Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Maðurinn er óður!

Þetta myndskeið var mér bent á að væri á YouTube. Svo virðist sem að karldansarinn hafi mjög óheflaðan dansstíl, enda áður en hann fór til London að læra meira í orkuríkum og frjálsum þrekdönsum. Þannig að "ungar jafnt sem aldraðar" mega vara sig, ekki síst ef Raggi Bjarna er í góðri sveiflu.


Íslenskur landbúnaður

 Kornrækt

Á Búnaðarþingi minnti forsetinn okkur á að við verðum að hafa það hugfast að vera sjálfum okkur næg sem þjóð á eylandi í matvælaframleiðslu. Það er mikilvægt að viðhalda öflugri fagvitund og verkmenningu sem tengist landbúnaði. Þetta er verðugur útgangspunktur nú þegar ljóst er að framundan er aukið frelsi á innflutningi matvæla.

Þó skilningur eigi að ríkja í landinu á mikilvægi matvælaiðnaðar, þá verður að gera þá kröfu til landbúnaðar að þar ríki hagsýni, metnaður, frumkvæði og sköpun. Almennt eru gallar kvótakerfis fólgnir í mikilli miðstýringu og það virkar lamandi á rekstrarlega hagræðingu og gerjun. Erfitt fyrir nýliðun í stétt bænda. Það gerir engum gott að borga styrki til framleiðslu á vöru sem að ekki selst.

Eðlilegast er að borga búsetutengda þróunarstyrki til að ná því markmiði að halda landinu í byggð, frekar en tengja slíkan stuðning eingöngu við framleiðslu. Spennandi er að sjá aukinn áhuga á að bú geti framleitt og selt afurðir sínar beint til neytenda. Það opnar á farveg fyrir aukna fjölbreyni og vöruþróun. Slíkt mun gefa af sér nýja verkmenningu, ríkulegra mannlíf til sveita og styðja við ferðaþjónustu.

Á þeim hundruðum ferða sem ég hef farið um Suðurland á leiðinni austur í Lón þá hefur mér alltaf þótt gaman að horfa í átt til Þorvaldseyrar undir Eyjafjöllum. Glæsilegt bæjarstæði og umhverfi með myndarlegum búskap, kornrækt og virkjun. Ég þekki ekki ábúendur, en finnst að starf þeirra geti verið öðrum fyrirmynd að glæsileika og frumkvöðlastarfi í landbúnaði.


Kraftur ljóss og lífs

Andoxun4

Litarefni plantna gegna mikilvægu hlutverki í fyrstu skrefum fæðukeðjunnar bæði við það að vernda vefi plöntunnar gegn óæskilegri geislun og að beisla orku sólarljóssins. Síðustu tvo áratugi hafa rannsóknir einnig sýnt hversu holl þau eru fyrir vefi mannslíkamans í hlutverki sínu sem andoxunarefni. Í stuttu máli má segja að oxun á fitusýrum eða erfðaefni geti haft í för með sér ýmis óæskileg áhrif á líkamsstarfsemina. Þannig geta skemmdir innan á æðaþeli verið fyrstu skref æðakölkunar eða stökkbreytingar á erfðaefni leitt til krabbameinsmyndunar. Geislun og hvarfgjörn efni (sindurefni) eru helstu ástæður oxunar lífrænna efna. Reykingar og mikið brasaður matur getur aukið magn sindurefna, sem meðal annars stuðla að súrefnisatóm í líkamanum verða í óstöðugu ástandi í líkamanum og hafa tilhneigingu til að hvarfast við vefi líkamans og meðal annars innleiða ótímabæra öldrun. Andoxunarefni gegna hlutverki slökkvitækja sem að slá á og draga úr þessum ferlum.

Litarefni plantna skiptast í tvo meginflokka. Annarsvegar eru fituleysanleg litarefni karotenóíðar sem finnast einkum í grænmeti, eins og papriku, tómötum og gulrótum. Það andoxunarefni sem fyrst fékk athygli og er mest rannsakað er beta-karoten en það er í miklu magni í gulrótum. Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á vernd og hollustu beta-karotens. Hinn meginflokkur litarefna er vatnsleysanlegur og nefnist flavóníðar og finnst einkum í litsterkum ávöxtum og berjum t.d. appelsínum, kíví, jarðaberjum og bláberjum. Þessir tveir flokkar sjá því um vernd gegn geislun og sindurefnum í mismunandi svæðum líkamans. Þau vatnsleysanlegu gegna mikilvægu hlutverki í blóði og vessum á meðan að hin fituleysanlegu gegna mikilvægara hlutverki við að vernda himnur og dýpra í vefjum. E- vítamín og C-vítamín gefa einnig vernd sem andoxunarefni í sitthvorum hlutanum, vatnsleysanlega og fituleysanlega umhverfinu. Nú hafa verið greind yfir 4000 litarefni í náttúrunni og að þó þau hafi öll það sameiginlegt að miðla krafti lífs og ljóss, þá eru þau líka breytilegur flokkur efna og hvert með sína virkni.

Í matvælaefnafræði fyrir tæpum 20 árum valdi ég að skrifa um áhrif karotenefna sem næringarefni til verndar gegn ýmsum krabbameinum. Það var áhugavert. Síðan í framhaldsáfanga í næringarfræði þá vann ég stutta samantekt með Ingu Þórs prófessor í næringarfræði um mataræði hjartasjúklinga. Þá var þetta algjörlega nýtt svið í næringarfræði og yfirleitt ekki tekið inn í ráðleggingar. Finnst gaman að hugsa til þess nú í dag þegar hollusta þessara efna er orðin viðurkennd. Það er ef til vill engin tilviljun að í dæmigerðum amerískum morgunverði með steiktu beikoni, pulsum og eggi er yfirleitt drukkinn appelsínusafi. Hið brasaða kjötmeti sem kemur af pönnunni er uppfullt af sindurefnum sem tilbúin eru til að ráðast á líkamann, ef ávaxtasafinn myndi ekki slökkva bálið. Þannig ætti reykingamaðurinn að vernda vefi sína með því að fá sér gulrætur, salatblað og ávaxtasafa eftir að hann er búin að láta reykmettað eitrið flæða ofan í lungnarásirnar. Það er áhugavert að spá í hverjar eru þarfir hvers og eins. Ráðleggingar ganga oft út á um 5 stykki af ávöxtum og grænmeti á dag. Það er líka áhugavert að hugsa um það að litarefni plantna myndast í mismiklu magni eftir því hversu geislunin (t.d. útfjólublá) er mikil inn í vistkerfið og því gæti verið æskilegt að borða fituleysanlegu litarefnin úr manns eigin umhverfi til að gefa hlutfallslega rétta vörn.

Ber


Hvannadalshnjúkur (2110 m) -> 26. apríl 2008

Hnjúkur1Hnjúkur

ATORKA mannrækt & útivist (ég) er að skipuleggja hópferð á Hvannadalshnjúk í samvinnu við Jökul Bergmann fjallaleiðsögumann. Farið er seinni part föstudags austur í Öræfi og gist tvær nætur. Snemma morguns 26. apríl er lagt af stað á hnjúkinn og áætlað að gangan taki um 12 tíma.

Að ganga á Hvannadalshnjúk er gott að setja sem lokapunkt í áfanga að koma sér í form eða sem staðfestingu á því að maður sé í góðri þjálfun. Gangan sjálf er ekki upp mikinn bratta eða tæknilega erfið. Hún er hinsvegar 25 km og hækkun yfir 2000 m.

Meginviðmið er því að halda góðri samfellu í göngunni, láta úthald og seiglu ljúka áfanganum. Mæta síðan til byggða, njóta góðrar sameiginlegrar máltíðar og ánægjulegrar kvöldstundar. Lagt er af stað aftur til Reykjavíkur á sunnudagsmorgni.

Allir eru velkomnir að slást í hópinn og ef þið vitið af fjallageitum, þá er vel þegið að láta boðin ganga. Uppl. man@man.is


Ánægjulegt áreiti

 

American girl in Italy

Línan milli ánægjulegs daðurs og óþægilegs áreitis getur verið hárfín. Ljósmyndin "Amerísk stúlka á Ítalíu" undirstrikar þetta flókna samspil kynjanna. Hún hefur oftast verið notuð til að setja í neikvætt samhengi það áreiti sem að konur verða fyrir. Rætt er við amerísku stúlkuna á myndinni í Morgunblaðinu í dag. Hún segist hafa skemmt sér konunglega við þessa athygli. Það er því eins gott að karlarnir haldi áfram að veita konum athygli, en lesa aðstæðurnar rétt. Hvað sé viðeigandi og hvað ekki. Sumar konur myndu vilja slíka athygli en aðrar upplifðu slíkt óþægilegt og í ætt við ofbeldi. Mannlífið er margslungið. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband