Hugmyndaleysi og nauðhyggja

Magamál

Telja má víst að ákveðinn skortur á ferskum hugmyndum í pólitík sé fylgifiskur neysluhyggju sem ríkt hefur í landinu síðustu árin. Kjósendur leggja meira upp úr því að tryggja mettan maga, betri bíl og gott húsnæði, en umræðum og átökum um pólitík. Eðlilegt er þó að gera ráð fyrir að innan stjórnmálaflokkanna eigi sér stað umræða um stefnur og hugmyndir. Framtíðarsýn.

Leiðari Morgunblaðsins um helgina fjallaði um skort á nýjum hugmyndum í íslenskri pólitík um þessar mundir. Þar segir meðal annars undir yfirskriftinni "Hvar eru hugmyndirnar?"; "Þessi skortur á nýjum hugmyndum stendur öllum íslenzku stjórnmálaflokkunum fyrir þrifum. Þeir hafa ekkert nýtt fram að færa og þess vegna er ekkert merkilegt að gerast á vettvangi stjórnmálanna". Þetta er ágæt brýning til flokkanna.

Félagi og vinur Bjarni Harðarson gagnrýnir Samfylkinguna fyrir nauðhyggju í peningastefnu og efnahagsstjórn. Bent sé á aðild að EB sem lausn á öllum vanda á þessu sviði. Það er trúlega málað nokkuð sterkum litum eins og gengur í hanaslag stjórnmálana. En hefur aðildin að EES ekki einmitt verið að skapa svigrúm til atvinnu og mennta um mest alla Evrópu? Útrásin gert það að verkum að hin mikla skerðing í sjávarútvegi hefur ekki teljandi áhrif á efnahag ríkisins þó hún komi niður á sjavarbyggðum.

Hin íslenska nauðhyggja dreifbýlis hefur falist í því að fólkið hefur um of treyst á að Búnaðarfélagið og Framsóknarflokkurinn tryggðu mettan maga og góð lífskjör til lands og sjávar. Ólíkt farsælla hefði verið fyrir sveitirnar ef greiddir hefðu verið búsetustyrkir frekar en framleiðslustyrkir. Þá byggi dreifbýlið við fjölbreytt atvinnulíf, þar sem t.d. steinslípun hefði átt jafna möguleika að þróast og sauðfjárrækt. Það hefði gefið af sér mun meiri gerjun í hugmyndum heldur en að borga fyrir vöru sem að iðulega seldist ekki. En Framsóknarflokkurinn ákvað að vera áskrifandi að atkvæðum með þessu fyrirkomulagi. Síðan fluttu atkvæðin á mölina.

Íslensk stjórnvöld hafa síðustu öldina valið sér það hlutskipti að vera þiggjendur í utanríkismálum. Fylgja stefnu Nató og Bandaríkjanna, en reynt að selja þann stuðning og aðstöðu fyrir her háu gjaldi. Þetta hafa rannsóknir Vals Ingimundarsonar sýnt. Margt bendir til að hagsæld Íslands næstu áratugina muni tengjast aukinni samvinnu við Norðurlöndin og Evrópu, en vægi sambands við Ameríku minnka, þó það verði áfram mikilvægt.

Telja má víst að fólk og fyrirtæki muni vera gengið í EB áður en stjórnmálamenn komast að niðurstöðu í sínu karpi um stefnu í þessum málum. Betri vaxtakjör, lægra vöruverð, ásamt útrásinni hafa sett þessa þróun af stað og hún á eftir að ganga smátt og smátt lengra. Fyrirtækin munu gera upp í evrum, fólk mun geta valið um að fá laun greidd í evrum, búðir munu smátt og smátt birta verð í evrum og bankar munu bjóða upp á greiðslukort í evrum.

Þannig mun áherslan á mettan maga stuðla að áfram verður haldið á þessari braut. Einstaklingurinn hefur fengið aukið svigrum og athafnafrelsi með EES samningnum. Löggjöf og reglur sem þurft hefur að taka upp afa oftar en ekki aukið réttindi einstaklinga, til dæmis gagnvart stjórnvöldum. Almenningur sér ekki hvernig evrópusamstarfið þrengir að þjóðerni okkar eða sjálfstæði landsins. Þó mikill fjöldi erlendra verkamanna hafi sett svip sinn á mannlíf, þá má ekki gleyma því að við völdum að ráða það til vinnu.

Það er auðvitað ákvörðun stjórnmálamanna hvort þeir afgreiða Evrópumálin með einu pennastriki. Verðum við áfram óvirkir viðtakendur í stefnumótun eins og ríkti hér um varnarmál og efnahagstengsl við Bandaríkin? Skoðum bara hvað við getum grætt en ekki neinar meiningar í stefnumótun? Er það ekki versta form nauðhyggju að vera í EES, taka við reglum og lögum án nokkurrar aðkomu að hugmyndavinnu og stefnumótun?
 


Syndaselir og sægreifar

Hannes Hólmsteinn hefur farið mikinn í fyrirlestrum víða um heim, þar sem hann dásamar íslenska fiskveiðistjórnun. Hún geti verið módel fyrir önnur lönd. Hugmyndir hans hafa vakið mesta athygli í Suður-Ameríku. Veit ekki hvort að hann er jafn víða bókaður núna, eftir að fleiri og stærri gallar þess fá alþjóðlega athygli. Eitt er víst að full ástæða er fyrir þá sem aðhyllst hafa kerfið að breyta rökræðu sinni, því varla stendur þar steinn yfir steini lengur.

Frjálshyggjumenn halda því fram að með eignarhaldi á fiskveiðiheimildum hafi orðið til verðmæti sem að ekki voru til áður og að einstaklingum sé best treystandi til að fara vel með eignir og að tryggja ávöxtun þeirra. Raunin hefur orðið önnur. Sannleikurinn birtist í gífurlegri skuldsetningu greinarinnar. Þannig að það mikla fjármagn sem farið hefur út úr sjávarútvegi varð ekki til úr loftinu einu saman. Því er miklu nær að líta á sölu á fiskveiðiheimildum sem umfangsmikla eignatilfærslu.

FriðrikEkkert bendir til að útgerðarmenn fari vel með "eign sína". Tölur um gífurlegt brottkast og þróun í átt til sífellt stórtækari veiðarfæra, sem dregin eru eftir botninum og valda tjóni í viðkvæmum vistkerfum benda til þess að framganga útgerðar í núverandi kerfi einkennist af óþarfa sóun og græðgi. Eitt af meginmarkmiðum kvótakerfisins var aukin stofnstærð hjá þorski og fleiri tegundum. Eins og allir þekkja að eftir tveggja áratuga stjórnun með kvótakerfi hefur stofnstærð þorsks aldrei verið minni. Því virðist þurfa að hugsa nýjar leiðir sem ná þessu markmiði.

Samkvæmt niðurstöðu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðana er brotið á rétti einstaklinga að úthluta og binda veiðiheimildir við tiltekinn fámennnan hóp. Jafnræði þarf að ríkja í möguleikum fólks að nýta hina sameiginlegu auðlind. Gera má ráð fyrir að einnig komi fljótlega dómur þar sem að það verður dæmt ólöglegt að meina eigendum sjávarjarða að nýta hlunnindi og rétt til útróðra. Sjálfstæðismenn hafa brugðist við dómnum, með því að tala um sérálit hans í staðinn fyrir að fjalla um niðurstöðu tólf dómara nefndarinnar.

GudniNú er Guðni Ágústsson búin að lýsa því yfir að hann sé til í að vinna með öðrum flokkum að því að tryggja það að kvótakerfinu verði breytt þannig að það uppfylli viðmið um mannréttindi. Hann kemur fram sem syndari sem er tilbúin að snúa til betra lífernis. Ólíklegt er að Halldór Ásgrímsson, guðfaðir kvótakerfisins, stígi af friðarstóli í Kaupmannahöfn og lýsi yfir iðrun og vilja til að leita leiða til að tryggja réttindi og jöfnuð. Guðni er búin að tefla sinn fyrsta leik í refskák sen beinist að því að einangra Sjálfstæðisflokkinn, sem virðist vera orðinn einn flokka sem ekki vilja endurskoða stjórn fiskveiða.

Munu umræður um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða verða fleygur í stjórnarsamstarfið? Annað mál sem að er í eðli sínu svipað er ákvæði um eignarhald almennings á orkuauðlindunum sem er í tillögum Össurar Skarphéðinssonar að nýjum orkulögum. Þar virðist þingflokkur Sjálfstæðisflokks vera að tefja framgang málsins, þannig að óvíst er að þau verði að lögum. Á meðan bíður Framsóknarmaddaman og vonar að einhver sýni henni áhuga. Hver sem er, hvenær sem er og hvar sem er! Jafnvel við endurskoðun kvótakerfisins. Þeir horfa yfir sviðna akra sveitanna og draugabæina meðfram ströndinni. Iðrast.


Hvenær er svartur maður hvítur og hvítur maður svartur?

BarackOprah Winfrey hélt því fram í sjónvarpi að eftir forkosningar demókrata þá myndi kyn og litarháttur ekki lengur skipta máli í pólitík. Hún sjálf hefur gengt mikilvægu hlutverki við að brúa bilið í sjálfsmynd hvítra og svartra. Jafnframt er sagt að það hafi verið erfið ákvörðun fyrir hana hvort hún ætti að styðja þekkta konu eða þeldökkan mann í forvalinu. ´

Þegar Bill Clinton varð forseti hafði hann mikinn stuðning meðal svartra kjósenda. Hann naut reyndar það mikilla vinsælda að þekktur rithöfundur sagði að hann væri "fyrsti svarti forsetinn". Rökstuddi það síðan nánar á þann veg að það væri margt sem að hann ætti sameiginlegt með sjálfsmynd blökkumanna. Hann væri uppalinn í fátækt af einstæðri móður og spilaði á saxafón!

OprahFyrstu þrælarnir frá Afríku voru fluttir til Virginíu árið 1619. Síðan hefur átt sér stað blóðblöndun, þannig að stór hluti hvítra á einhvern svartan forföður og lítill hluti þeirra sem teljast svartir eiga eingöngu rætur að rekja til Afríku. Samt hefur það að vera African American og Caucasian mikla merkingu meðal bandaríkjamanna. Hjónabönd hvítra og svartra eru frekar sjaldgæf.

Þó að einstaklingur sé að meirihluta af öðrum uppruna en svörtum, þá flokkast hann yfirleitt þannig. Dæmi um slíkt er kylfingurinn knái Tiger Woods. Hann er einungis 1/4 af Afríku uppruna, 1/2 frá Asíu, 1/8 frá Evrópu og 1/8 Ameríku Indjáni. Nýlegar rannsóknir (Mark D. Shriver) sýna þó að minni genablöndun hefur átt sér stað en áður var haldið. Um 70% hvítra Bandaríkjamanna eiga engan forföður frá Afríku. En meðal svartra má rekja tæplega 20% erfða til hvítra.

TigerBarack Obama er 1/2 svartur og 1/2 hvítur. Faðir hans er frá Kenýa, þannig að hann er ekki afkomandi bandarískra innflytjenda eða þræla frá Afríku. Þannig að hann deilir ekki þeirri sögu með þeldökkum kjósendum. Af þessum sökum var forsíðu úttekt TIME undir yfirskriftinni; "Is Obama Black Enough?". Hvort hann væri líffræðilega, félagslega, sálfræðilega nógu tengdur svörtum bandaríkjamönnum til að þeir líti á hann sem sinn fulltrúa.

Ef til vill sýna dæmin af Opruh Winfrey og Bill Clinton hér í byrjun að þessi hugtök eru að stærstum hluta félagsleg eða sálræn. Við erum jú erfðafræðilega að stærstum hluta lík frekar en að vera ólík. Telja má víst að hverjar sem niðurstöður verða í forkosningum demókrata í dag þá muni þær ryðja úr vegi einhverjum af þessum hindrunum.


Is Bill helping Hill?

FílaAsnaÁ morgun er "super tuesday". Kannanir benda til að McCain sé nokkuð öruggur að verða forsetaefni republikana. Hver og einn getur metið hvort hann sé sigurstranglegur gegn þeim krafti sem að er í herbúðum demókrata þessa dagana. Spennan er mikil í baráttu H. Clinton og B. Obama. Það hefur verið jafn og mikill stígandi í fylgi Obama og þó að Clinton hafi fleiri kjörmenn heldur en Obama og að hún virðist enn hafa naumt forskot, þá getur allt gerst. Hann er tákn nýrra tíma og það mun skila honum langt.

Síðustu dagana hef ég verið að velta því fyrir mér hvort að virk þátttaka Bill Clinton í málefnaumræðu á kosningafundum muni spilla fyrir henni, frekar en að styrkja stöðu hennar. Trúi því að Bandaríkjamenn séu tilbúnir í að stíga það skref að velja konu sem forseta. Almenningur virðist hafa meiri trú á henni til að kljást við erfiðleika í efnahagsmálum heldur en Obama. Hinsvegar er sterk krafa um breytingar í loftinu og eftir því sem Bill er meira áberandi við hljóðnemann, þá upplifir fólk að það sé að kjósa hann í þriðja sinn og það er bara ekki nógu fersk vara til að seljast.


Stækkandi Samfylking

SamfóTvær skoðanakannanir um fylgi flokka voru birtar í vikunni. Könnun Fréttablaðsins sýndi ómarktækan mun á fylgi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Capacent Gallup könnun sýndi Sjálfstæðisflokk töluvert stærri en Samfylkingu þó hún hafi bætt fylgið lítillega frá kosningum.

Staksteinar tóku þeim tíðindum illa að Samfylking væri á slíkri uppsveiflu eins og fyrri könnunin sýndi. Þar var Þorgerður Katrín gerð ábyrg fyrir því að gefa flokknum líf með ríkisstjórnarsamstarfi. Spurt er hvernig hún myndi bregðast við ef Samfylkingin verður stærri en Sjálfstæðisflokkur.

Þegar seinni könnunin kom fram, þá má telja líklegt að örlítil ró hafi færst yfir sali í Valhöll. Þetta gæti þó verið tímabundið logn. Ég hef þá trú að það séu ákveðnir kraftar í gangi í samfélaginu sem að eru frekar að styrkja vinstra fylgi og jafnaðarmenn. Endurreisa þarf innviðina eftir tímabil þenslu og gróðahyggju.

Flestir telja að tími Framsóknarflokksins sé liðin og það sem eftir lifir af honum einkennist af sundurlyndi og deilum. Vinstri grænir eru ekki búnir að hreinsa af sér ímyndina um að þeir séu óstjárntækir og finnst að óherslur þeirra séu á einhvern hátt utan og ofan við þau mál sem brenna á almenningi. Held að fáir vilji sjá frekari vöxt frjálslyndra eða annarra smáflokka sem rekið geta fleyg í lýðræðið.

Hef bent á það áður að það er óvenjulegt að samstarfsflokkur Sjálfstæðisflokks í ríkisstjórn fari stækkandi. Skaði Sjálfstæðisfloks af framgöngu í borgarmálum mun hafa áhrif á heildarfylgið. Það eru stóru nýju tíðindin að Samfylkingin er eini flokkurinn sem hefur gott heilbrigðisvottorð þessa dagana. Tilbúin að vinna klisjulaust að hagsmunum þjóðarinnar. 


Sakna selhreifa en hákarl er óætur

Á þessum tíma árs hámar landinn í sig úldin eða misjafnlega geðfelldan mat. Líkt og við skötuátið á Þorláksmessu telst það til hetjudáðar að koma ofan í sig vel rotnuðum líkamsleifum hákarls. Það hlítur að vera eitthvað að skynfærum fólks sem finnst hákarl eða skata vera góður matur. Innarlega á tungunni nemum við beiskt bragð og líka einkenni úldinnna eða eitraðra matvælia. Flestum er það eiginlegt að snúa af leið þegar slíkur matur er kominn innarlega í munnholið og skirpa leifunum út úr sér.

000097dtEn á Íslandi er sá siður að bíta á jaxlinn og rembast við að koma þessu ofan í sig og verða meiri maður á eftir. En í raun er þetta jafn vitlaust og að halda hendinni á heitri eldavélarhellunni eða að leika sér að því að snerta strenginn á rafmagnsgirðingu. Einhver þrá eftir kvalalosta. Það er nú þó hitt og þetta sem mér þykir ágætt af þorramat og í heildina er þetta hinn besti siður. Til dæmis næ ég að upplifa kikkið úr því að fá skot af ísköldu brenivíni. Finna uppvakningu og upptendrun alls búksins, þegar óþverrinn hríslast um mann. Fékk meðfylgjandi mynd lánaða af vefnum.

En eitt er það sem ég sakna sérstaklega úr hinu dýrslega hlaðborði. Það eru súrsaðir selhreifar. Þeir eru sérstakt lostæti. Ólst upp við að drjúgan hluta úr árinu væri til tunna af því góðmeti. Þar var langbestur dindillinn af selnum. Hann er svo feitur og góður súrsaður. Skítt með staðsetninguna og hlutverk hans á skepnunni. Svo minna hreyfarnir á hendur og putta. Þessu smjattaði maður á sem barn líkt og ungviðið nú á kjúklingaleggjum og brauðstöngum. 

Annaðkvöld stendur til að fara með og hitta á vinafólk í Hlégarði. Þar verður haldið Þorrablót dalbúa. Fyrir utan að treysta á að þar verði skemmtilegt samsafn af frumlegu og furðulegu fólki að þá má gera ráð fyrir að í kjölfarið verði þriggja til fjögurra skyrtna ball. Því þar verða Sigtryggur Bogomil Font ásamt Flís.


Blóm vikunnar Eyrarrós

Blogborder12Blóm vikunnar er Eyrarrós. Hún er algeng um mest allt land og vex einkum á áreyrum eða grýttum jarðvegi. Þessi teygði sig í átt til sólar þann 8. ágúst 2004 í skriðu stutt frá Stórahnausgili í Kollumúla, Stafafelli í Lóni. Að mæta einni slíkri rós í skriðu sem er jafn grófgerð eins og í þessu tilfelli, dregur svo skýrt fram andstæður náttúrunnar. Viðraði þá hugmynd að hún yrði þjóðarblóm við mér plöntufróðari menn, en þeim fannst að þrátt fyrir fegurðina að þá væri hún líka algeng á suðlægari slóðum og því ekki nógu íslenskt einkenni.

Dýrt að vera Íslendingur

GreenspanÞað er ekki lengur bjóðandi að íslenskt bankakerfi geti ekki veitt lánafyrirgreiðlu, nema með margfaldri vaxtatölu helstu samanburðarlanda okkar, sitthvoru megin Atlantshafsins. Þar að auki er hér hið einstaka fyrirkomulag verðtryggingar og okurvextir á skemmri lánum og yfirdrætti.

Á síðasta ári keyptum við hús í Mosfellsbænum og segja má að við séum sérlega heppin með vextakjör á þeim tveimur lánum sem eru á húsinu. Annað færðum við af fyrri eign: Það er KB-lán (Kaupþing) með fasta 4,2% vexti og hinsvegar tókum við erlent myntkörfulán sem er óverðtryggt og með um 4% vexti.

Gengið var mjög lágt þegar myntkörfulánið var tekið. Það hefur því verið óvenjuleg og góð tilfinning í þessu landi verðtryggðra lána að sjá heildartöluna lækka við hverja afborgun. Það er vaninn að sjá  íslensku lánin hækka, hversu lengi sem búið er að greiða af þeim!

Mikilvægasta verkefnið í íslensku samfélagi til að tryggja hag íslenskra heimila er að feta slóðina í átt að hagstæðara lánaumhverfi. Auðvitað liggur ábyrgðin líka hjá hverjum og einum að draga úr þenslu, skuldsetningu og endalusu kaupæði.

Aðhald einstaklinga og lægri vextir eru lykilorðin. Ef samkeppni milli íslensku bankana dugar ekki til að skapa hér eðlilegt vaxtaumhverfi þarf að fá erlenda banka inn á markaðinn.


mbl.is Vextir lækkaðir vestanhafs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Göngum til góðs

Stafur

Illikambur

Stafafell í Lóni er landfræðileg, söguleg og útivistarleg heild í fallegustu sveit landsins. Þar hef ég notið þess að stíga skrefin að sumri til með gönguhópa um langt skeið. Þar að auki hef ég alið þann draum að byggja upp svæðið sem eitt stærsta útivistarsvæðið, þar sem hægt er að dvelja og ganga dögum saman og vera að upplifa ný ævintýri við hvert fótmál.

Mjög vel gengur að selja í gönguferðir sumarsins, sem er vel. Sannast sagna var ég farin að ganga nærri áhættumörkum í því að vinna að þessum draumum um Stafafell sem útivistarsvæði. Því er það mikilvægt að fá einhverjar tekjur til að tryggja grundvöll undir þær áætlanir. Engin ástæða er til að sveigja af þeirri leið þrátt fyrir ásókn fulltrúa þjóðlendna og þjóðgarða, sem eru úr takt við sögu og náttúru.

Í markaðsetningu á gönguferðum fyrir næsta sumar hef ég lagt áherslu á tvenns konar ferðir;

KortAusturA. Vikuferð í tengslum við beint flug til Egilsstaða frá Kaupmannahöfn. 1. d. Ekið í Snæfell og gist þar. 2. d. Ekið yfir brú við Eyjabakkafoss. Gengið meðfram Eyjabökkum í Geldingafell og gist. 3. d. Gengið frá Geldingafelli um Vatnadæld og skoðaðir fossar í Jökulsá og síðan gist í Egilsseli. 4.d. Gengið að brúnum Víðidals og meðfram Tröllakrókum og gist í Kollumúla. 5. d. Farið í gil undir Sauðhamarstindi og gengið á tindinn ef veður og tími leyfir. Aftur gist í Kollumúla. 6. d. Gengið meðfram Jökulsárgljúfri út Kamba og gist í Eskifelli. 7. d. Gengið um Austurskóga og Hvannagil og gist í Gamla húsinu hjá kirkjunni. 8. d. Ekið í veg fyrir flug til Kaupmannahafnar á Egilsstöðum.

KortStafaB. Fimm daga ferð með tvær nætur í Eskifelli og tvær í Kollumúla. 1. d. Gengið um Hvannagil og Austurskóga og gist í Eskifelli. 2. d. Gengið um Hnappadal og á Jökulgilstinda og gist aftur í Eskifelli. 3. d. Gengið inn meðfram Jökulsárgljúfri inn Kamba í Kollumúla og gist þar. 4. d. Gengið í Tröllakróka og að brúnum Víðidals. 5. d. Farið í litskrúðug gil undir Suðhamarstindi og seinni part dags er hópur fluttur frá Illakambi til byggða. Í ferðinni er gengið með dagpoka, farangur trússaður á milli.

Byrjað er að selja í þrjár gönguferðir tengt beina fluginu frá Kaupmannahöfn og þrír hópar búnir að skrá sig inn á fimm daga ferðirnar. Kennarasambandið verður með tvær þeirra og gönguhópur af Álftanesi með eina. Vegna góðra viðbragða hef ég ákveðið að setja upp eina aukaferð fimm daga frá 19. júní til 23. júní.

Myndir:  http://www.gbo.blog.is./blog/gbo/entry/367278/


Blogg er fitandi

FyrirEftirÍ fyrsta skipti á ævinni er ég nokkrum kílóum of þungur. Ég hef alltaf verið 84 kg og ekki þurft að hafa áhyggjur af því þó að ég sletti úr svona hálfum rjómapela yfir morgunkornið. Nú er þetta allt í einu orðið meira. Ég er ákveðinn að láta ekki af rjómadrykkjunni. Það hefur heldur ekkert með það að gera að jólafríið sé nýbúið eða að ég sé kominn á þann aldur að kílóin læðist að manni, án þess að spyrja um leyfi. Búin að finna skýringuna - BLOGGIÐ ER FITANDI.

Frekar en að hætta að skrifa og lesa blogg, hætta í rjómanum, þá þarf bara að auka flæðið og dansinn með hækkandi sól. Já, ein skýringin gæti auðvitað verið að ég sé bara eins og gerist hjá mörgum spendýrum, t.d. hestum, að þeir bæta á sig smá einangrun til að standa af sér köldustu mánuðina. Allavega, til öryggis þá ætla ég að innleiða þá reglu að ég verði að hreyfa mig jafn mikið og ég dvel meðal vina netsins.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband