Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Eina rósin á akrinum

obamaclintonSpennan eykst smám saman vegna forsetakosninga í USA. Það eru auðvitað söguleg tíðindi að öruggt má telja að forsetaefni demókrata verði annaðhvort kona eða þeldökkur maður. Hef þó meiri samúð með frú Clinton í þessari baráttu en Obama. Bandarísk stjórnmál eru haukaveldi karlmennskunnar. Aðrir frambjóðendur eru karlkyns, allir þáttastjórnendur og álitsgjafar um stjórnmál eru karlkyns. Þetta er ójafn leikur að þessu leyti. Ef Obama vinnur þá verða það ekki slæm tíðindi heldur, fyrir þróun jöfnuðar og mannréttinda á plánetunni Jörð.
mbl.is „Ákveðin vonbrigði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blóm vikunnar Burnirót

nullBurnirót vex um land allt. Það er einkynja, karlblómin eru gul en kvenblóm rauð. Þessi þykkblöðungur er algengari þar sem erfiðara er aðkomu fyrir sauðfjárbeit t.d. á sillum. Þessi teygði sig í átt til sólar inn af Flám í Kollumúla, Stafafelli í Lóni þann 6. júlí 2004.

Nútímalegt stríð

TölvuvírusFyrirsögnin um árás á Mogga-blogg er grípandi. Síðan les maður að baráttan standi enn yfir. Það jaðrar við að það vakni löngunin að sjá þetta stríð í beinni á vefvarpi mbl.is.
mbl.is Ráðist á blog.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er sálin líkamleg?

phineas

Stundum hef ég dottið inn á orðræður um trúmál hér á Mogga-bloggi. Þó athugasemdir séu iðulega orðnar nokkur hundruð þá eru menn ekkert nær neinni niðurstöðu heldur en í upphafi. Sú spurning vaknar hvort um óljósa notkun hugtaka sé að ræða eða að deilendur séu fyrirfram ákveðnir í að vera ósammála, nema hvoru tveggja sé.

Eitt er það hugtak sem hvað mestur ruglingur er í kringum, það er sál. Samt finnst flestum að þetta orð hafi merkingu, það sé verið að vísa til örgjörva eða vinnsluminnis einstaklingsins, þess sem stýrir gjörðum okkar. Þannig má segja að það vísi líka til hins frjálsa vilja. Þeirrar staðreyndar að við eigum fjölbreytileg tækifæri og mikið val.

Atli Harðarson heimspekingur hefur varpað ljósi á hugtakið frjáls vilji. Að það sem við vísum til hversdagslega sem sjálfstórn nái því nánast að vera samheiti og skýrara hugtak. Að þeir sem búi við einhverja tegund fötlunar eigi ekki jafn mikið val og aðrir. Þeir sem að eru fíklar eru ekki eins frjálsir og þeir sem að eru það ekki.

Hugtakið sál hefur einnig trúarlega tilvísun og hefur allt frá Plató vísað til tveggja eðlisólíkra fyrirbæra sem byggi upp einstklinginn þ.e. sál og líkama. Annað er guðlegt og ódauðlegt, en hitt er efnislegt og dauðlegt. Rene Descartes fylgdi þessari tvíhyggju eftir og taldi að hin guðlega skynsemi tæki ekki rúmmál eins og líkaminn.

Í gegnum aldirnar hafa tilfinningar verið taldar óæðri hugsunum og skynsemi. Þær hafa verið flokkaðar með hinu dýrslega og dauðlega. Þessi tvískipting er einnig grunnur að skiptingunnni í hugvísindi og raunvísindi, sálfræði og líffræði. En rannsóknir á heilanum hafa kippt grunninum undan þeirri kennisetningu að hér sé um eðlisólík og óháð fyrirbæri að ræða.

Antanio R. Damasio skrifaði bók sem varð metsölubók í Bandaríkjunum og heitir Descartes' Error: Emotion, Reason, and the Human Brain. Þar rekur hann hvernig þekking á heilastarfseminni varpar ljósi á staðsetningu og samspil ýmissa þátta sem við flokkum sem sálræna og samkvæmt hefðbundnum skilningi óefnislega.

Hann rekur sögu Phineas Gage sem var bandaríkjamaður sem fyrir rúmri öld fékk stáltein í gegnum framheilann við vinnu sína sem fólst í því að koma fyrir púðri til sprenginga við lagningu járnbrauta. Ungur maður sem áður var metnaðarfullur, vinsæll og skynsamur breyttist í það að verða ístöðulaus, skapbráður og einangraður.

Þessi skaði á framheila hafði breytt persónuleika hans, breytt eðliseiginleikum sem vanalega var litið á sem sálræna. Þekking sem nú er til staðar á hlutverki þessa heilasvæðis getur útskýrt þessar breytingar. Markmiðsetning, félagsgreind, temprun á tilfinningum eru þættir sem tengdir eru þessum heilahluta.

Þroskun þessa heilasvæðis og gidari taugabrautir er það helsta sem að munar á heila manns og apa. Það skýrir einnig mun á vitsmunastarfsemi. Minnið hefur tengsl við tiltekin heilasvæði, ótti, reiði og fleiri tilfinningar eru á öðrum stað. Faðir minn fékk heilablóðfall og þá duttu út nafnorð. Geðlyf hafa áhrif á marga sálræna þætti.

Allt þetta sýnir okkur að sálræn fyrirbæri eru líffræðileg eða á hinn veginn að þetta sýni að líkaminn sé sálrænn. Þetta er ein órofa heild. Það sem eftir stendur er hvaðan við fengum viljann og valið. Þar er svigrúm fyrir hið guðlega?


Mannrækt í Mosó - Dans og jóga

AsanasÁramótin liðin og margir stigu á stokk, strengdu nýársheit. Sum þeirra byggðust á einhverju sjálfsmati til sálar og líkama. Eitthvað sem metið er of eða van. Að vera of þungur, reykja of mikið, þurfa meira þrek og fegurri líkama. En hvernig er í öllu þessum möguleikum hægt að finna leiðir heilsueflingar, sem tengjast fyrst og fremst lífsfyllingu, en byggja ekki á sektarkennd eða óánægju með eigin líkama?

Heilsuefling byggir á því að líta á sál og líkama sem eina heild. Hugsanir og tilfinningar móta ástand líkamans og öfugt. Algengt er að þeir sem að sjá nálina færast sífellt hærra á vigtinni bregðist við með því að setja sér markmið um að hlaupa á hæstu fjöll, fara í tækjasalinn þrisvar í viku. En stundum er hluti lausnar að hægja á sér, sofa betur, draga úr stressi. Gefa sér tíma til að anda djúpt og njóta augnabliksins. Hlaða batteríin og njóta þess að eyða kaloríunum.

Dans3Þannig að áherslan á ekki að vera á líkamsrækt heldur mannrækt þar sem við erum meðvituð um samspil þátta í lífsmynstri. Sá sem að er stresssaður og tilfinningalega kramin sefur ekki vel, er líklegur til þess að sækjast eftir skyndibitafæði og  orkuríkri fæðu, sykri og fitu. Hann er ekki líklegur til þess að hreyfa sig reglulega og gæti freistast til að nota efni, kaffi, nikótín, alkóhól eða lyf til að hafa áhrif á grunntóna tilfinningalífsins.

 

Dans5Mannræktin ATORKA sem boðið hefur upp á ýmiskonar námskeið í Mosfellsbæ síðastliðin ár byggir á slíkri heildarsýn. Lögð er áhersla á heilsueflingu í gegnum dans og jóga námskeið. Allt frá því að bjóða upp á rólegar krefjandi stöðuæfingar, öndun og slökun, ýmiskonar helgarnámskeið í suðrænum dönsum (tangó, salsa, merengue, samba) og síðast en ekki síst þolþjálfun byggða á orkuríkri tónlist (Zumba). Hrista af sér kíló og kaloríur ómeðvitað með ástundun gleðinnar.

Dans6Námskeiðin verða í Íþróttamiðstöðinni að Varmá og fylgir aðgangur í sund. Til stóð að hefja þar kennslu í haust en vegna tafa á því að World Class flytti í Lækjarhlíð varð ekki af því. Nú eru málin loksins komin á hreint og er það fagnaðarefni. Kennt verður í fallegum sal á annarri hæð yfir móttökunni, en á fyrstu hæðinni er Hjalti "Úrsus" Árnason að setja upp nýjan tækjasal eftir að Toppform hætti þar starfsemi og verður með heilsuræktina Eldingu. Spennandi tækifæri.


Heiðra skaltu afa þinn og ömmu

BoðorðOftast gildir sú regla að þeir sem látnir eru fá að njóta hvíldarinnar og samferðamenn fyrirgefa það sem borið hefur á milli í skoðunum. Jafna ágreining og ná sátt í huganum þegar árin færast yfir. Þannig fær fortíð mildara yfirbragð og þá verður allt betra "í gamla daga". Þegar leikarar í atburðarás liðins tíma eru allir fallnir frá er það erfitt að setja samræður og tilteknar setningar fólks í takt við þann tíðaranda sem ríkti. Það verður því í besta falli skáldverk með sögulegu ívafi. Ein af þeim bókum sem að kom út fyrir jólin er fjórða bindið í ritröðinni Gamla hugljúfa sveit eftir Þorstein Geirsson frá Reyðará í Lóni. Bókin ber elju og dugnaði hans gott vitni. Í byrjun bókar segir, hún "fjallar að meginmáli um fólkið í Lóni á fyrri hluta síðustu aldar". Í byrjun aldar er langafi minn séra Jón Jónsson síðastur klerka á Stafafelli, til 1920. Hann er fósturfaðir bæði föðurömmu Þorsteins og móður hans. Því má telja víst að ættleggur hans hafi notið ríkulega þess menningarheimilis sem var á Stafafelli í upphafi aldar.

Þorsteinn velur hinsvegar að segja frásögn sem að á væntanlega að varpa skugga á minningu Sigurðar Jónssonar afa míns á Stafafelli. Hans er að engu góðu getið í bókinni, þó að óumdeilt sé að hann hafi verið þar hvatamaður framfara og margra góðra verka. Það hefur ekki verið mitt hlutskipti til þessa að verja heiður og minningu forfeðra. Sigurður á Stafafelli var margheiðraður á sinni lífstíð. Fékk fálkaorðu fyrir félagsstörf, viðurkenningu Búnaðarfélags Íslands, fékk konunglega viðurkenningu fyrir skógrækt og svo mætti lengi telja. Í kirkjunni á Stafafelli er stór blómavasi úr silfri gefin af vinnufólki til minningar um hann með áletruninni; "Með þakklæti og virðingu". Hann var á sinn hátt héraðshöfðingi sem leiddi meðal annars í nokkra áratugi starf Menningarfélags Austur-Skaftfellinga sem formaður þess. Frásögnin í bókinni er hluti af skrifum þar sem að Þorsteinn heiðrar og minnist ömmu sinnar, sem var farsæll barnakennari í Lóni og víðar. Þar er vísað til ummæla af móti Menningarfélagsins 1940. Þar á afi að hafa sagt þessi orð; "Ég vil ekki hafa barnakennara sem kenna mínum börnum að Rússar taki aðeins það sem þeir eiga". Þetta er sagt í umræðum sem voru á mótinu undir líðnum; "Eiga kommúnistar að gegna trúnaðarstörfum í þjóðfélaginu?". Félagið setti ýmis efni á dagskrá á þessum mótum til að varpa á þau ljósi aukins skilnings og umræðu. Á þessum tíma stendur heimmsstyrjöldin síðari yfir og Rússar nýbúnir að ráðast inn í Finnland. Mikil gerjun hugmynda er í gangi á þessum árum, uppgangur kommúniisma og nasisma. Margir óttast íhlutun erlendra aðila í stjórn landsins. 

Á Stafafelli er á þessum tíma ein meginæð Framsóknarflokksins í sýslunni, en á Reyðará eru í upphafi aldar að vaxa úr grasi öflugir fylgismenn kommúnisma eða sósíalisma. Trúlegt er að þessi staðreynd hafi gefið tilefni til ágreinings milli þessara heimila í pólitík, eins og gengur. Hinsvegar segist Þorsteini svo frá í bókinni að þessi ummæli afa míns hafi orðið til þess að amma hans hætti kennslu. Hann setur málið allt í þá umgjörð að afi hafi farið fram gegn fóstursystur sinni með níðingslegum hætti. Ummælin hafi hún tekið til sín og þau valdið henni miklum sárindum. Sagt er að þau hafi verið ómakleg, köld kveðja og jafnvel dylgjur um að þau megi skýra með vanmætti í gáfum. Mér finnst þessi framsetning vera bókinni til minnkunar og skrifara til hnjóðs. 1) Ummælin sjálf eru ekki rætin í ljósi ástands heims og þjóðar. Ef til vill eru þau einmitt merki um gáfur og framsýni afa míns að vara við trú manna á Rússa og þeirra þjóðskipulag. Það er ekki fyrr en töluvert eftir 1960 sem að Alþýðubandalagið hættir að horfa í austurveg í leit að fyrirmyndarríki. 2) Afi er ekki til staðar til að útskýra þessi orð, sem sumir eldri heimildarmenn úr Lóni segja mér vera beina tilvísun til ummæla hennar í kennslu. 3) Enginn af þeim eldri heimildarmönnum í Lóni sem ég hef haft samband við hafa heyrt áður þessa söguskýringu að ummæli afa hafi stuðlað að því að hún ákveður að hætta kennslu í sveitinni. 4) Það eina sem hver og einn hefur á valdi sínu er að stjórna eigin gerðum, en ekki er hægt að stjórna viðbrögðum annarra. 5) Fyrst að amma Þorsteins ræddi þetta mál ekki við fósturbróðir sinn eða nokkurn mann hlítur það að vera vafamál hvort rétt sé af Þorsteini að rifja það upp út frá þröngu sjónarhorni, tæpum 70 árum síðar.

Í uppvexti mínum heyrði ég aldrei á slæmt umtal um nokkurn mann frá Reyðará né öðrum bæ í Lóni. Það var því ákveðinn hreinleiki yfir mannlífinu í þessari fögru sveit. Einn mikilvægur þáttur í því að tryggja hugljúfa stemmingu og heiðríkju hugans er að fyrirgefa og gleyma.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband