13.12.2008 | 22:39
Zorba Helgarlagið
Alexis Zorba er sögupersóna í bók sem að myndin Zorba the Greek er byggð á. Aðalhlutverk myndarinnar ar leikið af Anthony Quinn. Mekis Theodorakis gerði hinsvegar hljómlistina í myndinni og lokalagið gerði gríska þjóðlagahefð þekkta um allann heim. Theodorakis hefur blandað saman stjórnmálum og tónlist á lífsferlinum. Hann hefur barist gegn kúgun og misbeitingu valds eins og hún birtist í margvíslegum myndum.
Grískir þjóðdansar eru ekki bara stignir á sagnakvöldum heldur eru þeir lifandi þáttur í þjóðlífinu. Dansinn sem varð til 1964 með myndinni Zorba the Greek kallast syrtaki og er blanda frá hægum og hröðum þjóðdönsum. Það er ekki bara þjóðdansahefðin sem gerir lagið Zorba svo grískt og þjóðlegt. Þar er einnig spilað á hið gríska fjögurra strengja hljóðfæri bouzouki, sem á reyndar uppruna sinn að rekja til Tyrklands.
Tónlist | Breytt 14.12.2008 kl. 00:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.12.2008 | 10:07
Aumingi, nauðgari og illmenni
Veröldin er uppfull af illsku, óhæfuverkum og spillingu. Eitt versta dæmið um þessa þróun birtist mér í gær. Þá varð ég vitni af því að Samfylkingarmaður misnotaði illa útleikna þjóðarsál á hrottafenginn hátt.
Hann skrifaði færslu á síðu sinni sem nefndist; FULLKOMINN, HEILNÆMUR og AUÐMJÚKUR. Um langt skeið höfðu heimsóknir á síðuna ekki farið jafn neðarlega. Enginn gerði athugasemd. Ákvað að sjá muninn ef ég setti eitthvað nógu geðveikt, rosalegt og svakalegt í titilinn.
Það vex og dafnar sem við beinum athyglinni að hér í bloggheimum, sem og annars staðar. Þakka þér fyrir þátttöku í tilrauninni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
10.12.2008 | 23:54
Fullkominn, heilnæmur og auðmjúkur
"Ég er tilbúinn að stökkva upp á þrep sjálfsþekkingar" sagði Bergur Þór leikari þar sem að hann túlkaði Dante í uppfærslunni á Dauðasyndunum í Borgarleikhúsinu í kvöld. Þetta var aukasýning og því miður er sýningum nú lokið. Verkið er alveg kjörið fyrir hina taugaveikluðu íslensku þjóðarsál.
Við skemmtum okkur alveg konunglega allan tímann. Frábær naflaskoðun klædd í einfaldan og persónulegan búning. Samskipti leikara við gestina í salnum er skemmtilegur spuni og andrúmsloftið varð fyllt af eftirvæntingu. Margt óvænt gæti gerst.
Boðskapurinn er að við eigum val. Við höfum frjálsan vilja. Við getum valið hið góða eða hið illa. Á leiðinni heim eftir að hafa farið með Dante í gegnum hreinsun alla leið niður til heljar og séð hann svífa á heiðríkju hugans eftir að hafa fundið ljósið, þá langaði mig að finna og miðla orðum sem eru falleg og nærandi.
Orð kvöldsins á aðventu eru; FULLKOMINN, HEILNÆMUR og AUÐMJÚKUR. Finnið rólega djúpa öndun með því að telja upp að fimm, í takti kyrrðar, á útöndun og innöndun. Hvíslið síðan, með sama hrynjanda og opnu hjarta, þessum fallegu orðum að ykkur sjálfum í trúnaði. Vilji er allt sem þarf.
Lífstíll | Breytt 11.12.2008 kl. 00:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.12.2008 | 00:13
Hvar er Guð?
Marx sagði að trúin væri dóp fyrir fólkið. Sefjun sem drægi úr líkum á að athyglinni væri beint að vandanum. Tefði fyrir byltingunni. Alþýðan beindi ekki athyglinni að skorti og kröppum kjörum.
Er samt alveg til í smá helgivímu, sæluvímu, trúarvímu núna á aðventunni. Núna. Er kominn með nóg af orðljótum bloggurum og fólki sem telur sig hafa umboð til að dæma eða úthrópa aðra.
Nenni ekki að setja mig inn í það hvort viðskiptaráðherra átti að vita af því að skilanefnd hafði ráðið KPMG til einhverra verka eða hvort það er spilling að hjón eigi enn NOA NOA og Next í Kringlunni.
Er alveg til í uppljómun og að færast á örlítið hærra plan. Aftengja öll þessi litlu og stóru atriði sem eru að vekja ótta og taugaveiklun í þjóðarsálinni. Þó ekki sé nema á sunnudögum. Hvíldardaginn.
Afhverju er þjóðkirkjan og hinir meiri eða minni andlegu spámenn ekki með útspil í þessu mikla gjörningaveðri? Eru klerkar þessa lands ekki með neina köllun til að sýna okkur ljósið?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
9.12.2008 | 09:05
Byrjum að meðmæla og hættum að mótmæla
Eitt grundvallaratriði atferlisvísinda er að reiði og refsing eru lamandi á alla virkni og sköpun, á meðan umbun og ánægja geta dregið fram það sem að er eftirtektarvert og æskilegt. Það vex og dafnar sem við beinum athyglinni að. Ótrúlega margir bloggarar hvetja til hömluleysis í mótmælum og jafnvel eru alþingismenn orðnir það meðvirkir að þeir blessa það að vinnustaður þeirra og hornsteinn lýðræðisins sé grýttur af börnum og unglingum.
Hegðun ungmennana í þinghúsinu í gær kallar á fjölskyldufundi með þessum krökkum. Farið verði yfir það með þeim hvað þau vilja fá út úr lífinu. Vandamál þeirra er ekki "focking ríkisstjórnin". Þau geta ekki bent á aðra um að axla ábyrgð. Við þurfum að byrja hjá hverju okkar og skoða það sem við viljum breyta á Nýja Íslandi. Hvar liggja draumar okkar og þrár? Látum ekki sjálfseyðingarhvötina verða drifkraft í samfélaginu. Látum ekki hugtakið lýðræði hætta að hafa inntak og merkingu vegna þess að stefnulaust æsingafólk, lýður, hefur eignað sér það.
Njótum helgi og friðar á næstu vikum. Stígum svo á stokk og gerum árámótaheit. Framundan eru spennandi tímar, mikil gróska og endurmat. Það er mikið hugmyndaauðgi hvernig hver og einn getur eflt sig sem einstakling. Þar liggur byrjunin. Aukin sjálfstjórn, atorka og líkamsvitund. Þó að mest sé talað um skáldsögur í jólabókaflóðinu og glæpasagnahöfundar spretti upp eins og gorkúlur þá eru líka til margar bækur sem efla heiðríkju hugans. Ein fegursta bókin sem kemur út fyrir þessi jól er Ferðalagið að kjarna sjálfsins eftir Maxine Gaudio. Mæli með henni.
Mælir þú með einhverju sem væri til góðs fyrir einstaklinga og komandi kynslóðir Nýja Íslands?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
8.12.2008 | 00:33
Íslenskt eða Evrópskt kvenfrelsi?
Það er mikið skrúðmælgi í hugtakanotkun, sem birtist frá auka flokksráðsfundi Vinstri grænna. Aðgerðaáætlunin snýst um skammtímalausnir í heimilisbókhaldi en ekkert um peningamálastefnu, vandamál við núverandi gjaldmiðil eða sóknarfæri í atvinnumálum.
Orðræða með öllum þessum hugtökum verður þó fyrst flókin þegar henni er ætlað að innihalda samanburð milli Íslands og Evrópusambandsins. Katrín Jakobsdóttir varaformaður segir í kvöldfréttum sjónvarps; "aðild að Evrópusambandinu samræmist ekki okkar stefnu um sjálfbæra þróun, félagshyggju, kvenfrelsi og friðarstefnu".
Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands skrifar ágæta grein á vefnum www.smugan.is Hún nefnist; "ESB er meira en Evra". Þar bendir hann á að systurflokkur VG í Svíþjóð samþykkti nýlega að láta af andstöðu við ESB því þar væri helsti farvegur umræðu og ákvarðanatöku í umhverfismálum.
Heimurinn er ekki bara eyja í Atlantshafi. Mannréttindi og umhverfismál eru hnattræn í eðli sínu. Sú staðreynd að engum af þeim fjölmörgu reglugerðum og lögum sem Ísland hefur þurft að taka upp vegna EES samningsins hefur verið mótmælt (reyndar voru einhverjir sem héldu því fram að svefnlausir og lítt hvíldir íslenskir atvinnubílstjórar ógnuðu ekki umferðaröryggi) hér á landi sýnir að sú lagasetning hefur almennt verið til hagsbóta. Aukið lýðréttindi eða frelsi einstaklingsins.
Tengsl okkar við ESB hafa tryggt eðlilegri aðkomu almennings í umhverfis- og skipulagsmálum. Sá lýðræðisskilningur hefur skapað grunn undir "aktívisma" sem VG flýtur á þessa dagana. Það segir þó ef til vill nokkuð um lýðræðisást þess flokks að þar mótar "feðraveldið" stefnuna því afstaða til Evrópusambandsins verður ekki borin undir félagsmenn í kosningu. Flokkurinn vill engu að síður í nafni lýðræðis þvæla þjóðinni í gegnum tvöfalda atkvæðagreiðslu. Annarsvegar um hvort farið verði í viðræður og svo aftur um samning.
Getur einhver útskýrt fyrir mér hvernig Evrópskt kvenfrelsi er verra en Íslenskt kvenfrelsi?
![]() |
Vilja þak á verðtryggð lán og frystingu uppboða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.12.2008 | 02:23
Sæluhúsið á Jólatorgi í Mosfellsbæ
Við jólatréð á nýju bæjartorgi í Mosfellsbæ hefur verið komið fyrir nokkrum smáhýsum fyrir markað. Ég ákvað að slá til og verð með eitt hús til styrktar byggingar gönguskála við Eskifell að Stafafelli í Lóni. Bæði í tengslum við tilefni fjáröflunar og þær áherslur sem ég er með í sölunni þá hef ég kallað þetta Sæluhúsið. Þar er heitt kakó með súkkulaði ásamt ýmsum smákökum og brauði með hinum fjölbreytilegustu sultutegundum.
Síðan eru til sölu mannbætandi bækur frá bókaútgáfunni Sölku. Eitthvað af kartöflum og grænmeti, ásamt ávaxtadrykk. Þetta er önnur helgin og fer vöruúrvalið smátt og smátt vaxandi. Ég hef frétt af manni frá Alsír sem að á mikið úrval af silkináttfötum og undirfatnaði. Finnst alveg við hæfi að það væri hluti af sælunni. Síðan hefur listakonan mín lofað að framleiða eitthvað af keramik og einnig eru til sölu sérgerð jólakort með vetrarmynd af Vestra-Horni.
Auk þessa fór ég út í súrkálsgerð. Tæti niður í jöfn lög hvítkálshausa með rifjárni í pott og set sjávarsalt og kúmín fræ á milli laga. Síðan er settur þrýstingur ofan á og leitar þá vökvinn út úr kálinu. Þannig læt ég kálið vera yfir nótt. Síðan set ég hunang og ólifu olíu í botninn á vóg-pönnu. Velti kálinu upp úr þessu smástund og bæti síðan yfir til suðu blöndu af hvítvíni og eplaediki. Að síðustu set ég steiktar skífur af gulrótum og einiber út í blönduna áður en hún fer í krukkur.
Það skiptir öllu að vera að ....
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.12.2008 | 20:46
Segðu mér frá ástinni Helgarlagið
Rúnar Júlíusson tónlistarmaður er látinn. Blessuð sé minning hans. Þrátt fyrir hans miklu tilþrif á fótboltavellinum á unga aldri kom fram á fullorðinsárum að hann hafði alla tíð lifað með hjartagalla. Ég kynntist honum lítillega þegar hann dvaldi fyrir einum tíú árum á Reykjalundi í endurhæfingu. Hann talaði mjög opið og einlægt um hvað þessi sjúkdómur hafði komið honum á óvart. Æðrulaus og sérlega hlýlegur maður. Mig langar að þakka fyrir framlag þessa öðlings til okkar daglega lífs. Takk.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.12.2008 | 15:11
Karl Tómasson og ég
Forseti bæjarstjórnar í Mosfellsbæ hefur miklu meiri áhuga á mér en að kynna fyrir íbúum áherslur sínar og framtíðarsýn í stjórnmálum. Mestan áhuga hefur hann á einhverjum ímynduðum tengslum mínum við einhver nafnlaus bloggskrif. Áður hef ég bent honum á að ef að hann láti ekki af slíkum rógburði og biðji mig afsökunar þá muni ég leita réttar míns fyrir dómstólum.
Nú virðist hann eitthvað hafa sofið illa eða farið vitlaust fram úr í morgun því hann heldur þráhyggjunni áfram að bæta við enn einni færslunni þar sem að hann leikur hlutverk hins ofsótta vesalings, með ávirðingar á samtök og einstaklinga. Ávirðingar um aðför og nafnlaus skrif. Akkúrat þær aðferðir sem að hann beitti.
Eins og frægt varð og nefndist Mosfellsbæjarmálið í bloggheimum, þá var frá fjórum tölvum í eigu Karls og fyrirtækis hans sendur bull og haturspóstur á Varmársamtökin miðað við IP tölur sem mbl birti óvænt á tímabili. Sagt var að stjórnendur bloggsins hefðu gert öllum bloggurum tölurnar sýnilegar til að láta þennan nöturlega sannleika standa berstrípaðan.
Ég bauð Karli Tómassyni strax til fundar með samtökunum um þetta mál eftir að það komst upp. Vildi fá skýringar. Hann treysti sér ekki til að mæta á fund um málið. Afsökun forseta bæjarstjórnar var að sonur hans hefði komist í tölvuna, en málið var það umfangsmikið að slík skýring er léttvæg. Síðan hefur náungi sem nefnt hefur sig Valdi Sturlaugz gert einhvern spéspegil úr þessu öllu saman.
Skrif þessa einstaklings undir nafnleynd hefur Karl Tómasson tengt við mína persónu. Það útspil er orðið það langdregið og endurtekið að fyrir nokkru benti ég á að ef ég fengi ekki afsökunarbeiðni frá þessum forsvarsmanni bæjarfélagsins að þá yrði sannleiksgildi skrifa hans metið fyrir dómstólum. Reyndar finnst mér að samtökin í heild þurfi að fara dómstólaleiðina gegn ógeðfelldri framkomu forseta bæjarstjórnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
4.12.2008 | 10:04
Yndislegt
Davíð Oddsson leggur fram hugmynd að því hvernig er hægt að láta stjórn landsins hætta að snúast um hans persónu. Við þurfum nýja áhöfn í Seðlabanka og Fjármálaeftirlit. Hvað Davíð gerir í framhaldi er einkamál hans. Ef hann telur að þörf sé á starfskröftum hans í stjórnmálum hefur hann sama rétt og aðrir að gefa kost á sér.
Jafnvel spurning hvort að hann vilji leiða nýjan Frjálshyggjulista þar sem hann væri í fyrsta sæti, Hannes Hólmsteinn í öðru sæti, Jón Steinar Gunnlaugsson í þriðja sæti, Kjartan Gunnarsson í fjórða sæti. Þannig gæti þjóðin gert upp við pólitík og hugmyndaheim síðustu tveggja áratuga á opinn og lýðræðislegan hátt. Stefnuna sem sigldi okkur í strand og björgunarsveitina sem gerði ekkert í málunum. Hið besta mál.
![]() |
Davíð: Þá mun ég snúa aftur" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |