3.3.2008 | 23:52
Kraftur ljóss og lífs
Litarefni plantna gegna mikilvægu hlutverki í fyrstu skrefum fæðukeðjunnar bæði við það að vernda vefi plöntunnar gegn óæskilegri geislun og að beisla orku sólarljóssins. Síðustu tvo áratugi hafa rannsóknir einnig sýnt hversu holl þau eru fyrir vefi mannslíkamans í hlutverki sínu sem andoxunarefni. Í stuttu máli má segja að oxun á fitusýrum eða erfðaefni geti haft í för með sér ýmis óæskileg áhrif á líkamsstarfsemina. Þannig geta skemmdir innan á æðaþeli verið fyrstu skref æðakölkunar eða stökkbreytingar á erfðaefni leitt til krabbameinsmyndunar. Geislun og hvarfgjörn efni (sindurefni) eru helstu ástæður oxunar lífrænna efna. Reykingar og mikið brasaður matur getur aukið magn sindurefna, sem meðal annars stuðla að súrefnisatóm í líkamanum verða í óstöðugu ástandi í líkamanum og hafa tilhneigingu til að hvarfast við vefi líkamans og meðal annars innleiða ótímabæra öldrun. Andoxunarefni gegna hlutverki slökkvitækja sem að slá á og draga úr þessum ferlum.
Litarefni plantna skiptast í tvo meginflokka. Annarsvegar eru fituleysanleg litarefni karotenóíðar sem finnast einkum í grænmeti, eins og papriku, tómötum og gulrótum. Það andoxunarefni sem fyrst fékk athygli og er mest rannsakað er beta-karoten en það er í miklu magni í gulrótum. Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á vernd og hollustu beta-karotens. Hinn meginflokkur litarefna er vatnsleysanlegur og nefnist flavóníðar og finnst einkum í litsterkum ávöxtum og berjum t.d. appelsínum, kíví, jarðaberjum og bláberjum. Þessir tveir flokkar sjá því um vernd gegn geislun og sindurefnum í mismunandi svæðum líkamans. Þau vatnsleysanlegu gegna mikilvægu hlutverki í blóði og vessum á meðan að hin fituleysanlegu gegna mikilvægara hlutverki við að vernda himnur og dýpra í vefjum. E- vítamín og C-vítamín gefa einnig vernd sem andoxunarefni í sitthvorum hlutanum, vatnsleysanlega og fituleysanlega umhverfinu. Nú hafa verið greind yfir 4000 litarefni í náttúrunni og að þó þau hafi öll það sameiginlegt að miðla krafti lífs og ljóss, þá eru þau líka breytilegur flokkur efna og hvert með sína virkni.
Í matvælaefnafræði fyrir tæpum 20 árum valdi ég að skrifa um áhrif karotenefna sem næringarefni til verndar gegn ýmsum krabbameinum. Það var áhugavert. Síðan í framhaldsáfanga í næringarfræði þá vann ég stutta samantekt með Ingu Þórs prófessor í næringarfræði um mataræði hjartasjúklinga. Þá var þetta algjörlega nýtt svið í næringarfræði og yfirleitt ekki tekið inn í ráðleggingar. Finnst gaman að hugsa til þess nú í dag þegar hollusta þessara efna er orðin viðurkennd. Það er ef til vill engin tilviljun að í dæmigerðum amerískum morgunverði með steiktu beikoni, pulsum og eggi er yfirleitt drukkinn appelsínusafi. Hið brasaða kjötmeti sem kemur af pönnunni er uppfullt af sindurefnum sem tilbúin eru til að ráðast á líkamann, ef ávaxtasafinn myndi ekki slökkva bálið. Þannig ætti reykingamaðurinn að vernda vefi sína með því að fá sér gulrætur, salatblað og ávaxtasafa eftir að hann er búin að láta reykmettað eitrið flæða ofan í lungnarásirnar. Það er áhugavert að spá í hverjar eru þarfir hvers og eins. Ráðleggingar ganga oft út á um 5 stykki af ávöxtum og grænmeti á dag. Það er líka áhugavert að hugsa um það að litarefni plantna myndast í mismiklu magni eftir því hversu geislunin (t.d. útfjólublá) er mikil inn í vistkerfið og því gæti verið æskilegt að borða fituleysanlegu litarefnin úr manns eigin umhverfi til að gefa hlutfallslega rétta vörn.
Lífstíll | Breytt 5.3.2008 kl. 00:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.3.2008 | 11:32
Hvannadalshnjúkur (2110 m) -> 26. apríl 2008
ATORKA mannrækt & útivist (ég) er að skipuleggja hópferð á Hvannadalshnjúk í samvinnu við Jökul Bergmann fjallaleiðsögumann. Farið er seinni part föstudags austur í Öræfi og gist tvær nætur. Snemma morguns 26. apríl er lagt af stað á hnjúkinn og áætlað að gangan taki um 12 tíma.
Að ganga á Hvannadalshnjúk er gott að setja sem lokapunkt í áfanga að koma sér í form eða sem staðfestingu á því að maður sé í góðri þjálfun. Gangan sjálf er ekki upp mikinn bratta eða tæknilega erfið. Hún er hinsvegar 25 km og hækkun yfir 2000 m.
Meginviðmið er því að halda góðri samfellu í göngunni, láta úthald og seiglu ljúka áfanganum. Mæta síðan til byggða, njóta góðrar sameiginlegrar máltíðar og ánægjulegrar kvöldstundar. Lagt er af stað aftur til Reykjavíkur á sunnudagsmorgni.
Allir eru velkomnir að slást í hópinn og ef þið vitið af fjallageitum, þá er vel þegið að láta boðin ganga. Uppl. man@man.is
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 15:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
1.3.2008 | 10:12
Ánægjulegt áreiti
Línan milli ánægjulegs daðurs og óþægilegs áreitis getur verið hárfín. Ljósmyndin "Amerísk stúlka á Ítalíu" undirstrikar þetta flókna samspil kynjanna. Hún hefur oftast verið notuð til að setja í neikvætt samhengi það áreiti sem að konur verða fyrir. Rætt er við amerísku stúlkuna á myndinni í Morgunblaðinu í dag. Hún segist hafa skemmt sér konunglega við þessa athygli. Það er því eins gott að karlarnir haldi áfram að veita konum athygli, en lesa aðstæðurnar rétt. Hvað sé viðeigandi og hvað ekki. Sumar konur myndu vilja slíka athygli en aðrar upplifðu slíkt óþægilegt og í ætt við ofbeldi. Mannlífið er margslungið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.2.2008 | 23:39
Málefnasamningurinn skilar ekki trúverðugleika
Fyrir nokkrum vikum höfðum við borgarstjórn og borgarstjóra sem nutu afgerandi stuðnings hjá meirihluta kjósenda. Síðan tókst Villa með klækjum að brjóta upp veikasta hlekkinn. Okkur var sagt að nú væri komin borgarstjórn með skýran málefnasamning og myndi láta verkin tala. Atriði númer eitt á listanum var áframhaldandi vera flugvallar í Vatnsmýri. Erfitt hefur þó reynst að selja þá hugmynd ekkki síst vegna þess að mun meiri áhugi er á skipulagstillögum að byggð á svæðinu.
Ástandið er skondið í borginni, menn eru að bíða af sér veru Ólafs F. í borgarstjórastólnum sem að er þar án umboðs eða baklands. Síðan segir í handritinu að borgarstjórnin eigi að lúta forystu Sjálfstæðisflokksins. En sá flokkur er forystulaus í borginni og þar á eftir að fara fram erfitt uppgjör um borgarstjóraefni flokksins. Skipið rekur stjórnlaust og er rúið trausti. Dagur og Svandís eiga að geta spilað þannig úr spilum að öruggt sé að sterk tveggja flokka félagsleg stjórn verði mynduð.
Sjálfstæðisflokkurinn er að ganga í gegnum mesta niðurlægingarskeið í sögu hans tengdri borgarstjórn Reykjavíkur.
![]() |
Aðeins 9% treysta borgarstjórn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.3.2008 kl. 17:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.2.2008 | 18:23
Gamla góða Evrópa
Evrópumálin eru ekki á dagskrá, hefur verið sameiginleg heimssýn Vinstri Grænna og Sjálfstæðismanna. Framsóknarflokkurinn hefur enga stefnu í þessum málaflokki eða að þeir fáu sem tilheyra þeim flokki fara ýmist út eða suður. Samfylkingin einn flokka hefur axlað þá ábyrgð að þetta sé mál sem komi öllum við og eigi að vera í umræðunni. Geir Haarde á hrós skilið fyrir að hafa nú brugðið undir sig betri fætinum yfir til meginlandsins, hvar hann fékk bæði höfðinglegar og hlýlegar móttökur. Í Lúxemborg var honum tjáð að Ísland myndi hafa mikil áhrif ef það gengi í sambandið. Meðal annars hefur það verið rætt að Íslendingar gætu verið kjölfestan við endurskoðun á fiskveiðistjórnarstefnunnni.
Forsætisráðherra sá ástæðu til þess í útvarpsviðtali að lýsa yfir að "öll samskipti við Evrópusambandið séu sérstaklega ánægjuleg" og því sé það ekki þess virði að taka einhliða upp Evru í óþökk þeirra. Hér kveður við allt annan tón en meðal margra flokksfélaga hans sem sjá ekkert nema svartnættið þegar rætt er um Evrópusambandið. Á endanum sér maður að þó þeir séu sumir fjölfróðir, þá hafa þeir vísvitandi sett lepp fyrir annað augað. Þeir neita að sjá þau tækifæri og kosti sem eru í stöðunni. Þetta frelsi og tækifæri sjá fólk og fyrirtæki, sem stíga hvert skrefið á eftir öðru í átt að fullri þátttöku í ESB. Því eru evrópumálin sá málaflokkur þar sem mest gerjun er þessar vikurnar.
Ætlunin var að standa í vegi fyrir því að bankarnir gerðu upp í evrum, en nú hefur verið fallið frá því að láta þá fara í gegnum fjárhagslegar þrengingar á forsendum þjóðrembu. Með nýlegum kjarasamningum gefst launafólki kostur á að fá laun sín greidd í evrum. Telja má víst að margir muni nýta sér slíkt og losna þannig út úr gengisáhættu. Fjölmargir hafa tekið myntkörfulán þar sem evra er einn af t.d. þremur gjaldmiðlum og það má telja mun meiri líkur á sveiflum í gengi krónu en evrunni. Til að draga úr slíkum sveiflum hefur það kosti að fá launin í evrum.
Samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins vilja 54% landsmanna aðild að Evrópusambandinu. Jafnvel þó að úrtak sé ekki stórt sýna þessar niðurstöður að fleiri eru tilbúnir að skoða þessi mál út frá eigin forsendum og tækifærum. Látum ekki hræða okkur á þeirri forsendu að við munum tapa sjálfstæði eða að það sé sjálfgefið að það sé slæmt að hafa samvinnu við önnur ríki um löggjöf. Flest það sem komið hefur frá ESB hefur innleitt réttarbætur fyrir íslenskan almenning og hin mikla samvinna sem við eigum við Evrópuþjóðir hefur verið til góðs og skapað grundvöll hinnar fjárhagslegu útrásar sem flestir viðurkenna að hefur styrkt verulega íslenskt efnahagslíf.
Iðnþing 2008 er í byrjun komandi mánaðar og er undir yfirskriftinni; "Ísland og Evrópa - Mótum eigin framtíð". Það hefur lengi verið ósk iðnaðarins að íslenskt hagkerfi næði sér upp úr hinu sveiflukennda umhverfi sjávarútvegs og frumatvinnugreina. Hugsanlegt er að slíkur stöðugleiki fyrir heimilin í landinu og fyrirtækin verði best tryggður með pólitísku áræði og pólitískri sókn okkar inn á lendur Evrópu. Þessi mál eru svo sannarlega á dagskrá og er það vel.
![]() |
Geir: Einhliða upptaka evru gæti þýtt pólitíska erfiðleika |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.2.2008 | 19:16
Blóm vikunnar Lambagras

Ferðalög | Breytt 8.3.2008 kl. 22:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.2.2008 | 12:39
Þunglyndislyf gagnlítil
Þó þér þyki lífið erfitt er ekki þar með sagt að eitthvað sé að boðefnaframleiðslu þinni í heilanum. Í raun er ekkert sem segir að ævigangan eigi að vera sársaukalaus, sorgarlaus, áfallalaus. Það sem hefur gert okkur Íslendinga að heimsmeisturum í notkun þunglyndislyfja er sú staðreynd að við göngum öðrum framar í að meðhöndla blæbrigði lífsins sem sjúkdóma.
Í dag eru birtar niðurstöður rannsóknar í tímaritinu The Public Library of Science Medicine sem sýna að þunglyndislyf eins og t.d. Prozak eru gagnlítil nema hugsanlega í alvarlegustu tilvikum. Í seinasta mánuði hafði önnur grein í New England Journal of Medicine komist að hliðstæðri niðurstöðu. Þessar rannsóknir gefa tilefni til víðtæks endurmats á slíkri lyfjagjöf og áherslum í meðferð við þunglyndi og depurð.
Fjölmörg dæmi eru af jákvæðum áhrifum slíkra lyfja. En gera verður kröfuna um að þau skili meiri árangri heldur en ef ekkert hefði verið að gert og að þau geri meira heldur en þegar gefin er lyfleysa (placebo) til samanburðar. Flestir taka framförum án inngrips og trúin á að lyf virki (placebo) skilar oft miklum áhrifum. Nú hefur þessi viðamikla rannsókn sýnt að þau gera ekkert meira en það, nema hjá þeim sem eru allra veikastir og hafa röskun í boðefnaframleiðslu.
Við notum þessi lyf meira en aðrar þjóðir. Læknar hafa varið það með þeim hætti að hér sé vangreint vandamál eða sjúkdómur betur meðhöndlaður heldur en hjá öðrum þjóðum. Þessi gögn draga slíkt mjög í efa og benda einmitt til sóunar á gífurlega miklu fjármagni í gagnlitla meðferð. Auka þarf mikið áherslur á hugræna atferlismeðferð, tilfinningaþjálfun og hreyfingu sem lífstílstengd úrræði. Í þessar leiðir þarf að veita fjármagni. Að rjúfa félagslega einangrun og einmanaleika, ásamt aukinni hreyfingu og gleði hefur sýnt sig að geta stórminnkað notkun slíkra lyfja á öldrunarstofnunum.
Hér er áhugaverð grein geðlæknisins Dr Ken Gillman um hvernig lyfjaiðnaðurinn hefur leitt lækna og almenning inn á villigötur
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 23:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
24.2.2008 | 23:17
Sunnudagsmorgunn
Kynþokkafyllsti útvarpsþáttur allra tíma er með Valdísi Gunnars á Bylgjunni. Það er gott að vakna upp með henni, eins og segir í auglýsingu. Í morgun var súkkulaðimeistarinn og ofurbakarinn Hafliði Ragnarsson gestur hennar. Valdís gaf frá sér alls kyns fögur hljóð meðan hún ræddi um góðgætið eða bragðaði á því. Hafliði hefur rekið Mosfellsbakarí við góðan orðstír síðustu ár. Bakaríið er eitt
af betri fyrirbærum í bæjarkryddinu. Kona mín er með Tómstundaskóla Mosfellsbæjar og þar er Hafliði skráður með páskaeggjanámskeið sem á að byrja á þriðjudaginn kl. 19:00, en vantar fleiri þátttakendur.
En það haldreipi sem ég gat haldið í svo ég missti mig ekki alveg inn á svið hinna taumlausu nautna var að ég hafði áður náð nokkrum góðum mínútum af viðtali Ævars Kjartanssonar við bloggvin og félaga Sr. Baldur Kristjánsson. Stundum hefur manni þótt jaðra við að kynþokkinn færi yfir strikið hjá Valdísi og að gáfurnar ætluðu alveg að fara með Ævar á stundum. Í morgunn var þetta allt í passlegum skömmtum, sennilega af því að maður þekkti viðmælendurnar. Þakka þessu góða fólki
fyrir ánægjulega morgunstund. Þetta er besti tími vikunnar, heima við, til útvarpshlustunar. Ný vika að byrja, en samt ekki búin að leggja neinar kvaðir á hugann.
Menning og listir | Breytt 25.2.2008 kl. 13:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.2.2008 | 22:50
Lýsi formlega yfir stuðningi við Obama
Þó ég hafi fram til þessa verið hlynntari Hillary en Barack í forvalinu mikla hinum megin við sundið, þá hef ég nú ákveðið að lýsa formlega yfir stuðningi við Obama. Skilst að þetta sé einnig að gerast hjá mörgum öðrum "superdelegates", að þeir sem áður mátu meira reynslu og málefni fyrrum forsetafrúar séu nú æ fleiri að snúast á sveif með sjarma og krafti hins unga manns. Hann hefur náð meiri árangri en nokkurn grunaði og sú lest heldur stöðugt áfram að fá sinn styrk og þyngd.
Það sem réði mestu um þessa niðurstöðu er spurningin um hvor væri líklegri til að vinna forsetakosningarnar sjálfar. McCain og Clinton eru að mörgu leyti að höfða til sömu þjóðfélagshópa. Skoðanakannanir benda til að McCain myndi vinna slag milli þeirra tveggja. Mörgum republikönum og bandaríkjamönnum er mjög í nöp við frúnna, sem ef til vill er torskilið fyrir okkur sem finnst hún glæsilegur frambjóðandi.
Skoðanakannanir sýna að Obama myndi vinna McCain með miklum mun (67%:33%) og það er það sem skiptir meginmáli. Obama sem forsetaframbjóðandi hefur virkjað fjölda ungra kjósenda og hópa sem að annars myndu ekki hafa tekið þátt í forvalinu og myndu ekki taka þátt í forsetakosningunum sjálfum, ef hann væri ekki í framboði. Þó bæði hafi verið með nokkuð harða skothríð hvort á annað á lokasprettinum, þá hafa þau bæði lýst yfir að þau væru til í að vera varaforsetaefni hins, ef svo færi. Þannig blandaðist krafturinn og reynslan.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.2.2008 kl. 01:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
23.2.2008 | 15:11
Sannleikur er sagna bestur
Skipulagsfulltrúi Mosfellsbæjar hallar verulega réttu máli þegar haft er eftir honum í Morgunblaðinu í vikunni að hin breiða og malbikaða göngubraut sem verið er að leggja meðfram Varmá komi hvergi nær henni en 16 metrar. Hinsvegar segi ég í sömu frétt að "göngustígurinn" komi í allt að 1-5 metra fjarlægð. Á meðfylgjandi myndum sést vel hvor er nær sannleikanum. Það sást reyndar strax í mynd sem RAX hafði tekið fyrir Morgunblaðið af göngubrautinni í átt að Álafossi. Ekki veit ég hvað embættismanni gengur til með því að fara svona frjálslega með staðreyndir. Reyndar höfum við mátt búa við þetta ástand að skilin milli pólitísks áróðurs og upplýsinga frá embættismönnum bæjarins hafa oft á tíðum orðið óljós og er það óásættanlegt. Það á að vera hægt að treysta því að einungis séu settar fram réttar tölulegar upplýsingar og staðreyndir um gang framkvæmda. Farið er fram á að skipulagsfulltrúinn leiðrétti þessi ummæli, því hann er að gera Varmársamtökin ótrúverðug að ástæðulausu.
Í áðurnefndri frétt segir hann einnig að Umhverfisstofnun hafi ekki gert athugasemdir við þennan stíg og stofnunin eigi að gæta verndarhagsmuna. Þannig gerir hann UST ábyrga fyrir hinni groddalegu útfærlu. Í Morgunblaðinu í dag er síðan frétt þ.s. rætt er við sviðsstjóra hjá Umhverfisstofnun. Hann telur eðlilegt að göngustígur sé um verndarsvæðið og að sjálfsögðu hafa Varmársamtökin og allir verið hlynntir aðgengi að þessu útivistar- og verndarbelti. Síðan er það spurning um hvernig slíkur stígur sé útfærður. Þeirri ábyrgð varpar sviðsstjórinn yfir til sveitarfélagsins eins og eðlilegt er. Þegar hann er spurður um það hvort stofnunin hefði eitthvað við það að athuga að stígur sem að liggur svo nálægt Varmá sé malbikaður, þá vísar hann til greinargerðar með aðalskipulagi Mosfellsbæjar, þar sem um hverfisverndarsvæði segði að stígar skyldu fyrst og fremst vera malarstígar sem væri komið vel fyrir í landinu. Auk þess telur sviðstjórinn það almennt viðhorf að ekki ætti að malbika stíga nálægt ám og vötnum og að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hefðu yfirleitt fylgt því viðmiði.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)