prósentuleið stuðlar að því að sá sem tók stórt lán fyrir lúxussnekkju fær mest úr okkar sameiginlegum sjóðum og þar að auki óháð því hvort hann getur borgað skuldina. Það er réttilega arfavitlaus nálgun.
Sigrún Elsa Smáradóttir skrifar grein í Fréttablaðið sem hún nefnir "Að skipta ófyrirséðu tjóni". Í niðurlagi greinarinnar skrifar hún; "Það er afleitt hvað opinberum aðilum reynist auðvelt að nota sameiginlega sjóði til að bæta öllum öðrum en heimilum landsins það tjón sem hlotist hefur af þeirri verðbólgu sem að hruninu hefur fylgt".
Reykjavíkurborg hefur ákveðið að bæta fyrirtækjum óverðtryggða verksamninga, skilanefndir gömlu bankana hafa afskrifað háar skuldir fyrirtækja til að tryggja áframhaldandi rekstur. Þar var gengið einna lengst í að afskrifa þrjá milljarða af fimm milljarða skuld Morgunblaðsins. Heimilin eru krossbönd samfélagsins og þurfa álíka skilning.
Það verður þó að nást samhugur um að slá skjaldborg um heimilin í landinu. Þung krafa er meðal almennings um að þau verði ekki skilin ein eftir með sífellt hækkandi höfuðstól vegna verðtryggingar. Tillögur ríkisstjórnarinnar eru að mestu fólgnar í frestun á vanda, þó vaxtabætur hjálpi tekjulágum. Setjum fram ofurgáfulegar leiðir í anda sanngirni og réttlætis.
Húsráð Tryggva Þórs þykja vond | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
16.3.2009 | 18:51
Herðum kröfuna um persónukjör
Óánægja með alvarlega galla á prófkjörum getur stuðlað að auknu fylgi grasrótarframboða. Þar ber að nefna litla kjörsókn skráðra félagsmanna, óeðlileg áhrif stuðningsmanna sem ætla ekki að kjósa flokkinn, byggða- og bæjarfélagstengt hagsmunapot, ásamt áhrifum fjármagns á röðun, sem einkum á við um Sjálfstæðisflokkinn.
Til að koma í veg fyrir að fólk snúi frá flokkum meginviðhorfa, þarf að herða enn kröfuna um persónukjör. Fylgjendur hins miðstýrða flokksræðis segja að þá verði áfram prófkjörsbarátta til kosninga. Að einstaklingar fari að spila sóló og koma fram með ýmis sérmál til að auka líkur á því að þeir nái kjöri. En er það ekki einmitt það sem við viljum að við höfum úr breytileika að velja.
Það er einmitt sú vídd sem að flokkar þurfa að skilja að þeir bjóði upp á mannlega karaktera á eigin forsendum. Ég vil heyra mína menn segja eitthvað fleira en að þeir vilji ganga í Evrópusambandið og að þeir muni starfa í anda jafnaðarstefnunnar. Persónukjör stuðlar að hinni sívirku athygli sem þarf að vera á fólkið í landinu, óskir þess og væntingar.
Fyrir Samfylkinguna gæti þetta gefið mun meira fylgi. Þeir sem að nú eru að hugsa um að snúa frá vegna lítils stuðnings við græna frambjóðendur, þroskaðar alþýðuhetjur, sveitamenn, Hafnfirðinga eða aðra gætu haldið í vonina. Það sem meira er að slík tilhögun skapar sóknarfæri. Menn eru hlynntir megináherslum og vilja færa tiltekinn einstakling til á lista.
Eðlilegt er að lista sé stillt upp í samræmi við niðurstöður prófkjörana. Líklegt má telja að flestir sleppi því að breyta uppröðun en ef veruleg óánægja er með frambjóðenda eða veruleg ánægja með aðra að þá eiga mestu völdin að vera í kjörklefanum hjá endanlegum kjósendum tiltekins framboðs að velja í liðið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.3.2009 | 12:26
Sigurvegari samviskunnar
Ákvað á föstudegi fyrir tveimur vikum að gefa kost á mér í prófkjöri Samfylkingar. Fyrst og fremst sem áhugamaður um lýðræði og virkni fólks í mótun síns umhverfis og samfélags. Fannst jákvætt að búið væri að setja bann á auglýsingar þannig að fjárhagsleg staða væri ekki að hafa mótandi áhrif.
Vildi vera fulltrúi hins almenna borgara sem gefur kost á sér en leggur eingöngu fram sína persónu og málefni. Ákvað að hafa ekki beint samband við nokkurn mann í þeim tilgangi að hafa áhrif á val hans. Hvorki til að hvetja þá til að kjósa mig eða aðra.
Reynslan sýnir mér að það er enn hægt að gera miklar umbætur á þessu fyrirkomulagi vals á framboðslista. Í þessu prófkjöri fór ekki mikið fyrir málefnalegri umræðu eða samanburði hugmynda. Eingöngu kynningar á frambjóðendum.
Stór hluti ræðutíma frambjóðenda fór t.d. í að útlista mikilvægi inngöngu í Evrópusambandið. Málefni sem að allir eru sammála um. Ég reyndi að draga fram mikilvægt málefni sem að er verðtryggingin og afleiðingar hennar á sífellt hækkandi höfuðstól húsnæðislána.
Reyndi að taka þetta mál upp í tvígang fundahléi við Árna Pál sem hefur verið að tala fyrir tillögum um greiðsluaðlögun í þinginu. Í bæði skiptin eyddi hann strax umræðunni. Það voru vonbrigði. Við þurfum að geta rætt mikilvæg mál.
Stórefla þarf miðlæga upplýsingagjöf um frambjóðendur. Nauðsynlegt hefði verið að gefa út eitt blað, senda út framboðsfundi á netinu o.s.frv. Allt er vinnandi til þess að fjölbreytileg málefni og áhugasvið frambjóðenda séu dregin fram. Skráðir félagar eiga eingöngu að taka þátt í slíku vali.
Úrslitin endurspegla póstnúmerakosningu og smölun á stuðningsmönnum. Talið er að einn frambjóðandi hafi safnað hátt í átta hundruð stuðningsmönnum sem að er hátt miðað við heildarþátttöku. Kópavogsbúar virðast hafa verið duglegastir í að styðja "sína menn".
Hafnarfjarðarvélin setti Lúðvík auðvitað í fyrsta sætið en keppinauturinn var Árni Páll og því var Kópavogsbúinn Katrín Júlíusdóttir sett í annað sætið. Í þessum slag lendir Þórunn Sveinbjarnardóttir nokkuð útundan hvað varðar póstnúmerin.
Ég setti Gullsteinbrjót og Klettafrú austan úr Lóni á kynningarblaðið mitt. Þetta voru ágætir ferðafélagar. Tákn heilbrigðis og sköpunar. Persónukjör er hinn heilbrigði vinkill í stöðunni. Lokaröðun á lista liggi hjá raunverulegum stuðningsmönnum flokksins.
Ég vil þakka kjósendum, kjörstjórn og meðframbjóðendum fyrir ánægjuleg fundahöld síðustu dagana. Þetta hefur verið dýrmæt reynsla, sem ég ætla að nýta til að efla Samfylkinguna sem besta vettvang málefnalegrar umræðu og lýðræðis.
Víglínan markast í Kraganum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
14.3.2009 | 00:42
Körfulán
Flestir þeirra sem að tóku myntkörfulán góðæris settu þau í blandaða körfu með svissneskan franka og japanskt jen sem helstu gjaldmiðla. Gengi þeirra hefur lækkað um 15% frá áramótum.
Ég hef leitt að því líkum að frankinn geti veikst verulega í tengslum við alþjóðlegan þrýsting um afnám bankaleyndar og upprætingu skattaskjóls.
Það er því íhugunarefni hvort skynsamlegt sé að fara þá leið sem stjórnvöld eru að opna að lántakendur geti breytt myntkörfulánum á húseignum yfir í verðtryggð húsnæðislán.
Nú eru Svisss og fleiri lönd búin að létta af bankaleynd. Aukinn áhugi er þar í landi að taka þátt í samvinnu undir merkjum ESB og taka upp evru. Efnahagslegur styrkur hefur byggt á leyndinni.
Bankaleynd aflétt í Sviss og Lúxemborg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.3.2009 | 22:47
Hin lýðræðislega kjölfesta
Sjálfstæðisflokkurinn kom til kosninga á síðustu árum sem flokkurinn sem væri kjölfestan hvað varðar styrk og hag þjóðarinnar. Hið öfluga tengslanet valda og fjármála. Nú sætir þetta valdakerfi meira og minna opinberri rannsókn. Tjöldin eru fallin.
Það er mikil sigling á Samfylkingunni og er hún að marka sér sess sem hin nýja kjölfesta íslenskra stjórnmála. Þó allt annars eðlis heldur en Sjálfstæðisflokkurinn. Hún er hin lýðræðislega kjölfesta sem vinnur með fólki og fyrir fólk.
Telja má víst að ríkisstjórn verði ekki mynduð án þessa hryggjarstykkis sem hefur eitt burði til að efla samvinnu meðal fólks og þjóða. Mikill áhugi er á að flokkurinn lýsi yfir áframhaldandi vilja til samstarfs við Vinstri græna.
Ekki má þó loka málinu þannig að flokkarnir hrekji Framsóknarflokkinn til samstarfs við Sjálfstæðisflokk sem að hann hefur lýst sig andsnúinnn. Einnig er þörf á því að VG ljúki heimavinnunni í Evrópumálum.
Fréttir bárust nýlega af fundi frambjóðenda Sjálfstæðislokks í Suðvesturkjördæmi og þar lýsti aðeins einn úr um tólf manna hópi yfir andstöðu við aðild að Evrópusambandinu. Því má það ekki endurtaka sig sem gerðist 1991 þegar félagshygjuöflin sundruðust vegna mismunandi afstöðu til EES.
Samfylkingin stærst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |