Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008
12.3.2008 | 15:47
Hvenær glatast meydómur?
Fjallkonan fríð er holdgerving á sjálfstæði Íslands. Þjóðerniskennd. Tilfinninga sem við kunnum öll að meta, en er sagt af andstæðingum aukinnar þátttöku Íslands í bandalagi Evrópuþjóða að geti glatast. Ásakanir um svik við föðurlandið. Upphafið tal um sjálfstæði okkar, menningu og sérstöðu.
Nú stendur yfir mat á viðbrögðum íslenskra stjórnvalda við niðurstöðu Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um óeðlilega mismunun sem innleidd hafi verið með lögum um kvótakerfi og fiskveiðistjórnun. Töpuðum við sjálfstæðinu með inngöngu í Sameinuðu þjóðirnar 1946?
Frá 1949 höfum við tekið þátt í samstarfi þjóða um varnarmál undir merkjum Atlantshafsbandalagsins. Óeirðir á Austurvelli og andstaða við hersetu gekk alla tíð út á að þjóðin væri að tapa sjálfstæði. En aðalógnunin við sjálfstæðið var hliðarspor Davíðs og Halldórs að taka þátt í einleik George Bush með innrás í Írak.
Mikil andstaða var við samning um Evrópskt efnahagssvæði árið 1994 á þeim forsendum að með honum væri framselt vald og að þar með glötuðum við sjálfstæði okkar. Raunin er sú að engin andstaða hefur verið við löggjöf frá ESB, samningurinn opnað á mikil tækifæri og samstarfið við aðrar Evrópuþjóðir gengið sélega vel.
Í bestu útfærslu er virk þátttaka í Sameinuðu þjóðunum, Atlantshafsbandalaginu og Evrópusambandinu að tryggja heilbrigðan farveg samskipta milli þjóða og efla réttarstöðu einstaklinga. Við munum ekkert glata sjálfstæði frekar en allar aðrar þjóðir sem halda sínum siðum og menningu. Fjallkonan verður fríð sem forðum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.3.2008 | 19:35
Jón forseti lendir í hremmingum
Sjálfstæðismenn vilja hanna ímynd mikilfengleikans. Það hefur meðal annars komið fram á þann veg að þeir hafa iðulega takmarkað umburðarlyndi gagnvart fjölbreytileika skoðana. Hagræða sannleikanum og sögutúlkun þannig að þeir hafi einir staðið á sviðinu í þróun íslensks samfélags. Einn harðasti fulltrúi slíkrar nálgunar notar pistil dagsins í að snúa út úr ummælum mínum, en hefur jafnframt lokað á möguleika minn að gera athugasemdir.
Þeir sem ekki hafa fylgt flokkslínunni hafa iðulega verið púaðir niður og gerðir útlægir. En ég stefndi nú ekki á frama í Flokknum svo það skapar ekki teljandi vandamál fyrir mig að vera útilokaður frá umræðu. Hinsvegar hef ég miklar áhyggjur af því að þessi ötuli talsmaður er byrjaður að innlima í Flokkinn látna þjóðhöfðingja sem að gætu bætt og elft ímyndina. Þannig er búið að stilla Jóni Sigurðssyni forseta upp´sem fyrstum í röð forystumanna Sjálfstæðisflokksins.
Þetta er auðvitað bara fyndið!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
10.3.2008 | 22:35
Ástarsæla
Eignaðist fyrir um tíu árum meri sem hét Ást og var frá Hemlu. Setti hana í folaldseign undir álóttu og vindóttu stóðhestana mína þá Hrímir frá Stafafelli og Lokk frá Gullberastöðum. Undan Ást komu snotur trippi. Set hér inn mynd af Fríðu frá Stafafelli sem er falleg bleikálótt meri. Hún hefur verið í eigu Maríettu á Höskuldsstöðum í Breiðdal og er á leið til Sviss í haust til systurdóttur hennar, sem er ein færasta hestakonan þar í landi. Þannig að trúlega á Fríða eftir að vinna lönd.
Á síðan Sælu frá Stafafelli undan Ást, sem að er vindótt og móálótt meri á fjórða vetri. Hún gekk í tvö ár undir merinni og voru þær mæðgur orðnar jafnstórar eftir þá mjólkurgjöf. Nú er Sæla að verða búin með skólagöngu í mánuð. Hún er spennandi hlekkur í vindóttu ræktinni minni. Fríða og Sæla eru báðar með sérstakt geðslag. Þær hafa verið forvitnar og sótt í félagsskap við manninn frá upphafi. Þær eru mjög taugasterkar og með góðan vilja.
Ferðalög | Breytt 11.3.2008 kl. 18:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.3.2008 | 17:51
Þröng og lokuð Heimssýn
Hjörtur J. Guðmundsson er einn af þessum ofurfrjálsu ungu mönnum sem að er skemmtilega vel lesinn. En öll hans þekking nýtist ekki betur en Hannesar Hólmsteins. Hið mikla upplýsingaflæði rennur út frá svo þröngu sjónarhorni að maður skynjar að flest það sem sagt er einkennist af áróðri og blindri flokkshollystu. Hann er ótrúlega eljusamur bloggari, sem ég ber virðingu fyrir og hef haft ánægju af að fá til umræðna um pólitík. Það er gaman að sjá og taka þátt í orðræðu andstæðra sjónarmiða og jafnvel skipta um skoðun eða endurskoða eigin sýn á málefni.
Evrópuandstæðingar eru mjög trekktir á taugum þessa dagana. Virðast pirraðir yfir því að það þrengist ætíð vígstaðan. Orustuhóllinn verður sífellt minni. Stríðsmönnunum fækkar og þeir skynja að þörf er á öflugri vopnum. Nefndur Hjörtur hefur legið í flensu að eigin sögn og lent í tölvuhremmingum. Á sama tíma hefur Evrópuumræðan aldrei verið meira áberandi. Ferð forsætisráðherra og sú athygli sem þessi málaflokkur fékk, útgáfa fræðirits um ávinninginn af aðild, ásamt kröfu fólks og fyrirtækja um tengsl við öflugri gjaldmiðil og efnahagsheild.
Í fyrradag ætlaði ég að senda Hirti óskir um góðan bata og von um lausn á tölvuvanda. En þá kom; "Þér er ekki heimilt að skrá athugasemdir". Það hefur verið eitthvað sem fór fyrir brjóstið á kappanum, en ég nota bara tækifærið hér til að óska honum alls hins besta. Það sem meira er að Hjörtur virðist vera eini virki aðilinn sem skrifar á "Heimssýnarbloggið". Þau eru sögð "þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins".
Nýjasti pistill á Heimssýn er um Iðnþing og ESB, þar sem varað er við því að "embættismönnum þess yrði eftirleiðis falið að móta framtíð íslensku þjóðarinnar". Ég setti inn athugasemd að íslensku þjóðinni stæði meiri ógn af Seðlabankanum og stefnu Davíðs Oddssonar varðandi stýrivextina heldur en evrópskum embættismönnum. Enda kom það fram í máli forsætisráðherra að samskipti við Evrópusambandið væru öll sérlega ánægjuleg. Þessi athugasemd hefur ekki fengist birt.
Ítreka góðar óskir til Hjartar og reyndar Evrópu og heimsins alls. Set hér með mynd af bloggvini mínum sem virðist búinn að setja mig á ís. Læt fylgja með mynd af Ungfrú ESB til að ná úr honum mesta embættismanna hrollinum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.3.2008 | 00:57
Ríkastir og fátækastir, hamingjusamastir og þunglyndastir
Íslendingar vinna allra þjóða mest. Haft var eftir Pétri Gunnarssyni að Frakkar vilji hafa stuttan vinnudag til að hafa sem mestan tíma til að njóta lífsins. Íslendingar geti hinsvegar ekki leyft sér að njóta lífsins af því að það gefst ekki tími frá vinnunni. Á endanum er þetta spurning um hugarástand og hvers virði öll þessi efnislegu gæði eru sem við söfnum að okkur. Allar jólaseríurnar, stóru jepparnir, tölvurnar, flatskjáirnir, hestakerrurnar, fermetrarnir....
Eitt er víst að lítið svigrúm er hjá landsmönnum að bæta á sig vinnustundum. Það er í aðra röndina fyndið að skynja þá hröðu niðursveiflu sem að er að eiga sér stað núna frá áramótum. Við sem vorum að kaupa upp Danmörku fyrir nokkrum mánuðum og fjárfestarnir flugu jafnt austur og vestur í einkaþotunum. Þó það þrengist að á flestum sviðum þá eru skuldir heimilana alvarlegasta vandamálið. Þar þarf að finna bestu leiðir. Til dæmis verður ríkið að gefa eftir hluta af álagningu á eldsneyti.
Íslendingar skulda mest í heimi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.3.2008 | 17:13
Sunnudagslög
Sum lög fá tiltekinn sess og tengjast tilteknum minningum, stöðum, fólki, tímabilum. Það eru tvö lög sem að ég tengi við það að dansa með synina unga í fanginu. Norræn lög sem eru blanda af þjóðlagastemmingu og poppi. Eru hugljúf og notaleg. Eldri sonurinn fékk oft sveiflu undir laginu Eg Komme með Björn Eidsvåg, en sá litli hefur fengið pabbasveiflu undir laginu Vem ved með Lisu Ekdahl. Sá myndskeið með þessu lagi hjá henni Ingu Maríu og stel hugmyndinni að setja það á bloggið.
Dægurmál | Breytt 13.3.2008 kl. 22:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2008 | 10:21
Á ég að gjalda þjóðrembunnar?
Hinn mikli áhugi almennings á þátttöku í samruna Evrópu og krafan um að taka upp sterkan gjaldmiðil og að búa við eðlileg vaxtakjör fer mjög svo í taugarnar á þeim sem vilja færa miklar fjárhagslegar fórnir á altari þjóðrembu og sjálfstæðis Davíðs Oddssonar. Hvort er líklegra að ákvarðanir um stýrivexti séu teknar út frá því sjónarhorni að hlaða undir bankana eða að tryggja hag íslenskra heimila?
Árni Johnsen varð pirraður á þingi í vikunni og sagðist vilja frið frá bloggurum sem væru að gera lítið úr krónunni. Björn Bjarnason vill í Fréttablaðinu í dag að stefnumótun byggi á skýrslu hans um tengsl Íslands og Evrópu. Allt annað sé fals. Króna og Seðlabanki séu tæki hagstjórnarinnar. Félagi Bjarni Harðarson vill helst banna auglýsingar Allianz sem benda fólki á með auglýsingum að ávöxtun í sparnaðarleiðum með evrum sé betri en sparnaður með krónum.
Þetta minnir mig á að fyrir rúmu ári tók ég myntkörfulán til húsakaupa. Frjálsi fjárfestingabankinn braut ísinn en aðrir bankar upplýstu fólk ekki um þessi tækifæri af því að þeir högnusðust meira á verðtryggðum hávaxtalánum í krónum. Helsti ókostur lántöku í erlendum gjaldmiðli er gengisáhættan. Ég met stöðuna þannig að mitt stærsta hagsmunamál í komandi kjarasamningum kennara og ríkis sé að geta fengið launin greidd í evrum. Þá losna ég við gengisáhættuna.
Seðlabankinn virðist ekki vera að hugsa um hag heimilanna í landinu. Sama gildir um þetta upphafna sjálfstæðistal að það endar oftar en ekki í að setja upp hindranir á fólk og fyrirtæki að nýta sér hagræði af tengslum við stærri efnahgsheild. Banna átti bönkum að gera upp í evrum en slíkt dregið til baka. Nú hefur ASÍ og SA samið um heimildina til að borga laun í evrum, þó slíkt sé ekki komið til framkvæmda. Þingmenn og opinberar stofnanir mega ekki vinna gegn möguleikum fólks og fyrirtækja til að nýta þau hagstjórnartæki sem þau hafa.
Á meðan að Seðlabankinn er á þeim nótum sem hann spilar, þá er hann sjálfstætt vandamál þjóðarinnar en leggur henni ekki til lausnir eða tækifæri.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.3.2008 kl. 00:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
8.3.2008 | 00:42
Næstum bestastir ...
Lið Borgarholtsskóla í Gettu betur, "strákarnir okkar" hafa staðið sig frábærlega í keppninni og áttu góðan möguleika að vinna MR í kvöld ef að þeir hefðu verið búnir að stúdera örlítið betur íslenska fossafræði.
Skólinn sigraði keppnina fyrir nokkrum árum og ánægjulegt að hann blandi sér endurtekið í toppbaráttuna. Sigurður sögukennari á hrós skilið fyrir þjálfun liðsins.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 22:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.3.2008 | 00:44
Bingó!
Hann kyssti hana eða trúlega var það hún sem kyssti hann. Mælti milli kossa að það væri þvagkeimur af ilmvatninu hennar. Vakti ekki lukku. En í lok þáttar náði hann að stynja upp bónorðinu og sagðist ekki geta lifað án hennar. Hún sagði "yes" og hoppaði í fang hans og fætur hennar dingluði í lausu lofti, fullir af kæti. Hvílíkur tímamótaþáttur!
Eitt af því fáa sem að ég festist við í sjónvarpi, fyrir utan fréttatengt efni og fræðsluefni, er Doktor Martín. Góðir þættir. Hann er óborganlegur sauður í mannlegum samskiptum. Kennslukonan Louisa hefur allt sem hann skortir, ástúðleg við allt og alla. Í hverjum þætti sem maður er búin að horfa á hefur verið beðið eftir því að eitthvað myndi gerast þeirra á milli. Loksins, loksins! - Will they live happily ever after?
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 00:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.3.2008 | 23:46
Blóm vikunnar Blóðberg
Ferðalög | Breytt 13.3.2008 kl. 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)