Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007
27.4.2007 | 23:12
STAFAFELL; Saga, náttúra, útivist
Nú á sunnudagskvöld verð ég með kynningar- og myndakvöld undir heitinu STAFAFELL; Saga, náttúra, útivist. Þar mun ég kynna "landið hennar mömmu", Stafafell í Lóni, sem að er ein af stærri jörðum landsins. Síðustu tuttugu árin hef ég gengið slóðir forfeðra, skipulagt og leiðsagt göngufólki í styttri og lengri gönguferðum. Á Stafafelli var kirkjustaður og prestsetur í gegnum aldirnar. Erfið jörð segir í vísitasíum biskupa. Á sama tíma og Sigfús Jónsson hljóp uppi kindur inn í Víðidal var séra Jón Jónsson að skrifa mikið fræðirit Vikingasögu um herferðir norrænna manna heima á prestsetrinu. Sveitin, Lón, var sú fjölmennasta í Austur-Skaftafellssýslu. Tuttugu manns voru með fasta búsetu á prestsetrinu, þrjár hjáleigur skammt undan og fjallabúskapur á nokkrum stöðum.
Árið 1907 er samþykkt á Alþingi heimild til sölu á kirkjujörðum og jörðin seld með gögnum öllum og gæðum 1913. Matsmenn gæta hagsmuna ríkisins og salan staðfest af ráðherra. Ekkert er talað um veikari eignarrétt inn til landsins. Það kom því verulega á óvart að annar ráðherra skyldi gera kröfu í meira en helming jarðarinnar með tilkomu þjóðlendulaga. Tryggvi Gunnarsson núverandi umboðsmaður Alþingis og þáverandi lögmaður og höfundur þjóðlendulaga sagði að það væri útilokað að kröfur yrðu gerðar inn á þinglýst eignarlönd. Þjóðlendulögunum væri ætlað að skera úr um afrétti eða almenninga og einskis manns lönd. Útfærslan varð allt önnur. Nú hefur ríkinu tekist með Hæstaréttar úrskurði að ná undir sig um tvö hundruð ferkílómetrum þessa lands, sm það hafði áður selt og afsalað öllum réttindum yfir. Þeim úrskurði hefur nú verið vísað til Mannréttindadómstóls Evrópu.
Stafafell er landfræðilega skýrt afmörkuð eining af vatnaskilum, ám og fjallatindum. Að stórum hluta eru merki jarðarinnar inn til landsins einnig hreppa og sýslumörk. Út af landi liggur eyjan Vigur sem gaf af sér hlunnindi í dún og sel. Fyrir miðri sveit er Bæjarós en Jökulsá í Lóni hafði áður víðtækt frelsi um láglendið en hefur nú verið römmuð inn í einn farveg með varnargörðum og vegagerð. Í Lóni millilenda um 70% af álftastofninum að vori og hausti á leið sinni til Skotlands og meginlandsins. Af þessum slóðum er hvað styst vegalengd til meginlandsins fyrir farfuglana. Á vetrum geta verið hundruðir hreindýra á sandinum og láglendi. Svífa fjaðurmögnuð yfir girðingar og ná miklum hraða. Í Jökulsá gengur silungur, sem hefur án efa verið búbót fyrir fjallabúskap til að þrauka af veturinn. Stafell gefur einstakt og fjölbreytilegt þversnið af náttúru landsins. Gróðurlausir sandar og melar, víðáttumiklar mýrar með tjörnum, birkivaxnir hvammar og skógar með bómskrúði í botni, líparítskriður í öllum litatónum og hallandi basalthraunlög, hrikaleg gil og gljúfur, upp af þeim tilkomumiklir tindar, jöklar og grýttir melar sem liggja að vatnaskilum og kallast á austfirsku "hraun".
Hlutverk staðarins sem kirkjustaður og prestsetur, ásamt staðsetningu jarðarinnar við torfæruna Jökulsá og í forgrunni hins mikla fjallasals gerði bæinn að miðstöð samskipta og leiðsagnar. Þar var símstöð og póstdreifing. Brú var byggð fyrir bíla á Jökulsá 1952 og gangandi umferð í Kollumúla 1953. Árið 1976 ákveða landeigendur að friðlýsa hluta jarðarinnar, en það er ekki fyrr en 1997 að unnin er heildarstefnumörkun fyrir jörðina í útivistar- og ferðamálum. Þá er ákveðið að göngubrú komi við Eskifell, ásamt því að helstu tjald- og skálasvæði verði í Eskifelli og Kollumúla. Þjónustumiðstöð verði í byggð sakmmt fr´þjóðvegi. Unnið hefur verið að uppbyggingu samkvæmt þessu plani. Göngubrú, 95 metra löng hengibrú, var byggð árið 2004 og nú í sumar verður vígður nýr skáli við Eskifell. Sagt er að "stafur" merki á Austurlandi, "fjalllendi sem skagar fram á milli dala". Segja má að að þjónustumiðstöð í byggð, skálar í Eskifelli og Kollumúla verði vitar á leið ferðafólks um stafina þrjá sem mynda jörðina og göngubrýrnar tvær gera jörðina að samfelldu útivistar- og verndarsvæði.
Með hugmyndum sem fylgja lögum um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs sem samþykkt voru á nýloknu þingi er ráð gert að yfirtaka land sem tilheyrt hefur Stafafelli í 1000 ár. Landeigendur voru ekki afhuga viðræðum um að Stafafell gengdi veigamiklu hlutverki sem ein af meginstoðum þjóðgarðsins og að þjónustumiðstöð yrði í Lóni. Hinsvegar í endanlegri tillögugerð bendir margt til þess að undirbúningur að stofnun þjóðgarðsins hafi verið rekin áfram á öðrum forsendum en útivistarmöguleikum eða náttúruverndargildi einstakra svæði. Ekki er minnst einu orði í umfangsmikilli greinargerð um stofnun þjóðgarðsins á Stafafell í Lóni. Það er þakklætið fyrir vilja landeigenda um friðlýsingu hluta jarðarinnar frá 1976. Meginmarkmið virðist vera að landið sem þjóðgarðinum tilheyri verði nógu stórt (sbr. stærsti þjóðgarður í Evrópu) og að hann dragi nógu marga ferðamennn til landsins. Meiri áhersla er á gjaldeyristekjur af þjóðgarðinum, heldur en að útskýra hvaða sögulegar og náttúrufarslegar heildir er verið að varðveita.
Sókn er besta vörnin segir einhvers staðar og því munu landeigendur halda áfram að byggja upp jörðina sem útivistar- og verndarsvæði. Að halda sjálfstæði sínu og verjast ágangi og ásælni ríkisins. Stefnt er að stofnun Hollvinasamtaka Stafafells (VIST) sem mynda bakland í þeirri baráttu að tryggja að jörðin haldist sem söguleg, landfræðileg og útivistarleg eining. Jafnframt verður leitað eftir stuðningi fjársterkra aðila sem kæmu að uppbyggingu þjónustumiðstöðvar. Nú þegar, liggur fyrir frumhugmynd að uppbyggingu vandaðra tjaldstæða og sérstæðrar þjónustumiðstöðvar. Gert er ráð fyrir að meginþjónustuhús verði gert úr náttúruefnum, einkum gabbró og líbaríti og lögun þess minni á vörðu. Það er viðeigandi að tákn Stafafells; Útivistar- og verndarsvæðis (STAFAFELL; Park of recreation and conservation) sé álft og hreindýr, sem vísa til hálendis og láglendis, ásamt því að skírskota til jafnvægis í lífríkinu.
Allir eru velkomnir á kynningar- og myndakvöldið. Kynntar verða einnig gönguferðir sumarsins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 29.4.2007 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.4.2007 | 01:23
Öryggi og aðbúnaður fyrr og síðar
Sjónvarpsfréttir í kvöld sögðu frá miklum fjölda verkamanna sem að hafa veikst við gerð aðrennsligangna á Kárahnjúkasvæði. Viðtöl og frásögn voru sláandi. Vakti upp spurningar um hvort að tafir við framkvæmdirnar væru farnar að stuðla að ómannúðlegra starfsumhverfi. Að tímapressa og krafan um að ná útreiknuðum gróða gæti jafnvel bitnað á lífi og heilsu. Við þessa frétt rifjuðust upp fyrir mér kynni mín af pólsk ættuðum forritara og tæknimanni við Pittsburgh háskóla. Ég kynntist honum þegar ég dvaldi þar en ég varð svolítið hissa hvað hann var róttækur í stjórnmálum. Hann gaf mér þá skýringu að tveir úr fjölskyldunni hefðu dáið í kolanámuslysi í Harwick, skammt frá Pittsburgh árið 1904. Þar dóu 181 menn í öflugri sprengingu. Slysið var hægt að rekja til vanrækslu í öryggismálum og ófullnægjandi loftræstingar.
"The cause of this explosion at about 8:15 A.M., was a blown-out shot, in a part of the mine not ventilated as required by law. Sprinkling and laying of the dust had been neglected; firedamp existed in a large portion of the advanced workings. The explosion could be transmitted by the coal dust suspended in the atmosphere by the concussion from the initial explosion, the flame exploding the accumulations of firedamp and dust along the path of the explosion, carrying death and destruction into every region of the workings".
Eftir sprenginguna fóru tveir menn inn í námugöngin, björguðu 17 ára strák, en létust báðir út frá gaseitrun. Eigandi námunnar var Andrew Carnegie (sbr. Carnegie Mellon University og bankar) og taldi vinur minn að hann hefði hugsað mun meira um rekstrahagnaðinn en aðbúnað verkamannana. Í framhaldi af sprengingunni stofnaði Carnegie sjóð til handa fjölskyldum þeirra sem látist hafa við björgunaraðgerðir eða á annan "hetjulegan" hátt. Vinur minn hafði flokkað Andrew Carnegie sem hinn illa innrætta arðræningja sem nýtti sér bág kjör forfeðra hans með lágum launum og lélegum aðbúnaði.
Verum vakandi fyrir því að huga vel að þessum körlum sem að eru búnir að vera hér á landi, fjarri fjölskyldum í vetrarhörkum og veikjast nú að því er virðist út af slæmum aðbúnaði. Mannúð á sér engin landamæri.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2007 | 07:04
Íhaldsmenn, athyglisbrestur og íbúalýðræði
Finnst að heimurinn, sitt hvoru megin Atlantsála, hafi verið að þróast í ólíkar áttir varðandi mannréttindi og lýðræði. Innan Evrópu hefur áhersla verið á að útfæra, skilgreina og dýpka félagsleg réttindi einstaklingsins. Þannig hefur margskonar löggjöf sem rekja má til þátttöku okkar í Evrópusamstarfi aukið rétt einstaklinga til þátttöku í stjórnsýslu og ákvörðunum. Á sama tíma hefur í forsetatíð Bush bandaríkjaforseta verið sótt að réttindum einstaklinga. Rýmkaðar reglur til að fylgjast með fólki sem að stjórnvöld gruna um að vera óvini ríkisins og Guantanomo hefur orðið tákn þess hversu langt valdhafar geta gengið í að svipta fólk mannréttindum. Þar sem hundruðum er haldið án skilgreindrar ástæðu, dóms og laga.´
Óttinn er öflugt vopn í pólitík. Því hefur Bush beitt ötullega. Hann varð forseti út á þær fullyrðingar að Írak byggji yfir gereyðingarvopnum og nauðsyn þess að Bandaríkin færu í stríð gegn hryðjuverkum. Síðan getur hver og einn metið það hvort að Bandaríkin hafi aflað sér fleiri vina en óvina með vafstri sínu í Írak. Nú er komið í ljós að sagan um gereyðingarvopn var uppspuni stjórnvaldsins til að fá lýðinn til að sameinast að baki forsetanum. James Bovard skrifar um eðlisbreytingar bandarísks samfélags í bókunum Lost Rights og Attention Deficit Democracy. Þar sem að hann gerir grein fyrir því hvernig þróun hins bandaríska samfélags færist í auknum þunga á stofnanir framkvæmdavalds, forseta, her og hæstarétt. Hann skrifar;
"As long as enough people can be frightened, then all people can be ruled. Politicians cow people on election day to corral them afterward. The more that fear is the key issue, the more that voters will be seeking a savior, not a representative and the more the winner can claim all the power he claims to need".
Sumt af þessu er íslenskur raunveruleiki. Er ekki verið að ræða um nauðsyn þess að koma upp varaliði eða íslenskum her? Er ekki tiltekin stjórnmálaflokkur að setja sem flesta flokksmenn sína í Hæstarétt? Er báknið farið burt, eins og Heimdellingar kröfðust um árið, eftir sextán ára setu Sjálfstæðisflokks í ríkisstjórn? Síður en svo. Það sem hefur breyst er að það er búið að flokksvæða stofnanirnar og byggja undir ráðuneyti og framkvæmdavald. Áhersla sjálfstæðisflokksins hefur alltaf verið á sterka leiðtoga, sem að oft hefur komið niður á lýðræðislegri umræðu innan flokksins. Það má ekki spyrjast út að það séu skiptar skoðanir um mál, því þá er það talið til veikleika. Mín skoðun er að það sé styrkleiki stjórnmálaflokka að það sé svigrúm fyrir breytileg viðhorf innan þeirra. Það er galli á flokksstarfi að halda skoðunum niðri með ótta eða foringjadýrkun. Þannig endum við oft með stjórnmálamenn með "athyglisbrest" í þeim skilningi að þeir vita hina einu réttu útgáfu af sannleikanum og þurfa ekki að leita umboðs eða umsagnar um nokkurn hlut. Nema ef til vill að minna okkur á það á fjögurra ára fresti að allt fari á verri veg í landinu, ef þeir fái ekki áframhaldandi umboð. Sakna landsföðurs í líkingu við Steingrím Hermannsson. Hlýlegur karakter sem lagði sig fram um að setja sig inn í aðstæður fólks og hlusta eftir vilja fólks við stefnumótun.
Samfylkingin og Morgunblaðið eru helstu fánaberar þess að útfærðar verði leiðir í átt að auknu íbúalýðræði og að almenningur geti kosið um stærri mál. Varmársamtökin héldu íbúaþing í gær undir yfirskriftinni "Heildarsýn; Vesturlandsvegur-Mosfellsbær". Þetta var mjög góður fundur. Frambjóðendur allra flokka mættu í pallborð um íbúalýðræði og skipulagsmál, nema að Sjálfstæðisflokkurinn sendi ekki fulltrúa. Þar held ég að flokkurinn hafi sýnt lýðræðinu vanvirðingu. Margt bendir til að Mosfellsbær vilji ekki eiga samræður við íbúana á opinn og heiðarlegan hátt um þróun bæjarfélagsins. Þó er það von mín að bæjarstjórn taki nýjum hugmyndum samtakanna um vegtengingar við Helgafellshverfi af opnum huga, frekar en að etja hverfum og íbúum saman í ómálefnalega umræðu og ótta. Í Mosfellbæ er nefnilega engin hryðjuverkaógn og við gætum haft þetta svo huggulegt og skemmtilegt teboð.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.4.2007 | 02:28
Gljúfrasteinn-Grótta
14.4.2007 | 00:53
Leiðtogar, konur og einstaklingar
Upphaf landsfundar Samfylkingarinnar einkenndist af sérlega góðri stemmingu. Ræða formanns var góð eins og við var að búast. En manneskjulegir og norrænir tónar kölluðu fram bros og hlýju í brjóstum fundargesta. Diddú söng með tilþrifum og síðan komu beint úr flugvél Mona Sahlin og Helle Thorning-Schmidt formenn sænskra og danskra jafnaðarmanna. Það var gaman að sjá hversu ólíkir þessir þrír formenn norrænna jafnaðarmannaflokka eru, en samt allir svo frambærilegir á sinn hátt.
Þarna voru konur sem þorðu bara að vera þær sjálfar sem einstaklingar. Ingibjörg rökföst og sköruleg, Mona róleg og kankvís, Halle einlæg og uppörvandi. Þær eiga eftir að verða hver á sinn hátt fyrirmyndir kvenna sem vilja hasla sér völl í stjórnmálum framtíðarinnar. Heimsókn formannana tveggja undirstrikar að meðal jafnaðarmanna geta konur sótt fram á eigin verðleikum og að við viljum tilheyra hinu norræna samfélagi. Hún undirstrikar líka mikilvægi samstarfs Norðurlanda, verðmæti þess sem vettvangs í sameinaðri, mannlegri og fjölbreyttri Evrópu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.4.2007 | 18:41
Hann Kalli
Uppgötvaði að Karl Tómasson forseti bæjarstjórnar í Mosfellsbæ hafði tileinkað mér blogg á síðu sinni. Fagna því hreint og innilega að vera komin í gott samband við hann og vonast eftir að við getum náð að tala okkur saman inn í Fagurt Ísland og Græna framtíð. Set hér inn hluta af því sem ég beindi til forsetans.
Hafði farið á mis við þann heiður sem þú sýnir mér og mínum skoðunum með því að tileinka þeim heilt blogg. Takk fyrir það. Finnst hinsvegar miður að þú efist um einlægni mína og heilindi í starfi fyrir Varmársamtökin. Finnst líka miður að þú takir undir þráhyggju Hjördísar Kvaran um að samtökin séu einhverjar búðir gerðar út af Samfylkingu og Framsóknarflokki. Í þessari færslu þinni ertu bæði að halla réttu máli og gera lítið úr lýðræðislegu og opnu félagsstarfi. Þú varst á stofnfundi samtakanna, þar sem voru um 70-80 manns. Þar gátu allir gefið kost á sér eða verið tilnefndir í stjórn. Fyrst gaf kost á sér Ásta Björg sem er í stjórn sjálfstæðisfélags Mosó. Næst stakk Ragnheiður Ríkharðsdóttir upp á mér í stjórn. Síðan voru kosnar í stjórn Sigrún og Berglind sem höfðu unnið að undirbúningi stofnunar samtakanna.
Eftir stendur að þú, Bryndís og Jóhanna sögðuð í greinum og viðtölum í Sveitunga-blaði VG að það yrði meiriháttar umhverfisslys ef tengibrautin yrði lögð um Álafosskvos. Varmársamtöki álitu því að VG væri þeirra helsti samstarfsaðili í baráttunni, fyrir kosningar. Nú, þú segist hafa verið snöggur að átta þig á því, eftir kosningar, að fyrirhuguð tengibraut væri besti kosturinn fyrir nýja hverfið í Helgafelli. Hefði ekki verið hægðarleikur fyrir ykkur hjá VG að óska eftir fundi með Varmársamtökunum til að fá þau inn á ykkar nýju línu og sýn í málinu? Þó ekki væri nema að fulltrúar ykkar í bæjarstjórn og nefndum hefðu komið á einhvern af þeim opnu og almennu fundum sem Varmársamtökin hafa boðað um þetta mál.
Vandinn við VG í Mosó er að þau virðast ekki vera samstíga megintóni í allri stefnumörkun VG á landsvísu. Það að samtökin krefjist þess að þið séuð menn orða ykkar og fylgið yfirlýstri stefnu flokksins verður að teljast eðlilegt. Þú verður að hafa nógu breitt bak í pólitík til að þola það og taka ekki persónulega. Eftirfarandi er úr landsfundarplaggi VG Græn framtíð; "Efling umhverfisráðuneytisins og stofnana á þess vegum þarf að haldast í hendur við nýja og framsýna stefnumörkun og nauðsyn samvinnu við frjáls samtök almennings. Slíkt samstarf grundvallast á Árósarsamningnum sem tryggir almenningi aðgang að upplýsingum, þátttöku í ákvörðunum og réttláta málsmeðferð í öllu er lítur að umhverfismálum".
Sjálfstæðisflokkurinn í Mosfellsbæ tapaði kosningunum fyrir rúmum áratug (1994) af því að hann hafði tekið hagsmuni eins verktakafyrirtækis fram yfir allt annað í uppbyggingu bæjarfélagsins. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði bæjarstjórnarkosningunum í fyrra út af óánægju með ólýðræðisleg vinnubrögð við sundlaugarmálið. Um helmingur kosningabærra bæjarbúa hafði skorað á bæjaryfirvöld að setja í forgang uppbyggingu vandaðrar almenningslaugar (inni- útilaug, pottar, rennibrautir) á Varmársvæði, því það hefði margvísleg samlegðaráhrif með göngustígum, útiaðstöðu, íþróttasölum, ásamt því að vera miðlægt í bæjarfélaginu þegar tekið er tillit til nýju hverfanna sem eru að byggjast upp núna.
Það sem er verst, er að þið VG fólk gangið inn í þennan þumbarahátt og þvergirðing í vinnubrögðum. Tortryggja aðila sem vilja hafa meiningar um framvindu bæjarfélagsins, mæta ekki á fundi þar sem þessi mál eru rædd o.s. frv. Það var sannleikskorn í því hjá Jóni Baldvin sem hann sagði í upphafi sinnar ræðu í Þrúðvangi á baráttufundi Varmársamtakanna, með um 130 fundargestum. "Þetta mál snýst fyrst og fremst um mannasiði". Að fólk tali saman skiptist á skoðunum og vinni sig að sátt þegar ágreiningur verður í skipulagsmálum.
Það eru mikil vonbrigði að VG í Mosó skuli ganga hagsmuna fjarmagns og verktaka umfram viðleitni að hlusta og taka tillit til fólksins í bænum og félagasamtaka. Því hlítur það að vera eðlileg fyrirspurn til þín í lokin; Hvernig vilja VG í Mosó útfæra samstarf við "frjáls samtök almennings" í skipulagsmálum? Það þýðir ekki að kokka lengur til grautinn um samsæri og aðför. Þið getið verið leiðarvísirinn hvernig góð samskipti, upplýsingaflæði og heilbrigði í ákvarðanatöku á að vera.
Með kærri kveðju og ósk um samstarf
Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.4.2007 kl. 00:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.4.2007 | 23:29
Frábær páskapredikun
Páskapredikun Hr. Karls Sigurbjörnssonar var full af inntaki og vegarnesti til að hugsa og melta. Talar fyrst um hið trúarlega samhengi kærleika og trausts. En hann hefur líka þor til þess að tengja trúna við okkar tíma og þjóðfélag. Leyfi mér að setja hér inn kafla úr ræðu hans;
"Upprisa hins krossfesta er yfirlýsing Guðs um helgi lífsins og eilíft gildi. Við þurfum að hlusta eftir því og taka mark á, þegar sífellt fleiri upplýsingar benda til að framtíð lífs á jörðu sé ógnað af manna völdum. Við göngum freklega gegn lífríki jarðar með græðgi okkar og yfirgangi og rányrkju. Við erum að uppskera ávexti blindrar og guðlausrar tæknihyggju og manndýrkunar. Engin algild gildi né lögmál virðast lengur virt, allt er falt, rétt og rangt er einungis álitið afstætt. Eða öllu heldur, aðeins aflsmunur. Hinn auðugi og sterki hefur rétt fyrir sér. Þetta er skelfileg lygi sem leiðir til glötunar, upplausnar samfélags og menningar. Boðskapur fagnaðerindisins er köllun til iðrunar og afturhvarfs. Biblían talar um fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfaoflæti sem er frá heiminum. Og, segir Jóhannes postuli:heimurinn ferst og fýsn hans, en sá sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.
Til að hamla gegn aðsteðjandi umhverfisvá þarf samstillt átak hinna mörgu. En umfram allt þurfum við öll að horfa í eigin barm og endurmeta lífsstíl ágengni og sóunar og temja okkur lífsstíl hófsemi og hógværðar. Við verðum að fara að horfast í augu við að draumar okkar og framtíðarsýnir séu ef til vill byggðar á kolröngum forsendum. Að áherslan á endalausar framfarir, sívaxandi auð og velsæld, mátt hins hrausta, sterka og stælta, er tál. Á móti kröfum hátækni og háhraða og hámörkun afkasta og ágóða, þarf að koma vægi alúðar og umhyggju fyrir lífinu, landinu, náunganum, ungviðinu veika og brothætta. Meistarinn, sem dó á krossi og reis af gröf, er frelsari heimsins, frelsari þinn."
Fannst hinsvegar tímasetning á kæru átta þjóðkirkjupresta á hendur fríkirkjupresti óheppileg. Magni hefur réttilega bent á mismunun kirkjudeilda og trúlega gripið til sterkrar samlíkingar með tilvísun í að trúin á stofnunina sé orðin sterkari trúnni á Guð. En ef til vill er upphrópun hans skiljanleg. Aðskilnaður ríkis og kirkju mun eiga sér stað fyrr eða síðar, en hinsvegar er engin ástæða fyrir okkur að gefa öllum trúarbrögðum jafnt svigrúm í umræðu og uppbyggingu. Við erum með okkar sögu sem að er samofin kristinni trú og þróum okkar trúmál út frá þeim viðmiðum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2007 | 18:50
Göngum til góðs; Skálabygging og Keilir
Brunaði í fyrri hluta vikunnar austur að Stafafelli í Lóni. Nánar tiltekið inn í næstfremsta hluta af þriggja stafa fjallasal jarðarinnar. Í Ásum við Eskifell byggi ég gönguskála. Gert er ráð fyrir að hann komist í notkun í byrjun júlí og taki um 25 manns. Fyrir þremur árum var byggð glæsileg 95m göngubrú yfir Jökulsá í Lóni. Miklir möguleikar eru til útivistar á þessu svæði og er það eitt af fáum þar sem hægt er að rölta út frá þjóðvegi #1 og hafa 7-10 daga verkefni. Vera alltaf að sjá eitthvað nýtt og spennandi. Litadýrð og andstæður. Stórskorinn gljúfur, háa tinda, birkiskóg og grasbala. Eftir að uppbyggingu á tjald- og skálasvæði í Eskifelli er lokið, þarf að vinna að uppbyggingu veglegrar þjónustumiðstöðvar og tjaldstæða í byggð. Áætlað er að byggja þjónustuhús úr gabbrói í útveggjum og líparíti í tónum litrófsins á gólfum. Gert er ráð fyrir að húsið minni á vörðu að forminu til. Síðan er bara eftir að finna nokkra tugi milljóna í verkefnið.
Keyrði til baka á Skírdag því ákveðið hafði verið að ganga á Keili í gær, á föstudaginn langa. Fjallið er eitt mest áberandi kennileiti í nágrenni Reykjavíkur, stendur eins og píramíti upp úr eyðimörkinni. Töluverður spotti er frá bílastæðinu að fjallinu. Við fórum fjögur fjölskyldan og nágrannar okkar, önnur fjögurra manna fjölskylda kom með. Ég bar Magnús Má 3ja ára og hátt í 20 kíló á bakinu alla leiðina. Það var fínt að fá aukna líkamsrækt og púl út úr þessu. Við ræddum málin feðgarnir alla leiðina og hann kvartaði ekkert, en fékk sér smá blund á leiðinni til baka. Nú, fer að koma betri tíð til gönguferða. Hef merkt gönguleiðir á fellin umhverfis Mosó og skipulagt göngur á hvert þeirra á vorin síðustu þrjú árin. Í fyrra byrjaði einnig ný hefð á sumardaginn fyrsta, Úr sveit til sjávar, sem felst í því að skauta, hjóla eða trimma leiðina frá Gljúfrasteini að Gróttu, sem er um 40 kílómetrar. Allir eru velkomnir að taka þátt í þeim gjörningi og marka þannig þáttaskilin í átt að þróttmeira mannlífi með sumri og sól.
Myndirnar sýna Eskifellsskála í byggingu og greinarhöfundur í einhverri "krossleikfimi" á hæðarlínupunkti á Keili.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2007 | 22:35
Allt er betra en íhaldið
Ekki góð tíðindi með 40% stuðning við Sjálfstæðisflokkinn. Trúi ekki öðru en að þegar á reynir þá muni fólk fara út í vorið með tilbreytingu í huga. Nóg er komið af spilltum embættisfærslum, ef þú stríkur mér þá skal ég strjúka þér. Nóg er komið af sérvöldum flokksgæðingum í Hæstarétt, Ríkisútvarp og fleiri stofnanir.. Nóg er komið af ójöfnuði með eðlisbreytingum á skattkerfinu, sm léttir birgðarnar á hinum efnameiri. Nóg er komið af Menningarhúss-, Þjóðleikhúss-, Landssíma fulltrúum sem gerast sekir um að vera of sjálflægir og gráðugir til að fara með umboð sem fulltrúar almennings. Nóg er komið af aðför Sjálfstæðisflokks að forsetaembættinu, misnotkun handhafa forsetavalds fyrir Árna Johnsen og við boðun ríkisráðsfundar, ásamt tilraunum til að afnema ákvæði um þjóðaratkvæði úr stjórnarskrá. Nóg af innvígðum og innmúruðum sem skipuleggja aðför að sumum fyrirtækjum en ekki öðrum. Nóg af stjórnmálamönnum sem halda að þeir geti einir og sjálfir flækt þjóðina í stríðsrekstur í fjarlægum löndum.
Það er ótrúlegt ef að framboð Íslandshreyfingarinnar dugir til að ríkisstjórnin haldi velli. Þar tapast heil fjögur prósent. Það var ekki að ástæðulausu að fjölda fólks dreymdi um að stilla saman strengi á vinstri væng stjórnmálanna til að koma sameinaðir og sterkir fram gegn Sjálfstæðisflokknum. Er alinn upp á Austurlandi þar sem Sjálfstæðisflokkurinn var þriðji minnsti flokkurinn. Þar og þá gilti og gildir hér og nú að "Allt er betra en íhaldið". Glæðum nýjar vonir í stað hinnar ferköntuðu neysluhyggju.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.4.2007 kl. 09:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
2.4.2007 | 05:30
Lýðræðið, bloggið og vináttan
Hafði verið tæpar tvær vikur vinalaus í bloggheimum. Þar að auki lent nokkrum sinnum í beinskeyttu orðaskaki. Einkum tengt virkni minni í Varmársamtökunum. Eins og þeir hafa séð sem komið hafa í Mosfellsbæ nýlega, þá finnst varla sá hóll eða þúfa í bænum sem ekki hefur verið reynt að velta við með stórvirkum vinnuvélum. Um framkvæmdir og þróun byggðar hafa myndast ólíkar meiningar og sumir gripið til hvatvísi og dómhörku í samskiptum. Sonur minn var farin að hafa áhyggjur af málinu og sagði; "Pabbi, mér lýst ekkert á þetta blogg, þú ert að eignast óvini". Þetta horfir nú allt til betri vegar. Búin að eignast nokkra nýja bloggvini, sem vekur mér mikla gleði og þakklæti í hjarta. Síðan er margt sem bendir til að stuðningur við áherslur samtakanna hér í Mosfellsbæ um íbúalýðræði og heildræna sýn í skipulagsmálum muni vaxa fiskur um hrygg. Krafan um aðkomu íbúa fer vaxandi. Kosningarnar í Hafnarfirði voru áhugavert skref, þó þær væru ekki gallalausar.
Hitti í dag ágætan félaga, Sjálfstæðismann, sem sagðist ekki sjá fram á annað en hann þyrfti að ganga í þessi "hippasamtök". Hann er óánægður með fyrirhugaða tengibraut úr nýju hverfi í Leirvogstungu, sem leggja á nálægt hesthúsahverfi, skóla- og íþróttasvæði, en mikil andstaða er við þau áform meðal hestamanna og skólafólks. En áður hafði myndast mikil andstaða við lagningu tengibrautar við Helgafellshverfi, um Álafosskvos. Því sé ég ekki annað en að hippar og hestamenn, listaspírur og lungnasjúklingar, fasistar og kommúnistar muni sameinast í þeirri kröfu að geta haft mótandi áhrif á sitt nánasta umhverfi. Ef til vill geta íbúarnir fengið að kjósa um mismunandi leiðir. Stóran hluta af þessum vanda er hægt að leysa með mislægum gatnamótum á Vesturlandsvegi, sem myndu þjóna nýju hverfunum tveimur og Þingvallaafleggjara. Unnið er að sáttatillögu á vegum Varmársamtakanna sem vonast er til að verði kynnt innan nokkurra daga. Vonandi opnar bæjarstjórn umræður um þessi mál. Það er engin ástæða til að vera með þumbarahátt og þvergirðing. Ræðum lausnir og finnum farveg svo íbúar geti verið virkir og vinalegir við stefnumótun í bæjarfélaginu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)