Færsluflokkur: Ferðalög
28.5.2009 | 11:08
Vorgöngur í Mosó - Helgafell
Síðastliðin fimm ár hef ég staðið fyrir göngum á fellin fjögur umhverfis Mosfellsbæ. Farið er á fimmtudögum og þriðjudögum. Lagt er af stað úr Álafosskvos klukkan korter yfir fimm í dag. Byrjað verður á að fara á Helgafell.
Farið er eftir hringleiðum sem ég merkti og það tekur ríflega tvo klukkutíma að afgreiða hvert fell. Ekki er ástæða til að láta veðrið stöðva sig, það er hluti af hinum skemmtilega fjölbreytileika.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.9.2008 | 23:45
Listrænir tónar náttúrunnar
Þann 30. apríl í vor fengum við hvassan skafrenning á leið okkar á Móskarðshnjúka sem var fyrst í seríu af fjallgöngum til undirbúnings ferðar á Hvannadalshnjúk. Við komumst reyndar ekki á Hnjúkinn í fyrstu tilraun og fékk hún á sig óvænta atburðarás. Síðan fórum við um mánuði síðar upp á einum sólríkasta degi sumarsins.
Verkefninu að fara á topp Móskarðshnjúka var sem sagt enn ólokið. Úr því var bætt í dag. Ég og Magnús Einarsson samkennari minn lögðum af stað klukkan tíu. Veðrið var reyndar ekki eins hagstætt og ég hafði búist við miðað við veðurspána. Set hér inn myndir sem sýna stemminguna.
Á sama tíma var upp á Hvanneyri ráðstefna um menningu og list í landslagi og skipulagi. Ég sleppti því að fara, en betri helmingurinn fór og er afskaplega hrifinn af því hvernig til tókst. Ráðstefnunni lauk með því að gestir skoðuðu sýningu átta listamanna í Jafnaskarðsskógi.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 23:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.7.2008 | 14:02
Kennaragöngur
Síðastliðið haust samdi ég við Kennarasamband Íslands um að skipuleggja gönguferðir um Stafafell í Lóni sem er að ná fullum þroska sem eitt stærsta og fjölbreytilegasta útivistarsvæði landsins. Eskifell og Kollumúli voru aðalbækistöðvar okkar eins og tíðkast hefur hjá smalamönnum um langt skeið.
Í gær kom síðasti hópurinn af þremur til byggða. Hann var 27 manna, sem er með allra stærstu hópum sem ég hef farið með, en auk fararstjórnar var matreiðsla á mínum höndum. Verð að viðurkenna að í mér var örlítill beygur að vegna fjöldans yrði erfitt að halda utan um verkefnið.
Nú er fimmtán dögum á fjöllum með kennurum lokið. Ég hef fulla trú á þessu stefi í orlofsmöguleikum. Svona pakki með göngu í fimm daga, gistingu í skálum, kvöldmat, trússi og rútuferð til baka er á svipuðu verði og sumarhús í viku.
Hópurinn sem kom til byggða var sá besti og skemmtilegasti sem ég hef farið með til fjalla. Það hefur mér reyndar fundist um flesta hópa áður, sem farið hafa í slíkar lengri gönguferðir. Það er alltaf ánægjulegt að finna þá sterku samkennd sem yfirleitt myndast í ferðunum.
Hendi hér inn myndum úr KÍ göngum.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 16:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
26.6.2008 | 14:33
Frjálst er í fjallasal
Kom með fyrsta gönguhóp sumarsins af fjöllum Stafafells í gær. Fyrsti kennarahópur af þremur hefur spásserað um gil, gljúfur, mela, skriður og skógarbrekkur. Allir sáttir og sælir, trúi ég. Næsti leggur af stað í fyrramálið. Enginn tími til að vera á netinu, enda ekki ástæða til yfir hábjargræðistímann.
Með góðri kveðju, G
KÍ hópur * Stafafell 21-25. júní * Brenniklettur
Birkihrísla í skriðu við Kambaklofa
KÍ hópur * Stafafell 27. júní -1. júlí * Hvannagil
"Djarfi" hluti hópsins
126 hreindýr voru á beit í Víðidal
KÍ hópur * Stafafell 6. júlí - 10. júlí * Kambaklofi (tvo vantar á myndina)
Réttur kvöldsins - Kjúklingabringur í tortillum mað allskyns annari hollustu
Lambalærin krydduð með blóðbergi, einiberjum og birkilaufi að verða tilbúin á grillið
Ferðalög | Breytt 11.7.2008 kl. 10:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.6.2008 | 01:33
Fjallarúta
Nú er ljóst að þessi fræga hálendisrúta verður í ferðum á Illakamb frá Stafafelli í Lóni í sumar. Samstarfsaðili síðustu ár ákvað að hætta og því varð að leita nýrra lausna. Rútan er 24 manna og er því hentug stærð fyrir hópa til gistingar í skálum í Eskifelli og Kollumúla, en það er um það bil hámarksfjöldi. Einnig hentar hún vel til ferða yfir Skyndidalsá sem stundum getur verið viðsjárverð.
Jóhannes Ellertsson sem að er búin að vera í rúturekstri í fimmtíu ár verður sjötugur eftir tæpa viku og er að selja úr flota sínum og á einungis tvær rútur eftir. Það er vonandi að rútan fái veglegt hlutverk í Lóninu og að henni verði viðhaldið þannig að hún endist mörg ár til viðbótar.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 10:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.6.2008 | 10:52
Vatnadæld
Vatnaskil hafa verið og eru klassísk landamerki, milli jarða, hreppa og sýslna. Jökulsá í Lóni á upptök sín í Vatnadæld, þar sem að eru þrjú vötn. Þar eru mörk Stafafells að fornu, hreppamörk milli Lóns og Fljótsdals, ásamt sýslumörkum milli Austur-Skaftafellssýslu og Suður-Múlasýslu.
Yfir Vatnadæld, þegar horft er til norðurs blasir við Snæfell, drottning austfirskra fjalla, á vinstri hönd er Geldingafell, en til hægri eru Markalda og Leiðaröxl.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.5.2008 | 13:16
Sóldýrkendur bænheyrðir
Fjöldi ferðamanna var farinn að örvænta um ferðir sínar til sólarstrandar, þegar við komum hér til Mallorca seinnihluta dags í gær. Seinasta vika hefur einkennst af rigningu. Daman í móttökunni sagði að við skyldum öll biðja fyrir sólarkomunni að morgni. Eftir gott flug og góðan nætursvefn, þá blasti bláhiminn við með hlýindum og frískandi golu.
Ekki spillir fyrir að við innganginn hér blakta fánar Svíþjóðar og Evrópusambandsins. Minnir okkur á samvinnu meðal norrænna þjóða og þjóða í áfunni allri.
Bestu kveðjur úr suðrænni sól - G
PS Ég hafði áform um að fara á öll fjöll hér, finna reiðhjólaleigur o.fl. En nú ætla ég bara að vera latur og fara daglega í nudd. Svo verð ég að bæta úr þessu með bændabrúnkuna (allt hvítt nema andlit og hendur). Get auðvitað fengið brúnkukrem hjá unglingnum.
Ferðalög | Breytt 3.6.2008 kl. 23:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
26.5.2008 | 08:44
Á toppinn
Við rukum á laugardag með litlum fyrirvara níu manna hópur á tveimur bílum austur Öræfi að ljúka því verkefni að fara á Hvannadalshnjúk. Sum okkar höfðu lent í nokkrum hremmingum á jökli fyrir mánuði síðan. Íslenskir fjallaleiðsögumenn eiga hrós skilið hvernig þeir tóku á því máli og buðu okkur nú, þeim sem vildu slá til, fimm pláss.
Spáin var á þann veg að sunnudagur yrði einn besti dagur sumarsins til fjalla- og jöklaferða. Það gekk eftir. Við fengum alveg frábært veður og allir náðu takmarkinu. Einar leiðsögumaður hélt vel utan um hópinn. Við vorum tæpa tólf tíma. Lagt var af stað snemma morguns.
Þeir sem voru staddir í hinum krítísku aðstæðum þann 26. apríl voru sammála um að besta aðferðin, fyrir heilun hugans, væri að fara aftur og sigrast á aðstæðum. Þær voru reyndar allt aðrar í gær. Sól, hlýindi og logn.
Lómagnúpur og Hvannadalshnjúkur eru skemmtilegar andstæður sitthvoru megin við Skeiðarársand
Þegar komið var að jökulrönd græjaði Einar leiðsögumaður hópinn í línu
Hópur frá Askar Capital hafði farið af stað á miðnætti og var að koma niður, þegar við morgunhanarnir vorum að nálgast Hnjúkinn
Gin jökulsins blasir við hér og þar
Eftir "brekkuna endalausu" tekur við bratti seinasta spölin á hnjúkinn og þá voru settir á broddar og öxi höfð í hendi
Hópurinn sem fór upp í gær; Daði, Einar leiðsögumaður, Heiðdís, Magnús, Gunnlaugur, Kristberg, Snorri, Palli, Soffía, Sibba, David
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 17:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
20.5.2008 | 13:54
Fell eða fjall?
Í dag halda áfram vorgöngur á fellin umhverfis Mosfellsbæ. Hef boðið upp á þetta, mér og vonandi öðrum til yndis og ánægju, síðastliðin fimm ár. Samhliða göngunum eru endurnýjaðar merkingar í samvinnu við Varmársamtökin. Farið var á Helgafell síðastliðinn fimmtudag og settar nýjar stikur á slóðinni sem við Haukur gamli á Helgafelli mörkuðum á sínum tíma á sólríkum vordegi.
Sveitarhöfðinginn var farinn að eldast og spurði ég hvort hann vildi fylgd til baka heim að bænum. Hann var snöggur til svars; "Nei, nei. Það væri líka ekki amalegt að deyja á svona fallegum degi, ef það væri kominn tími á það". Hann dó tveimur árum síðar.
Komið er að göngu á Reykjafell, reyndar segja Reykjamenn að nafnið hafi farið vitlaust inn á kort og að það heiti Reykjafjall. Hér er því efni í sambærilegan ágreining og er í Mývatnssveit. En jafnvel þó að hægt væri að sýna fram á að örnefnið hafi haft viðskeytið fjall þá finnst mér ekkert nauðsynlegt að eltast við það. Landfræðilega er það frekar fell en fjall og við hæfi að það sé sett inn í sama flokk og hin.
Göngufólk hittist í Álafosskvos klukkan 17:15 og gert ráð fyrir að vera á röltinu í 2-3 tíma. Allir eru velkomnir. Myndin sýnir stærstan hluta af hópnum sem gekk á Helgafell síðastliðinn fimmtudag. Nú á fimmtudag er gengið á Reykjaborg og út á Vatnshorn.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 14:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
27.4.2008 | 18:18
Alvöru jökladrama
Hvað er helst til ráða á jökli í snjóbyl, þegar leiðsögumaðurinn hefur fallið ofan í stóra sprungu, svarar ekki kalli og engin hreyfing er merkjanleg á línunni? Þesssari spurningu stóð ég frammi fyrir ásamt fimm öðrum ferðafélögum í 1450 m hæð á Öræfajökli í gær. Engin möguleiki var að ná símasambandi og láta hina ferðafélagana, sem voru tengdir saman á þremur öðrum línum, vita að við værum stödd í miklum vanda. En þeir höfðu því miður orðið viðskila við okkur á leiðinni niður. Við höfðum gengið upp í 1700 m hæð á leið okkar á Hvannadalshnjúk, þar af fjóra tíma í skafrenningi og nokkuð sterkum vindi. Í þeirri hæð var ákveðið að snúa við þar sem það væri fullreynt að ekki væri fært á hnjúkinn að sinni.
Á leiðinni niður þá fara þrír hópar sem tengdir eru saman hver í sína línuna af stað og fjórða línan er örlítið á eftir. Þá hrasar ferðafélagi lítillega og við þurfum að stoppa og hinar tvær línurnar halda áfram og hverfa úr augsýn. Leiðsögumaðurinn var með gps tækið í bakpokanum og treystir á að hann sé á sama niðursporinu, en eftir rúmar tíu mínútur sé ég að þriðji, fjórði og fimmti maður frá mér eru sestir niður. Skafrenningurinn er það mikill að það er lélegt skyggni og erfitt að kallast á milli. Sá sem var næstur mér segist ekki vita hvað er um að vera. Eftir nokkurra mínútna biðstöðu ákveð ég að losa mig úr línunni til að kanna aðstæður, en ég var aftastur. Hélt helst að vandamálið snérist um að einhver hefði aftur dottið.
Þegar ég kom að þriðja ferðafélga á línunni sem áður hafði hrasað sagðist hún halda að eitthvað alvarlegt hafi gerst framar. Ég færi mig áfram meðfram línunni og spyr fjórða mann, sem veit ekki hvað er í gangi, sama er með fimmta mann. Þegar komið er að sjötta manni sést hvað hefur gerst. Framundan blasir við stór sprunga sem hefur opnast þvert á stefnu okkar. Sprungan er um tíu metrar á breidd og nokkurra metra haf yfir. Sjötti félagi á línu hafði kastað sér til hliðar svo hún færi ekki ofan í sprunguna líka. Við það hafði hún farið úr réttri átaksstefnu við tog línunnar ofan í sprunguna, en hafði náð öxinni af bakpokanum og barðist hetjulega við að halda sér fastri. Ég kallaði til félagana að færa sig til vinstri svo að togið frá línunni hjálpaði henni frá því að dragast líka ofan í sprunguna.
Þegar álagið hafði dreifst jafnt á félagana ákvað ég að ganga örlítið nær sprungunni og kalla nokkrum sinnum og heyrði ekkert svar. Ekki var heldur hægt að greina neitt líf með hreyfingum á hluta línunnar sem lá upp úr sprungunni. Ákvað að vissara væri að reyna að hringja í 112 og láta þá koma skilaboðum til hinna um að snúa við. En þá var ekkert samband. Spurði aðra hvort þeir væru með síma og fékk að prufa hjá einum, en þar náðist ekki heldur samband. Nú var mannskapurinn að verða kaldur og fáir góðir kostir. Ég fór til fimmta manns í línunni og kallaði til hinna að byrja að toga. Öskraði endurtekið 1, 2 og 3! Við mjökuðumst smáspöl, aftur smáspöl og aftur smáspöl. Þegar að nálgaðist að bilið að brúninni væri jafn langt og milli okkar hinna, þá vildi ég fara örlítið í átt að brúninni og kalla til leiðsögumannsins. En sú sem næstum hafði farið ofan í sprunguna bannaði mér að fara. Ég hafði einhvers staðar heyrt að erfiðast væri fyrir þann sem fellur ofan í sprungu að komast yfir brúnina.
Við héldum áfram þunganum á línunni. Eftir smástund sáum við leiðsögumanninn koma í augsýn skríðandi á fjórum fótum. Það var mikill léttir að sjá að hann væri á lífi og með meðvitund. Þegar hann er kominn um tvo til þrjá metra frá sprungunni þá staðnæmist hann og leggur höfuðið fram á handleggina ofan á snjóínn eins og í bænastöðu. Hann dvelur svona kyrr. Annaðhvort er léttirinn svona mikill eða að eitthvað er að. Ákveð að ganga í rólegheitum í attina til hans, tek yfir öxlina á honum og spyr hvort að hann sé óslasaður. Þá segir hann; "Þið hefðuð ekki átt að draga mig upp, þið hefðuð getað klippt mig í sundur á brúninni". Einmitt það sem að ég hafði haft áhyggjur af að væri vissara að kanna, hvort hann væri komin að brúninni og myndi svara. Hann hafði náð að vagga sér eins og selur yfir skörina. Þarna var leiðsögumaðurinn óslasaður og það var aðalmálið.
Nú var okkar vandi þó ekki allur leystur. Hann varð að skilja pokann eftir ofan í sprungunni og í honum var gps tækið. Ein af félögum í hópnum var með slíkt tæki, en það var nýlega keypt og hafði ekki verið látið safna staðsetningarpunktum yfir leiðina þegar við fórum upp. Í nokkra stund ráfuðum við í skafrenningnum til að sannfærast um rétta leið. Sáum síðan smá hrygg sem að við fórum niður eftir og þá lentum við inn á slóð. Sporin sáust ósljóst í snjónum eftir þá sem farnir voru á undan. Eftir nokkur hundruð metra göngu fór vindinn að lægja eftir því sem við komum neðar og færðumst út af ísbreiðunni. Í um 700 m hæð hittum við á tvo af hinum leiðsögumönnunum sem að voru snúnir til baka. Við höfðum tafist um tvo klukkutíma í okkar ævintýri miðað við hina hópana.
Vissulega voru það vonbrigði að ná ekki að komast á Hvannadalshnjúk, en í staðinn fengum við merkilega lífsreynslu og þjálfun í því að begðast við óvæntum aðstæðum. Í lokin var aðalfögnuðurinn að allir hefðu haldið lífi og limum. Ferðalangar voru sáttir við ferðina og við erum sannfærð um að það má af þessu sitthvað læra.
Hópurinn fagnar þegar komið var niður í betra veður og búið að hitta á hina leiðsögumennina
Búin að taka sólgleraugu niður og losa um trefil frá andliti. Hann var orðinn nokkurra sentimetra klakabrynja. Sibba samkennari, sem næstum var farin í sprungu, með slatta af klakahröngli
Ferðalög | Breytt 2.5.2008 kl. 01:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)