14.10.2008 | 20:21
Uppsögn EES eða aðild að ESB
Framtíðarkostir þjóðarinnar eru í meginatriðum tveir við endurreisn fjármálaumhverfis. Að viðhalda krónu sem sjálfstæðum gjaldmiðli og hverfa aftur fyrir opnun EES í alþjóðlegum viðskiptum eða að auka sjálfstæði okkar í hinu evrópska samstarfi með aðild að ESB og fullri þátttöku.
Lítið og einfalt hagkerfi sem getur haldið utan um sjálfstæða peningastefnu með eigin seðlabanka eða að leita inn á meiri stöðugleika í efnahagsmálum. Skapa grundvöll og sóknarfæri fyrir útflutning á vöru og þjónustu.
![]() |
Ingibjörg Sólrún vill að stjórn Seðlabankans stigi til hliðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.10.2008 | 13:09
Rauði kjóllinn Ragnhildar
Ríkissjónvarpið virðist ætla að ylja okkur með smá kynþokka í kreppunni. Eftir að hin aldraða og að mörgu leyti ágæta Spaugstofa var búin, stormaði á sviðið hin frísklega og sæta kona Ragnhildur Steinunn. Það var laugardagsstemming í loftinu. Kjóllinn stuttur, hárið sveiflast, allt getur gerst.
En svo áttaði ég mig á misréttinu. Jón Ólafsson var um langt skeið með þátt sem hafði svipaðan efnivið þ.e. að gefa nærmynd af tónlistarmanni. En afhverju var hann ekki sýndur í netbol maðurinn og meira eggjandi til að kítla aðeins sjónsviðið hjá kvenþjóðinni?
Ekki er ég á móti söng- og dansprógrammi, eitthvað "dirty dancing" þema á laugardagskvöldum. Fínt að ná stemmingu kjötkveðjuhátíða í lok vikunnar. En það að hafa bert læri inn í mynd heilann viðtalsþátt finnst mér örlítið truflandi.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 15:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
10.10.2008 | 08:42
Frystum West Ham
Samkvæmt mati formanns félags verðbréfaeigenda eru það um 20 einstaklingar sem bera ábyrgð á áhættutengdri útrás sem að skattgreiðendur virðast eiga að gerast ábyrgir fyrir að hluta. Það eru eðlileg viðbrögð Breta að vilja að Íslendingar standi við skuldbindinagar. En það hljóta líka að vera eðlileg viðbrögð Íslendinga að sveit útrásarvíkinga axli sína ábyrgð. Það voru tilteknir einstaklingar sem gengu fram með græðgi og sækni í áhættusöm verkefni.
Margt bendir til að við verðum gerð ábyrg fyrir stórum hluta af IceSave reikningum Landsbanka. Þó ég skilji ekki afhverju Edge reikningar Kaupþings séu á ábyrgð Breta. Skil heldur ekki hvernig og hvaða íslenskir ráðamenn höfðu heimildir til að setja upp ríkisábyrgð á þessari erlendu bankastarfsemi.
Björgólfur Thor Björgólfsson var fyrir stuttu skráður sem einn af 500 efnuðustu einstaklingum í heiminum. Þó að sjálfsagt sé mikið af þeim fjöðrum fokið, þá má ætla að enn séu þar mjög miklar eignir. Faðir hans Björgólfur Guðmundsson er einnig stóreignamaður. Þeir feðgar verða fyrst og fremst að bera ábyrgð á kröfum frá Bretunum. Einkavæðing fjármálafyrirtækja átti að fela í sér að einstaklingar eru ábyrgir fyrir skuldbindingum þeirra.
Þarf ekki að frysta eignir þeirra feðga á meðan heildarbúið er gert upp til að vernda ríkið og almenning gegn því að sitja uppi með tjónið?
![]() |
Ekki bara hryðjuverkalög |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.10.2008 | 12:43
Faglegan Seðlabanka
Í ljósi þess að Þjóðhagsstofnun var lögð niður, þá er fátt mikilvægara en að fullt traust sé borið til fagmennsku Seðlabanka Íslands. Það þarf ekki að vera óeðlilegt að seðlabankastjóri tjái sig um efnahagsvanda þjóðarinnar á yfirvegaðan máta. Þannig varð Alan Greenspan þekkt persóna sem seðalabankastjóri Bandaríkjanna.
Við þær aðstæður sem ríkja núna í þjóðfélaginu er það óheppilegt að mikil orka fari í umræður um persónu Davíðs Oddssonar. Hann kom þó að mörgu leyti vel út úr viðtalinu í Kastljósi í fyrradag. Ókosturinn er sá að þar var stjórnmálamaður að tala, en ekki embættismaður að reifa möguleika í stöðunni út frá fagþekkingu.
Það er til dæmis ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á yfirlýsingar um að þeir sem vilji skoða kosti evru sem gjaldmiðils séu "lýðskrumarar". Hann sagði í þættinum að hann hefði aldrei tekið undir "þann útrásarsöng" en í gær var birt í Fréttablaðinu yfirlit af tilvitnunum sem sýna fram á annað. Margt bendir til að gjörðir hans og yfirlýsingar hafi valdið skaða.
Davíð Oddsson er umdeildur stjórnmálamaður sem bjó til það fjármálaumhverfi í landinu sem að nú er hrunið. Hann hefur ekki tiltrú almennings sem slökkviliðsstjóri í því mikla starfi sem að er framundan. Fyrrum forsætisráðherra á að geta gengið af sviðinu með þokkalegri reisn. Hann hefur fengið fleiri tækifæri en allir aðrir á opinberum vettvangi.
![]() |
Vill seðlabankastjórana burt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.10.2008 | 23:15
Happy go Lucky
Ákváðum að skella okkur í bíó, sem varð til þess að seinka stjórnarfundi í landsþekktum umhverfissamtökum. En það hversu sannfærandi Sally Hawkins hlær á innsoginu í myndinni Happy go lucky mun ilja um hjartarætur næstu dagana. Gott mótvægi við öllum alvarlegu tíðindunum. Söguþráðurinn er reyndar hálfgerð steypa á köflum. Það er fínt ef maður er orðinn þreyttur á öllum þeim sem telja sig vera að segja eitthvað af viti. Bara einfalt og smitandi hláturjóga.
7.10.2008 | 14:01
Hver voru mistökin?
Hvar liggja helst ástæður þeirra mistaka að hugsanlegt sé að íslenska ríkið og skattgreiðendur sitji að einhverju leyti uppi með skaðann af vaskri framgöngu útrásarvíkinga;
1. Að ríkið skyldi selja bankana sem höfðu skilað samfélaginu arði um langt skeið til einstaklinga?
2. Að Alþingi skyldi ekki setja lög á sínum tíma sem takmörkuðu skuldsetningu íslenskra banka erlendis?
3. Að veita óábyrgum stjórnendum og eigendum svigrúm til að fara með vald sem þeir kunnu ekki að fara með?
![]() |
Hundruð milljarða vegna Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
7.10.2008 | 10:59
Öflugur áætlanabúskapur
Aðgerðir stjórnvalda til að bregðast við meiri hremmingum íslensks fjármálamarkaðar en nokkurn gat órað fyrir hafa verið fumlausar og til fyrirmyndar. Standa vörð um sparífé, störf og heimili í landinu. Lagasetningin í gær, að frysta gengi krónunnar og rússneska lánið til að tryggja gjaldeyrisforðann eru allt þættir sem stuðla munu að því að hjólin halda áfram að snúast.
Staðan sem upp er komin gefur fullt tilefni til skoðunar hvers og eins á sínu gidismati og þátttöku í veislunni sem verið hefur síðustu ár. Græðgi og sóun eru aldrei gott vegarnesti. Þetta var í raun löngu fyrirséð. Við höfum flest ef ekki öll verið í partýinu. Létum sannfærast um að lífsorkunni væri helst ætlað að fara í eltingarleik við gullkálfa og gylliboð.
Naflaskoðunin getur gefið af sér nýja og betri tíma sem byggðir eru á jafnvægi og meiri yfirvegun. Í stað þess að dæla fimm þúsund króna seðlum í börnin okkar á fermingum og afmælum, þá förum við ef til vill að láta gjafirnar hafa persónulega merkingu og gildi. Heyrði svo í morgunsárið að Skógræktarfélagið er á svipuðum nótum. Er að fara af stað með námskeið í handunnum gjöfum.
Til að ná sér út úr vandanum þarf samstillt átak. Öflugan áætlanabúskap næstu árin. Síðan taka við tímar jafnvægis milli einstaklingsfrelsis og opinberra umsvifa í anda rómantískrar og skapandi jafnaðarstefnu. Stjórnmálakreddur mega aldrei verða að slíkum trúarsetningum að forystumenn í þjóðlífi nýti ekki skynfærin til að sigla bestu siglingaleiðir.
Nú hefur gullkálfurinn verið tjóðraður og verður næstu árin undir merkjum öflugs áætlanabúskapar til að "bjarga því sem bjargað verður". Við þurfum að halda vel á spöðunum til að geta staðið við skuldbindingar. Það er spurning hvort að við þurfum ekki að setja aftur upp verksmiðjurnar í gamla Álafosshúsinu. Fyrir teppin fengust olía og bílar. Hvað sendum við nú fyrir Rússagullið? Þá fimm ára áætlun þarf að skipuleggja.
![]() |
Gengi krónu fest tímabundið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2008 | 00:17
Sjálfstæðisflokkurinn klofnar
Það er svo gott að hafa tannlæknir sem veit allt um pólitík og maður þarf bara að kinka kolli. Á föstudag fór ég að láta sparsla í eina holu og þá sagði tannsi mér, eftir áreiðanlegum heimildum, að Samfylkingin setti fram þrjú skilyrði fyrir efnahagsaðgerðunum; 1) Davíð Oddsson væri látinn fara úr Seðlabankanum. 2) Farið verði í aðildarviðræður við ESB og stefnt að upptöku evru 3) ....... jahhh, þarna hlitur hann að hafa verið að bora því mig brestur minni.
Hann sagði að þessi skilyrði myndu valda klofningi í Sjálfstæðisflokknum. Þorgerður Katrín muni ákveða að fara með Samfylkingunni, allir ungliðarnir og atvinnulífið vildi aðildarviðræður og upptöku evru. Þannig að eingöngu ættarveldin yrðu eftir í flokknum og sameinuð í andstöðu gegn ESB. Þó taldi hann að ættarlaukurinn Bjarni Ben yngri vildi frekar fylgja ungu kynslóðinni heldur en ættarveldinu og myndi fara yfir í Samfylkinguna. Út úr þessu myndaðist langstærsti flokkurinn, með hreinan meirihluta.
Ég var sáttur við alla þessa spádóma og lét bara troða upp í mig bómul og slöngum. Nú, reynir bara á hvað morgundagurinn ber í skauti sér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
5.10.2008 | 18:15
Kapitalisminn og kommúnisminn
Nú segir Hannes Hólmsteinn að þó að einhverjir kapitalistar hafi klúðrað málum þá sé það enginn stóri dómur yfir kapítalismanum og þeirri stefnu að markaðurinn þurfi að vera frjáls og afskiptalaus. Þetta minnir mann á þá sem aðhylltust blinda miðstýringu kommúnismans þegar þeir sögðu að í Rússlandi hefði bara ekki ríkt rétti jarðvegurinn fyrir forskriftina að draumaríkinu.
Í báðum tilfellum neita menn að tapa trúnni á ismann sinn. Kreddurnar blinda og koma í veg fyrir að skynfærin séu nýtt til að sigla eftir baujunum og finna bestu siglingarleið til að efla eigin hag og þjóðar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.10.2008 | 13:13
Hreinsun
Varmársamtökin voru stofnuð um góðan málstað. Göfug gildi náttúruverndar, útivistar og íbúalýðræðis. Baráttan um verndun Álafosskvosar var hörð, en bærinn og verktakar náðu sínu fram. Sjálfstæðismenn mættu umræðunni með fálæti en VG með aðför forseta bæjarstjórnar og vina hans að samtökunum. Eftir stendur tilfinningin um að langt sé í land að tryggja eðlilega lýðræðisvitund í þróun bæjarfélagsins og heilbrigðan skilning á að það sé æskilegt að almenningur sé virkur og mótandi í skipulagsmálum.
Mistökin blasa við öllum. Komin er vegtenging við hið nýja hverfi, en þar er ekkert í gangi og engin uppbygging á því fallega svæði. Búið er að loka af Álafosskvos og enn óljóst hvernig eðlilegri vegtengingu verður komið þangað. Hinn risavaxni þríbreiði og uppbyggði göngustígur meðfram bæjartákninu Álafossi, sem byrjað var á í fyrrahaust er ennþá ófrágengin sem opið sár. Ef til vill verður hann hafður hálfkaraður sem tákn þeirra tíma þegar stórkarlaleg verktakahugsun réð för í skipulagsmálum og framkvæmdum. Skynsamlegast væri að fjarlægja malarhaugana sem áttu að verða göngustígur um verndarsvæði.
Í byrjun október á síðasta ári hvatti ég forseta bæjarstjórnar og vinafólk til að láta af níðskrifum sínum um Varmársamtökin. Þar beindi ég athyglinni að gildi jákvæðra samskipta. Þar skrifa ég meðal annars; "Ég er tilbúin að hitta á þessa aðila og vinna að því að hreinsa ágreining og draga lærdóm fyrir framtíðina. Vilja þau það? ". Ekkert svar. Hinsvegar hefur forsetinn eytt út fjölda eigin athugasemda og færslna þar sem að hann hefur metið svo að gætu skaðað hann persónulega. Einnig er vinkona hans og helsti málsvari, sem iðulega virtist ekki ganga heil til skógar, búin að loka sinni síðu og allar athugasemdir á öðrum síðum dottnar út. Með þessu tvennu hefur átt sér stað verðugt hreinsunarstarf.
Eftir standa þó margvísleg ósannindi, sem að mér finnast ekki ásættanleg. Látum vera að forystumaður VG í bæjarfélaginu finni sínum pólitísku áherslum helst farveg í tilfinningatengdri baráttu við opin umhverfissamtök og látum vera að hann lýsi persónulegri óvild gagnvart hinum og þessum einstaklingum, sem að kosnir hafa verið til starfa fyrir íbúasamtök í bæjarfélaginu. Persónulega fannst mér hinsvegar óásættanlegt að ráðast opinberlega að atvinnustarfsemi minni í bænum með háðsglósum. Þannig að ég ákvað í haust að bjóða ekki lengur upp á dans- og jóganámskeið líkt og ég hef gert. Heldur kenni annarsstaðar. Persónulega finnst mér óásættanlegt að forseti bæjarstjórnar gangi fram með ósannindi um að ég tengist einhverjum nafnlausum skrifum.
Nú er svo komið að ég vil að hann biðji mig afsökunar á þessum dylgjum. Ég hef aldrei skrifað neitt undir nafnleynd á blogginu og hef heldur aldrei þurft að hreinsa neitt út af því sem að ég hef skrifað. Skrif forseta bæjarstjórnar og félaga hans á Moggabloggi undir leyninöfnum urðu hinsvegar að því sem nefnt var Mosfellsbæjarmálið fyrir um tveimur árum og voru aðför að Varmársamtökunum. Aðdróttanir forseta bæjarstjórnar um að ég tengist hliðstæðum nafnleyndarskrifum gegn honum er orðið svo langdregið og endurtekið útspil að ég er búin að fara fram á að hann biðji mig opinberlega afsökunar. Frestur sem ég gaf honum gildir fram á miðnætti í kvöld, en annars verður þess freistað að fá slíkum ósannindum hnekkt fyrir dómstólum.
Afrit eru til af öllum færslum hjá Morgunblaðinu og aðgengileg í málarekstri. Líka þau sem búið er að eyða.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)