Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Girðingar og gaddavír, gyðjur og góðmennska

Ár er síðan ég gekk á vit frelsisgyðjunnar og fjarlægði girðingu og gaddavír sem sett hafði verið um skógarlund í Álafosskvosinni. Tilefnið voru framkvæmdir við það sem hét samkvæmt nýirði í skipulagsfræðum "lagnavegur". Eina sem bar gott skynbragð listrænt framlag gjörningsins var María Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur og leiklistarfrömuður í Mosfellsbæ til margra ára. Hún hafði fengið mig áratug áður með sem leikara í aukahlutverki við kvikmyndina Maríu, sem var um þýska konu sem flyst til Íslands eftir stríðið. Aðalhlutverk var í höndum Barböru Auer. Mikil dama og fegurðardís, þó hún væri áreiðanlega líka þýskur harðjaxl undir niðri. Samkvæmt handriti átti ég að vera hinn dæmigerði íslenski ruddi sem að ryður þessari þýsku konu um koll á horni Pósthússtrætis og Aðalstrætis.

Maria_plagatÞarna var búið að loka fyrir alla umferð fyrir þetta tiltölulega litla atriði, tökuvélarnar á teinum og krönum. Það sem að mér var efst í huga var hversu falleg leikkonan væri og var það gjörsmlega fyrirmunað að lifa mig inn í þetta hlutverk að ég ætti að vera með ruðning og ruddaskap við slíka þokkagyðju, þar sem við kæmum úr sitthvorri áttinni á götuhorninu. Eftir að búið var að taka atriðið í 2-3 skipti þá segir Barbara í skipandi tóni og ber sér á brjóst; "You have to come more into me!". Eftir þessa hvatningu gerðist ég mjög ákveðinn í framgöngu og æddi áfram og lenti beint framan á hana og skammaðist yfir því hvað hún væri að þvælast fyrir. Heyrði svo í framhaldi "yeess!" frá leikkonunni. Stundum er nauðsynlegt að átta sig á því að kringumstæður bjóða ekki upp á huggulegt teboð.

Ég fékk sem sagt hrós frá leiklistardrottningu Mosfellsbæjar fyrir það að vera svona afgerandi með girðingarnar á þessum vordegi fyrir ári síðan, af því að hún vissi að ég gæti stundum verið huglaus gunga fyrir framan upptökuvélarnar. Henni fannst ég hafa tekið framförum. En á plakati með kvikmyndinni Maríu sem er ætíð notað til að kynna kvikmyndina þá er ég einmitt vinstra megin við Barböru Auer, standandi á spjalli við annan mann þar sem Óli blaðasali kallaði ætíð "Dagblaðið - Vísir", "Dagblaðið - Vísir" í mínum fyrstu minningum úr Austurstræti.


Nýtt í spilunum

ReykjavikÞað er ný staða að það sé rætt sem raunhæfur möguleiki að Samfylkingin gæti myndað meirihluta í Reykjavík. Þó enn sé langt í kosningar þá verður það að teljast útilokað miðað við allt það klúður, sundurlyndi og óheilindi sem einkennt hefur Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík að hann nái meirihluta í borginni í næstu kosningum.

Það þarf mikið að gerast til þess að Vinstri grænir og Samfylking sigli ekki góðum byr í næstu kosningum. Þar ríkir sá skilningur að þessir tveir flokkar séu samherjar í pólitík undir merkjum jöfnuðar og réttlætis. Þannig er það áhugavert til lengri tíma litið að það verði föst venja að vinstri flokkarnir gangi til samstarfs, líkt og hefur tíðkast á öðrum Norðurlöndum. Þó sitthvor flokkurinn noti ólík krydd við matreiðsluna.

DagurNiðurstöður könnunarinnar er sterk traustsyfirlýsing til Dags B. Eggertssonar. Á sama tíma er hún vantraust á klækjastjórnmál Sjálfstæðisflokksins og sýnir það mat kjósenda að engin þörf sé fyrir eins manns flokka sem selja sig hæstbjóðenda.


mbl.is Fylgi Sjálfstæðisflokks minnkar mikið í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumar í Mosó

Kirsuberjablóm

Það er randafluga á sveimi milli bleiku blómanna á kirsuberjatrénu í garðinum. Tréð er um það bil hálfblómgað. Í Washington innsiglar blómgun trjánna sumarkomuna í hugum fólks. Á síðasta ári var tréð í hámarksblóma 12. maí. Miðað er við að 70% blómanna séu útsprungin. Þá hafði þetta merki sumarkomunnar látið ljós sitt skína 5. apríl í höfuðborg Bandaríkjanna. Það ætti að vera búið að gefa út formlega komu sumarsins núna fyrir helgi hér á Mosfellsbæjarhálendinu. Það er sem sagt nokkrum dögum seinna sumarið í ár heldur en í fyrra.

Í maí hef ég verið síðustu fjögur árin með göngur á fellin umhverfis Mosfellsbæ. En áður hafði ég merkt hringleiðir á Helgafell, Reykjafell, Reykjaborg og Úlfarsfell í samvinnu við bæinn og landeigendur. Nú á fimmtudag byrja hinar árlegu göngur á fellin. Byrjunarpunktur hefur verið Álafosskvosin og verður svo enn, þó hún sé í sárum. Lagt er af stað klukkan fimm (17:00). Fyrsta fellið sem farið verður á 15. maí  er Helgafell, næsta þriðjudag 20. maí verður farið á Reykjafell, fimmtudaginn 22. maí á Reykjaborg og þriðjudaginn 27. maí verður gengið á Úlfarsfell. Allir eru velkomnir í þessar síðdegisgöngur.

Fellin voru á sínum tíma merkt í litum regnbogans, með rauðum, gulum, grænum og bláum stikum. Merkingin verður endurnýjuð samhliða gönguferðunum. Það er unnið í samvinnu við útivistarhóp Varmársamtakanna. Þar er komin grænn kjarni vaskra meyja og pilta sem vill leggja uppbyggingu útivistarmöguleika í bæjarfélaginu lið. Leiðirnar á fellin eru eitt af því sem gefur Mosfellsbæ sérstöðu og fellin hafa mikla möguleika til að verða aðdráttarafl til útivistar fyrir almenning af höfuðborgarsvæðinu.


Hefurðu gengið yfir brúna?

Eskifellsbrú

Hengibrúin við Eskifell, Stafafelli í Lóni er 95 metrar að lengd og er sennilega lengsta göngubrú landsins lögð í einu hafi. Eins og allir vita þá er fátt mikilvægara í markaðsetningu hér á landi en nota hæstu stig lýsingarorða, hverjir eru stærstir og mestir. Brúin var vígð 2004 en hugmyndina setti ég fram á skipulagsfundi sem haldin var á Hótel Höfn 1993. Með byggingu brúarinnar varð Stafafell að einu samfelldu útivistar- og verndarsvæði.

Upphaflega stóð til að undir brúnni væru þrír stöplar og átti ég nokkra fundi með Einari Hafliðasyni hjá Vegagerðinni. Síðan fór hann að spá í möguleika á byggingu hengibrúar. Í þeim tilgangi var boðað til fundar með Baldvin Einarssyni brúarverkfræðingi. Hann sagði íhugull; "Það er alveg hægt að hanna og byggja hengibrú, en svo er það spurning hvort einhver þorir að ganga yfir hana". Fannst það galli ef svo færi, en Baldvin hannaði þetta flotta mannvirki, sem að er stöðug og góð yfirferðar.

Fjármögnun úr ríkisssjóði til byggingarinnar tryggði Hjörleifur Guttormsson fyrrum ráðherra og þingmaður. Ólga var í sumum Vegagerðarmönnum sem vilja helst ekki leggja út í brúargerð nema að eftir henni rúlli gúmmídekk. Einnig voru sumir að hneykslast á kostnaði og man ég eftir að hitta á smá hóp á fjórum jeppum sem að formæltu slíkri eyðslu í göngufólk. Benti þeim á að það væri afstætt hvað væri dýrt. Brúin hafi kostað álíka mikið og jepparnir fjórir sem þeir komu á til að skoða brúnna.

Ég vona að á þessu sumri og næstu árum verði brúin mikið notuð af göngufólki. Þá þarf engin að vera í vafa um að stefnufesta okkar Hjörleifs í þessu máli hafi verið rétt. Þar átti líka Gísli Gíslason landslagsarkitekt sinn hlut, en hann hafði unnið stefnumótun fyrir jörðina í útivistar og ferðamálum. 


Esja skal það vera

FolaldiðFyrir rúmri viku fæddist folald í sveitinni. Um miðjan maí í fyrra var ég með stóðhestsefnið mitt og móðurina á húsi í Víðinesi hér hinum megin við Leirvoginn. Ákvað að leyfa eitt hopp og sjá til hvort merin yrði fylfull. 

Formæður og forfeður í tvo ættliði eru vindótt og álótt með grunnlitinn bleikan, móleitan eða rauðan. Folaldið er rauðleitt, en virðist ljósara á tagl og fax. Þannig að ég hef trú á að það sé vindótt.

Þetta er merfolald og hef ég haft fyrir reglu að láta merarnar heita fjögurra stafa nöfnum sem enda á -a t.d. hét amman Elja og móðirin Hæra. Því er við hæfi að þessi sem getin er við rætur fjallsins Esju beri nafn þess.

Helga Davids mágkona á Stafafelli tók myndina, en móðirin er álengdar að éta hey með sinn vindótta faxlubba.


Aumingja karlarnir

Hún; "Guðmundur í Byrginu fékk þriggja ára dóm!" Hann; "Frábært, það var gott!" Á þennan veg voru samræður vinnufélaga í vikunni. Viku sem var full af ofbeldi og kynlífi. Hrollvekjandi umræða þar sem karlar hafa bæði orðið uppvísir og grunaðir um beitingu valds og styrks til að koma fram vilja sínum. Við fáum nákvæmar lýsingar af allri atburðarás. Hversu hátt var til lofts í kompunni í Austurríki, ferilskrá háskólakennara í Reykjavík, salernisferðum hjá kórstúlkum á Selfossi og kristilegu sáðláti í Grímsnesinu. Hvað eigum við að gera með allar þessar upplýsingar sem menga og eitra, einar og sér? Flestir nota þær til að dæma. Þannig sogumst við með stemmingunni og förum að gleðjast yfir refsingunni líkt og tíðkast í Bandaríkjunum, þegar fólk hópast saman á aftökustað og fagnar þegar tilkynnt er að dauðarefsingu hafi verið fullnægt.

Viðkvæði konu minnar í þessu regni frétta af misbeitingu karla hefur verið; "Ég vorkenni körlum". Vissulega eru hliðarnar á sjúkleikanum sem þarna birtist tvær. Mennirnir eru aumingjar að koma fram með þeim hætti sem þeir hafa gert, en þeim er líka vorkunn að ná ekki að gegna sínum störfum og hlutverkum án þess að kynorka eða kynlífsfíkn þeirra leiði til ævarandi útskúfunar úr samfélaginu. Veitir þessi mikla umræða sem orðið hefur um þessi mál okkur einhvern aukinn skilning á því hvað fær einstaklinga til að ganga fram með dýrslegum hætti á rétt og heilbrigði annara einstaklinga? Í fyrra var frétt af stork eða einhverjum álíka stórum fugli sem var orðinn það ruglaður í kynhegðun sinni að hann kom á hverju vori að tiltekinni bensíndælu og byrjaði þar æxlunardans sinn. Talið var að einhver hljóð í dælunni kæmu honum til. Stóðhesturinn minn reynir að komast upp á alla aðra hesta óháð kyni, aldri, stétt eða stöðu. Maðurinn hefur náskyldan heila og hormón.

Þegar ég var að byrja í sálfræðinámi þá var ég eitt sinn að ræða við móður mína um kenningar Sigmund Freud. Sagði henni að hann væri helst gagnrýndur fyrir að hugmyndir hans gengju út á að lífsfyllling einstaklingsins tengdist að mestu kynlífi. En mamma gamla sló tromp skynseminnar úr hendi mér og sagði; "Er það ekki rétt?". Þetta er allavega einn af veigameiri þáttum lífsins. Náttúran úthlutar þessu hlutverki til karla líkt og stóðhesta að koma frjókornum sínum til kvenkynsins. Það hvernig frumorkan og æxlunin finnur sér farveg er stór hluti af gæfu eða ógæfu fólks. Sumum mistekst að láta hegðun sína falla að siðferðilegum og félagslegum viðmiðum. Umræðan má ekki verða svo þvinguð og einsleit að við förum að tengja kynlíf fyrst og síðast við synd og skömm. Þó samúð okkar og skilningur liggi hjá fórnarlömbunum, þá þurfum við að vita hvers eðlis brenglunin er hjá aumingja körlunum. 


Helgarlagið Magalenha

Samba er þjóðardans Brasilíu og þar blandast áhrif frá Portúgal, Afríku og innfæddum indjánum. Portúgalir vildu á nýlendutímanum nýta hlýtt loftslag landsins til akuryrkju meðal annars framleiðslu á sykri og kaffi. Innfæddir gengust ekki undir þessi skilyrði og voru að mestu þurrkaðir út með hervaldi og sjúkdómum hvíta mannsins. Í stað þeirra fluttu portúgalir svertingja til að vinna á ökrunum. Út úr þessum suðupotti kynþáttablöndunar varð til Brasilísk menning. Dansinn er í hugum fólks nátengdur kjötkveðjuhátíðinni í Ríó og víðar um landið.

Einn frægasti tónlistarmaður Brasilíu er Sergíó Mendes en hann ætlaði sér ungur að verða klassískur píanóleikari, en varð snemma fyrir jazz áhrifum og lenti inn í upphafi bossa nova tónlistar í Brazilíu, sem að má segja að sé samba undir jazz áhrifum. Mendez spilaði með mörgum bandarískum tónlistarmönnum bæði í Brasilíu og Bandaríkjunum, þar á meðal iðulega með Herb Alpert og síðar með Stevie Wonder. Þekktasti smellur hans með hljómsveit sinni Brasil 66 var Mas Que Nada sem að var endurútgefin 2006 með Black Eyed Peas.  Þekktasta lag hans flutt af öðrum er trúlega  I´m never gonna let you go.

Látum lag hans Magalenha með hljómsveitinni Elektra vera helgarlagið.

 


Ný stjórn Varmársamtakanna

Í gærkvöldi var haldinn sérlega vel heppnaður framhalds aðalfundur Varmársamtakanna. Hann hófst á kynningu arkitekta frá Batteríinu arkitektastofu, sem hafa unnið að miðbæjarskipulagi Mosfellsbæjar. Um hugmyndirnar mynduðust frjóar umræður. Arkitektar og fundargestir voru sammála um mikilvægi slíkra opinna samskipta í leit að bestu lausnum. Það má ekki vera búið að hníta alla hnúta svo að íbúarnir geti ekki haft áhrif. Þannig að þeir standi frammi fyrir orðnum hlut. Þá verður miðbærinn ekki sá miðpunktur mannlífs sem hann á að vera.

Fyrsta tilfinning mín er að þarna sé verið að prjóna í kringum hagsmuni og hús sem eru til staðar og út úr því komi mátulega spennandi heild. Mikilvægt er að hafa þor til að vera djarfari í hugmyndavinnunni og hugsanlega kaupa upp og fjarlægja eitthvað af þeim húsum sem að nú eru í miðbænum. En það er erfitt fyrir einstakling út í bæ að matreiða betri lausnir. Það ætti að vera meginviðmið að bjóða upp á nokkra valmöguleika til kynningar. Þær forsendur sem að bæjarstjórn virðist hafa gefið arkitektastofunni eru það niðurnjörfaðar að út úr vinnu fagfólksins kemur ekki nógu mikið af spennandi hugmyndum.

StjornVS

Ný stjórn Varmársamtakanna var kosin á fundinum, en í henni sitja Sigrún Pálsdóttir og Gunnlaugur Ólafsson áfram úr fyrri stjórn, en ný koma í stjórn Kolfinna Baldvinsdóttir, Ólafur Ragnarsson og Páll Kristjánsson. Varamenn eru Kristín Pálsdóttir og Marta Guðjónsdóttir. Fundarmenn voru á fjórða tuginn sem að verður að teljast gott miðað við það öldurót og andstrymi sem samtökin hafa mátt búa við. Mikill samhugur, eindrægni og ánægja ríkti á fundinum. Mikilvægt er fyrir samtökin að vera áfram kröftug rödd umhverfisverndar og íbúalýðræðis.

Þau eiga án efa eftir að vera mótandi afl í hefðum og mannlífi Mosfellsbæjar. Fjölbreytileg verkefni og hópastarf eru framundan á vegum samtakanna. Ánægjulegt er að fá sem flesta til þátttöku í þessum opna og lýðræðislega vettvangi umræðu. Kærleikurinn, flæðið, vitundin og virðingin fyrir verðmætum mun sigra að lokum.


Þekkirðu vélstjórann sem varð lítil hafmeyja?

Þessi maður hér á myndinni var í gönguferð hjá mér fyrir nokkrum árum. Hann hafði verið í ein 30 ár vélstjóri hjá Eimskip en breyttist þarna á fögrum sólardegi í hafmeyju við fossinn Dynjanda í Víðidalsá, Stafafelli í Lóni.

Man ekki hvað hann heitir, en hefði gaman af að senda honum þessa mynd.


Aftur appelsínugulur

Það er gaman að sjá að símafyrirtæki undir merkinu Tal er komið aftur á markaðinn. Þar hafa sameinast fyrirtækin Sko (áður BTnet) og  Hive. Þau hafa haft áhrif til verulegrar lækkunar á farsímamarkaði og nettengingum. Hef verið með nettengingu með ótakmörkuðu niðurhali og hröðum gagnaflutningi á 3.900 kr. sem voru og eru ein bestu kjörin. Nú hafa þeir bætt við heimasíma og gemsapakka fyrir 1000 kr. í viðbót. Frítt er að hringja milli allra heimasíma í þessum pakka og frítt í þrjá vini úr gemsa. Bíður einhver betur?

Fannst Tal vera flott og ferskt fyrirtæki undir forystu Þórólfs Árnasonar á sínum tíma. Var þar með gemsann og varð hálffúll þegar þessu var breytt í Og Vodafone. Appelsínuguli liturinn innsiglar síðan ímynd ferskleika og framfara. Hef væntingar til þessa nyja fyrirtækis og megi tilkoma þess verða neytendum til heilla.

Tal


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband