Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007
29.5.2007 | 01:28
Regnbogahlaupið
Fyrir nokkrum árum merkti ég leiðir á fellin umhverfis Mosfellsbæ í góðri samvinnu við okkar ágæta garðyrkjustjóra og landeigendur. Nú eru stikurnar víða fallnar niður, hinsvegar hafa myndast á sumum stöðum góðar götur þar sem þær voru. Hef oft hugsað mér að það væri verðugt verkefni að fylgja þessu betur eftir. Hugmyndin hjá mér var að fellin fjögur væru eins og fjögurra laufa smári og stilkurinn væri útivistar- og verndarbeltið meðfram Varmá. Stikurnar sem voru´hafðar í litum regnbogans, rauðar á Helgafell, gular á Reykjafell, grænar á Reykjaborg (og út á Vatnshorn) og bláar á Úlfarsfell. Það hlítur að teljast óskastaða fyrir bæinn að eiga sinn fjögurra laufa smára og regnboga. Það er líka gott fyrir hvern og einn að eiga sína óskastund, sáttur við Guð og menn upp á fellunum. Þarna er óplægður akur fyrir útivistarbæinn okkar.
Hef verið að hugsa um hvernig við eflum eitthvað konsept í kringum þetta, sem festir þessar leiðir betur í sessi í hugum almennings hér á höfuðborgarsvæðinu, þannig að þær verði meira notaðar. Ein hugmynd er að klukkan tíu að morgni 17. júní ár hvert verði hlaupið svonefnt Regnbogahlaup, hringinn eftir fellunum fjórum. Valið yrði eitthvað þema eða hugtak sem myndar þá ósk sem við veljum til styrktar og eflingar góðu mannlífi. Það gæti verið kærleikur, friður, jöfnuður, ríkidæmi, hollusta, næring, sjálfstraust, vilji, fegurð, hreysti og margt fleira. Auðvelt er að hugsa sér að tvinna þetta saman við skáldskapargyðjuna og staðsetja ljóð sem tengjast tilteknu þema á leiðinni til að styrkja andannn enn frekar.
Hlaupið myndi byrja á íþróttasvæðinu að Varmá, farið í átt að Helgafellshverfi um nýja göngustíginn undir Vesturlandsveg, upp götu í skriðu Helgafells, á toppinn og niður Slættudal, yfir Skammadal, upp Reykjafellið á móts við hestagerði, á toppinn og niður dráttarvélarslóð í átt að Varmá og yfir í átt að Reykjaborg eftir vegslóða, þaðan síðan eftir hryggnum út á Vatnshorn, farið þar niður stíg og farið í átt að Úlfarsfelli, farið upp á topp eftir stíg, niður í Hamrahlíðarskóg og síðan fram hjá Lagafelli og til baka að Íþróttamiðstöð.
Hvernig lýst ykkur á þessa hugmynd? Hef margoft farið á fellin eitt og eitt, en ekki hlaupið slíkan hring. Vill einhver prófa eitt svona rennsli með mér á fimmtudaginn og setjast síðan í pottinn í framhaldi?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.5.2007 kl. 13:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.5.2007 | 22:19
Huglægt mat eða fagleg úttekt?
Ráðgjafafyrirtæki Mosfellsbæjar hefur skilað inn umhverfismati áætlana vegna deiliskipulags við lagningu Helgafellsvegar. Eins og gert er ráð fyrir í reglum um slíkt mat, þá er viðleitni í skýrslunni að gera skipulagðan samanburð valkosta. Varmársamtökin bentu bæjaryfirvöldum á að aldrei hafi verið gerður slíkur samanburður og að fagleg úttekt væri forsenda þess að almenningur gæti myndað sér skoðun á málinu. Hún væri jafnframt forsenda þess að efla íbúalýðræði og aðkomu almennings að skipulagsmálum. Eftir lestur þessarar skýrslu vakna spurningar um sjálfstæði ráðgjafafyrirtækisins í málinu. Til dæmis er ekkert tekið til umfjöllunar mikilvægi þess að í ört vaxandi bæjarfélagi sé haldið eftir útivistar- og verndarsvæði, með öllum þeim jákvæðu perlum sem liggja upp með Varmá. Hesthúsahverfi og reiðleiðum, íþrótta- og skólasvæði, lista- og menningarstarfi, heilsueflingu og endurhæfingu. Mikilvægi og gildi þess að hafa svigrúm til vaxtar og eflingar "Varmárdals" sem hjarta og lífæð Mosfellsbæjar.
Margt bendir til að fyrirtækið hafi verið hliðhollt húsbónda sínum í meðhöndlun gagna og að stigagjöfin sem notuð er í skýrslunni sé byggð á röngum forsendum varðandi tvær helstu tillögurnar sem eru í umræðunni, það er fyrirliggjandi tillögur bæjaryfirvalda um Helgafellsveg og tillögur Varmársamtakanna um mislæg gatnamót í jaðri byggðar. Á fundi með ráðgjafarfyrirtækinu ítrekuðu Varmársamtökin að þverun Varmár við Álanes væri ekki hluti af tillögum samtakanna, heldur væri gert ráð fyrir safngötu á aðalskipulagi og jafnframt í þriðja áfanga deiliskipulags Helgafellsbygginga og svari bæjaryfirvalda. Tókum sérstaklega fram að samtökin hafa óskað eftir því að þessi tenging væri tekin út. Útskýrðum að okkar tillögur gengju eingöngu út á að mislæg gatnamót í jaðri byggðar, ofan og norðan núverandi Helgafellshverfis kæmu í stað tengibrautar um Álafosskvos. Þrátt fyrir þetta setur ráðgjafafyrirtækið þverun Varmár við Álanes á reikning Varmársamtakanna sem að leiðir til alvarlegrar villu í samanburði á umhverfisáhrifum tillagnana tveggja. Þarna tekur fyrirtækið upp sama tón og fulltrúar bæjaryfirvalda um að nota útúrsnúning um þverun Varmár við Álanes sem forsendu í samanburði. Það er alvarlegt mál í ljósi þess að þeim hafði verið gerð grein fyrir inntaki tillagna samtakanna.
Það sem meira er að fyrirtækið virðist kaupa þá túlkun bæjaryfirvalda að deiliskipulag Helgafellsvegar snúist um "500 m vegarspotta". Að skipulagstillagan endi í tvöföldu hringtorgi við Vesturlandsveg er ekki í samræmi við aðalskipulag Mosfellsbæjar og markmið Vegagerðar um að leggja af hringtorg. Samkvæmt heimildum er ráðgert að það muni gerast fyrr en síðar og segjast fulltrúar vegagerðar líta á slíkt hringtorg með aðliggjandi brekkum báðum megin við, sem ófullnægjandi bráðabirgðalausn. Því verðum við að vera með varanlega lausn á teikniborðinu en segja ekki hálfsannleika til að fegra málið í skipulagsferlinu. Samkvæmt aðalskipulagi á tengibrautin að koma undir Vesturlandsveg og liggja nálægt íþrótta- og skólasvæði, loka af göngustíg og reiðgötu, setja eitt sögufrægasta hús bæjarins upp á umferðareyju og gera miðbæinn að rússíbana bílaumferðar. Jafnframt er nauðsynlegt að bera þessa tvo möguleika saman með tilliti til þess að mislæg gatnamót séu komin á Hafravatnsveg (Reykjaveg) eins og ráðgert er í fyrirliggjandi skipulagstillögum.
Uppsetning skýrslunnar er vönduð, ártöl, dagsetningar og sögulegt yfirlit er allt til fyrirmyndar. Stigagjöf í samanburði er að nokkru í anda þess sem Varmársamtökin höfðu óskað þegar þau fóru fram á að gerð yrði fagleg úttekt á valkostum. Í slíkum samanburði er þó nauðsynlegt að grunnforsendurnar séu réttar. Eins og ég hef rakið hér að ofan þá er það ekki raunin. Þrátt fyrir góða umgjörð og uppsetningu, þá er inntakið og niðurstaðan ómarktæk. Þó Varmársamtökin fagni þessum áfanga sem náðst hefur að fá þessa vinnu fram og er að hluta til vegna okkar vinnu, þá hlítur það að vera markmið samtakanna að sýna fram á veikleika þessarar skýrslu og ekki síður hvernig er hægt að gera betur. Almenningur á það skilið að rétt sé farið með og að unnið sé á faglegum forsendum. Í skýrslunni er engin ný vitneskja, engar rannsóknir eða útreikningar, heldur er hún huglægt mat á villandi forsendum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.5.2007 kl. 19:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2007 | 01:48
Mitt á meðal heiðingjanna
Well, well. Ég er búin að vera kjaftstop í nokkra daga. Er einn af þeim sem trúði þeirri kennisetningu að Samfylkingin væri flokkurinn sem myndaði mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn. Hafði sagt fyrir kosningar að Samfylkingin þyrfti að ná 30% til að vit væri í því fyrir Samfylkingu að fara í samstarf og gæti þá gert það á jafnræðisgrundvelli. En spurningin um hinn eina sem rokkaði alla nóttina til og frá milli stjórnarandstöðu og ríkisstjórnarflokkana gerði gæfumuninn. Ef hann hefði lent hjá stjórnarandstöðu þá hefði Ingibjörg verið með öll tromp á hendi og væri nú orðin forsætisráðherra. En Geir gat notað valdagráðuga og vængbrotna Framsókn meðan hann brúaði bilið yfir til Samfylkingar. Að halda þeim volgum um áframhald gerði það að verkum að erfitt var fyrir Ingibjörgu að ræða við þá og reyna að fá þá til liðs við nýtt banadalag. Jafnframt er greinilegt að samstarf á vinstri væng var ekki mikið keppikefli Steingríms Joð. Hann virtist hafa meiri áhuga á bandalagi "sigurvegara" heldur en félagshyggjustjórn. Að biðja Framsókn um að verja stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna vantrausti var auðvitað móðgun eins og Guðni Ágústsson orðaði það.
Þegar þetta tvennt lá fyrir stjórnarmeirihlutinn hélt velli og Vinstri grænir héldu áfram að vera með sjálfseyðingarhvötina sem aðalvopn og afla sér óvina, frekar en samstarfsaðila á vinstri vængnum, þá var ekkert eftir fyrir Samfylkinguna annað en hjóla í Sjálfstæðisflokkinn og reyna að bjarga því sem bjargað verður. Það er líka sannleikur í orðum Hrafns á Hallormsstað, þegar hann var spurður að því hvort það væri ekki ósamræmi í því að hann gallharður Stalínisti væri í Framsóknarflokknum. Hann var snöggur til svars; "Hvar á trúboðinn að vera annars staðar en mitt á meðal heiðingjanna?" Framganga Ingibjargar Sólrúnar lofar mjög góðu. Nú er búið að mynda "Velferðarstjórn" án Vinstri grænna. Stjórn sem mun tryggja hag heimilanna, skattaumhverfi, atvinnu, efnahag. Það sem mun verða frábrugðið við fyrri ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks, fyrst Viðeyjarstjórn og síðan Framsóknarsamstarfið, er að Ingibjörg Sólrún mun ekki líta á það sem fyrstu skyldu sína að fylgja handriti Geirs H. Harde, heldur miklu fremur leita leiða til að sannfæra hann um þau mál sem að hún telur mikilvæg fyrir það umboð sem hún hefur frá kjósendum. Hef fulla trú á að hún sýni styrk sinn með því að vera skapandi og virk í hlutverki sínu
Til lengri tíma litið tel ég þó æskilegt að kjósendur geti gengið út frá samstarfi Samfylkingar og Vinstri grænna eftir kosningar. Það var jákvætt í núverandi kosningum að þessir tveir flokkar eydddu minna púðri í átök sín á milli, heldur en oft áður. Þetta þyrfti að vera líkt og á Norðurlöndum að þessir flokkar vinna að leiðum til að mynda ríkisstjórn. Hinsvegar held ég að Steingrímur sé af gamla skólanum og að persónuleg óvild í garð Samfylkingar risti djúpt og því hafi hannn ekki síður horft til Sjálfstæðisflokks. Öðru máli gegnir um Katrínu Jakobsdóttur og marga unga Vinstri græna, sem líta á Samfylkinguna sem bandamann. Það gefi af sér aukna hugmyndauðgi að hafa tvo flokka, en jafnframt gefið að þeir stefna að samvinnu eftir kosningar. Það gæti verið heilladrjúg þróun að flokkarnir gæfu afgerandi út slíkar yfirlýsingar fyrir kosningar. Við værum með velferðarstjórn þar sem Vinstri grænir væru með á bátnum ef Katrín Jakobsdóttir væri við stjórnvölinn.
Hver trúir á "nýfrjálshyggju-hægrikratískar" stjórnmálaskýringar Steingríms sem leggur meira upp úr því að vera geðvondur út í allt og alla, heldur en að vinna að leiðum og úrlausnarefnum fyrir fólk og heimili í landinu. Niðurstaða mín er því sú að ég er orðinn ánægður með núverandi stjórn, fyrst að niðurstaðan úr þreifingum og viðræðum varð sú að foringi vinstri grænna væri ósamstarfshæfur.
Lifi velferðin ... og Þingvellir
Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.5.2007 kl. 13:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.5.2007 | 10:22
Útskrift
Eitt af táknum sumarkomunnar eru hvítu stúdentskollarnir. Í fyrradag var prófsýning og í gær útskrift í Borgarholtsskóla. Þetta var fallegur sólardagur. Reyndar finnst mér að allir útskriftardagar á Borgarholtinu hafi verið sólríkir. Um 160 manns að ljúka sínum áfanga, salurinn fullur af aðstendendum, vinum og starfsfólki. Það er samt merkileg blanda af gleði og söknuði á slíkum tímamótum. Frábært að sjá allt þetta efnilega fólk vera að fara út í lífið og væntingar um að draumar þeirra og tækifæri gefi af sér framtíð fulla af inntaki og lífsfyllingu. Á sama tíma er líka eitthvað ferli að enda sem að er búið að vera í farvegi um nokkurra ára skeið. Nú er kominn punktur. Fólk fer í sitthvora áttina.
Um næstu helgi höldum við útskriftarárgangur 1982 frá Menntaskólanum á Laugarvatni upp á 25 ára afmæli. Þetta er á Hvítasunnu, þannig að einhverjir eru uppteknir í öðru. Það er þó 20 manna hópur sem ætlar að fara. Hluti hópsins ætlar að ganga Kóngsveg á Laugarvatn. Efast um að Borghiltingar sem að voru að útskrifast í gær muni samfagna eftir 25 ár. Það eru kostir og gallar við fjölbrautakefið og bekkjarkerfið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.5.2007 kl. 14:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2007 | 16:35
Jarðvegur lífsgilda eða hamfara
Í rúmt ár hef ég verið varaformaður Varmársamtakanna. Megináherslur þeirra eru á umhverfi og íbúalýðræði. Aldeilis mikilvægir og merkilegir málaflokkar. Fyrir um tveimur árum síðan stóð ég fyrir undirskriftasöfnun er tengdist uppbyggingu á sundaðstöðu Mosfellsbæjar. Sjálfstæðisflokkurinn hafði ákveðið að hætta við uppbyggingu glæsilegrar laugar á Varmársvæðinu og farið´út í að skipuleggja aðallaug bæjarins á vestursvæði. Um það bil helmingur bæjarbúa skrifaði undir áskorun þess efnis að fyrst yrði farið í uppbyggingu að Varmá og þar yrði aðallaug bæjarins, enda væri hún miðlægt og hefði samlegðaráhrif við aðra aðstöðu til útivistar og íþrótta. Bæjarstjórn gat ekki tekið tillit til þessarar bónar og enn finnst mér að málið hafi bara snúist um stolt Sjálfstæðisflokksins að frmkvæma ekki glæsilegar tillögur fyrri meirihluta um sundlaugaraðstöðu að Varmá. Þarna vaknaði áhugi minn á íbúalýðræði.
Um nokkurra áratuga skeið hef ég unnið að´málefnum útivistar og heilsueflingar. Ég er úr sveit og allt frá bernsku hefur stór hluti af tilverunni snúist um að hlaupa á fell og fjöll. Það er sagt að sveitamenn sem leggja mikið upp úr tengslum við náttúruna setjist að í Mosfellsbæ. Við kaupum okkur raðhús í Mosfellsbæ og byrjum að rækta garðinn og höfum frá upphafi tengsl við Álafosskvos. Nýtum möguleika bæjarins til vaxtar og lífsfyllingar. Fór nokkru síðar að vinna á Reykjalundi og kynntist þeim jákvæða og góða uppbyggingaranda sem þar ríkir. Keypti hlut í hesthúsi og hef notið einstakra göngustíga og reiðstíga bæjarfélagsins. Eins og gengur með foreldri þá eru tengsl við Varmárskóla og íþróttamiðstöðina. Fljótlega fór ég að nota fellin í nágrenni bæjarins sem minn líkamsræktarsal. Eitt vorið vann ég að því í samvinnu við garðyrkjustjóra Mosfellsbæjar að merkja hringleiðir upp á fellin. Varmársvæðið með sínum perlum til útivistar og mannræktar er eins og stilkur á fjögurra laufa smára sem myndaður er af fellunum. Mín ósk var að vegur þessa útivistar- og verndarsvæðis yrði sem mestur.
Mosfellsbær byggist hratt upp og grænu svæðunum fækkar. Nýlega er búið að selja verktökum Sólvallatúnið, sem er framan við stofugluggann. Þannig að eftir nokkur ár tapa ég því frelsi að geta pissað út í garði og horft á stjörnurnar. Þeim mun verðmætara er að halda eftir útivistar- og verndarbelti upp með Varmá. Jafnframt er mikilvægt að til séu aðilar í bæjarfélaginu sem gæti hagsmuna hins almenna íbúa sem sest hefur hér að á síðastliðnum árum undir formerkjunum "sveit í borg" sem að er útgangspunktur í aðalskipulagi bæjarins. Skipulagslög, náttúruverndarlög og upplýsingalög vernda aðkomu og rétt einstaklinga að mótun síns umhverfis og skipulags. Það er hluti af lífsfyllingu að vera þátttakandi. En því fylgir ábyrgð. Að markmiðið sé að leita bestu lausna og að það sem sagt er og gert hafi það markmið að efla og styrkja samfélagið.
Gærdagurinn var með þeim erfiðari. Hafði fengið hálsbólgu daginn áður og það var seinasti dagurinn til að skila inn einkunum nemenda í Borgarholtsskóla. Upp úr klukkan tíu er hringt í mig frá blaðamanni Morgunblaðsins vegna skemmdarverka á vinnuvélum í Helgafellhverfi. Blaðamaður segir mér að framkvæmdastjóri verktakafyrirtækis tali um milljónatjón og segir að ég með minni framgöngu og Varmársamtökin séu ábyrg. Þurfti að bæta því inn í dagsverkið að standa þokkalega uppréttur í fjölmiðlum og svara þessum ærumeiðandi aðdróttunum og alvarlegri ásökunum á persónu heldur en þekkst hefur í óupplýstu lögreglumáli. Ekki virðast lögregluyfirvöld tengja málið meira við mína persónu en svo að ég hef ekki fengið hringingu eða beðin um að koma í viðtal. Hinsvegar hef ég ekki náð í þann sem rannsakar málið. Nú stend ég frammi fyrir því hvort ég eigi að nýta mér aðstoð lögfræðinga og fá þessi ummæli framkvæmdastjórans dæmd ómerk. Ég hef í raun ekki tíma eða fjármagn til að standa í slíku.
Þrátt fyrir yfirlýsingar verktakans um 2-3 daga tafir var allt á fullu í að aka burt mold og keyra inn möl og grjóti inn í kvosina, bæði í gærkvöldi og í dag uppstigningardag. Meira að segja er búið að leggja hliðarveg sem stefnir beint að Varmá. Allt þetta inngrip er talið leyfilegt á þeim forsendum að þeir hafa upp á vasann tölvupóst frá tækni- og umhverfissviði bæjarins að Mosfellsbær geri ekki athugasemdir við þessa "lagnavinnu". Ekkert deiliskupulag er í gildi. Það var afturkallað. Það sem er nokkuð sérstakt í þessari pípulögn er að ofan á hana er lagður fimm metra malarpúði sem er margvaltaður. Ég fór upp á hól ofan við gömlu Álafossverksmiðjuna og tók myndir í morgun, ég var nokkrum metrum frá Varmá sem að lítur hverfisvernd. Þar hótaði mér og ógnaði framkvæmdastjóri verktakans. Sá sami og vígreifur ásakaði mig persónulega um milljónatjón í gær í fjölmiðlum, hafa farið hamförum og hvatt til skemmdarverka. Undir þessar ásakanir hefur verið tekið af fulltrúum meirihluta í bæjarstjórn Mosfellsbæjar. Það finnst mér alvarlegt að taka undir ásakanir á persónu með þessum hætti. Það hvarflar að manni að í Mosfellsbæ ríki verktakalýðræði. Mig langar að finna leiðir til að við getum komist sæmilega frá þeim vaxtarverkjum sem Mosfellsbær gengur í gegnum þessa dagana, en vona allavega að ekki sé nauðsynlegt að hræða mig frá mínum lífsgildum og vilja til þáttöku í mótun samfélagsins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.5.2007 kl. 15:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.5.2007 | 11:57
Samræður og samvinna
Vinnulag Alþingis hefur sett verulega niður með stjórnunarstíl Sjálfstæðisflokksins, sem ríkt hefur síðustu 16 árin. Lengst var þó gengið í þessa átt, þegar tveir menn töldu sig hafa umboð til að flækja þjóðina inn í stríðsrekstur í fjarlægum löndum. Framkvæmdavald og ráðuneyti fóðra þingið á frumvörpum sem síðan eru drifin í gegn hvert á eftir öðru með hollustu við meirihlutavald. Til dæmis komust einungis tvö léttvæg mál frá stjórnarandstöðu fram á síðasta þingi. Það þarf að skapa þroskaðra andrúmsloft á Alþingi þar sem að það verði ríkjandi viðhorf að allar góðar hugmyndir, hvaðan sem þær koma, geti haft vigt og vægi. Auðvitað þarf einnig að liggja fyrir að tiltekinn fjöldi þingmanna sé tilbúin að verja nýja ríkisstjórn gegn vantrausti.
Það jákvæðasta sem mun koma út úr þessum kosningum er að vinnubrögð ofríkis og valdastjórnmála munu treglega ganga fram. Eina sterka meirihlutasamstarfið væri Samfylking og Sjálfstæðisflokkur. En það er ekki í takt við áherslur Samfylkingarinnar á lýðræði að mynda slíka valdablokk með Sjálfstæðisflokknum. Það væri líka með ólíkindum ef VG hefði þor til að mynda slíka valdablokk og það var ánægjulegt að heyra yfirlýsingu Kolbrúnar Halldórsdóttur um nauðsyn þess að innleiða eðlisbreytingar á vinnubrögðum Alþingis, þannig að allir sætu við sama borð. Það er líka ánægjulegt að heyra viðhorf Bjarna Harðarsonar og fleiri að það sé full ástæða til að skoða myndun félagshyggjustjórnar. Akur samvinnu og samræðna er framundan og hann verður frjór og gjöfull fyrir heimilin í landinu og eflingu lýðræðisvitundar. Þetta tvennt er það sem helst þarf í áherslum nýrrar ríkisstjórnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.5.2007 | 08:55
Tapsárir fyrir kosningar?
Það er merkilegt að horfa á innlegg Morgunblaðsleiðara og Geirs H Haarde á lokametrunum. Geir byrjar sitt fyrsta innlegg í formannaþætti í gærköldi á því að reyna að hræða fólk frá því að kjósa annað en Sjálfstæðisflokkinn. Þá mun sennilega stóri ránfuglinn koma og éta þig! Leiðari Morgunblaðsins í dag heitir "Áhætta". Þar er rakið í löngu máli hvað mikil skelfing muni koma yfir Ísland ef að stjórnartaumarnir færu nú eftir sextán ár úr höndum Sjálfstæðisflokks. Það sem að er svolítið skondið að aldrei þessu vant er ekki hægt að gera athugasemd við þennan leiðara, eins og vanalega er hægt. Á blog.is er hnappur sem vísar á ritstjórnarskrif og segir "Hefurðu skoðun? Segðu þitt álit". Óttinn er greinilega það mikill að það er ekki hægt að taka "áhættu" með að önnur viðhorf heyrist en þau sem sett eru fram í leiðaranum. Því ef maður vill segja sína skoðun kemur;
"Ekki er hægt að bæta athugasemdum við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdum eru liðin."
Það er leitt til þess að vita að ritstjóri Morgunblaðs, okkar húsbóndi hér í bloggheimum skuli vera staddur í þessari úlfakreppu tilfinningalífs. Maður sér fyrir sér Styrmir Gunnarsson, Geir H. Haarde, Björn Bjarnason og Árna Johnsen nagandi á sér neglurnar í Valhöllinni. Þetta eru menn sem að hafa svo gott af því að hér verði innleidd ný vinnubrögð og áherslur í stjórnmálum. Heimilin í landinu eiga það skilið að það sé litið á þau sem rekstrareiningu sem beri að efla og styrkja. Afhverju var svona auðvelt að skerða barnabæturnar en svona erfitt að afnema stimpilgjöldin, afhverju er svona auðvelt að lækka skattlagningu á þá hæst launuðu en svona erfitt að láta persónuafsláttinn fylgja verðlagsþróun?
Við höfum ekkert að óttast en tengslanet flokks og fjölskyldna sem vanvirðir lýðræðið þolir alveg smá frí frá þátttöku í ríkisstjórn. Það væri hollt að skipta um, eiginlega nauðsynlegt.
X - S fyrir skoðanafrelsi
X - S fyrir segðu þitt álit
X- S fyrir sól í sinni, úti og inni
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.5.2007 kl. 13:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.5.2007 | 03:04
Kirsuberjatréð
Fyrir utan gluggann á stofunni, í garðinum okkar hér í Mosfellsbæ er kirsuberjatré. Við hliðina á því er álíka stórt tré, koparreynir. Þau eru tákn upphafs og endis á sumrinu. Kirsuberjatréð er í blóma snemmsumars, með fallegum bleikum blómum, en koparreynirinn er komin með þétta og mikla hvíta berjaklasa síðla sumars.
Í Japan og Washington eru hefðir og hátíðahöld þegar kirsuberjatren hafa blómgast. Sérstakir spávísindamenn álykta út frá tíðarfari og veðurspám í byrjun mars hvenær kirsuberjatrén muni blómstra í Washington. Í vor var spáð að trén yrðu í hámarks blóma um fjórða apríl. Þetta er nauðsynlegt að vita með fyrirvara því að fjöldi ferðamanna leggur leið sína til höfuðborgar Bandaríkjanna til að vera þar staddur þegar blómin opna sig og gefa þannig tákn sumarkomunnar. Blómgunin getur verið breytileg hvað nemur allt að fimm vikum milli ára. Ég var einu sinni staddur í Washington á þessum tíma og áttaði mig ekki strax á þessu kirsuberjatali.
Kirsuberjatréð fyrir framan stofugluggann er sérstakur yndisauki og krydd í tilveruna. Tók þessa mynd af því í gær, en það hefur verið smátt og smátt að bæta á sig blómum. Hef trú á því að það verði öll blóm útsprungin á morgun, laugadaginn 12. maí. Þá eru kosningar, sem ég vona að munu einkennast af því að fólk kjósi að breyta til, fá svolítið krydd í hversdagsleikann. Gefa þreyttum hvíld og gefa Samfylkingunni góða kosningu. Opna á þann möguleika að hæf kona verði forsætisráðherra landsins. Flokkurinn hefur verið að bæta á sig blómum síðustu vikurnar og mikilvægt að tryggja að allt verði í hámarksblóma á kjördag.
FRELSI JAFNRÉTTI KÆRLEIKUR
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.5.2007 | 01:56
Einfaldlega best
Til þess að auka jafnrétti kynjanna við starfsmannaráðningar þá hefur þess oft verið krafist að séu karlar fleiri í umræddum störfum og umsækjendur metnir jafnhæfir þá eigi að ráða konu í starfið. Tel að allir, hvar í flokki sem þeir standa, geti viðurkennt að Ingibjörg Sólrún stendur fyllilega jafnfætis þeim körlum sem að eru í forystu annara flokka. Út frá því viðmiði er það spennandi að hún verði brautryðjandi sem kona í starfi forsætisráðherra, líkt og hún var sem borgarstjóri.
Í formannaþætti Stöðvar 2 í kvöld varð málið enn skýrara, því það var samdóma niðurstaða allra álitsgjafa að hún hefði staðið sig best. Þessi frammistaða hennar og mat auðveldar kjósendum við að fara yfir starfsumsóknirnar á laugardaginn. Það er ánægjulegt að sjá hversu örugg og málefnaleg hún er í framgöngu. Hún hefur náð sér á flug eftir ómaklega gagnrýni síðustu missera. Landsfundurinn virðist hafa fyllt hana sjálfsöryggi og orku. Nú þarf Sjálfstæðisflokkurinn að fara að vara sig, ef hún fer að taka upp trompin sem dugðu til að fella íhaldið í þrígang í borginni. Í kvöld þurfti ekki að beita reglunni um að kona skuli valin ef umsækjendur eru jafnhæfir. Hún var einfaldlega besti leiðtoginn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.5.2007 | 15:43
Sameinumst um að sameinast
Mér hefur lengi fundist það einn helsti galli á íslenskri kosningalöggjöf að kjósendur fá í raun engu ráðið um hvaða ríkisstjórn stjórnar landinu að loknum kosningum. Einhver orðaði það þannig að það væri sama hvað hann kysi, hann væri alltaf að kjósa Framsóknarflokkinn. Fólk vill geta sent skilaboð sem hafa inntak með atkvæði sínu. Fella ríkisstjórnina eða sveitastjórnina. Að kjósa áherslur til vinstri eða hægri. Síðan gerist eitthvað allt annað. Þannig voru án efa flestir sem kusu vinstri græna í sveitastjórn Mosfellsbæjar síðastliðið vor að vinna að því að fella meirihluta Sjálfstæðisflokksins, en þau atkvæði voru á endanum nýtt til að endurreisa þann meirihluta. Hef haldið því fram að þá sé betra að mynda þjóðstjórn allra flokka heldur en að leika sér með skilaboð kjósenda.
Það er áhugavert að sjá frásögn í Fréttablaði dagsins af afstöðu varaformanna stjórnmálaflokkanna til æskilegs samstarfsflokks. Þar velur Guðni Ágústsson Samfylkinguna, Katrín Jakobsdóttir velur Samfylkinguna, Margrét Sverrisdóttir velur Samfylkinguna, Magnús Þór velur Samfylkinguna, Ágúst Ólafur velur Vinstri græna, en Þorgerður Katrín kemur sér hjá því að taka afstöðu. Hinsvegar má ætla að hún veldi Samfylkinguna ef eftir væri gengið, miðað við að hún hefur viljað skreyta Sjálfstæðisflokkinn með þeirri fullyrðingu að hann sé stærsti jafnaðarmannaflokkur landsins. Hinsvegar er það skoðun mín að stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokki komi ekki til álita nema að ljóst sé að velferðarstjórn verði ekki mynduð og heldur ekki nema að jafnræði sé milli flokkana varðandi styrkleika.
Það gæti verið ein leið að leysa þennan lýðræðisvanda að gefa kjósendum ekki bara möguleika á að kjósa sinn flokk heldur einnig að velja sér samstarfslokk. Þetta gæti verið siðferðilegur vegvísir fyrir formenn flokka og forseta í stjórnarmyndunarviðræðum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)