Gettu betur og Glæsiball

Glaesiball2008

Í kvöld komst Borgarholtsskóli í fjögurra liða úrslit í Gettu betur. Þesssir flottu piltar eru til alls líklegir og gætu leitt skólann til sigurs, en hann vann síðast 2005. Til hamingju strákar! Í gærkvöldi var einstaklega vel heppnaður dansleikur sem er komin löng hefð fyrir sem kallast Glæsiball. Hann er í framhaldi af Skóhlífadögum, miðvikudag og fimmtudag, sem að eru þemadagar. Veislustjóri var Björgvin Franz Gíslason og fór á kostum. Fjöldi annarra góðra skemmtiatriða var á dagskrá. Það er því búin að vera glæsileg vika hjá Borgarholtsskóla.

Ég fékk tækifæri á þemadögum að vera með kynningu á Zumba þrekdansi, sem gefur mér hugrekki að halda áfram með þetta form þrekþjálfunar. Á Glæsiballinu var síðan skemmtiatriði, tímamótagjörningur "Gulli og gellurnar" þar sem ég leiddi hóp samkennara af æðra kyninu inn í suðræna sveiflu. Nú um mánaðamótin byrja ég með sex vikna námskeið í Zumba þreki í Íþróttamiðstöðinni að Varmá. Dansinn stiginn síðdegis frá sex til sjö, þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga. Á miðvikudögum verður alltaf gestakennari sem þjálfar hópinn í hinum ýmsu afbrigðum s.s. hip hop, salsa, flamenco, reggeton, tango, merengue og samba.


Perónuleikapróf

Persónuleikapróf

Eftirfarandi fimm spurningar hjálpa þér til að staðsetja þig á persónuleikavíddinni náttúruverndarsinni - umhverfisníðingur. Notað er dæmi úr Mosfellsbæ í þessu prófi og er þátttakandi beðin að svara af bestu samvisku, í einrúmi þar sem að hann verður ekki fyrir neinni truflun. Farið eftir fyrstu tilfinningu því hún er oftast rétt, en ekki hver sé hvar í pólitík eða öðrum ótengdum breytum. Gangi ykkur vel. Skráið svarið í reit sem nefnist ATHUGASEMDIR á síðunni..

1. Ég vil leggja stíg meðfram Varmá eins langt frá bökkum hennar og mögulegt er úr náttúruefnum og að hann lagi sig að landslaginu.

2. Ég vil leggja um meters breiðan malbikaðan stíg eins langt frá bökkum hennar og kostur er og að hann lagi sig að landslaginu.

3. Ég vil leggja þriggja metra breiðan malbikaðan stíg meðfram ánni sem er eins langt frá bökkum hennar og kostur er og lagar sig að landslagi.

4. Ég vil leggja þriggja metra breiðan malbikaðan stíg meðfram ánni og hann má liggja eins nálægt ánni og hentar til að hámarka fjölda lóða, en að hann lagi sig að landinu.

5. Ég vil leggja þriggja metra malbikaðan stíg meðfram ánni og tekið er tillit til óska verktakans um að hafa stíginn eins nálægt og þeim hentar, ásamt því að fullur skilningur sé á því að þeir sem um hann fari verði fyrir sem minnstum óþægindum vegna hæðarmunar og því sé eðlilegt að grjótfylling allt að fjórum metrum að hæð sé sett inn á þetta útivistr- og verndarbelti.


Blóm vikunnar Holtasóley

nullÞjóðarblómið okkar er Holtasóley. Þó menn hafi verið á mismunandi skoðun við val á einkennisblómi á sínum tíma, þá er hún falleg og finnst um allt land. Á ferðum mínum á fjöllum rekst ég ekki svo mikið á hana í fullum blóma. Hún blómstrar snemma sumars, en gönguferðir til fjalla eru oft ekki fyrr en í júlí. Holtasóley vex helst á melum eða rakalitlu mólendi. Þessi hér á myndinni var skammt frá gönguleiðinni í Víðibrekkum á móti Kollumúla, Stafafelli í Lóni í lok júní 2005.

Hjólastólarallý

Grjót&malbik

TorfærustóllVerið er að byggja upp malbikað ferlíki á bökkum Varmár sem heitir í skipulagi göngustígur, en í útfærslu minnir miklu frekar á lagningu akvegar. Uppbyggður allt að fjórum metrum og þriggja metra breiður. Þessi ofvaxni stígur mun eyðileggja landslag og upplifun á því litla belti sem haldið hefur verið eftir upp með Varmá. Sá eini sem stigið hefur fram til varnar þessari framkvæmd á því sem heitir göngustígur á aðalskipulagi, en í útværslu er miklu frekar braut, er Karl Tómasson. Forystumaður vinstri grænna telur að fórna megi náttúruvernd vegna þeirrar röksemdar að tryggja þurfi aðgengi fatlaðra.

Stóll2Veit ekki hvort að breyta eigi ímynd Mosfellsbæjar frá því að vera "sveit í borg" í það að vera með bestu hjólastólabraut landsins. Held að það sé ekki hægt að láta þessa hagsmuni koma niður á öðrum gæðum og þeirri mjóu ræmu sem tekin er frá undir hverfisvernd. Ég tel að eldri malarstígarnir upp með Varmá hafi verið mjög vinsælir, en þeir voru að stórum hluta byggðir upp af umhverfissamtökunum Mosa fyrir rúmum áratug. Nú eru það ekki umhverfisaðilar sem hafa mótandi áhrif, heldur verktakar sem eiga mikið af trukkum og gröfum. Menn sem vilja láta verkin tala innan verndarsvæðisins.

Stóll4Ef málið snýst um aðgengi fatlaðra og að það sé erfitt að koma hefðbundnum hjólastólum með mjög litlum dekkjum eða rafskutlum eftir þeim stígum sem látnir hafa verið laga sig að landslagi og hafa náttúrulegt undirlag, þá hefði verið skynsamlegra að kaupa nokkra hjólastóla hannaða til aksturs utanvega- eða utanmalbiks. Leitaði að gamni mínu á netinu og töluvert er um hönnun og lausnir á þessu sviði. Það geta ekki verið mannréttindi fatlaðra að láta eyðileggja verndarsvæði. Mun ódýrari og eðlilegri lausn er að samfélagið taki þátt í að styðja kaup eða leigu á þeim farartækjum sem duga.


Vatnið er grunnurinn

VatnMosi

Ef maður vill tæma hugann og upplifa hreinleika þá er fátt sem laðar betur fram þá tilfinningu en að hlusta á rennandi vatn. Mín fjallalind er Víðidalsá í Lóni, sem mér finnst öllum öðrum tærari. Þar hef ég oft fengið mér sundsprett með göngufélögum á sumrin ef það er sól og hlýtt í lofti. Áin er köld, að koma úr snjósköflum í nokkurra hundruð metra fjarlægð.

Mestu verðmæti okkar hér á landi er hið tæra vatn, þó að okkur finnist stundum óþarflega mikið af því falla af himnum ofan. Til forna skiptu menn grunneiningum heimsins í eld, loft, mold og vatn. Það er mikill sannleikur í því enn í dag. Það er eitthvað sérstakt við alla þessa fjölbreytni vatnsins. Við áttum á tímabili tvo Kanarífugla og þeir fóru alltaf að syngja þegar skrúfað var frá vatni eða að rigndi á þakið.

Vatn er einn besti svaladrykkurinn. Mikilvægt er að í skólum og fjölmennum vinnustöðum sé gott aðgengi að vatnshönum. Það er samt líkt og með margt annað að neysla vatns þarf að byggja á réttri vitund um þorsta. Þannig hefur komið í ljós að það skilar engum ávinningi að þamba einhverja 1-2 aukalítra á dag til að hreinsa líkama eða heilsueflingar. Allt hefur sitt jafnvægi.

 

VatnKlaki


Hversu hátt hlutfall vill Dag B.?

Skoðanakannanir hafa sýnt að um 70% aðspurða vildi að Dagur B. Eggertsson héldi áfram sem borgarstjóri, en ekki er spurt um stuðning við hann í þessari könnun. Hún sýnir hinsvegar tæplega 50% fylgi við Samfylkinguna og mikilvægt að halda þessu svona fram yfir kosningar. VG og Samfylking ættu vel að geta haldið þannig á spilunum að tveggja flokka meirihluti þeirra væri traustur.
mbl.is Flestir vilja Hönnu Birnu sem borgarstjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heilsuefling og umhverfismál

Framhaldsskólar hafa fengið svigrúm til að móta eigin áherslur með uppbyggingu brauta og sérhæfingu. Slíkt svigrúm mun aukast með nýjum lögum um framhaldsskóla. Ég hef í allmörg ár talað og skrifað fyrir því að nýr framhaldsskóli Mosfellsbæjar leggji áherslu á heilsueflingu og umhverfismál. Reykjalundur hefur gefið sinn jákvæða tón endurhæfingar og heilsueflingar inn í bæjarfélagið síðustu áratugi. Mosfellingar hafa valið sér búsetu til að njóta tengsla við náttúruna. Áherslan væri því á innra og ytra umhverfi einstaklingsins. Hvað þarf til að viðhalda og styrkja jafnvægi í líkamanum og í náttúrunni. Hvort sem það verður FM (Fjölbrautaskóli Mosfellsbæjar) eða MM (Menntaskóli Mosfellsbæjar) gæti hann orðið þekkingarmiðstöð um þá þætti sem efla einstaklinginn og bæta umhverfið.

                                      Til hamingju ráðherra, bæjarstjóri og aðrir!


mbl.is Framhaldsskóli í Mosfellsbæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lagning stígs fyrir fatlaða

Göngustígur fyrir fatlaða


"Eigum við möguleika?"

EurovisionNú eru Laugardagslög búin að damla lungað úr vetrinum. Verð að viðurkenna að það setti að mér aulahroll undir síðasta þætti. Hinir og þessir spekingar höfðu tekið þátt í spurningakeppni um hversu mörg stig hinar og þessar þjóðir gáfu hinum og þessum lögum, þetta eða hitt árið. Síðan kom þessi yfirþýrmandi spurning til spekingana; "Teljið þið að við eigum möguleika í ár". Vonandi fer að koma niðurstaða í þessu ansi langdregna forvali, þannig að hægt sé að vera með magasín og tónlistarþætti sem fá tilvist á eigin forsendum.

Útspil Þorsteins

Þorseinn Pálsson fyrrum forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins setur fram nokkur spil sem að hann kallar "Ný markmið" í leiðara Fréttablaðsins í dag. Þau eru í stuttu máli:
1) Undirbúa íslenskt efnahagslíf þannig að þjóðin geti eftir þrjú ár tekið ákvörðun um aðild að Evrópusambandinu.
2) Nýtt hlutverk fyrir Seðlabanka þ.s. hann geti ekki gengt hlutverki sínu á íslenskum fjármálamarkaði af því að íslenskt efnahagslíf mótist mest af erlendum og alþjóðlegum kröftum.
3) Ríkisstjórnin ræður för í fjárfestingum í orkunýtingu og verður að tryggja verðmætasköpun til að viðhalda myndarskap í rekstri velferðarsamfélagsins.
Þorstinn PálssonÞetta eru áhugaverðir punktar til umræðu. Stjórnarflokkarnir ættu að geta náð saman um að stefna að því að taka til í efnahagsmálum á þann veg sem eru skilyrtar forsendur þess að hægt sé að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Aðild yrði þó ætíð háð vilja þjóðarinnar. Á þessum nótum, um forgang tiltektar sem forsendu Evrópuumræðu, talar Bjarni Benediktsson þingmaður og formaður fjárlaganefndar. Sú staðreynd að við erum orðin hluti af alþjóðlegum fjármálamarkaði krefst nýrra markmiða og trúlega nýs gjaldmiðils.
Að lokum má áætla að það verði of hröð niðursveifla ef ekkert er aðhafst á sviði orkufreks iðnaðar. Því gæti staðan verið þannig að "síðasta álverið" eigi að rísa á Bakka við Húsavík. Með því eflist landsbyggðin og leitað verði allra leiða til að auka raforku í dreifikerfinu með sem allra minnstu inngripi í náttúruna. Það er ekki pláss fyrir bæði álver í Helguvík og Húsavík. Hvorki með tilliti til losunarheimilda Kyotó né skynseminnar að setja fleiri egg í sömu körfuna. Við erum að snúa frá lausnum sem felast í stóriðju, en ef það er snögghætt á því sviði, þá gæti líka verið snöggkælt.

Annars er hér áhugaverð sagnfræðileg skáldsaga eftir Hallgrím Helgason um stefnuna á þjóðarskútunni fyrir þá sem vilja fá þetta á léttari nótum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband