17.2.2008 | 14:26
Mannréttindi fatlaðra
Karl Tómasson forseti bæjarstjórnar heldur því fram að groddaleg lagning göngustígs meðfram Varmá og Álafossi sé gert í þágu fatlaðra og til að tryggja réttindi þeirra. Spurningin sem vaknar er hvort það sé verjandi að gjörbreyta ásýnd hverfisverndarbeltis og efast ég um að fatlaðir eða ófatlaðir geti notið náttúru sem að er búið að malbika yfir.
Satt best að segja hélt ég að vinna Varmársamtakanna hefði þó skilað þeim árangri að staðið yrði betur og á yfirvegaðri máta að framkvæmdum á þessu viðkvæma svæði. Því belti sem liggur í gegnum bæinn og samkvæmt skipulagi skal halda eftir ósnortnu af Varmársvæðinu.
Það er ekki nóg með að Helgafellsbrautin fari nálægt Varmá og þrengi að Álafosskvosinni. Hinn þriggja metra breiði stígur mun kóróna sköpunarverkið. Útmá stærstan hluta af því grasbelti sem eftir er og gerbreyta allri ásýnd landsins með jarðvegsskiptum og undirbyggingu sem að er allt að fjögurra metra há.
Það sem meira er að þessi framkvæmd hefur ekki verið rædd, hvorki á opinn hátt inn í nefndum eða meðal íbúa. Veit ekki hvort hún var rædd við félög fatlaðra og að fyrir liggi að þeir hafi gert kröfu um slíkan gjörning.
Hér koma nokkrar myndir í viðbót
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.2.2008 | 21:56
Grænt malbik?
Hópur náttúruverndarfólks gekk að Reykjum, Reykjalundi, göngustíg með Varmá og niður í Álafosskvos í dag. Það rigndi hressilega á hópinn, en skemmtileg stop voru gerð á leiðinni og endað á frábærri fiskisúpu í Kvosinni. Út um glugga á Álafossi blasa ekki lengur við grasigrónar lendur Helgafells. Búið að keyra þúsundum rúmmetra af gróðurmold í burtu og í staðinn hafa komið aðrar þúsundir rúmmetra af möl og grjóti. Baráttan um legu Helgafellsbrautar er töpuð. Svöðusárið blasir við. Mikilvægt er að heimila ekki frekari byggð í jaðrinum til að hægt sé að leiðrétta síðar fyrir þann níðingshátt sem nú hefur gengið fram.
Eitt var þó nýtt á þessari göngu sem ég hafði ekki gert mér fyllilega grein fyrir áður. Það var algjörlega ofvaxinn framkvæmd við göngustíg meðfram Varmá á vegum verktakans. Enn og aftur hefur ekkert verið um hana fjallað í nefndum, né að hún hafi fengið eitthvert mat á umhverfisáhrifum. Hér er þó um gríðarlega umfangsmikið inngrip að að ræða. Stefnt er að breiðum malbikuðum göngustíg sem meðal annars mun liggja mefram barmi Álafoss. Sögutákni bæjarfélagsins í Varmá. Þetta er svona einhver "supersize" gjörningur. Byrjað er á að flytja moldina burt og grjót og möl sem undirlag. Síðan á að malbika yfir allt saman. Göngustígurinn sem fyrir er upp með Varmá hefði átt að geta verið fyrirmynd, þar sem fín möl er notuð. Jafnvel hefðu þeir getað farið upp í Hamrahlíðarskóg og séð hversu hlýlegir og skemmtilegir stígarnir þar eru með viðarspæni.
Þetta á trúlega að vera einkamál verktaka og bæjaryfirvalda. Löngu um þetta samið á einhverjum lokuðum fundum. En það er vonandi að þeir máli malbik göngustígsins grænt, svo allir flokkar geti haldið því fram að áherslur þeirra hafi komist til skila í bæjarstjórn Mosfellsbæjar. Meðfylgjandi myndir sýna annarsvegar breidd og undirlag hins nýja göngustígar Helgafellsmegin við Varmá og hinsvegar eldri stígurinn hinum megin, sem leyft er að laga sig að náttúrunni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.2.2008 kl. 02:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
15.2.2008 | 19:54
Eitur eða unaður
Sykur eða glúkósi er aðgengilegasti orkugjafinn. Blóðsykur er einn aðalþáttur efnaskipta og er einn af áhrifaþáttum um svengd. Þar að auki er næmi á sætt bragð fremst á tungunni, þannig að þegar maðurinn rekur tungu í matvæli er mikilvægt að greina þau sem hafa sætt bragð.
En Adam og Eva voru ekki lengi í Paradís. Þannig geta flestar nautnir orðið að fíkn. Unnin sykur er hrá orka án næringarefna. Því er ráðlagt að neysla hans fari ekki fram yfir 10% af heildarorku. Hinsvegar sækist hin streitutengda óreiða hversdagsins eftir sykrinum, hinum aðgengilega orkugjafa.
Margir halda því fram að sykurfíkn sé vandamál sem þurfi að bregðast við. Ein birting fíknar er að nota efni til að hafa áhrif á líðan og tilfinningar. Allir þekkja það hversu örgeðja börn eru eftir að hafa fengið sælgæti. Sykurneysla hefur einnig slík áhrif á fullorðna þó að þeir geti betur temprað viðbrögðin.
Streituhormónið kortisól innleiðir pirring og vanlíðan og það kallar einnig á sykur. Meiri sykur í bland við meiri óreiðu og spennu. Þannig getur þróast vítahringur fíknar sem að er áhrifavaldur í þróun offitu. Því er slökun og kyrrð hugans tengd því að taka eftir bragði, upplifa og njóta á meðan stress einkennist af lítilli vitund og sækni í orkurík matvæli.
Litið hefur verið til þess sem jákvæðrar breytingar á neysluvenjum barna og ungmenna að þau hafi aukið neyslu á mjólkurvörum. En var það áhugi á meira kalki eða hollum próteinum sem kallaði fram þessa auknu neyslu? Nei, hún náðist með því að breyta mjólkurvörum í sælgæti. Skyr.is eða hvað það helst heitir er með miklu magni af viðbættum sykri. Reyndar má það segja í heild um íslenska matargerð, að honum er víða laumað inn.
Nú höfum við fjölskyldan keypt okkur blandara og þar fara nú ofan í ber, ávextir, grænmeti og óunnar mjólkurvörur. Hver hágæða "smoothies" þykknidrykkur er galdraður fram. Það að prófa sig áfram með bragð og samsetningar eflir næmni og vitund. Maður nærir líkama og sál. Gerir sér eitthvað gott á skapandi hátt.
Með þessum hætti er hægt að gera kolvetnaneysluna að hollustu og unaði, í stað þess að vera óvirkur viðtakandi á matvælum með miklu innihaldi af unnum sykri, sem gefur skyndiorku en litla næringu. Það er í raun skondið að helstu "menningarstaðir" hvers hverfis í borginni skuli vera sjoppurnar. Afhverju ekki að setja upp staði sem bjóða upp á holla kolvetnaneyslu.
Lífstíll | Breytt 16.2.2008 kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.2.2008 | 23:53
Blóm vikunnar Holurt
Blóm vikunnar er Holurt eða Silene Uniflora. Nafnið er rakið til Silenus hins belgmikla fósturföður Bakkusar, vínguðsins, í grískri goðafræði. Þeir feðgar voru óhófsmenn og bumbulaga blómbikar holurtarinnar hefur minnt á líkamslögun þeirra. Eitthvað á þeim nótum sem nú er vísað til sem bjórvömp. Það er því fátt nýtt undir sólinni. Holurt er algeng um allt land. Vex einkum í sendum jarðvegi og melum. Þessi belgdi sig út í skriðu innan við Brenniklett, Kollumúla, Stafafelli í Lóni í ágúst 2004.
Ferðalög | Breytt 8.3.2008 kl. 22:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.2.2008 | 15:09
Kvefpestir
Á þessum tíma árs valda kvefpestir og flensur röskun á daglegri rútínu. Í síðustu viku voru margir nemendur mínir fjarverandi vegna veikinda. Nú hef ég verið að berjast þessa baráttu með beinverki, þurran hósta og sáran háls. Hef búið nokkur ár erlendis og man ekki eftir því að kvefpestir væru að taka svona mikinn toll frá hversdaglegu amstri. Er tíðni og algengi eitthvað meira hér á landi? Allavega, ég hugga mig við það að þegar maður er búin að þrauka pestatímabilið, sem stendur nú yfir, að þá fer að verða stutt í vorið og að klakaböndin bresti.
Lífstíll | Breytt 8.3.2008 kl. 22:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.2.2008 | 22:16
Skáldsagan Landnáma
Stærsti áhrifavaldur í eignaupptöku ríkisins, sem er að ganga fram þessi misserin, er Landnáma. Með Geitlandsdómi setti Hæstiréttur traust sitt og vægi á þessa bók. Að fullkominn eignarréttur verði vart sannaður nema að hægt sé að rekja það í Landnámu hver mörk jarðarinnar voru.
Slík krafa um að sanna eignarsögu aftur í tímann um rúm þúsund ár er með fádæmum. Auk þess eru fræðimenn í fornritum almennt á þeirri skoðun að Landnáma sé ekki áreiðanleg heimild. Það er því sérkennilegt hjólfar sem dómarar Hæstaréttar eru fastir í að virða hana meira en fjögur hundruð ára eignarsögu.
Stafafell í Lóni er skýrt afmörkuð heild sem í hundruðir ára hefur verið talin ná að vatnaskilum Nesja, Fljótsdals og Álftafjarðar. Héraðsdómur taldi það eðlilega "væntingu" núverandi landeigenda byggt á öllum gögnum að þeir ættu fullkominn eignarrétt. Jörðin var keypt af ríkinu 1913 og því er ríkið að ætla sér að fá frítt til baka það sem það seldi.
Það er í hæsta máta óeðlilegt að búa við réttarfar eins og varð í niðurstöðu Hæstaréttar. Það er gert að meginmáli að óljóst sé um landnám, byggt á skáldsögunni Landnámu. Um miðja 17 öld segir Brynjólfur biskup Sveinsson að Kollumúli og Víðidalur séu eign Stafafells, sem Hæstiréttur hefur nú dæmt aftur til ríkisins.
Það er von landeigenda að Mannréttindadómstóllinn í Strassburg leggji meira upp úr þinglýstum skjölum um sölu ríkisins og hina löngu eignarsögu, sem engin hefur véfengt, heldur en þjóðrembu og fornum sögnum af ferðum með kvígur og tendrun elda.
![]() |
Fundað um þjóðlendumál |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.2.2008 kl. 15:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.2.2008 | 12:27
REI = D

![]() |
REI - ætlar Sjálfstæðisflokkurinn ekki að axla ábyrgð? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.2.2008 | 00:30
WOW!

![]() |
Flutningi úr flugvélum lokið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.2.2008 | 22:47
Blóm vikunnar Dýragras

Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.2.2008 kl. 22:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.2.2008 | 20:10
Vetrarríki í listigarðinum
Fór út og tók nokkrar myndir af fegurðinni hér í garðinum í þeim mikla snjó sem liggur yfir í dag, en verður sennilega farinn eða í allt annarri mynd á morgun.
Dægurmál | Breytt 8.3.2008 kl. 22:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)