Að friða snjó

Ég hef aldrei skilið útfærslur og verndarhugsun Vatnajökulsþjóðgarðs. Megináhersla er á hversu svæðið sé stórt. Við stofnun var stemming samfélagsins sú að allt íslenskt væri mest og best. Við urðum að geta flaggað því að hér væri stærsti þjóðgarður í Evrópu.

Ábending Helga Hallgrímssonar um meginþunga á ferðamennsku en ekki náttúruvernd er bæði þörf og brýn. Áherslur hafa verið á ferðamennsku og gildi þjóðgarðs sem aðdráttarafls í markaðssetningu. Úttekt á mikilvægi og sérkennum svæða með tilliti til náttúruverndar hefur verið aukaatriði.

Sagt er að þetta sé allt jafnáhugavert. Ferðaþjónustuaðilar frá Ásbyrgi, út á Seyðisfjörð og að Kirkjubæjarklaustri eiga bara að mæra eitthvert samsafn af snjó, Vatnajökul, daginn inn og út. Þeir séu hluti af einhverju neti og þar með þjóðgarðinum mikla.

Áherslan á ferðaþjónustuna undir merkjum Vatnajökulsþjóðgarðs hefur verið kynnt þannig að í hinum nýstofnaða garði muni heimamenn hafa miklu meiri áhrif, en áður hefur þekkst. En í raun verður það þannig að áherslur á inntak náttúruverndar veikist og breytist í froðusnakk.

Þannig mun hugtakið Vatnajökulsþjóðgarður ekki hafa neina merkingu út frá náttúrufarslegum forsendum nema þá að upp á hásléttunni hefur safnast snjór og út frá jöklinum renna ár með vatnasvið til allra átta. Þjóðgarðurinn er illa afmarkaður landfræðilega.

Fyrir rúmum þrjátíu árum gengust landeigendur Stafafells í Lóni inn á að friðlýsa hluta jarðarinnar sem að síðan var farið að kalla Lónsöræfi. Það hugtak varð að mörgu leyti ofnotað og merkingarlaust líkt og ég trúi að verði með Vatnajökulsþjóðgarð.

Stundum hefur hugtakið Lónsöræfi verið notað yfir allt svæðið sem gengið er á leið úr Snæfelli eða sveitina alla milli Eystra- og Vestra-Horns. Þetta hefur stuðlað að því að gömul örnefni sem notuð hafa verið í árhundruð víkja eins og Stafafell, Kollumúli og Eskifell.

Í Austur-Skaftafellssýslu eru það "fjögur fell" sem ættu að veljast út sem verndar- og útivistarsvæði. Þau eru Skaftafell, Kálfafell, Hoffell og Stafafell. Í þeim tilfellum sem ríkið er ekki eigandi lands þarf að semja við landeigendur um að taka að sér náttúruvernd.

Stafafell í Lóni er sögulega, landfræðilega og útivistarlega vel afmörkuð eining. Vatnaskil og jökulár mynda heild sem að hefur meira náttúruverndargildi heldur en flest önnur. Þessi sérstaða hefur glatast í Vatnajökulsumræðunni.

Náttúrufræðingar, sögumenn og útivistarfólk ég treysti á ykkar liðsinni að draga fram þessa sérstöðu svo við þurfum ekki að eyða orku í merkingarlaust ferðalag sem drifið var af stað vegna samviskubits stjórnvalda í stóriðjumálum.StafafellKort


mbl.is Ótakmarkað aðgengi varhugavert
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Okkar beina Eurovision lýðræði

Undankeppni Eurovision er eini milliliðalausi farvegur lýðræðis sem alþýðunni er boðið upp á. Þjóðin er beðin um að kjósa milli fjögurra lítt spennandi laga, sem að eiga svo að fara í úrslit og þar verður þjóðinni aftur boðið upp á að kjósa sitt framlag. Þetta mikla valfrelsi og kosningagleði um eitt skollans lag verður nokkuð afkáralegt í framhaldi af hinni miklu kröfu um að valdið verði fært til fólks og þjóðar. Þetta er álíka taktlaust og að við upphaf þings eftir allt og allt sem brann á landsmönnum væri dekurmál stuttbuxnadeildar íhaldsins um heimild til sölu áfengis í matvörubúðum eitt fyrsta mál á dagskrá.

Gætum við ekki bara fengið einhverja poppfræðinga til að velja lagið sem að fer út og við notum þetta fullkomna kosningakerfi til að kjósa nýja menn í hinar ýmsu stöður þar sem þarf að skipta út fólki? Mínir fulltrúar í forkeppni væru Þorvaldur Gylfason í Seðlabankann og Vilhjálmur Bjarnason í Fjármálaeftirlitið. En Spaugstofan var alveg stórkostleg og á mikið hrós skilið fyrir sérlega skemmtilegan þátt. Eva María er best í einlægum viðtalsþáttum, sjarmerandi og manneskjuleg, en ómöguleg sem útvarpsþulur. Ragnhildur Steinunn hefði dugað ein sem fínn töffari fyrir Eurovisionþátt. Það er alltof mikið að hafa þær tvær þarna að leika hressar dúkkulísur. Svo er þetta líka óþarflega mikið áreiti að þurfa að horfa á alla þessa fótleggi ! (sjá fyrri færslu mína um skylt efni)


Meinsemd

Forystumenn stjórnarflokkana glíma báðir við veikindi ofan á alla aðra óvissu. Það er merkilegt að sjá hversu dýrslega eiginleika sumir forvígismenn mótmæla hafa sýnt í umfjöllun sinni um veikindin. Fjölmörg dæmi eru úr sögunni um að blind samsömun við hópsálina hefur gefið af sér hina óæðri eiginleika mannsins. Þegar stríðsmaskínan er komin í gang er ekki svigrúm fyrir samúð. Þegar að menn eru hættir að heyra og sjá. Ég var fyrir miklum vonbrigðum með viðbrögð Harðar Torfasonar yfir veikindum Geirs H Haarde og einnig skrifum Heiðu B Heiðars og fleiri vegna veikinda Ingibjargar Sólrúnar.

Þetta skrifa ég þó hugur minn vilji miklar breytingar og lýðræði. Hreinsa burt alla smákónga og spillingu sem að flokksappiröt hafa komið fyrir í efnahagslífi og stjórnsýslu. Þó Hannes Hólmsteinn skrifi í Fréttablað dagsins úr fílabeinsturni með því að gera lítið úr þunga mótmælana og óánægju almennings, þá er þar einn punktur sem ég er honum sammála um. Það er aðdáun á því hvernig pólitískir andstæðingar í Bandaríkjunum sína hver öðrum virðingu. Þannig faðmaði Obama hinn nýi forseti Bush að sér eftir innsetningu í vikunni. Þetta er þroskamerki lýðræðis.

Því miður fyrir Steingrím J Sigfússon þá held ég að hann verði ekki annað og meira en fyrrverandi landbúnaðarráðherra. Maður sem samþykkti og studdi eftirlaunafrumvarp, ásamt því að styðja kvótakerfið með ráðum og dáð. Það er því mikilvægt að endurnýjun eigi sér stað í forystu VG eins og verður trúlega hjá flestum öðrum. Vert er að hafa í huga að sterkasta krafan er að láta af flokksveldi og innleiða lýðræði. Þó framkvæmdastjóri VG væri á hliðarlínunni við aðgerðir við Ráðherrabústaðinn og þó að þingkonur VG hafi ákveðið að stilla sér upp með fólki sem sótti að lögreglunni við þingsetningu Alþingis, þá hefur sá flokkur ekki sáð í þannig akur að hann sé verðugur að njóta ríkulegrar uppskeru. 

Um þessar mundir treysti ég engum flokki til að leiða landstjórnina og styð hugmyndir Njarðar P Njarðvík, Ólínu Þorvarðar og fleiri undir merkjunum "Nýtt lýðveldi". Við verðum að hafa öfluga stjórn embættismanna næstu mánuðina fram að kosningum og vera þá búin að endurskoða allar okkar lýðræðislegu leikreglur.


mbl.is Landsfundur VG í mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í vikulokin

Sagt er að þeir séu með mestan siðferðisþroska sem hugsa út frá velferð jarðar og mannkyns. Síðan sorterist menn niður á smækkandi einingar í sinni hagsmunagæslu. Trúarbrögð, þjóðir, sveitir, fótboltaklúbbar, ætt, fjölskylda. Þeir sem að eru sjálflægir og að nokkru frumstæðir, hugsa um að hlaða sem mestu undir sína hagsmuni og sitt fólk. Græðgisvæðingin innleiddi slíka einstaklingshyggju og sjálfselsku hér á landi. Hver næstur sjálfum sér.

Heimsbyggðin bindur miklar vonir við nýjan forseta Bandaríkjanna. Hann er maður sem að stendur ofar kynþáttahyggju og uppfyllir væntingar okkar um að til séu stjórnmálamenn sem að munu taka á hinu stóra samhengi. Endurskoðun á lífstíl mannsins sem er í takt við auðlindir heimsins, jöfnuð og velsæld. Þar er grundvallarbreyting frá framgöngu fyrrverandi forseta, sem virtist einkum vera í því að afla sér óvina á alþjóðavettvangi og var vanhæfur til að taka heildstætt á innanlandsvanda.

Á Íslandi ríkir nú glundroði og ráðleysi. Mikilvægt er að koma þeim öflum frá landstjórninni sem alið hafa af sér sérgæsku og spillingu í stjórnsýslu og fjármálalífi. Mótmælendur hafa þá trú að einhver vatnaskil verði ef að þessari ríkisstjórn verður komið frá völdum. Heilbrigt lýðræði byggir þó ekki á því að velta einhverjum úr sessi. Í þeim skilningi eiga "mótmælin" aldrei að hætta. Flokksræði og fulltrúalýðræði hafa reynst gölluð form, sem uppfylla ekki væntingar einstaklinga um að vera gerendur í eigin tilvist.

Hin íslenska þjóðarsál þarf samhug og sátt með einhverjum hætti. Hagsmunirnir eru stærri en svo að lausnin felist í því að kjósa nýja stjórnmálamenn til Alþingis. Margar góðar hugmyndir hafa komið fram um breytingar á okkar lýðræði. Ef mótmæli almennings gefa af sér heilbrigðari stjórnsýslu og traustari innviði, þá verður litið til þeirra sem merkilegra og árangursríkra aðgerða sem hafi haft jákvæð áhrif á þróun samfélagsins.


"Þjóðin" beitir ofbeldi, slasar og eyðileggur

Það má víst ekki efast um að samkomur mótmælenda endurspegli vilja þjóðarinnar. Það er því eðlilegt að álíta að fulltrúar þjóðarinnar hafi slasað lögreglumennina. Að þingkonurnar sem stóðu ekki með vinnustað sínum og fóru út til að hvetja til ofbeldis gegn lögreglunni, sem ætlað var að vernda vinnustaðinn og þinghúsið hafi gert það í nafni þjóðarinnar.
mbl.is Lögreglumaður enn á sjúkrahúsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorgleg þróun

Þetta er stigmögnun sem ég hef haft áhyggjur af. Fólk er hætt að hlusta og sjá, er gengið inn í samsömun hóps. Öfgakennd og ofbeldisfull framganga húfugengisins að okkar sameiginlegu stofnunum gaf tóna sem réttlætt geta að okkar opna og frjálsa samfélag breytist í lögregluríki.

Nú verðum við að fara að vinna saman en ekki í sundur, tala saman en ekki hrópa, leysa málin en skapa ekki glundroða. 


mbl.is Táragasi beitt á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bylur hæst í tómri tunnu

 Tunnutromma

Nú er fjöldi manns búin að fara um með eldi og óhljóðum síðasta sólarhring og krefjast breytinga. Pottar og pönnur í hundraðavís hafa verið lamdar. Krafa er uppi um kosningar strax í vor. En stærstur hluti þjóðarinnar á ekki neina valkosti. Formaður VG segir að ekki sé þörf á nema stuttri og snarpri kosningabaráttu. Hann gerir ráð fyrir að brennuvargar geti fleytt hans fólki langt ef kosið væri nú.

Í Kastljósinu áðan var það athyglisvert hversu fátt var um svör þegar Steingrímur J Sigfússon var spurður að því hvaða aðgerða hann myndi grípa til ef að hann tæki við stjórnartaumunum. Hvort hann myndi segja sig frá láninu við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn, sem hann barðist gegn? Það á vissulega að fara af stað með margskonar uppstokkun, strax í dag. En mér fannst það ágæt tímasetning hjá forsætisráðherra að stefna að kosningum næsta vetur.


mbl.is „Þið eruð öll rekin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofbeldi og lýðræði

Ofbeldi

Við stöndum frammi fyrir alvarlegum afleiðingum þess að Íslendingar kunnu ekki að fara með aukið frelsi í fjármálum. Nú erum við komin á þann punkt að við virðumst ekki geta komið okkur saman um hvað sé lýðræði. Það virðast vera tveir kostir í stöðunni að styðja það að víkingasveitin verði efld og draumar Björns Bjarnasonar verði að veruleika eða öfl reiðinnar undir handleiðslu Ögmundar Jónassonar innleiði allsherjar ringulreið í landinu.

Lýðræðið byggist á því að við finnum einhvern samhug og leiðir. Hverjar sem þær eru. Það hefur vissulega engin rétt á því að segjast tala í umboði þjóðarinnar. Nauðsynlegt endurmat og uppstokkun á lýðræðislegum leikreglum mun ekki eiga sér stað undir þessum ofbeldisfullu formerkjum á báða bóga. Slík vinna er gerð af fólki með góða og djúpa þindaröndun en ekki af fylkingum ofbeldis, hvort sem það felst í beitingu piparúða eða berja ræðupúlt í þingsölum.


mbl.is Óslóartréð borið á bálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innsetningaræði

Forseti Obama

Eftir að einn óvinsælasti forseti í sögu Bandaríkjanna lætur af völdum tekur við sá sem hvað mestar væntingar hafa verið bundnar við. Þó sagt sé að slíkum vonum um miklar breytingar muni vafalítið fylgja vonbrigði, þar sem erfitt verður að uppfylla þær allar, þá er þetta mikill gleðidagur. Demókratar hafa nú forseta og meirihluta í báðum deildum þingsins.

Mikill fólksfjöldi hefur safnast saman í Washington til að vera við athöfnina og samhliða hefur verið sett upp gríðarleg öryggisgæsla. Lokað aðliggjandi götum og öryggisverðir verða víða á röltinu. Passað er upp á nýja forsetabílinn sem að er með töluna 44 á númeraplötunni. Vegferð Obama hefur verið ævintýri líkust og megi völd hans nýtast til farsældar fyrir heiminn allan.

Forsetabifreið


mbl.is Eftirvænting í Washington
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hallelujah

SönghópurMótlæti og sigrar eru lífsins gangur. Lagið Hallelujah eftir Leonard Cohen er óður þakklætis til skaparans. Við útskrift í Borgarholtsskóla nú í desember flutti sönghópur Borgarholtsskóla tvö lög og annað þeirra var þetta lag. Samviskusöm stúlka sem ég var nýlega búin að gefa fullt hús stiga í líffræði var forsöngvari. Flutningurinn hafði meiri vigt vegna hinnar einlægu trúar og vitneskju um að hún hafi fengið sinn skerf af erfiðleikum á tímabili. Naut þess að hlusta á hana syngja lagið ásamt bakröddunum.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband