Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007
31.3.2007 | 09:27
Ást og friður eða tortryggni og hernaður
Var að velta því fyrir mér afhverju maður fær nettan hroll þegar Björn Bjarnason byrjar að viðra hugmyndir sínar um íslenskan her. Reyndar heitir það á pappírnum bætt öryggisgæsla eða varalið lögreglu. Björn virðist hafa ungur fest sig í einhverri þráhyggju kaldastríðsáranna og kemst ekki þaðan yfir á akra ástar og friðar, þó flestar ógnanir sem steðja að Íslandi séu horfnar (nema e.t.v. þátttakan í Írakshernaði). Benjamín Eiríksson sagði um föður hans (Bjarna Benediktsson), sem eflaust var mörgum góðum gáfum gefin, að hann hafi verið afskaplega tortrygginn maður. Hef trú á að þetta eigi einnig við um Björn Bjarnason. Þetta samhengi sem almenningur skynjar gerir hugmyndir hans fráhrindandi.
Það er ekkert að því að hugsa út og meta viðbrögð við mismunandi ógnunum og helst að slíkt mat sé unnið í ljósi alþjóðasamninga og af hlutaðeigandi stofnunum en ekki bara pólitísku umboði stjórnmálamanns. Við höfum ekkert að gera við hernaðarhyggju Björns Bjarnasonar. Hann verður að eiga það í sínum villtustu draumum að sá dagur komi að hann skoði heiðursvörð með Georg Lárusson og Harald Jóhannessen úniformaða sitthvoru megin. Þetta er bara framtíðarsýn sem að á ekki samleið með þjóðinni. Íhaldssömum stjórnmálamönnum finnst hugmyndin um her vera samtvinnuð væntingum um einhvers konar festu í skipan þjóðmála. Vandinn er bara sá að ógnanirnar á þessum tímapunkti eru þess eðlis að rétt er að taka þessum hugmyndum með húmor. Líka spurning hvort tortryggni og hernaðarhyggja sé einhver lausn eða hvort hún gefi ekki bara af sér frekari þróun í átt að ofbeldiskenndu samfélagi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.4.2007 kl. 02:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
29.3.2007 | 23:29
Hangir allt á sömu spítunni?
Sennilega er frelsið, það að vera úthlutað valdinu að eiga val, stærsta gjöf Guðs. Það sem meira er að hann virðist ætla okkur að fara vel með þetta vald, þannig að afleiðingarnar af gjörðum okkar verði til góðs fyrir sál, líkama og lífríkið í heild. Á hvaða forsendum tökum við ákvarðanir? Bara af því að ég vil verða meiri í dag en í gær, þá hegg ég skóginn eða stífla lækinn. Hugsa ég eitthvað um lífsskilyrði komandi kynslóða eða hvernig mitt framlag getur haft áhrif á umhverfi og samfélag? Á Íslandi eru lífskjör þannig að við eigum alveg að geta leyft okkur að hafa hefðir, menningu, siðferði og mannlíf sem að er skemmtilegt og skapandi. Að við þorum að lifa fyrir fleira en framleiðslu á kjöti, fiski og áli.
Við óttumst skortinn, en miðað við alla neysluna þá getum við sett hluta af veltunni í að bæta innviði samfélagsins. Að færa okkur frá því að meginafl þjóðarinnar og efnahagsstjórn snúist um hráfrumframleiðslu á matvælum og málmum í átt að hugviti og sköpun. Þar getum við lært af frændum vorum Finnum, sem nýttu vel markaðstækifæri og menntunarmöguleika sem opnuðust með inngöngu í Evrópusambandið. Íslendingar virðast vera fastir á einhverri "síldarvertið". Hvað tryggir okkur gjaldeyrir fram að næstu jólum? Hvaða álver þarf að vera komið í byggingu þegar hægir á framkvæmdum við Kárahnjúka?
Eiga menningarsjúkdómar heimsins og umhverfisvandamál eitthvað sameiginlegt? Má rekja ójafnvægi í mannslíkama og náttúru til sama vandans, að græðgin sé sterkara afl en kærleikurinn? Að við öxlum ekki þá ábyrgð sem okkur hefur verið úthlutuð, að lifa lífinu á gjöfulan og nærandi hátt, í stað þess að vera sjálflæg í leit að stundargróða? Í gegnum aldir var það ríkjandi viðhorf að Guð tryggði jafnvægi í náttúrunni og tilvist allra tegunda. Nú lifum við í heimi þar sem ójafnvægi vistkerfa stuðlar að örum útdauða tegunda og minnkandi líffræðilegum fjölbreytileika. Guð ætlar ekki að sjá um þetta, heldur leggur ábyrgðina hjá þér og mér, að nýta frelsið til að skapa framtíð í sátt við eðli manns og náttúru. Það er ánægjulegt verkefni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.4.2007 kl. 01:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2007 | 23:39
Senn fer vorið á vængjum ...
Er að leika mér lítillega í hrossarækt. Rækta vindótt og álótt, með "sebralínum" á fótunum. Grásprengt fax og tagl. Dökkur áll eftir baki og dekkri litur á fótum og á höfði. Þetta er í þremur útgáfum í grunnlit. Ljósrautt, bleikt og móálótt. Í fyrra seldi ég stóðhest, Lokk frá Gullberastöðum til Austurríkis. Nú, eins og gengur þá hefur maður áhuga á að frétta af hvernig þessum vinum manns gengur að spjara sig sem heimsborgarar á erlendri grundu. Því pikkaði ég nafnið hans inn á leitarvél og rakst þá á meðfylgjandi mynd þar sem að hann virðist bara nokkuð montinn í Austria.
Ég á einn ógeltan undan honum og meri sem að er líka vindótt. Hann heitir Toppur frá Stafafelli. Sá gæti verið arfhreinn vindóttur. Síðan á ég meri sem að heitir Hæra frá Stafafelli, sú er líka vindótt báðum megin frá og gæti verið arfhrein. Til að auka enn líkurnar á að eignast arfhreinan vindóttan stóðhest ætla ég að leyfa þessum tveimur að hoppa saman einhverja vornótt upp í Víðinesi, þar sem þau dvelja um þessar mundir. Þá væri Mendel ánægður með mig.
Það er mikil speki í því að liturinn einn dugi ekki til að búa til gæðing. En Lokkur er með fyrstu verðlaun fyrir byggingu og allt til fyrirmyndar í hæfileikum, nema að það vantar skeið. Liturinn gerir mikið fyrir hestinn, þannig að hann vekur athygli.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.3.2007 kl. 00:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.3.2007 | 21:32
Flottir frændur fermast
Sonur minn Ólafur Orri fermdist í dag. Frábær dagur. Athöfnin var í Lágafellskirkju kl. 13:30 og veislan í Perlunni klukkan 15:30. Þetta var allt svo ljúft, fagurt og skemmtilegt. Veislan var haldin með frænda hans Arnari Þór (systrasynir) sem fermdist á Seltjarnarnesi í morgun. Þeir hafa alltaf verið bestu vinir, ólíkir en sérlega samrýmdir. Búin að bralla margt með þeim um dagana. Þeir eu flottastir. Stoltur af þessum körlum!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2007 | 22:47
Heilbrigðiskerfi og veikindakerfi
Það vekur nokkra athygli að engin flokkur er með nýjungar eða áherslubreytingar sem snerta almannatryggingar eða heilbrigðiskerfið. Allavega hefur það ekki fengið athygli fjölmiðla. Þessi málaflokkur er þó stærsti útgjaldaliðurinn í ríkisbúskapnum. Hef haft þá skoðun til nokkurra ára að það eigi að umbuna fólki fyrir heilbrigði og heilsueflingu, ekki síður en sjúkdóma og veikindi. Nú er kerfið hvetjandi á að fólk sanni lasleika sinn og örorku til að fá greiðslur úr opinberum sjóðum. Þannig gildir prinsip Saxa læknis að þeir séu lélegir sjúklingar, sem að er aldrei neitt almennilegt að. Þannig fær t.d. "sjúklingur" borguð lyfin sín, sem hefur nógu marga áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma. Til þess að tryggja greiðslu gæti dugað að byrja reykingar.
Það gæti verið æskilegt að greina í sundur stefnu og rekstur heilbrigðiskerfis og veikindakerfis til að ljóst sé hvar áherslurnar liggja. Annað kerfið byggir upp og styrkir einstaklinginn í átt að hámarks heilbrigði, jafnvægi og lífsfyllingu, en hitt bregst við þegar ójafnvægi er farið að koma niður á starfsemi. Það er þörf á nýjum hugmyndum og áherslum í heilsueflingu. Afhverju ekki að gefa skattaafslátt fyrir að ganga á Esjuna? Á Íslandi er hægt að búa til heilbrigðiskerfi sem stendur undir nafni, með áherslum á heilsueflingu. Bjóða upp á þjálfun, mælingar og leiðir sem vinna gegn margvíslegum menningarsjúkdómum. Slíkir sjúkdóimar eru lengi í þróun en veikindakerfið grípur ekki inn í atburðarásina fyrr en að insúlinið er hætt að tempra blóðsykurinn eða að kransæðin er orðin það stífluð að hjartavöðvinn lendir í súrefnisskorti.
Við höldum að þessi mál séu í góðum farvegi lækna og sérfræðinga. En það eru fáir sem að hafa heiildarsýn og auðvitað er stefnumörkun á þessu sviði hápólitísk. Ef við ætlum að setja alla milljarðana í hátæknisjúkrahús en leggjum ekki sömu rækt við að meðhöndla rót vandans, sem oft á tíðum má rekja til lífsmynsturs, þá eru áherslur með öfugum formerkjum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 31.3.2007 kl. 10:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.3.2007 | 14:59
Tengsl álfíknar og ójafnvægis í þjóðarsálinni
Ég er einn af þeim sem get skipt um skoðun og skammast mín ekkert fyrir það. Sumir myndu kalla það hringlandahátt en aðrir sveigjanleika. Þó gildistengd viðhorf og siðferði sem maður aðhyllist fylgi manni trúlega allt lífið, geta skoðanir á mönnum og málefnum tekið breytingum. Við ákveðnar aðstæður er eitt viðeigandi, sem að passar ekki í öðru samhengi. Það er gott að eiga val og hafa sjálfstjórn til að nýta það skynsamlega. Íslendingar eru búnir að setja mikið af eggjum í álkörfuna. Af þeirri óvirkjuðu fallorku sem eftir er þarf að taka frá eitthvað til framtíðar. Spurning hvort við eigum ekki að halda einhverju eftir til að nýta á vistvæna einkabíla sem vonandi tekst að þróa innan fárra ára. Höfuðborgin er það dreifð, að erfitt er að hafa góðar almenningssamgöngur og við getum ekki endalaust ekið um á orku frá dauðum risaeðlum.
Það er með ólíkindum að "ál" sé notað sem hið eina lausnarorð á vanda landsbyggðarinnar. Það virðast líka vera sterk öfl sem vilja halda áfram að auka þensluna, neysluhyggjuna og hreint út sagt græðgina í okkar ágæta landi. Fleiri álver, álver, álver! En líkt og manninum er það ætlað að melta eftir máltíð, sofa að loknum degi, hvílast að loknu erfiði, þá þurfum við að upplifa slökun, næringu og jafnvægi í bland við dugnað, framkvæmdagleði og úthald. Fíklarnir gefa sér aldrei tíma, meðan þeir eru í neyslunni, til að meta hvort þeir eru á réttri leið. Þeir verða bara að fá efnið sitt í eins miklum mæli og eins hratt og mögulegt er. Við þennan hóp þýðir ekki að rökræða, þeir geta ekki skipt um skoðun. Draumurinn um meira ál er orðið tákn um að ný innspýting komi fyrir áframhaldandi þenslu, svo það þurfi nú ekki að slökkva á gröfunum og frekar að auka við. Því líkt og í annarri fíkn þá þurfa skammtarnir alltaf að verða stærri.
Það er merkilegt að á síðustu fimmtán árum höfum við Íslendingar orðið heimsmeistarar í neyslu lyfja sem ætlað er að hafa áhrif á miðtaugakerfið. Það eru þunglyndislyf, kvíðastillandi lyf, svefnlyf, róandi lyf, verkjalyf o.fl. Neysla ýmissa eiturlyfja hefur einnig stóraukist og algengi örorku eykst með hverju árinu. Gæti hér verið eitthvað samfélagsmein, sem að vert er að skoða og breyta? Er lausnin fólgin í að stórauka fjárfaramlög til hátæknisjúkrahúsa og lögreglu? Það skyldi þó aldrei vera að við hefðum gott af að hægja örlítið á taugakerfinu og neyslunni. Gera öllum mögulegt að vera þátttakendur í samfélaginu með reisn og sóma. Huga betur að stórfjölskyldunni, börnunum og því að rækta eigin garð. Þetta á við um mig jafnt sem aðra. Það væri gaman að sjá að áherslur þjóðarsálarinnar væru fjölbreyttari þegar talað er um uppbyggingu og framfarir. Málið snýst ekki bara um ytri gæði s.s. steinsteypu og bíla, heldur líka ýmsar innri mælistikur, jafnvel hormón og boðefni.
Því hefur verið haldið fram að þrjú boðefni í heila ráði aðallega hvernig okkur líður. Dópamín er tengt við sterka gleðitilfinningu og nautn, noradrenalín við virkni og orku, en serotónin við slökun og jafnvægi. Fíkn er tengd losun á dópamíni, tilraun til að reyna að halda veislunni áfram og framkvæmdagleðin byggir á noradrenalíni. Þannig hefur íslensk þjóðarsál tekið út úr orku og gleðibrunnum en ekki lagt í jafnvægissjóð. Sumir ná ekki að fylgja eftir í kapphlaupinu og gefast upp. Held að allir upplifi þann tíðaranda, að tónar mannlífsins gætu tekið á sig fallegri liti. Þó það sé auðvitað fyrst og fremst hver og einn sem að er ábyrgur fyrir sínu vali í lífinu, þá spillir ekki að velja fólk til ágyrgðar sem að boðar eitthvað form rómantískrar jafnaðarstefnu, sem þjóðin þarf á að halda.
Hægjum aðeins á trukkunum og höfum það huggulegt ... smástund!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.3.2007 | 23:55
Frelsi, jafnrétti og kærleikur
Pólitískir leiðarvísar eru misgóðir. Frelsi til athafna er drifkraftur grósku, mannlífs og framfara. Þjóðfélag án áherslna á jöfn tækifæri er sjúkt samfélag í bókstaflegri merkingu. Fólk deyr fyrr og hærra hlutfall þegnana býr við óöryggi þar sem ójöfnuður ríkir. Taumleysi í neysluhyggju gefur af sér stéttaskiptingu og aukin aðstöðumun. Frá búsetu minni í US man ég eftir tómleikanum í helgartilbreytingu margra sem fólst í rölti um stórmarkaði borgarinnar. Íslenskt samfélag er að þróast hratt í þessa átt. Verða fyrir vonbrigðum með að geta ekki veitt sér allt heimsins glingur, strax, núna.
Það sem að er athyglisvert í þessu samhengi er að þetta er að stærstum hluta sjálfsprottið vandamál. Því skorturinn er ekki raunverulegur eða líkamlegur, heldur hafa auglýsingar frá morgni til kvölds gert okkur skilyrt í dansinum við gullkálfinn. Þá er að nota það sem gerir okkur æðri dúfum, rottum og músum. Við höfum visku, vald, vilja, sjálfstjórn og frelsi til að velja það sem gefur okkur mesta ánægju og lífsfyllingu.
Ég hef átt þess kost í nokkur skipti á síðustu vikum að fara í matarboð þar sem hver og einn kemur með sinn litla rétt sem nostrað hefur verið við og leggur til borðs. Hlátur, rautt eða hvítt vín, skemmtilegar sögur, skoðanamunur sem settur er fram af virðingu og fær mann til að víkka út sjóndeildarhringinn. Þetta er ríkidæmi öllu æðra. Það eru nefnilega ekki bara andoxunarefnin í rauðvíninu, sem gera það hollt, heldur miklu frekar ást og alúð mannlífsins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.3.2007 kl. 18:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.3.2007 | 12:02
Stafafell á Víðidal allan
Á þessum orðum endar landamerkjalýsing Stafafells í Lóni í vísitasíu Brynjólfs biskups Sveinssonar frá 1641. Vatnaskil voru eðlileg viðmið út frá landnýtingu um mörk milli jarða, hreppa og sýslna. Þau mynda í aðalatriðum mörk Stafafells að vestan við Nes, norðan við Fljótsdal og austan við Álftafjörð. Þessi mörk eru einnig hreppamörk og að hluta sýslumörk. Engar heimildir eru um hver ákvað eða hvernig hreppa- og sýslumörkin urðu til, en svo er ætlast til að landeigendur Stafafells geti rakið skýra og samfellda lýsingu á mörkum jarðarinnar allt til landnáms. Í síðari vísitasíum biskupa er ítrekað og endurtekið að Safafell eigi Kollumúla og Víðidal. Þessi hluti jarðarinnar liggur lengst frá byggð og var í haust úrskurðaður sem þjóðlenda af Hæstarétti. Rétturinn virðist ekki skilja í dómi sínum til hvers er verið að vísa með örnefnunum tveimur. Kollumúli er fjalllendið milli Jökulsár og Víðidalsár, samanber Kollumúlaheiði sem liggur að vatnaskilum. Austurhluti Kollumúla myndar vesturhlíðar Víðidals, en eystri hluti dalsins myndast af hlíðum sem liggja að vatnaskilum við inndali Álftafjarðar og Víðidalsdrög liggja að vatnaskilum við Fljótsdal. Þessi lýsing passar við lýsingu Sveins Pálssonar úr ferðum 1792-1794, en þar segir hann að Kollumúli sé hátt fjall fjórar mílur norður af prestsetrinu Stafafelli og gengur austasta tota jökulsins fram á múlann. Hér er vísað til þess að Kollumúli liggi inn að jökli sem er framan við Geldingafell nálægt vatnaskilum. Í frásögn Þorvalds Thoroddsens frá 1882 segir Víðidalur er fjalladalur upp af Lóni, milli Hofsjökuls að austan og Kollumúla að vestan. Dalurinn er alllangur 15-20 kílómetrar alls. Hann lýsir ferð sinni og að riðið hafi verið upp á hraunin upp af Víðidalsdrögunum efstu. Þar sem Víðidalsá fellur niður af hálsþrepinu er sameinar Hnútu og Kollumúla er í henni foss .... Hér er glögg lýsing á því hvernig Víðidalur og Kollumúli sameinast upp á grýttum melum sem á Austurlandi nefnast hraun. Jafnframt samræmast þessar lýsingar og skilningur á örnefnunum skrifum Sigurðar Gunnarssonar prófasts á Hallormsstað, sem lýsir þessu svæði og miðhálendi Íslands.
Nákvæmari útfærsla Upplýsing og áhersla á menntun varðaði leiðina inn í nýja öld um aldamótin nítján hundruð. Jafnframt voru sett lög um nákvæma skráningu landamerkja. Séra Bjarni Sveinsson prestur á Stafafelli skráði nákvæma lýsingu á mörkum jarðarinnar 1886, sem að er samstíga lýsingu séra Jóns Jónssonar frá 1914. Jarðamörk voru síðan samþykkt og uppáskrifuð af aðliggjandi jörðum, en að sjálfsögðu ekki að norðan og austan þar sem að ekki var hefð fyrir að fá staðfestingu jarða í öðrum sýslum. Mörk jarðarinnar falla að lýsingu á Kollumúla og Víðidal hér að ofan, vatnaskilum, hreppa og sýslumörkum. Séra Jón Jónsson var annálaður nákvæmnismaður og vandvirkur um alla skjalavörslu prestsetursins. Hann setti sig mjög vel inn í alla sögu jarðarinnar og svæðisins. Hann var tengdasonur séra Sigurðar Gunnarssonar á Hallormsstað sem var manna fróðastur um hálendi Íslands um miðja nítjándu öldina. Með breytingum á lögum árið 1907 verður heimilt að selja kirkjujarðir. Skömmu síðar er ákveðið að leggja af prestsetur á Stafafelli. Í framhaldi sækir séra Jón Jónsson um að kaupa jörðina. Skipaðir eru matsmenn til að gæta hagsmuna ríkisins og sala Stafafells í Lóni með gögnum öllum og gæðum á 25.000 kr. er undirrituð af ráðherra árið 1913. Rétt er að taka fram að hið mikla fjalllendi jarðarinnar varð aldrei afréttur annarra en kirkjustaðarins, hjáleiga á Stafafellstorfunni og fjallabýla. Því er jörðin landfræðileg og söguleg heild. Þessa heild ber að varðveita, óháð því hver er eigandi að landinu.
Seljandi og sækjandi Árið 2001 gerir Geir H. Haarde þáverandi fjármálaráðherra eignarkröfur í mestan hluta jarðarinnar, hátt í 300 ferkílómetra. Þetta gerist tæpum hundrað árum eftir að áðurnefndur ráðherra ríkisins hafði undirritað samninginn um sölu jarðarinnar til séra Jóns. Á þessu tímabili höfðu verið gerðir margir samningar, gerð fjallskil og greiddir skattar af jörðinni þar sem tilteknir lögaðilar voru ætíð óvéfengdir eigendur landsins. Hluti af þessum samskiptum voru við ríkið, sem stjórnsýslulega viðurkenndi margsinnis einkaeignarrétt á því landi sem það hafði selt. Opinberir aðilar viðurkenndu rétt landeigenda við brúargerð, skálabyggingar, náttúruvernd, hreindýraveiðar, miðhálendisskipulag, aðalskipulag og stefnumörkun um heildaruppbyggingu jarðarinnar sem útivistarsvæðis. Í greinargerð með friðlýsingu á hluta jarðarinnar segir að friðlandið fylgi jarðamörkum Stafafells. Ljóst er að af friðlýsingu hefði ekki getað orðið nema með velvild eigenda landsins. Reyndar óttaðist einn aðili að friðlýsingin gæti falið í sér tilhneigingu ríkisins til eignaryfirtöku og var því sett ákvæði í samninginn um endurskoðun að tuttugu árum liðnum. Að þeim tíma liðnum óskuðu landeigendur eftir endurskoðun á friðlýsingunni en því miður hefur ríkið ekki staðið við friðlýsingarsamninginn frekar en sölusamninginn frá 1913. Ef ríkið hafði áhuga á að eignast landið að nýju, þá hefði verið sæmandi að óska eftir beinum viðræðum við landeigendur um möguleg kaup. Í stað þess er sótt að þessu eina formi eignarréttar í landinu af ríkisstjórn sem hefur þá opinberu stefnu að selja ríkisjarðir. Það má áætla gróflega að kostnaður ríkisins af málarekstri um eignarhald á umræddri jörð, sem það hafði áður selt, nemi yfir tuttugu milljónum. Þar er mikill kostnaður í heimildaleit, til starfsmanna óbyggðanefndar, ferðalög, vettvangsskoðanir, málflutning fyrir óbyggðanefnd, héraðsdómi og hæstarétti, þar með talin kostnaður dómara og verjenda. Eftir allan þennan málatilbúnað ríkisins kemst Hæstiréttur upp með að tala um þrætuland í dómi sínum. Þræturnar takmörkuðust þó algjörlega við ósvífnar kröfur ríkisins. Engin hafði nokkurn tíma áður efast um eignarrétt Stafafells á því landi sem var dæmd þjóðlenda.
Landnáma eða mannréttindi Málavafstur ríkisins og niðurstaða Hæstaréttar eru óskiljanleg. Það sem upp úr stendur er að við ákvörðun eignarréttar á landi er viðhaldið ákveðinni tegund af þjóðrembu sem felst í því viðhorfi að æðsti sannleikur um jarðeignir liggi í frásögnum af landnámi. Því er það mikilvægara við ákvörðun eignarlands hvort og hverjir kveiktu elda eða fóru um með kvígur í taumi fyrir rúmum þúsund árum, heldur en að ríkið virði eigin samninga um sölu lands. Hæstiréttur virðist fastur í að elta skottið á sjálfum sér, sem rekja má til Geirlandsdóms og fleiri dóma. Því sitjum við uppi með dóm sem að er ekki réttlátur og langt frá því að vera rökréttur. Dregur ekki úr réttaróvissu heldur eykur hana. Stafafell skiptist nú í eignarland, friðland, þjóðlendu og einkaafrétt. Fyrir utan eignarlandshugtakið þá er staða hinna mjög óljós. Landeigendur unnu málið fyrir héraðsdómi en töpuðu því fyrir Hæstarétti. Allir áhugamenn um textagerð geta skoðað þessa tvo dóma og kannað hvorn þeir skilja betur. Flæði í rökfærslum og tengsl þeirra við niðurstöðu dómsins. Niðurstaða Hæstaréttar er; Hvað varðar land norðan og austan Jökulsár var komist að þeirri niðurstöðu að ekki fengi stoð í eldri heimildum að það hefði verið innan landamerkja Stafafells fyrir gerð landamerkjabréfsins 1914. Niðurstaða héraðsdóms var; Með hliðsjón af framangreindum gögnum og fyrirliggjandi upplýsingum um staðhætti, gróðurfar og nýtingu, telur dómurinn að árið 1913 hafi kaupandi Stafafells haft réttmæta ástæðu til að ætla að það svæði sem lýst er í landamerkjabréfinu 1914 væri fullkomin eign hans. Ljóst er að Hæstiréttur setti vafa um landnámið sem útgangspunkt og tortryggir síðan aðra þætti málsins sem benda til beins eignarréttar. Eignarsaga Stafafells í fleiri hundruð ár og sala ríkisins er afbökuð til að bakka upp röksemdina um skort á heimildum um landnám. Jafnvel er gengið svo langt að þjófkenna séra Jón Jónsson á Stafafelli. Því er haldið fram að hann hafi útfært mörk jarðarinnar mjög frjálslega og komist þannig yfir stórt land. Þessi einstaki og óvænti skilningur á eignarsögu Stafafells byggir ekki á neinum heimildum, en gefur Hæstarétti svigrúm í niðurstöðu sinni til að dæma ríkinu ríflega helming lands (200 ferkílómetra lands) sem ríkið hafði áður selt!
Fyrir nokkrum dögum hófst för með þetta mál til Mannréttindadómstólsins í Strassborg. Sex árum eftir að ríkið kom fram með sínar ágengu kröfur, þurfa þinglýstir eigendur Stafafells að fara með málið nýja slóð í leit að réttlæti. Ljóst er að landeigendur hafa heiður að verja og allt skal gert til að hin landfræðilega og sögulega heild verði ekki sundurslitin. Jafnræðisregla hefur verið brotin við meðferð þessa máls, því margar jarðir með mun veikari sögulegar heimildir um eignarrétt hafa verið dæmdar eignarlönd. Stafafell sem kirkjustaður með sínar vísitasíur, hefur óvenju mikið af skjölum sem styðja beinan eignarrétt, ásamt samningnum um sölu ríkisins á jörðinni. Hin milda ásjóna hugtaksins ´þjóðlenda er einungis pólitískt útspil, réttara er að tala um ríkislendur. Samanber þá staðreynd að fyrir liggja tillögur um að ríkið selji Landsvirkjun hluta af þjóðlendu á suðurlandi. Það er von okkar að skilningur í Strassborg á réttindum einstaklinga snúist um eitthvað bitastæðara en frásagnir af eldstæðum og ferðum með kvígur úr íslenskum fornbókmenntum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.3.2007 kl. 19:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)