Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Sóldýrkendur bænheyrðir

Fjöldi ferðamanna var farinn að örvænta um ferðir sínar til sólarstrandar, þegar við komum hér til Mallorca seinnihluta dags í gær. Seinasta vika hefur einkennst af rigningu. Daman í móttökunni sagði að við skyldum öll biðja fyrir sólarkomunni að morgni. Eftir gott flug og góðan nætursvefn, þá blasti bláhiminn við með hlýindum og frískandi golu.

Ekki spillir fyrir að við innganginn hér blakta fánar Svíþjóðar og Evrópusambandsins. Minnir okkur á samvinnu meðal norrænna þjóða og þjóða í áfunni allri.

                                             Bestu kveðjur úr suðrænni sól  -  G

 

PS  Ég hafði áform um að fara á öll fjöll hér, finna reiðhjólaleigur o.fl. En nú ætla ég bara að vera latur og fara daglega í nudd. Svo verð ég að bæta úr þessu með bændabrúnkuna (allt hvítt nema andlit og hendur). Get auðvitað fengið brúnkukrem hjá unglingnum.

Mallorca StröndMallorca Hjólvagn

Mallorca ÍsbarinnMallorca Nudd2 Gulli

Mallorca Bræður DómkirkjaMallorca Hestvagn3

Mallorca Dómkirkja InniMallorca Gamli sorrý brúni

Mallorca Silfurdís og ChaplinMallorca Trúður Magnús

Mallorca LangflottastiMallorca Magnús í bardaga

Mallorca VeitingarMallorca Bræður í Deja

Mallorca Hús í DejaMallorca Sauðir Vesturströnd

Mallorca Skógrækt í SollerMallorca Magnús í Soller

Mallorca Helga AgrotourismeMallorca Helga Magnús Undraskógur

Mallorca Áveitur MáraMallorca Þak

Mallorca Drekahellar1Mallorca Drekahellar2

Mallorca Night FeverMallorca On Stage

Mallorca Viva GarðurMallorca Viva Kyrrðarsvæði

Mallorca Na BurguesaMallorca NA Chief Waiters

Mallorca NA Endir


Útþynning á hlutverki Skipulagsstofnunar

Ljóst er að öfl í þessu samfélagi hafa breytt eðli Skipulagsstofnunar úr því að vera úrskurðaraðili í að vera umsagnaraðili varðandi framkvæmd reglna og laga. Nú virðast orkufyrirtækin ætla að ganga enn lengra og vilja hindra að Skipulagsstofnun setji fram álit eða afstöðu til umhverfisáhrifa.

Það er sterk tilhneiging hjá verktökum, eigendum fjármagns og þeirra pólitísku sendisveinum að innleiða stemmingu þöggunar. Engum er ætlað að hafa skoðun, því niðurstaðan á að vera fyrirfram gefin. Sveitarfélögin sem handhafar skipulagsvalds þurfa sterkt aðhald og leiðbeiningu frá utanaðkomandi fagstofun, eins og Skipulagsstofnun.

Það er aumkunarvert hlutskipti ef stofnunni er eingöngu ætlað að fylgjast með leturstærð og skilafresti á gögnum en sé meinað að tjá sig um innihald þeirra og gæði.


mbl.is Segist ekki hafa hafnað Bitruvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á toppinn

Við rukum á laugardag með litlum fyrirvara níu manna hópur á tveimur bílum austur Öræfi að ljúka því verkefni að fara á Hvannadalshnjúk. Sum okkar höfðu lent í nokkrum hremmingum á jökli fyrir mánuði síðan. Íslenskir fjallaleiðsögumenn eiga hrós skilið hvernig þeir tóku á því máli og buðu okkur nú, þeim sem vildu slá til, fimm pláss.

Spáin var á þann veg að sunnudagur yrði einn besti dagur sumarsins til fjalla- og jöklaferða. Það gekk eftir. Við fengum alveg frábært veður og allir náðu takmarkinu. Einar leiðsögumaður hélt vel utan um hópinn. Við vorum tæpa tólf tíma. Lagt var af stað snemma morguns.

Þeir sem voru staddir í hinum krítísku aðstæðum þann 26. apríl voru sammála um að besta aðferðin, fyrir heilun hugans, væri að fara aftur og sigrast á aðstæðum. Þær voru reyndar allt aðrar í gær. Sól, hlýindi og logn.

Gnjúpur-Hnjúkur

Lómagnúpur og Hvannadalshnjúkur eru skemmtilegar andstæður sitthvoru megin við Skeiðarársand

Tengja

Þegar komið var að jökulrönd græjaði Einar leiðsögumaður hópinn í línu

Að koma og fara

Hópur frá Askar Capital hafði farið af stað á miðnætti og var að koma niður, þegar við morgunhanarnir vorum að nálgast Hnjúkinn

Ísskoltur

Gin jökulsins blasir við hér og þar

Rest á hnjúk

Eftir "brekkuna endalausu" tekur við bratti seinasta spölin á hnjúkinn og þá voru settir á broddar og öxi höfð í hendi

Á topp-vef

Hópurinn sem fór upp í gær; Daði, Einar leiðsögumaður, Heiðdís, Magnús, Gunnlaugur, Kristberg, Snorri, Palli, Soffía, Sibba, David


Nýbúar, vesalingar og börn taka strætó

Jeppinn minn þykir ekki merkilegur pappír í flóru fjórhjólatrukka. Hann stendur sig þó þokkalega, en líkt og aðrir bílar þarf hann viðhald og á verkstæði af og til. Ein slík bæjarreisa á verkstæði var í dag. Ég spyr mennina í afgreiðslunni hvort þeir viti hvar sé styst að ná í strætó niður í bæ og hvað þeir séu númer. Eldri maðurinn glottir og það pískrar í honum. Lætur vita með líkamlegu táknmáli að þetta sé ekki góð spurning í mekka bílamenningar. Sá yngri segir að hann hafi nú ekki tekið strætó síðan hann var sextán ára. Eftir smá vandræðalega þögn, segir yngri maðurinn í léttari tón og með von í röddinni að viðeigandi lausn væri fundin; "Viltu ekki bara að ég hringi á leigubíl". Ég jánka því. Auðvitað var best að hann hringdi á leigubíl.

Leigubílstjórinn talar um hvað það séu margir farnir að hjóla um borgina og finnst það greinilega jákvætt og nefnir það sem eðlilega sjálfsbjargarviðleitni á tímum hækkandi orkuverðs. Ég er búin að vera þátttakandi í hjólað í vinnuna átakinu sem var að ljúka. Þar eru allir að hrósa hver öðrum. Sannfærðir um að hjólreiðar séu merki hreysti og dugnaðar. Ótrúlegt að mér hafi dottið í hug að fara í strætó í dag. Hann er náttúrulega bara fyrir þá sem eru of latir til að hjóla, nýbúa, vesalinga og börn sem geta ekki rekið eigin bíl. Aðalmálið er að senda réttu skilaboðin með farskjótanum, sem maður velur sér. Jeppa eða leigubíl. Fara svo á tyllidögum vel hjálmaður í réttu útivistarmerkjunum, á hjólinu í vinnuna. Þá er allt eins og það á að vera.


Litadýrð í Lóni

Litir og andstæður, colours and contrasts, eru einkunnarorð sem valin hafa verið til að lýsa náttúru Stafafells í Lóni. Myndin hér að ofan sýnir fólk að ganga upp úr Víðagili, en óvíða er meiri litadýrð. Fjölbreytilegir litir á útivistarfatnaði göngufólksins ná varla að slá út breytileikanum í litum steinanna. Líparítið er í mörgum tónum í nágrenni Kollumúla, en dýrð litanna er einnig mikil framar t.d. í Hvannagili.

Skriðþungi ESB lestarinnar

EvrópukaupmennHef haldið því fram að fólk og fyrirtæki muni taka frumkvæðið af stjórnmálamönnum í mótun næstu skrefa í Evrópumálum. Í dag birtast niðursöður úr skoðanakönnun meðal félagsmanna Sambands íslenskra stórkaupmanna í Fréttablaðinu.

Nálægt 70 prósent stórkaupmanna eru hlynntir því að taka upp evru sem gjaldmiðil í stað krónunnar. Tæplega 66 prósent félagsmanna telur að aðild að ESB yrði hagstæð fyrir fyrirtæki sitt. Rúmlega 65 prósent eru hlynnt aðildarviðræðum og tæp 57 prósent sögðust hlynnt aðild.

"Það má segja að þessi niðurstaða sé kall til stjórnvalda og við vonum að þeir skjóti ekki skollaeyrum við." segir Knútur Sigmarsson framkvæmdastjóri stórkaupmanna.

"Þetta er alveg í samræmi við það sem ég hef skynjað frá ýmsum fyrirtækjum sem eru ekki í FÍS. En þetta er þó nokkur breyting því innan þessa hóps var stuðningur við ESB frekar rýr fyrir nokkrum árum." segir Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

"Ég held að beggja megin séu menn búnir að fá sig algjörlega fullsadda af gengisfellingu og þessum háu vöxtum því það er verið að fórna svo miklu fyrir ekki neitt með því að viðhalda þessari peningastefnu sem við nú búum við," segir Vilhjálmur.

Samfylkingin er eini flokkurinn sem hefur stefnu sem tónar við vilja fólks og fyrirtækja. Framsókn reynir að stýra framhjá klofningi í fámennu liði sínu. Sjálfstæðisflokkurinn virðist halda að það sé nægjanlegt að Geir Harde og Björn Bjarnason gefi yfirlýsingar um málið. Vinstri grænir og Frjálslyndir virðast utan og ofan við alla rauntengda umræðu um þennan málaflokk.


Fell eða fjall?

Helgafell

Í dag halda áfram vorgöngur á fellin umhverfis Mosfellsbæ. Hef boðið upp á þetta, mér og vonandi öðrum til yndis og ánægju, síðastliðin fimm ár. Samhliða göngunum eru endurnýjaðar merkingar í samvinnu við Varmársamtökin. Farið var á Helgafell síðastliðinn fimmtudag og settar nýjar stikur á slóðinni sem við Haukur gamli á Helgafelli mörkuðum á sínum tíma á sólríkum vordegi.

Sveitarhöfðinginn var farinn að eldast og spurði ég hvort hann vildi fylgd til baka heim að bænum. Hann var snöggur til svars; "Nei, nei. Það væri líka ekki amalegt að deyja á svona fallegum degi, ef það væri kominn tími á það". Hann dó tveimur árum síðar. 

Komið er að göngu á Reykjafell, reyndar segja Reykjamenn að nafnið hafi farið vitlaust inn á kort og að það heiti Reykjafjall. Hér er því efni í sambærilegan ágreining og er í Mývatnssveit. En jafnvel þó að hægt væri að sýna fram á að örnefnið hafi haft viðskeytið fjall þá finnst mér ekkert nauðsynlegt að eltast við það. Landfræðilega er það frekar fell en fjall og við hæfi að það sé sett inn í sama flokk og hin.

Göngufólk hittist í Álafosskvos klukkan 17:15 og gert ráð fyrir að vera á röltinu í 2-3 tíma. Allir eru velkomnir. Myndin sýnir stærstan hluta af hópnum sem gekk á Helgafell síðastliðinn fimmtudag. Nú á fimmtudag er gengið á Reykjaborg og út á Vatnshorn.


Fegurst fjalla

null

Vestra-Horn með sínu þríklofna Brunnhorni finnst mér fegurst allra fjalla. Sagt er að hverjum þyki sinn fugl fagur og óneitanlega er ég ekki hlutlaus að hafa þetta sérstæða fjall sem útvörð fjallahrings í uppvexti og áralangri sumardvöl að Stafafelli í Lóni.

Fjallið er úr djúpbergi, gabbró og granófýr, sem hefur myndast undir jökli fyrir milljónum ára. Nú er það reisulegt fjall sem stendur upp úr landslaginu og er ásamt öðrum fjöllum þarna tákn um hið gríðarlega jarðrof vatns og vinda.


Lokuð Heimssýn

ÞröngsýnHeimssýnar bloggið hefur einungis birt einsleitar áróðursgreinar, en nú hefur verið stigið eitt skref til viðbótar til að vinna gegn lýðræðislegri og opinni umræðu. Síðan hefur nú verið lokuð fyrir athugasemdum og umræðu. Hvað er að óttast? Tilfinnningakreppa þeirra sem eru andsnúnir virkri þátttöku okkar í þeirri grunneiningu heimsþorpsins, sem við tilheyrum -Evrópu- fer vaxandi. Eftir margra ára umræðu í samfélaginu á þjóðinni ekki að vera treystandi til að stíga næstu skref.

Eflum og styrkjum lýðræðisvitund á Íslandi. Þar er verk að vinna til að festa slíkar hefðir inn í menningu okkar. Ákvarðanir og umræða um kúrsinn í Evrópumálum er ekki einkamál þeirra örfáu lokunarsinna, sem vilja hafa mannréttindi af kjósendum vegna sannfæringar um að þeir einir séu réttbornir eða réttkjörnir til að hafa vit fyrir fólkinu í landinu. Það er markmið þeirra í sjálfu sér að gera umræðu um þessi mál langdregna og ómarkvissa til að þreyta og áhugaleysi komi í málið.

Ef lítið er gert úr endurteknum skoðanakönnunum sem sýna vilja þjóðar, þá þarf greinilega að búa til möguleika að skila undirrituðum kjörseðlum. Við þurfum ekki heimild þingmanna til að kjósa um þetta mál. Tiltölulega auðvelt er að skipuleggja slíka kosningu, án aðkomu ríkis og þings. Áhugavert væri að mynda starfshóp um framkvæmd slíks afgerandi frumkvæðis sem ekki er hægt að lítilsvirða.


Íhaldið einangrast

Flokksræði ofar þjóðarvilja er útfærsla á stefnu Sjálfstæðisflokksins samkvæmt púlsmælingu í Valhöll í gærkvöldi. Áður hefur formaður Framsóknarflokksins lýst yfir þeirri skoðun að póstkosning meðal félagsmanna væri æskileg leið til að kanna hug þeirra til aðildarviðræðna. Félagsmenn móti stefnuna. Komið hefur fram að 2/3 hluti þjóðarinnar vill hefja aðildarviðræður við ESB og þar er hlutfall flokksmanna í Sjálfstæðisflokknum jafnvel hærra heldur en stuðningsmanna annarra flokka.

FálkiEinn öflugasti talsmaður Valhallarlínunnar í flokksræði er Hjörtur J. Guðmundsson sem hefur einstaklega lítið þol fyrir breytileika í skoðunum eða skilning á því að láta lýðræðislegt ferli ákvarða vegferð okkar í Evrópumálum. Setti inn athugasemd hjá honum fyrir nokkru síðan þar sem að hann hafði verið að tengja ESB við myrkur miðalda og í löngum orðum tengt slíka aðild við glatað sjálfstæði og ítrekað að málið væri ekki á dagskrá. "Vissulega eruð þið einangrunarsinnar ef þið standið í vegi fyrir slíku vali. Má ekki undirbúa samning um aðild og leyfa þjóðinni að kjósa? Er frelsið í þínum skilningi fólgið í því að miðaldasérfræðingar og heimsendaspámenn eigi að taka þetta val af fólkinu?"

Eftir þessa athugasemd lokaði hann á að ég gæti gert athugasemdir við skrif hans. Nú í dag er hann að berja járnið og flokksagann. Því fylgir yfirlýsing um einangrun og útskúfun Þorgerðar Katrínar þ.s. hún er með viðsjárverðar hugmyndir um að leyfa þjóðinni að ákveða hvort farið er af stað í aðildarviðræður. Ofurfálkarnir sem ætla sér að hafa vit fyrir þjóð og flokksmönnum einangrast hratt þessa dagana. 


mbl.is Á móti þjóðaratkvæðagreiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband