Bloggfærslur mánaðarins, október 2009
20.10.2009 | 19:54
Nýja Ísland
Siðareglur fyrir kjörna fulltrúa er mikilvægt skref til að bæta og styrkja lýðræðið í landinu. Þetta er mál sem að öll önnur sveitarfélög eiga að taka upp. Það er ekki hægt að una því að alþingismenn eða sveitarstjórnarmenn beiti sér fyrir sérhagsmunum á kostnað heildarinnar. Að þeir misnoti aðstöðu sína. Beiti sér skipulagt fyrir eða gegn einstaklingum, fyrirtækjum eða félögum.
Siðareglur borgarfulltrúa staðfestar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.10.2009 | 09:10
Hagsmunana himpigimpi
IceSave málið var í aðalatriðum afgreitt um miðjan nóvember í fyrra með yfirlýsingu þáverandi fjármálaráðherra Árna Matt og Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra um að Ísland bæri ábyrgð og myndi standa við greiðslu á erlendum tryggingum sparifjáreigenda Landsbankans.
Vegna sérstæðra aðstæðna á Íslandi gáfu Bretar og Hollendingar svigrúm á að ræða greiðslutilhögun. Gríðarleg vinna hefur verið lögð í þann þátt. Meðal annars gott innlegg úr vinnu Alþingis. Hinsvegar var ekki hægt að búast við því að mótaðilar gætu samþykkt sumt t.d að skuldin gufaði upp eitthvað tiltekið ár.
Nú er niðurstaða fengin. Því geta allir fagnað. Ekki síst sjálfstæðismenn sem voru búnir að gefa loforð um slíkt bæði úr stjórnarráði og seðlabanka. Kristinn H Gunnarsson, Spaugstofan og fleiri hafa dregið vel fram hversu ótrúverðugt það er að skipta um afstöðu í grundvallarmálum eftir því hvort flokkur er í stjórn eða stjórnarandstöðu.
Ég berjast skal á móti Bandaríkjaher,
en bara ef það hentar mér.
Svo þvæ ég mínar hendur og þvílíkt af mér sver,
ef það er það sem hentar mér.
Þannig sungu Stuðmenn. Þetta er hrunadans Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þeir axla enga ábyrgð en reyna að fiska í hinu grugguga vatni. Hvað geti skilað flokknum stundarvinsældum óháð hagsmunum landsins og stöðu þess í alþjóðasamfélaginu.
Víða greint frá samkomulaginu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
18.10.2009 | 09:03
Draumar og þrár
Var að vakna. Beint úr draumi og þá er helst að maður muni eftir þræðinum. En hann var svona;
Byrjunin sem ég man er að ég kem að einhverju fjalli þar sem að fjöldi manns er að fara upp þverhníptan snjóvegg.
Það eru kaðlar sem að liggja niður skaflinn og fólk á að nýta til að toga sig upp. Ég geng að einum kaðlinum og byrja að toga mig upp, en spyr einhvern ókunnugan við hliðina á mér hvort að það sé ekki í lagi að fara á fjallið í kínaskóm. Ég hafi verið svo seinn fyrir að ég hafi ekki náð að græja mig almennilega.
Hann telur að það hljóti að sleppa enda mjúkur snjór og eftirgefanlegur. Við horfum upp eftir skaflinum og þar eru á undan fjórir karlar í rauðum göllum sem hafa "gripklær" sem þeir festa á kaðalinn sitt á hvað og eru mjög faglegir. Maðurinn segir við mig; "Þeir eru seigir Norðmennirnir".
Þegar komið var upp á stall tók einhver leiðangursmaður á móti göngufólki. Hann er að velja og hjálpa fólki í öryggisbelti fyrir línu (kallað "stóll" að mig minnir). Hann spáir í breidd á miðju og mjöðmum og segir svo; "Er einhver álíka grannur karlmaður og þú á leiðinni upp". Ég verð hissa á spurningunni og svara; "Hef ekki hugmynd um það, horfði ekki einu sinni á "botninn" á konunum á leiðinni upp".
Síðan vaknaði ég.
Í vikunni var ég að kenna um heilann. Þá fór af stað umræða um drauma. Sagði nemendum frá því að ein kenning um eðli þeirra gengi út á að þá væri að eiga sér stað tiltekt í huganum. Það væri verið að taka til í minninu og hugsunum.
Veit ekki hvort að þetta er rétt, en þessi draumur styður kenninguna, því ég er á leiðinni á Skessuhorn núna klukkan tíu og var að lesa mig til um leiðina áður en ég fór að sofa.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.10.2009 | 00:21
Fjöll og fell - Í nágrenni Reykjavíkur
Fátt er skemmtilegra en yfirgefa ys og þys, as og þras borgarinnar og fara út í sveit. Finna þar eitt gott fjall til að ganga á og keyra síðan aftur til baka. Leyfa sigurtilfinningunni hríslast út um kroppinn og lífskrafti fjallaloftsins næra hverja frumu.
Síðasta mánuð hef ég sett mér markmið í fjallamennskunni. Ganga á fjöll innan hundrað kílómetra radíus frá Reykjavík. Fara um helgar á tvö fjöll. Laugardaga á Suðurland og sunnudaga á Vesturland. Nú er ég búin að gera þetta fjórar helgar.
Fyrstu helgina fór ég á Bláfell upp við Kjalveg og Tröllakirkju í Kolbeinsstaðafjalli. Næstu á Stóru Jarlhettu við Hagavatn og Strút við Kalmanstungu. Síðan var stefnan þessa helgina sett á Heklu út af Dómadalsleið og Ljósufjöll á Snæfellsnesi.
Því miður komumst við ekki á Heklu í gær vegna þess að það var hávaðarok og vegurinn illfær að fjallinu. En hvað gerir maður í roki. Leitar eftir skjólsælli útivist. Áttum þessa frábæru göngu um svæði skógræktarinnar í Þjórsárdal. Algjör náttúruperla.
Í dag var farið af stað í sól og góðu veðri að Borg sunnanvert á Snfellsnesi, með fyrirheit um göngu á Ljósufjöll. Hitti þar óvænt á frændfólk mitt. Gengið var á fjallið í sérlega góðu skyggni, þó það væri komið mistur í átt til sjávar af toppnum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.10.2009 | 22:07
Stuðningur við hvað?
Ögmundur Jónasson stóð sig ágætlega sem heilbrigðisráðherra. Hann innleiddi verklag í niðurskurði í heilbrigðismálum sem var skynsamlegt. Að tilkynna almennar forsendur samdráttar, hvaða töluleg markmið yrðu að nást. Síðan var það vald, frelsi og ábyrgð stofnunarinnar að útfæra fyrirkomulag. Hann var ekki maður drottnunar heldur samstarfs.
Hinsvegar er framganga Ögmundar í Icesave málinu algjört lýðskrum. Að það sé ennþá allt opið til efnislegrar meðferðar og túlkunar á því hvort við berum ábyrgð. Tilskipunin frá 1999 innleidd af Alþingi kveður skýrt á um ábyrgðina og yfirlýsingar Davíðs, Geirs og Árna frá því um miðjan nóvember í fyrra taka af vafa um að Ísland standi við skuldbindingar í málinu.
Síðan getum við hugsanlega tekið væntanlegt samkomulag upp síðar. Bretar og Hollendingar urðu fyrir miklu tjóni af hálfu íslenskrar bankastarfsemi. Stjórnvöld þar hafa nú þegar greitt ábyrgðir landsins, en hafa ekkert pólitískt svigrúm heima fyrir að velta þessum lágmarks ábyrgðum yfir á sína skattgreiðendur.
Þykir vænt um stuðninginn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.10.2009 kl. 00:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
10.10.2009 | 08:12
Framsóknarmenn á leið til Katar
Fréttst hefur að framsóknarmennirnir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Höskuldur Þórhallsson séu nú á leið til fundar við Sheikh Hamad bin Khalifa al-Thani, Emír í Katar. Hann hefur að sögn framkvæmdastjóra flokksins boðið þeim tveimur prívat og persónulega 500 milljarða kúlulán.
Á ferð þeirra um Noreg í síðustu viku kom í ljós að norðurlandaþjóðirnar gera sömu kröfur til okkar Íslendinga og aðrar lýðræðisþjóðir álfunnar. Að við stöndum við samninga og ársgömul fyrirheit Davíðs Oddssonar, Geirs Haarde og Árna Mathiesen.
Framsóknarmennirnir gera sér þó vonir um að í arabaheiminum séu ekki slík óáþreifanleg siðferðisviðmið að þvælast fyrir. Hinsvegar er talið að þeir verði að tileinka sér siði innfæddra til að ná árangri. Því hafa þeir nú farið í litgreiningu varðandi val á réttum slæðum til klæðnaðar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.10.2009 kl. 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
10.10.2009 | 00:15
Fiðarljósin
9.10.2009 | 01:00
Forsetinn meti stöðu sína
Mér fannst hann vera rétta kryddið sem við þyrftum í tilveruna á móti hinum sterku hægri öflum sem voru í stjórnarráðinu undir forsæti Davíðs Oddssonar.
Mér fannst fyndið að sjá hversu mörg forpokuð íhöld sem töldu sig ein réttbær til tignar og valda voru pirruð út í forsetann.
Mér fannst hann hafa gegnt góðu hlutverki að innleiða lýðræðislegar áherslur í starfshætti Alþýðubandalagsins í stað valds örfárra fulltrúa sannleikans.
Mér fannst hann vera með áhugaverða viðleitni að gera forsetaembættið meira gildandi, þannig að viðfangsefnin væru fleiri en menningin og móðurmálið, skógræktin og föðurlandið.
En nú er ég orðinn óánægður með forsetann minn.
Mér finnst hann ekki hafa gert nægjanlega grein fyrir þátttöku sinni í útrásinni. Hann virðist á sama báti og íhaldið að geta ekki viðurkennt að hann hafi nokkurn tíma gert mistök.
Mér finnst hann leggja meira upp úr fjölmiðlum og partíum erlendis en að efla samhug og samræðu með eigin þjóð.
Mér finnst miður að hann horfist ekki í augu við græðgivæðinguna og spilaborgina sem voru algjörlega íslenskar afurðir, en reyni að færa ábyrgðina á evrópskar eftirlitsstofnanir.
Mér finnst að forsetaembættið hefði getað gegnt lykilhlutverki í orðræðu og endurskoðun á innviðum samfélagsins. En það virðist ekki ætla að verða gæfa Ólafs Ragnars Grímssonar.
Ólafur Ragnar í Forbes | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.10.2009 | 22:20
Eflum flokksræðið í gegnum skaflinn
Í vor fengu Samfylkingin og Vinstri grænir skýrt umboð til að taka við taumunum í landstjórninni. Söguleg stund. Tveggja flokka stjórn til vinstri.
Verið er að vinna að mörgum umbótum í anda lýðræðis. En nú þurfa systurflokkarnir tveir að vinna sig í gegnum skaflinn með því að efla samstöðu og innra starf.
Mikilvægt er að koma öllum þeim góðu málum sem eru í pípunum í framkvæmd. Svandís Svavardóttir var rödd skynseminnar á Alþingi í kvöld.
Það er engin þörf fyrir banadalag oflátunga og egóista, Sjálfstæðisflokkinn, sem kann ekki að skammast sín fyrir dans og eltingarleik við gullkálfa, sem skilaði þjóðinni í þrot.
Hétu öll stuðningi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
3.10.2009 | 07:31
Oh, what a beutiful ....
Verkefni dagsins er Stóra Jarlhetta við Hagavatn (943 m. y. sjávarmáli) og nú er komið logn á eftir storminum. Himinn er bjartur í austur átt.
Á morgun er farið á Strút í Borgarfirði (937 m. y. sjávarmáli) þá er einnig gert ráð fyrir björtu veðri, logni en eitthvað kaldara.
Legg af stað frá Krónunni í Mosfellsbæ á minni fjallarútu (24 manna) kl. 10 og það eru allir velkomnir með í ferðirnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)