Séreignasparnaðurinn

Jóhanna Sigurðardóttir kynnti fyrir rúmum mánuði að einn möguleiki sem væri verið að skoða væri heimild til nýtingar séreignasparnaðar. Ég var svo ánægður með þetta að ég fór á Austurvöll með spjald sem stóð á; "Áfram Jóhanna, Áfram Jóhanna!". Fannst hún vera að hugsa í lausnum. Hún benti réttilega á að möguleikar einstaklinga til að nýta þessa fjármuni sína gætu riðið baggamun fyrir fjölda heimila í landinu.

Síðan eru liðnir margir dagar og vikur. Hringdi fyrir tveimur vikum í félagsmálaráðuneyti og spurði um málið. Svarið var að þetta væri í nefnd Ingibjargar Sólrúnar og Þorgerðar Katrínar. Enginn vissi innan hvaða tímaramma niðurstaða ætti að liggja fyrir. Hringdi aftur nú í morgun til að kanna málið í sama ráðuneyti. Þeir vísuðu þá til fjármálaráðuneytis. Þar fékk ég þau svör að pólitísk ákvörðun lægi ekki fyrir en málið væri í nefnd Steinunnar Valdísar og Ólafar Nordal.

Þetta er bara lítið dæmi um hvernig tómarúm og aðgerðaleysi virðist ráðandi hjá stjórnvöldum. Skortur á að upplýsa og hjálpa fólki til að gera raunhæfar áætlanir. Að fóta sig í þessum ólgusjó. Það er ekki nóg fyrir einstaklinga og heimili að heyra að "málin séu í nefnd". Nú þarf aðgerðir


mbl.is Heimili að verða gjaldþrota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helsti kosturinn að hafa aldrei verið Framsóknarmaður

Nýr formaður Framsóknarflokksins var á síðasta ári skipaður í nefnd á vegum borgarinnar af Framsóknarflokknum. Þegar hann var spurður um hvort að hann væri í flokknum þá undirstrikaði hann það með allnokkrum þunga að hann væri ekki flokksmaður heldur skipaður út á fagþekkingu sína í byggingar- og skipulagsmálum.

Hann gekk síðan í flokkinn til að geta boðið sig fram til formanns Framsóknar sem að hann afneitaði fyrir skömmu. Mér finnst það nokkuð bratt, þó ég sé ekki hlynntur neinu flokkseigendavaldi. Það er líka athyglisvert að flokksmenn vilji helst þann til forystu sem að er algjörlega hreinn og óspjallaður af verkum flokksins.

Kjósendur geta nú undirbúið sig að fá gjafir og hlunnindi frá nýrri Framsókn ef þeir merki við B. Þeir verði til í að gera allt fyrir heimilin ef kjósendur merki við B. Verði miðjuflokkur sem er að mestu án inntaks en viljugur til valda.


mbl.is Eygló Harðardóttir ritari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinnuleysi í Þingeyjarsýslum

Fréttir eru af helmings aukningu atvinnuleysis í Þingeyjarsýslum. Steingrímur J Sigfússon veit að ekki er nóg að bjóða kjósendum sínum eingöngu upp á focking fock ríkisstjórnarandúð. Þar binda heimamenn vonir við uppbyggingu álvers á Bakka.

Í gær heyrði ég í formanni VG lýsa yfir þeirri skoðun sinni að mun skynsamlegra sé að stefna að uppbyggingu kísilverksmiðju. Ekki sé æskilegt að setja öll eggin í sömu körfuna og að verksmiðjan sem hann nefndi gæti skapað störf fyrir 300 manns.

Það var svo nýr og sannur tónn í þessari orðræðu. Velta upp möguleikum til að leysa vandann í stað þess að láta pólitíska stefnu sína snúast um fuss og svei vegna aðgerða eða aðgerðaleysis stjórnvalda.

Ég var fyrir nokkrum árum í tengslum við fulltrúa The European March Society sem vildu koma upp geimrannsóknarstöð í nágrenni Mývatns. Hin rauða og berangurslega stemming Kröflusvæðis átti að minna á yfirborðið á Mars.

Meiri og fleiri áherslur á lausnir!


Hver fær viðbótarkvóta?

Mér finnst vanta í fréttina hvernig þessum viðbótarheimildum verður úthlutað. Það má ef til vill rökstyðja það að skuldsett sjávarútvegsfyrirtæki sem að eru búin að fara í gegnum magurt tímabil eigi rétt á viðbót. Hinsvegar væri fáranlegt að úthluta kvóta til einstaklinga eða fyrirtækja sem eru að leigja hann frá sér. Þá væri nær að ríkið fengi slíkar tekjur frekar en einhverjir sægreifar sem selt hafa skip sín geti haft af því tekjur að leigja sameign þjóðarinnar.
mbl.is Þorskkvóti aukinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bestu óskir

Er búin að vera að setja mig í stellingar með að skrifa færslu um nauðsyn þess að efla og opna alla umræðu innan Samfylkingarinnar. Að flokkur og félagsmenn einbeiti sér að fullri þátttöku í hinu samfélagslega endurmati.

Í stað þess að setja orkuna meira í þann farveg þá sendi ég bestu óskir til Ingibjargar í hennar vinnu framundan við að ná góðri heilsu og starfsorku. Það hlýtur að vera erfitt að losa hugann frá þeirri ólgu sem er í landinu.

Virðing fyrir heilsunni og lífinu verður að ganga þvert á flokkslínur.


mbl.is Ingibjörg Sólrún lengur frá en áður var talið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar ert þú "ósýnilega hönd" og "dauða fjármagn"?

Eitt af því skondnara sem hægt er að hlusta á í ljósi undangenginna mánaða og bankahrunsins er að hlusta á ríflega ársgamalt viðtal Íslands i dag við Hannes Hólmstein Gissurarson. Nú þarf heldur betur að fá aðstoð ósýnilegra handa og finna dautt fjármagn til að virkja.

Hann fór víða um heim og flutti kotroskinn fyrirlestra um þetta efni og með sérstakri áherslu á kvótakerfið. Í viðtalinu telur hann gjafakvótann sem upphaf góðæris í landinu, en flestir eru nú sannfærðir um að þar liggi upphaf meinsemdarinnar sem varð frækornið að græðgisvæðingunni í landinu.

Hann talar á þeim nótum að næstu skref einkavæðingar séu orkugeirinn og auðlindirnar. -Sjá ekki allir hversu mikið Dabbon og Hannsi voru á bremsunni og reyndu að vara þjóðina og útrásargengið við hvert stefndi?


Trúboðar hræðslunnar

Það er fróðlegt að sjá fréttir af því að norskir sendimenn óttans eru komnir hingað til lands. Það sem drífur þá af stað til ferðar er hræðslan við að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu. Mér líst hinsvegar mjög vel á hugmyndir Björgvins G Sigurðssonar um nána samvinnu Norðurlandana um Evrópumál. Það er mjög æskilegt að frændþjóðirnar fylgist að og myndi einingu, sem hefur álíka vægi og stórþjóðirnar í ákvarðanatöku.

Þessu hef ég einmitt talað fyrir. Við erum með lagskiptingu valds og þurfum að hafa möguleika til áhrifa innan hverrar einingar. Mestu völdin höfum við í okkar einkalífi, síðan sveitarfélagi og landi. Ísland hafi síðan stefnumótandi áhrif innan Norðurlandaráðs sem mótar sameiginlega stefnu um Evrópumál. Síðan þarf að gera Sameinuðu þjóðirnar mun áhrifaríkari í aðgerðum sem snerta heiminn allan og ógnanir mannkyns.

Allt þetta dregur úr ótta og eykur skilvirkni í stjórnmálum heimsins. Við aukum sjálfstæði okkar sem þjóðar og tækifæri sem einstaklinga með því að vera virk á öllum stöðum í lagskiptingu valdsins.


mbl.is Sagðir beita sér gegn ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góða spillingin kemur frá Valhöll

Hannes Hólmsteinn er bara snillingur. Hann skrifar grein í Fréttablaðið í dag sem heitir Spilling í Brussel. Hann hefur verið lítt áberandi síðustu vikur enda hugmyndakerfi hans hrunið. Hann reynir því að slá á nýja strengi og bendir á þörfina á siðbót innan Evrópusambandsins.

Í Evrópu er það svo til óskráð regla að framámenn í stjórnmálum segja af sér ef þeir hafa gert eitthvað sem rýrir traust almennings á tiltekinni persónu. Nú hefur umboðsmaður gert alvarlegar athugasemdir við stöðuveitingar innvígðra.

Spilltu sporin liggja víða í kringum kjarna Davíðs Oddssonar sem Hannes Hólmsteinn tilheyrir og ver í blindni. Það eru ekki bara stöðuveitingarnar á son, frændur og einkavini. Nú eru merki um alvarlega spillingu innan þessa kjarna vegna innherjaupplýsinga í máli Baldurs Guðlaugssonar.

Svo virðist sem að Róbert Wessmann hafi ekki verið í réttu klíkunni, því hann hafði ekki upplýsingar sem voru aðgengilegar ráðuneytisstjóranum, innvígðum og innmúruðum. Hannes er í glerhúsi og á ekki að kasta steinum. Hvað þá að halda að þeir drífi alla leið yfir til meginlandsins.


Tónlistarhús - Atvinnuskapandi verkefni

 Tónlistarhús

Pétur Blöndal sagði í kvöldfréttum sjónvarps að hann vilji sjá tónlistarhúsið standa óklárað sem minnisvarða um "óráðsíu og bruðl" þjóðarinnar. Þetta er hraustlega mælt af þingmanni flokks sem var kjölfestufjárfestir græðgisvæðingarinnar.

Ég tek undir sjónarmið Ólafs Elíassonar að svo gæti farið að mikil verðmæti og samningar tapist ef miklar tafir verði á framkvæmdinni. Í húsið hefur verið lagður mikill metnaður varðandi arkitektúr og hönnun.

Framundan er verkefnaskortur í byggingariðnaði. Hér er því tilvalið að skapa farveg fyrir þá sem að eru að missa vinnuna að koma inn í framhaldið. Stór hluti af eftirstandandi framkvæmdakostnaði eru launagreiðslur.

Það er betri kostur fyrir ríkið að borga þarna verka- og iðnaðarmönnum laun heldur en atvinnuleysisbætur. Við eigum að sameinast um að þjóðin láti hendur standa fram úr ermum við að ljúka þessu verkefni. Jafnvel að fá sjálfboðaliða. 

Húsið verður glæsilegt og það er vel hægt að láta það standa fyrir góð gildi og endurmat á samfélagi okkar. Það er nauðsynlegt að hafa svigrúm fyrir eflingu andans og öfluga sjalfsmynd. Ekki síst þegar á móti blæs.

Nú þurfa tónlistarmenn og menningarfrömuðir að hefja gjörninga á hafnarbakkanum til að undirstrika að þessi framkvæmd hafi tilgang og að til hennar sé lagður góður hugur. Það þarf fleira en málm og gler. Það verður að vera líf og sálir sem móta hlutverk þessa sköpunarverks.


mbl.is Reynt að leysa mál Tónlistarhúss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hann að koma eða fara?

Framsóknarflokkurinn er um þessar mundir að sortera sig frá bændasamfélaginu og þjóðernislegum áherslum og siglt verður fljótlega undir merkjum Evrópusamrunans. Framsóknarflokkurinn færir sig inn á mið Samfylkingarinnar í áherslum sínum. Því ber að fagna. Uppaldir á mölinni eru pabbadrengirnir úr flokknum, sem aldrei hafa mjólkað kýr að yfirtaka bændaflokkinn. Hinsvegar fyrir lýðræðið tel ég að það sé óæskilegt að fá fram tvo flokka sem eru eins. Er ef til vill sannleikur í því hjá Bjarna Harðarsyni að fólk með þessar áherslur hefði átt að ganga til liðs við Samfylkinguna og halda Framsóknarflokknum áfram þjóðernislega sinnuðum flokki um hagsmuni dreifbýlisins?

Jónas frá Hriflu vildi einn flokk fyrir verkalýð og samfélag þéttbýlis en annan fyrir bændur og samfélag dreifbýlis. En sennilega hefði honum þótt það kjánalegt að Dagur B Eggertsson og Guðmundur Steingrímsson væru í sitthvorum flokknum. Hagsmunir og hugmyndaheimur gefa engin tilefni til þess. Metnaður Guðmundar snýst um að klífa einhvern ætternisstapa, sanna erfðafestu sína og getu til að leiða þennan flokk. En er það ekki einmitt framsóknarmennskan í hnotskurn eins og hún hefur birst síðustu áratugina. Enginn hugmyndatengdur metnaður, engin lífsýn, en einungis útreiknað mat á því hvað sé stysta leiðin í völd.


mbl.is Guðmundur í Framsóknarflokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband