Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Verði þinn vilji

Jesú tárast

Eitt af því sem komið hefur mér á óvart síðustu mánuði eru fyrirferðarmikil skrif þeirra sem spá allsherjarstríði milli kristinna manna og múslima. Sótt er að þeim persónulega sem viðra önnur sjónarmið. Dómharka og hroki í nafni trúar. Þeir sem hafa takmarkaða þekkingu á rúnum trúarrita og sjá ekki þessi teikn á lofti eru afgreiddir sem vitgrannir einfeldningar. En ef til vill er það ekki versta hlutskiptið að vera einfaldur, ef það væri raunin. -Leyfið börnunum að koma til mín og bannið þeim það eigi, því þeirra er Guðs ríki-. Það getur enginn útnefnt sjálfan sig sem hinn rétta fulltrúa almættisins eða að geta á þeim forsendum talað niður til fólks. Þó trúarrit geti verið góðir leiðarvísar þá eru innsæi og hlýja, vilji og hjartalag þau fjöregg sem að okkur eru gefin til að framkvæma vilja Guðs. Þessir eiginleikar mannsins eru þau vopn sem við eigum að nýta, því bókstafurinn einn skilar okkur skammt í áttina að bættum heimi..

Tók rökræðu við Vilhjálm Örn Vilhjálmsson um friðarferli í Miðausturlöndum.


Langflestir vilja upprunalegan stíl

Það er alltaf sitt hvað að gera skoðanakannanir og túlka niðurstöður þeirra. Þannig er ekki rétt að stilla fólki gagnvart spurningunni viltu rífa húsin eða vernda þau. Fyrirsögn þessarar fréttar hefði átt að vera á þeim nótum að draga fram að um 70% vilja byggja í upprunalegum stíl, hvort sem að þar koma ný hús eða þessi verði endurbyggð. Þessi áhersla á að viðhalda gamla stílnum er meginniðurstaða, ef að menntamálaráðherra er í óvissu. Hún hefur lýst yfir að hún muni byggja ákvörðun sína á vilja fólksins.
mbl.is Meirihlutinn vill ný hús við Laugaveg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blóm vikunnar Dýjamosi

nullPlanta vikunnar er Dýjamosi og tilheyrir því lágplöntum. Þörungar og mosar hafa ekki æðar sem að skýrir afhverju þær haldast lágvaxnar. Dýjamosinn er fallegur fyrir sinn sterka sígræna lit. Oft er hann nálægt lækjum og lindum. Úði eða ragn myndar dropa sem að perlast á yfirborðinu, því rakinn í undirlaginu er yfirleitt það mikill. Þessi mosi hafði safnað á sig nokkrum dropum 2. ágúst 2002 hjá læk í Víðidalshjöllum, Stafafelli í Lóni.

Réttindi sótt og fengin

Það er merkilegt til þess að hugsa að margar þær breytingar sem orðið hafa til bóta hér á landi á sviði réttinda almennings hafa komið frá erlendum stofnunum og samningum. Þannig hafa ýmsar umbætur sem tryggja aðkomu almennings að skipulagsmálum komið í gegnum löggjöf og reglur sem innleiddar eru á evrópska efnahagssvæðinu. Nú kemur þetta frá Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna. Loksins staðfestir einhver þá tilfinningu almennings að takmörkun aðgangs og úthlutun til sérvaldra einstklinga var óréttlát. Það hefur ekkert með vernd fiskistofnana að gera, heldur er hér eingöngu verið að tala um þann þátt að meina einum en leyfa öðrum, að hafa frían aðgang að sameiginlegri auðlind.

Nokkrir landeigendur í Austur-Skaftafellssýslu bíða nú afgreiðslu Mannrétindadómstóls Evrópu varðandi þann úrskurð Hæstaréttar að þinglýstir hlutar jarða hafi verið dæmdar eign ríkisins. Eitt þessara mála er úrskurður í máli Stafafells í Lóni þar sem stór hluti lands sem ríkið seldi 1912, er tekinn aftur endurgjaldslaust undir ríkiseign. Helstu röksemdir eru þær að þrátt fyrir fleiri hundruð ára eignarsögu að þá sé "óljóst um landnám". Krafa er gerð fyrir dómi að landeigendur geti sannað ferðir með kvígur og elda fyrir rúmum þúsund árum. Hæstirétturinn er með Landnámu sem sitt meginviðmið varðandi stórjarðir á Íslandi, sem að allir sérfræðingar í því fornriti telja hæpna heimild.

Með þessum úrskurði myndast sterkar forsendur um endurskoðun kvótakerfisins og vonandi fáum við fljótlega niðurstöðu frá Strassburg sem knýr á um endurskoðun á forsendum úrskurða við ákvörðun þjóðlendna eða ríkislendna, sem er í sumu tilfellum hrein og klár eignarupptaka ríkisins. Þetta eru ólík mál en eiga það sameiginlegt að margt bendir til þess að þau stangist á við alþjóðleg viðmið varðandi mannréttindi.


mbl.is Íslensk stjórnvöld breyti fiskveiðistjórnunarkerfinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takmörkun á valdi ráðherra

Matsnefnd vegna skipunar héraðsdómara hefur nú skilað frá sér greinargerð. Það er gaman að sjá hversu samstíga rökstuðningur hennar er skrifum mínum hér á blogginu. Sjálfstæði dómstóla er háð því að val ráðherra styðjist við faglegt mat, en ekki tengsl við ráðamenn og stjórnsýsluna. Ef ekki er um lagalega takmörkun út frá þrískiptingu valds, þá er hún siðferðileg. Nú reynir á rétt þeirra umsækjenda sem metnir voru hæfastir. Allavega einn þeirra vísar málinu til Umboðsmanns Alþingis.
mbl.is Dómnefnd segist sitja áfram þrátt fyrir óvandaða stjórnsýslu ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eðlismunur

FálkiPennar íhaldsins fara mikinn í umfjöllun um pólitískar ráðningar. Henni er ætlað að draga athyglina frá þeirri staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn hefur með skipan dómara dregið úr tiltrú almennings á dómskerfinu og þeirri grunnreglu að allir séu jafnir fyrir lögunum. Þar fara fremstir í flokki þeir Hjörtur J. Guðmundsson, Andrés Magnússon og Stefán Friðrik Stefánsson. Allt öflugir bloggarar, en virðast ekki skynja alvöru þess að dómarar séu ráðnir á forsendum tengsla við einstaklinga eða flokka.

Þeir hafa helst dvalið við ráðningar í stöður ferðamálastjóra og orkumálastjóra. Satt best að segja finnst mér þeir vera farnir yfir strikið í leit sinni að einhverju sem talist geti til vansa í æviskeiði þessara einstklinga. Meðal annars að þeir voru í öðru en hinu sívökula stúdentafélagi, sem á að vera uppeldisstöðvar embættismannaaðalsins. Þau sem að sóttu um þessi störf hafa örugglega ekki gert ráð fyrir að fá slíka neikvæða úttekt á smáu og stóru í þeirra æviferli. 

Þrír grunnþættir gera þessar ráðningar eðlisólíkar. 1) Umsækjendum var einungis í tilfelli héraðsdómara skipt í fjóra flokka með tilliti til hæfnismats. Pétur Kr. Hafstein formaður matsnefndar segir hér um algjört stílbrot að ræða í þessu ferli. 2) Ferðamálastjóra og orkumálastjóra er ætlað að útfæra stefnu hins opinbera í þessum málaflokkum. Því er það í eðli sínu pólitískt og þar hefur vægi að hafa ferskar hugmyndir og ákveðinn frumleika í hugsun. Algengt er til dæmis í Bandaríkjunum að nýr forseti ráði nýja menn í sambærilegar stöður, þegar hann tekur við völdum. Þá sem að eru best fallnir til að útfæra hugmyndir forsetans í viðkomandi málaflokki. 3) Grunnforsenda okkar stjórnskipunar er þrískipting hins opinbera valds. Þar er dómskerfinu ætlað að halda algjöru sjálfstæði frá framkvæmdavaldinu. Því er það mjög alvarlegur hlutur að skipa til embættisins út frá ættar-, vina- og flokkstengslum.

Þarna er því grundvallarmunur. Annarsvegar tvö embætti sem felast í að framkvæma stefnu stjórnvalda, en hinsvegar er rík krafa um að dómarar séu óháðir stjórnvöldum eða flokksstarfi. Augljóst að Sjálfstæðiflokkurinn hefur endurtekið brotið þetta viðmið og gerir trúlega ráð fyrir að fá greiðann endurgoldinn.


Vegir liggja til allra átta

Tölvusamband

Þegar ferð hefst við tölvuna inn á víðar lendur bloggheima, þá er hugurinn oft móttækilegur á margvíslegt efni. Stundum vill maður lesa stutta, skondna og létta pistla, stundum dýpri pælingu, stundum er áhugavert að lesa persónulegar og einlægar frásagnir. Einmitt slíkir pistlar, beint frá hjartanu, hvað er að gerjast og í gangi á persónulegum nótum er ekki minn stíll. Það er einhver e.t.v. óþörf formlegheit gagnvart tölvunni og takkaborðinu, en svo er slíkt auðvelt og aðgengilegt fyrir aðra. Það getur verið virkilega skondið að lesa t.d. lýsingar hennar Hrannar Sig úr hversdagsleikanum á göngu með hundinn eða eitthvað annað að bjástra. Veit ekki hvort það er í stíl Auðar Haralds, sennilega er skáldkonan ýktari og með meiri kaldhæðni, en allavega þessi geta að búa til eitthvað stærra úr hversdagslegum atvikum. Það getur verið gaman að fara inn á síðu Einars Braga Seyðfirðings, sem hefur gert stað sem ég hélt að væri að deyja úr framsóknarmennsku og lognmollu í svalasta tánið í Austrinu. Stuttir og skondnir pistlar. Stundum er gaman að fara inn á síðu sem að oft kemur með hressilegt og óvænt sjónarhorn í umræðuna eins og hjá henni Heiðu. Stundum er gaman að fara og lesa pistla sem tengjast menningu og pólitík og maður bíst við að verða sammála í meginatriðum, þau eru líka staðsett út á landi sem gefur því aðra vídd, eins og hjá Hlyni Hallssyni á Akureyri, Ólínu Þorvarðar á Ísafirði og Baldri Kristjáns í Þorlákshöfn. Stundum er gaman að taka slaginn og fara í ljónagryfjuna og þar hefur Hjörtur J. Guðmundsson haldið úti fjörugri umræðu og oftar en ekki sjónarmiðum sem eru ekki samstíga mínum viðhorfum. Stundum er áhugavert að skoða umræður um umhverfis- og skipulagsmál eins og hjá Dofra Hermannssyni. Stundum leitar snertidepillinn uppi laugvetnska skólafélaga og þar skal fyrstan telja Bjarna Harðar, en svo er ég nýlega búin að uppgötva fleiri. Stundum er gaman að líta við hjá Mosfellingum. Rakst nýlega á síðu Ásgeirs Eiríkssonar, en hann var góður granni hinum megin við götuna í um tíu ár. Stundum er gaman að láta hugann reika í austurátt á heimaslóðir, líta við á síður sýslunga, meðal annars hjá bæjarstjóranum á Höfn, Hjalta Vignissyni, sem heldur úti heilli upplýsingaveitu um það helsta sem er á döfinni í byggðarlaginu. Í einu bloggferðalagi rakst ég á á minn æsku- og uppeldisfélaga Hallgrím Guðmundsson. Við höfum lítið sést í fjölda mörg ár og fyrstu viðbrögð þegar maður sér myndina, er þetta Halli, því ég hélt að við yrðum alltaf eins í útliti og þegar við vorum strákar í Lóninu. En hann er með mikinn áhuga á fótbolta og mikið vit á sjávarútvegi, meðan ég hef varla migið í saltan sjó og sýni blómamyndir í stað fótboltafána! Allur þessi fjölbreytileiki er af sama meiði og gerir bloggið svo áhugavert. Ef ég hef ekki nefnt þína síðu í þessari yfirferð, þá er það bara út af því að klukkan er orðin svo margt ...... Heart


5000 við brennu í Mosó

FlugeldurÞeim fjölgar með hverju árinu sem fara í bíltúr á þrettándabrennuna í Mosfellsbæ. Talið er að yfir 5000 manns hafi verið samankomin í góðu veðri til að hlusta á söng, lúðrasveit, jólasveina og glæfragengi úr álfheimum. Kóngurinn er búin að vera sá sami til fjölda ára. Held hann sé búin að vera öll þau fimmtán á sem við höfum búið í Mosó. Það er enginn hámarksfjöldi ára sem álfakóngar geta gengt starfi sínu. Þeir verða bara virðulegri og flottari, eftir því sem þeir eldast. Hinsvegar skiptir kóngsi út drottningum næstum því á hverju ári.
mbl.is Þrettándabrennur gleðja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun hótel falla að götumynd?

LaugavegurMikið er rætt um niðurrif tveggja húsa við Laugaveg. Persónulega finnst mér þessi hús ljót og í raun ekki í takt við annað við götuna. Mun áhugaverðara er að vita hvort að tryggt sé að fyrirhugað hótel muni falla að götumyndinni. Gildi verndunar er hér eingöngu tengt aldri og sögu. Húsafriðunarnefnd sem vinnur hið opinbera mat á því hvað ber að vernda af okkar byggingarlist, hefur ekki lagst gegn niðurrifinu. Vonandi á ekki að byggja ferkantað steypuvirki á þessum stað. Í Aðalstræti tókst að byggja við fyrri byggingu og reisa hótel sem fellur vel að miðbæjarstemmingunni.


mbl.is Margrét og Svandís ósáttar við flutning húsanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í lykilstöðu

IngibjörgHelstu tíðindi síðasta árs voru þau að Samfylkingin er komin í lykilstöðu bæði í borginni og landsmálum. Margt bendir til að flokkurinn sé meira gildandi heldur en samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokksins hafa verið. Ástæða þess er trúlega sú að flokkurinn er stærri en Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur, sem voru helstu samstarfsaðilar síðustu aldar.

Í síðustu stóru skoðanakönnun bætti Samfylkingin við sig fylgi um fjögur prósent. Það er óvenjulegt að samstarfsflokkur Sjálfstæðisflokksins tapi ekki fylgi. Það skýrist að verulegu leyti af því að flokkurinn hefur verið skapandi og áberandi hluti af samstarfinu. Auk þess er fátt um aðra fína drætti fyrir félagshyggjufólk. Flokkarnir í stjórnarandstöðu eru litlir og engin samstaða er hvorki á milli eða innan þeirra um málefni.

DagurFramsóknarflokkurinn þó lítill sé virðist klofinn og sundurleitur. Guðni og Bjarni stefna á vit fornmanna í afdölum en Valgerður og Björn Ingi vilja leggja áherslu á að byggja upp fylgið í borginni og vera vakandi um hag Íslands í þeirri gerjun sem á sér stað í Evrópu. Vinstri grænir spila þreytta plötu eilífrar andstöðu með Steingrím og Ögmund sem skífuþeytara. Öflugar konur bíða þar hinsvegar síns tíma, að taka við stjórnartaumum. Ég hef trú á að þær séu aldar upp í umhverfi Röskvu og Reykjavíkurlista og muni ekki glutra niður tækifæri eins og gafst á síðastliðnu vori.

Myndun nýs meirihluta í Reykjavík undir forystu Samfylkingarinnar voru óvæntustu tíðindi ársins. Þessari lykilstöðu sem flokkurinn er kominn í á landsvísu og í borgarmálum fylgir ábyrgð. Mikilvægt er að flokkurinn haldi góðum tenglum við grasrót og bakland, sem og að gefa ekkert eftir í málefnalegum áherslum í anda jöfnuðar og mannréttinda.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband