10.8.2007 | 00:11
Suðurlandsvegur, here we come!
Þá er Verslunarmannahelgin liðin og styttist í að flestir skipti um gír. Sumarfríin að verða búin, leikskólar aftur byrjaðir og aðrir skólar að byrja innan skamms. Líkt og álftirnar sem í þúsundavís koma við í Lóninu á vorin, þá mæti ég austur snemmsumars og fer í átt til höfuðborgarinnar þegar fer að halla að hausti. Það voru færri en oft áður sem fylgdu mér um fjöll Stafafells þetta sumarið. En það miðaði eitthvað áfram skálabyggingu í Eskifelli og mun ég fara um helgar fram eftir haustinu til að ljúka sem mestu fyrir veturinn.
Það eru spennandi dagar fram undan að setja upp fjölbreytilegt dans- og jógaprógram í Mosfellsbæ fyrir veturinn. Síðan ætla ég um miðjan september að taka þátt í VestNorden ferðakaupstefnunni sem haldin er í Færeyjum að þessu sinni. Þar ætla ég að kynna STAFAFELL; Útivistar- og verndarsvæði (Park of recreation and conservation). Nú er komið að því að sigra lönd og sannfæra erlenda gönguhópa jafnt og íslenska að fara um þetta undraland.
Keyrði úr austrinu á sunnudeginum um Verslunarmannahelgi, með þrjá 14 ára gaura í bílnum, son frænda hans og vin. Lagt var af stað að austan upp úr klukkan átta að kvöldi inn í 500 km túr inn í nóttina. Hafði smá áhyggjur af því að ég yrði framlár við stýrið yfir svarta sanda, með endalausar gular stikur, malbik og hvítar línur fyrir augum. Það var ástæðulaus ótti, þökk sé Rás 2, Stuðmönnum og Árna Johnsen. Sérlega vel heppnað kvöld hjá okkur þó vangadansar og tjaldævintýri verði að bíða unglingana til næsta eða þar næsta árs.
Það var vel tekið undir í Taktu til við að tvista og öðrum klassískum númerum, Laddi og Shadi Owens voru líka frábær. Púkinn í Húsdýragarðinum hélt manni svo sannarlega ferskum. Eftir fréttir, veður og einhverja slíka róandi fasta liði í kvölddagskránni var svissað út til Vestmanneyja. Þar tók Árni Johnsen við í brekkusöngnum. Þvílíkur snillingur. Söng þarna einhver hátt í sextíu lög þindarlaust án þess að stoppa.
Við mættum í Mosfellsbæ um klukkan tvö um nóttina, búnir að vera undir bláum himni, algjörri stillu og tunglskini. En þessi líka kraftur og fjör í útvarpinu, sem smitaði út frá sér. Við vorum milli Víkur og Hvolsvallar þegar brekkusöngnum lauk nákvæmlega á miðnætti og sáum tilsýndar flugeldana skjótast á loft yfir Vestmannaeyjum. Síðan kom ró í smástund með fréttum og veðri í boði Ríkisútvarpsins. En svona til að tryggja að ferðin væri tekin með trukki alla leið, þá gaf sig aðalkúturinn í pústinu á Selfossi. Ekið var inn Reykjaveg frá Hafravatni eins og verið væri á einhverju kraftmeira en tólum frá Harley og Kawasaki samanlögðum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.8.2007 kl. 01:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.7.2007 | 22:04
Girðingar á íbúalýðræði
Sveitarfélög eru misviljug á íbúakosningu í umdeildum deilumálum um framtíðarþróun byggðar og umhverfis. Að berja höfðinu við stein er hvorki árangursrík leið fyrir bæjaryfirvöld né íbúa. Skipulagsmál eru samvinnuverkefni. Það er mikilvægt að hafa viljann til að hlusta og taka tillit til sjónarmiða. Í þeim tilfellum þar sem að ekki næst sátt um málamiðlun getur átt við að gefa íbúum tækifæri á að kjósa um valkosti. Hafnarfjörður miðar við að ef 20% íbúa eða fleiri óska eftir kosningu þá fer hún fram. Um helmingur Mosfellinga óskaði eftir því að hafa áhrif á staðsetningu nýrrar sundlaugar, en það var hunsað og nú hefur stór hluti bæjarbúa sínar áherslur og meiningar um vegtengingar um Varmársvæðið, sem gegnir hlutverki útivistarbeltis, sem mikið er notað af hjólandi, gangandi og ríðandi vegfarendum. Aftur kemur í ljós að ferlið um aðkomu almennings í skipulagsmálum er sýndarmennska í Mosfellsbæ.
Það er merkilegt að sjá lagningu hinnar umdeildu tengibrautar um Álafosskvos sem nú er byggð upp áður en deiliskipulagið er búið að fara í gegnum skipulgsferlið,kynningu og hina lögboðnu aðkomu almennings að ferlinu.
http://varmarsamtokin.blog.is/blog/varmarsamtokin/entry/251719/
Leiðari Morgunblaðsins í gær er mjög samstíga áherslum Varmársamtakanna á íbúalýðræði. Þar segir meðal annars;
"Mótmælum, fundarhöldum, nýjum hugmyndum, íbúasamtökum, hverfasamtökum, öllu þessu eiga forráðamenn bæjarfélaganna að taka með opnum huga, minnugir þess, að þeir eru kjörnir í sveitarstjórnir til þess að vinna fyrir fólkið en ekki fyrir sjálfa sig.
Tími hins beina lýðræðis er runninn upp. Með slíku lýðræði í framkvæmd hefur lýðræðið náð þeirri fullkomnun, sem hægt er að ná."
http://morgunbladid.blog.is/blog/morgunbladid/entry/251757/
Undirritaður hefur bæði á táknrænan og raunverulegan máta tekið að sér að fella girðingar á íbúalýðræði, sem virðast óvenju háar í Mosfellsbæ og aðkoma almennings og íbúasamtök eru þar gerð tortryggileg. Ef til vill er rétt að setja af stað undirskriftasöfnun með áskorun til bæjarstjórnar um íbúakosningu þar sem valið væri milli fyrirliggjandi aðalskipulagstillögu Helgafellsvegar um Álafosskvos, undir Vesturlandsveg og í gegnum miðbæinn annarsvegar og útfærslu á tillögu Varmársamtakanna um mislæg gatnamót í jaðri byggðar, ásamt hægri afrein af Vesturlandsvegi inn í Álafosskvos hinsvegar. Tel að allir eigi að geta unað við að vilji íbúnna fái að ráða endanlegri lendingu í þessu deilumáli.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.7.2007 kl. 02:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.6.2007 | 13:48
Tengsl við náttúru í þéttbýli
Margt bendir til að Mosfellsbær sé að glutra niður þeirri sérstöðu sem felst í nánum tengslum við náttúruna. Þeir eru áreiðanlega margir sem fluttust í "sveitina" einmitt til þess að blanda saman tækifærum þéttbýlis og tengslum við sveitastemmingu og náttúru. En bæjaryfirvöld virðast orðin þreytt á sveitamennskunni og innleiða nú hraða og mikla uppbyggingu húsnæðis í anda þess sem átt hefur sér stað í Kópavogi. Niðurstaðan er að farið er fram af meira kappi en forsjá. Áform eru uppi um að byggja á grænu svæðunum, sem flest eru tún í einkaeign, á næsta áratug. Á sama tíma er ekki gætt að því að tryggja verndun og útivistarmöguleika á Varmársvæðinu. Þar á að leggja tengibrautir í Helgafellshverfi og Leirvogstungu sem munu skerða verulega þessi lífsgæði Mosfellinga. Með réttum áherslum í skipulagsmálum hefði verið hægt að tryggja fullnægjandi vegtengingar við nýju hverfin og að vernda þessa lífæð bæjarins.
Ef til vill er öllum sama, svo lengi sem við höfum nýlegt grill á pallinum og góðan jeppa og hestakerru á planinu. Að þessu leyti finnst mér Mosfellsbær vera að þróast í svipaða átt og Garðabær. Stórt samansafn af fólki sem leggur aðaláherslu á hreiðurgerðina, en litlar á mannlíf og menningu í bænum. Vonandi viljum við meira. Fór nýlega á laugardegi út að borða og á öldurhús í Hafnarfirði. Það var virkilega gaman að sjá allt þetta fólk að skemmta sér og njóta lífsins. Skynja þennan bæjarbrag og samfélag. En eitt er það sem Garðabær gerir betur en Mosfellsbær þessa dagana. Það er að móta skipulagsstefnu og uppbyggingu þannig að hún sé í sátt við umhverfið. Meðan Mosfellsbær siglir Kópavogsleiðina, að uppbygging og framfarir séu mældar í flatarmáli af malbiki og rúmmetrum af steypu, þá hefur Garðabær markað stefnu sem leggur áherslu á að halda góðum tengslum við náttúruna.
Bæjarstjórn Garðabæjar hefur snúið sér til íbúa bæjarins við að kanna framboð, eftirspurn og notkun náttúrutengdra útivistarsvæða í nágrenninu. Stefnt er að friðlýsa tiltekin svæði svo öllum sé ljóst að við þeim verði ekki hróflað. Gunnar Einarsson bæjarstjóri í Garðabæ segir í viðtali við Morgunblaðið á föstudaginn; "Við finnum að fólk tekur þessu vel og það er aukinn áhugi, sérstaklega hjá ungu fólki sem flytur í bæinn og er áhugasamt um náttúruna í nánasta umhverfi. Það er mjög ánægjulegt að verða vitni að þessari vakningu." Þetta er lofsvert framtak hjá bæjarstjórninni. Það er augljóst að aukin eftirspurn er eftir hverfum sem skipulögð eru fyrir þá sem vilja njóta kosta þéttbýlis en halda nánum tengslum við náttúruna, t.d. hið nýja Urrriðaholtshverfi í Garðabæ, sem virðist metnaðarfullt verkefni og Tjarnabyggð í nágrenni Selfoss.
Ætlar Mosfellsbær að glata ímynd sinni á meðan flestir aðrir reyna að innleiða slík tengsl íbúa og náttúru? Fyrir um áratug var Mosfellsbær verðlaunaður af Sambandi íslenskara sveitarfélaga fyrir uppbyggingu göngustíga, en síðan hefur öll hugsun og heildarsýn í umhverfismálum verið veikburða. Það getur verið ágætt fyrir Mosfellsbæ að sækja kraft framkvæmda í Kópavoginn, anda mannlífs í Hafnarfjörð og fyrirhyggju í umhverfismálum til Garðabæjar. Blanda síðan í réttum hlutföllum við sögu sveitarinnar, hestamennsku, listalíf, endurhæfingu og útivist í Mosfellsbænum. Njótum dagsins í framsýnu og öflugu bæjarfélagi með kraftmiklu mannlífi og útivistarmöguleikum. Á forsendum náttúrutengdrar uppbyggingar þéttbýlis og aðkomu almennings að skipulagsvinnu hafa Varmársamtökin staðið vaktina. Þau lengi lifi!
Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.6.2007 kl. 08:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.6.2007 | 14:33
Geir Waage eða Hjörtur Magni?
Prestar hafa lengi verið vinsælt umræðuefni. Þátttaka í slíkri samræðu stendur mér að nokkru nærri því ég er uppalin á kirkjustað og á móður með mikinn áhuga á prestum. Afi hennar var prestur og forfeður í sjö ættliði. Geir Waage minnir mig á karaktera í ljósmyndasafni séra Jóns Jónssonar langafa míns á Stafafelli. Hann er fyrir mörgum tákn stöðnunar í trúarlífi landsmanna, en fyrir öðrum er hann tákn staðfestu. Hjörtur Magni er fríkirkjuprestur og er tákn nútímans, frjálsræðis og að mannnkærleikur sé útgangspunktur kirkjustarfs. En fulltrúar kerfis og bókstafs upplifa ógnun af framgöngu hans og viðhorfum.
Hjörtur Magni skrifar góða grein í Fréttablaðið í dag. Þar sem að hann rekur þætti er snúa að kæru átta presta til siðanefndar, aðstöðumun frjálsra trúfélaga og Þjóðkirkjunnar. Þjóðkirkjan hefur sína hjörð embættismanna út um allt land á launum frá ríkinu. Hann bendir á að í sinni sókn séu 8000 sóknarbörn en í sókn þess prests sem gengur harðast fram í kærumálum og er á Hofsósi séu eingöngu 500 manns og í Skagafjarðarprófastdæmi séu 6 prestar með 6000 manns. "Hér er íslenska ríkið að sóa almannafé".
Eitt stykki prestur í hverjum bæ og byggðarlagi hefur sennilega verið eðlilegt fyrirkomulag þegar kirkjustaðir voru eini farvegur menntunar og fræðslu. Yfir jökulár og vegleysur að fara. Síðan er það spurning hvort að núverandi fyrirkomulag embættismannakerfis í trúmálum landsmanna sé úrelt. Að það sé tímaskekkja. Fólk vilji finna trúarþörf sinni farveg á frjálsari máta en að hlýða á "sinn prest" á sunnudögum.
Það er ljóst að krafan um aðskilnað ríkis og kirkju mun fá aukna vigt á næstu árum. Merkilegt að Sjálfstæðisflokkurinn, Heimdallur og hvað þeir nefnast helst sem telja sig talsmenn einkavæðingar og frelsis hafa ekki viljað einkarekstur á þessu sviði. Ekkert hik var á sömu aðilum að selja einkaaðilum grunnkerfi samskipta í landinu, en þeir vilja viðhalda einfaldri ríkislínu í fjarskiptum við almættið.
Blöð og tímarit leggja oft spurningar fyrir einstaklinga sem eiga að varpa ljósi á persónu viðkomandi t.d. Bítlarnir eða Rolling Stones? Jeppa eða fólksbíl? Britney Spears eða Madonna? Það mætti alveg bæta við Geir Waage eða Hjörtur Magni? Myndi svara Hjörtur Magni, en hvað með þig?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.6.2007 | 17:32
Landnáma og landnám ríkisins
Fyrir kosningar töluðu þingmenn og ráðherrar um nauðsyn þess að endurskoða þjóðlendulög og aðferðafræði við meðferð þjóðlendumála. Meðal annars var rætt um að ríkið gerði ekki kröfur inn á þinglýst eignarlönd, sem að sátt hefur ríkt um að tilheyri tilteknum lögaðilum áratugum eða árhundruðum saman. Að landeigendur verði ekki látnir þurfa að sanna eignarrétt sinn allt aftur til landnáms. Einnig í ljósi þess að umfang málsins er margfalt meira í dómstólum heldur en gert var ráð fyrir í upphafi. Það hefur verið staðfest af þingmönnum að þeir álitu að tilgangur laganna væri að skera úr um eignarhald á afréttum og almenningum eða svonefndu einskis manns landi.
Margt bendir til að þingmenn muni ekki hafa hugrekki til að taka á þessu máli. Þar ræður mestu ákveðin lögfræðingakúltúr sem er ríkjandi í þjóðfélaginu. Málið er orðið það flókið og umfangsmikið að fáir ná að hafa fullan skilning á forsendum þess. Því veltur ábyrgðin yfir á sérfróða menn í dómskerfinu. Framkvæmd þjóðlendulaga þróaðist frá markmiðinu um að úrskúrða um einskis manns lönd fyrir Óbyggðanefnd í að ríkið gerir kröfur inn á meginþorra allra jarða landsins, sem eiga eitthvað fjalllendi. Þar að auki er raunin sú að stórum hluta af niðurstöðum Óbyggðanefndar er vísað til æðri dómstiga, sem kallar á umfangsmikið málavafstur fyrir héraðsdómi og hæstarétti. Þessu fylgja gríðarleg útgjöld sem að ríkið hefði getað keypt margan hálendismel fyrir og forðast öll þau leiðindi sem málinu hafa fylgt.
Ef við gerum ráð fyrir að út úr öllu málavafstrinu komi einhver sameiginlegur skilningur, þá er rétt að spyrja hvert sé hið einfalda meginþema um mörk eignarlands og þjóðlendna sem lesa má út úr öllu saman. Hæstiréttur virðist fara fram hjá öllum þinglýsingum, nýtingu, sölusamningum og öðru sem styður beinan eignarrétt og lætur spurninguna um landnám hafa mesta vigt. Þar hafa frásagnir Landnámu verið þeirra haldreipi. Það er með ólíkindum að sögusagnir úr fornritum verði meginviðmið við uppkvaðningu dóma á 21. öldinni. Þrjú til fjögur hundruð ára eignar- og nýtingarsaga verður léttvæg í samanburði við frásagnir af landnámi. Það er þó afstaða okkar helstu sérfræðinga í Landnámu s.s. Sveinbjörns Rafnssonar og Einars G. Péturssonar og fleiri að hún sé fyrst og fremst sögusagnir sem voru skrifaðar upp 200 árum eftir landnám. Auk þess tók texti Landnámu breytingum og sagnaritararnir voru á Vesturlandi og Suðurlandi, sem rýrir mjög áreiðanleika frásagna í öðrum landshlutum.
Í nýlegri dómum er ekki eingöngu miðað við frásagnir Landnámu, heldur reynt að meta líkindi á að landið hafi verið numið. Tímapunktur og áhugi dómara beinist sem sagt enn að mestu að því hvað gerðist fyrir rúmum þúsund árum, frekar en skjalfestri eignarsögu og nýtingu í fleiri hundruð ár. Í úrskurði Hæstaréttar varðandi Stafafell í Lóni segir; Staðhættir og fyrirliggjandi heimildir um gróðurfar voru þó ekki talin styðja að stofnað hefði verið til beins eignarréttar á fjalllendinu milli hásléttanna og Vatnajökuls með námi. Þarna tel ég nú að viðmiðið sé fyrst og fremst sporleti ríflega miðaldra dómara í vettvangsferðum, en þeir fóru aldrei inn á það land sem þeir dæmdu þjóðlendu. Hinsvegar er í fjölda vísitasía tiltekið að Stafafell eigi Kollumúla og Víðidal, sem er meginpartur umrædds svæðis. Auk þess er það athyglisvert að dalir sem skerast þarna langt inn til lands eru ekki nema í um tvö hundruð metra hæð og Víðidalur er gróðursæll dalur.
Eðlilegt er að gera þá væntingu til dóma að þeir stuðli að aukinni sátt. Í sveitum landsins hefur ríkt ákveðinn skilningur í fleiri hundruð ár varðandi eignarrétt á landi, þó landeigendur hafi tekist á um mörk milli jarða, þá hafa í flestum tilfellum myndast meginviðmið sem afmarkast oftar en ekki af ám og vatnaskilum. Staðir eða kirkjujarðir voru oft landmiklar og lönd þeirra hafa myndað sögulegar heildir um langt skeið. Með Þjóðlendulögum og hinum umfangsmikla málarekstri þeim tengdum er verið að innleiða nýja hugsun og forsendur fyrir umfangsmikið endurgjaldslaust eignarnám á landi. Ríkið, Óbyggðanefnd og Hæstiréttur hafa sett öll viðmið um eignarlönd í uppnám sem mun leiða af sér viðvarandi ósætti. Annarsvegar er fleiri hundruð ára eignarsaga, en hinsvegar ævaforn viðmið Landnámu og óljósar forsendur gróðurúttektar til mats á líkindum þess að land hafi verið numið. Þarna hefði Alþingi þurft að koma inn í og færa vægið yfir á sögu eignarhalds og nýtingar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.6.2007 kl. 17:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.5.2007 | 01:28
Regnbogahlaupið
Fyrir nokkrum árum merkti ég leiðir á fellin umhverfis Mosfellsbæ í góðri samvinnu við okkar ágæta garðyrkjustjóra og landeigendur. Nú eru stikurnar víða fallnar niður, hinsvegar hafa myndast á sumum stöðum góðar götur þar sem þær voru. Hef oft hugsað mér að það væri verðugt verkefni að fylgja þessu betur eftir. Hugmyndin hjá mér var að fellin fjögur væru eins og fjögurra laufa smári og stilkurinn væri útivistar- og verndarbeltið meðfram Varmá. Stikurnar sem voru´hafðar í litum regnbogans, rauðar á Helgafell, gular á Reykjafell, grænar á Reykjaborg (og út á Vatnshorn) og bláar á Úlfarsfell. Það hlítur að teljast óskastaða fyrir bæinn að eiga sinn fjögurra laufa smára og regnboga. Það er líka gott fyrir hvern og einn að eiga sína óskastund, sáttur við Guð og menn upp á fellunum. Þarna er óplægður akur fyrir útivistarbæinn okkar.
Hef verið að hugsa um hvernig við eflum eitthvað konsept í kringum þetta, sem festir þessar leiðir betur í sessi í hugum almennings hér á höfuðborgarsvæðinu, þannig að þær verði meira notaðar. Ein hugmynd er að klukkan tíu að morgni 17. júní ár hvert verði hlaupið svonefnt Regnbogahlaup, hringinn eftir fellunum fjórum. Valið yrði eitthvað þema eða hugtak sem myndar þá ósk sem við veljum til styrktar og eflingar góðu mannlífi. Það gæti verið kærleikur, friður, jöfnuður, ríkidæmi, hollusta, næring, sjálfstraust, vilji, fegurð, hreysti og margt fleira. Auðvelt er að hugsa sér að tvinna þetta saman við skáldskapargyðjuna og staðsetja ljóð sem tengjast tilteknu þema á leiðinni til að styrkja andannn enn frekar.
Hlaupið myndi byrja á íþróttasvæðinu að Varmá, farið í átt að Helgafellshverfi um nýja göngustíginn undir Vesturlandsveg, upp götu í skriðu Helgafells, á toppinn og niður Slættudal, yfir Skammadal, upp Reykjafellið á móts við hestagerði, á toppinn og niður dráttarvélarslóð í átt að Varmá og yfir í átt að Reykjaborg eftir vegslóða, þaðan síðan eftir hryggnum út á Vatnshorn, farið þar niður stíg og farið í átt að Úlfarsfelli, farið upp á topp eftir stíg, niður í Hamrahlíðarskóg og síðan fram hjá Lagafelli og til baka að Íþróttamiðstöð.
Hvernig lýst ykkur á þessa hugmynd? Hef margoft farið á fellin eitt og eitt, en ekki hlaupið slíkan hring. Vill einhver prófa eitt svona rennsli með mér á fimmtudaginn og setjast síðan í pottinn í framhaldi?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.5.2007 kl. 13:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.5.2007 | 22:19
Huglægt mat eða fagleg úttekt?
Ráðgjafafyrirtæki Mosfellsbæjar hefur skilað inn umhverfismati áætlana vegna deiliskipulags við lagningu Helgafellsvegar. Eins og gert er ráð fyrir í reglum um slíkt mat, þá er viðleitni í skýrslunni að gera skipulagðan samanburð valkosta. Varmársamtökin bentu bæjaryfirvöldum á að aldrei hafi verið gerður slíkur samanburður og að fagleg úttekt væri forsenda þess að almenningur gæti myndað sér skoðun á málinu. Hún væri jafnframt forsenda þess að efla íbúalýðræði og aðkomu almennings að skipulagsmálum. Eftir lestur þessarar skýrslu vakna spurningar um sjálfstæði ráðgjafafyrirtækisins í málinu. Til dæmis er ekkert tekið til umfjöllunar mikilvægi þess að í ört vaxandi bæjarfélagi sé haldið eftir útivistar- og verndarsvæði, með öllum þeim jákvæðu perlum sem liggja upp með Varmá. Hesthúsahverfi og reiðleiðum, íþrótta- og skólasvæði, lista- og menningarstarfi, heilsueflingu og endurhæfingu. Mikilvægi og gildi þess að hafa svigrúm til vaxtar og eflingar "Varmárdals" sem hjarta og lífæð Mosfellsbæjar.
Margt bendir til að fyrirtækið hafi verið hliðhollt húsbónda sínum í meðhöndlun gagna og að stigagjöfin sem notuð er í skýrslunni sé byggð á röngum forsendum varðandi tvær helstu tillögurnar sem eru í umræðunni, það er fyrirliggjandi tillögur bæjaryfirvalda um Helgafellsveg og tillögur Varmársamtakanna um mislæg gatnamót í jaðri byggðar. Á fundi með ráðgjafarfyrirtækinu ítrekuðu Varmársamtökin að þverun Varmár við Álanes væri ekki hluti af tillögum samtakanna, heldur væri gert ráð fyrir safngötu á aðalskipulagi og jafnframt í þriðja áfanga deiliskipulags Helgafellsbygginga og svari bæjaryfirvalda. Tókum sérstaklega fram að samtökin hafa óskað eftir því að þessi tenging væri tekin út. Útskýrðum að okkar tillögur gengju eingöngu út á að mislæg gatnamót í jaðri byggðar, ofan og norðan núverandi Helgafellshverfis kæmu í stað tengibrautar um Álafosskvos. Þrátt fyrir þetta setur ráðgjafafyrirtækið þverun Varmár við Álanes á reikning Varmársamtakanna sem að leiðir til alvarlegrar villu í samanburði á umhverfisáhrifum tillagnana tveggja. Þarna tekur fyrirtækið upp sama tón og fulltrúar bæjaryfirvalda um að nota útúrsnúning um þverun Varmár við Álanes sem forsendu í samanburði. Það er alvarlegt mál í ljósi þess að þeim hafði verið gerð grein fyrir inntaki tillagna samtakanna.
Það sem meira er að fyrirtækið virðist kaupa þá túlkun bæjaryfirvalda að deiliskipulag Helgafellsvegar snúist um "500 m vegarspotta". Að skipulagstillagan endi í tvöföldu hringtorgi við Vesturlandsveg er ekki í samræmi við aðalskipulag Mosfellsbæjar og markmið Vegagerðar um að leggja af hringtorg. Samkvæmt heimildum er ráðgert að það muni gerast fyrr en síðar og segjast fulltrúar vegagerðar líta á slíkt hringtorg með aðliggjandi brekkum báðum megin við, sem ófullnægjandi bráðabirgðalausn. Því verðum við að vera með varanlega lausn á teikniborðinu en segja ekki hálfsannleika til að fegra málið í skipulagsferlinu. Samkvæmt aðalskipulagi á tengibrautin að koma undir Vesturlandsveg og liggja nálægt íþrótta- og skólasvæði, loka af göngustíg og reiðgötu, setja eitt sögufrægasta hús bæjarins upp á umferðareyju og gera miðbæinn að rússíbana bílaumferðar. Jafnframt er nauðsynlegt að bera þessa tvo möguleika saman með tilliti til þess að mislæg gatnamót séu komin á Hafravatnsveg (Reykjaveg) eins og ráðgert er í fyrirliggjandi skipulagstillögum.
Uppsetning skýrslunnar er vönduð, ártöl, dagsetningar og sögulegt yfirlit er allt til fyrirmyndar. Stigagjöf í samanburði er að nokkru í anda þess sem Varmársamtökin höfðu óskað þegar þau fóru fram á að gerð yrði fagleg úttekt á valkostum. Í slíkum samanburði er þó nauðsynlegt að grunnforsendurnar séu réttar. Eins og ég hef rakið hér að ofan þá er það ekki raunin. Þrátt fyrir góða umgjörð og uppsetningu, þá er inntakið og niðurstaðan ómarktæk. Þó Varmársamtökin fagni þessum áfanga sem náðst hefur að fá þessa vinnu fram og er að hluta til vegna okkar vinnu, þá hlítur það að vera markmið samtakanna að sýna fram á veikleika þessarar skýrslu og ekki síður hvernig er hægt að gera betur. Almenningur á það skilið að rétt sé farið með og að unnið sé á faglegum forsendum. Í skýrslunni er engin ný vitneskja, engar rannsóknir eða útreikningar, heldur er hún huglægt mat á villandi forsendum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.5.2007 kl. 19:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2007 | 01:48
Mitt á meðal heiðingjanna
Well, well. Ég er búin að vera kjaftstop í nokkra daga. Er einn af þeim sem trúði þeirri kennisetningu að Samfylkingin væri flokkurinn sem myndaði mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn. Hafði sagt fyrir kosningar að Samfylkingin þyrfti að ná 30% til að vit væri í því fyrir Samfylkingu að fara í samstarf og gæti þá gert það á jafnræðisgrundvelli. En spurningin um hinn eina sem rokkaði alla nóttina til og frá milli stjórnarandstöðu og ríkisstjórnarflokkana gerði gæfumuninn. Ef hann hefði lent hjá stjórnarandstöðu þá hefði Ingibjörg verið með öll tromp á hendi og væri nú orðin forsætisráðherra. En Geir gat notað valdagráðuga og vængbrotna Framsókn meðan hann brúaði bilið yfir til Samfylkingar. Að halda þeim volgum um áframhald gerði það að verkum að erfitt var fyrir Ingibjörgu að ræða við þá og reyna að fá þá til liðs við nýtt banadalag. Jafnframt er greinilegt að samstarf á vinstri væng var ekki mikið keppikefli Steingríms Joð. Hann virtist hafa meiri áhuga á bandalagi "sigurvegara" heldur en félagshyggjustjórn. Að biðja Framsókn um að verja stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna vantrausti var auðvitað móðgun eins og Guðni Ágústsson orðaði það.
Þegar þetta tvennt lá fyrir stjórnarmeirihlutinn hélt velli og Vinstri grænir héldu áfram að vera með sjálfseyðingarhvötina sem aðalvopn og afla sér óvina, frekar en samstarfsaðila á vinstri vængnum, þá var ekkert eftir fyrir Samfylkinguna annað en hjóla í Sjálfstæðisflokkinn og reyna að bjarga því sem bjargað verður. Það er líka sannleikur í orðum Hrafns á Hallormsstað, þegar hann var spurður að því hvort það væri ekki ósamræmi í því að hann gallharður Stalínisti væri í Framsóknarflokknum. Hann var snöggur til svars; "Hvar á trúboðinn að vera annars staðar en mitt á meðal heiðingjanna?" Framganga Ingibjargar Sólrúnar lofar mjög góðu. Nú er búið að mynda "Velferðarstjórn" án Vinstri grænna. Stjórn sem mun tryggja hag heimilanna, skattaumhverfi, atvinnu, efnahag. Það sem mun verða frábrugðið við fyrri ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks, fyrst Viðeyjarstjórn og síðan Framsóknarsamstarfið, er að Ingibjörg Sólrún mun ekki líta á það sem fyrstu skyldu sína að fylgja handriti Geirs H. Harde, heldur miklu fremur leita leiða til að sannfæra hann um þau mál sem að hún telur mikilvæg fyrir það umboð sem hún hefur frá kjósendum. Hef fulla trú á að hún sýni styrk sinn með því að vera skapandi og virk í hlutverki sínu
Til lengri tíma litið tel ég þó æskilegt að kjósendur geti gengið út frá samstarfi Samfylkingar og Vinstri grænna eftir kosningar. Það var jákvætt í núverandi kosningum að þessir tveir flokkar eydddu minna púðri í átök sín á milli, heldur en oft áður. Þetta þyrfti að vera líkt og á Norðurlöndum að þessir flokkar vinna að leiðum til að mynda ríkisstjórn. Hinsvegar held ég að Steingrímur sé af gamla skólanum og að persónuleg óvild í garð Samfylkingar risti djúpt og því hafi hannn ekki síður horft til Sjálfstæðisflokks. Öðru máli gegnir um Katrínu Jakobsdóttur og marga unga Vinstri græna, sem líta á Samfylkinguna sem bandamann. Það gefi af sér aukna hugmyndauðgi að hafa tvo flokka, en jafnframt gefið að þeir stefna að samvinnu eftir kosningar. Það gæti verið heilladrjúg þróun að flokkarnir gæfu afgerandi út slíkar yfirlýsingar fyrir kosningar. Við værum með velferðarstjórn þar sem Vinstri grænir væru með á bátnum ef Katrín Jakobsdóttir væri við stjórnvölinn.
Hver trúir á "nýfrjálshyggju-hægrikratískar" stjórnmálaskýringar Steingríms sem leggur meira upp úr því að vera geðvondur út í allt og alla, heldur en að vinna að leiðum og úrlausnarefnum fyrir fólk og heimili í landinu. Niðurstaða mín er því sú að ég er orðinn ánægður með núverandi stjórn, fyrst að niðurstaðan úr þreifingum og viðræðum varð sú að foringi vinstri grænna væri ósamstarfshæfur.
Lifi velferðin ... og Þingvellir
Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.5.2007 kl. 13:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.5.2007 | 10:22
Útskrift
Eitt af táknum sumarkomunnar eru hvítu stúdentskollarnir. Í fyrradag var prófsýning og í gær útskrift í Borgarholtsskóla. Þetta var fallegur sólardagur. Reyndar finnst mér að allir útskriftardagar á Borgarholtinu hafi verið sólríkir. Um 160 manns að ljúka sínum áfanga, salurinn fullur af aðstendendum, vinum og starfsfólki. Það er samt merkileg blanda af gleði og söknuði á slíkum tímamótum. Frábært að sjá allt þetta efnilega fólk vera að fara út í lífið og væntingar um að draumar þeirra og tækifæri gefi af sér framtíð fulla af inntaki og lífsfyllingu. Á sama tíma er líka eitthvað ferli að enda sem að er búið að vera í farvegi um nokkurra ára skeið. Nú er kominn punktur. Fólk fer í sitthvora áttina.
Um næstu helgi höldum við útskriftarárgangur 1982 frá Menntaskólanum á Laugarvatni upp á 25 ára afmæli. Þetta er á Hvítasunnu, þannig að einhverjir eru uppteknir í öðru. Það er þó 20 manna hópur sem ætlar að fara. Hluti hópsins ætlar að ganga Kóngsveg á Laugarvatn. Efast um að Borghiltingar sem að voru að útskrifast í gær muni samfagna eftir 25 ár. Það eru kostir og gallar við fjölbrautakefið og bekkjarkerfið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.5.2007 kl. 14:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2007 | 16:35
Jarðvegur lífsgilda eða hamfara
Í rúmt ár hef ég verið varaformaður Varmársamtakanna. Megináherslur þeirra eru á umhverfi og íbúalýðræði. Aldeilis mikilvægir og merkilegir málaflokkar. Fyrir um tveimur árum síðan stóð ég fyrir undirskriftasöfnun er tengdist uppbyggingu á sundaðstöðu Mosfellsbæjar. Sjálfstæðisflokkurinn hafði ákveðið að hætta við uppbyggingu glæsilegrar laugar á Varmársvæðinu og farið´út í að skipuleggja aðallaug bæjarins á vestursvæði. Um það bil helmingur bæjarbúa skrifaði undir áskorun þess efnis að fyrst yrði farið í uppbyggingu að Varmá og þar yrði aðallaug bæjarins, enda væri hún miðlægt og hefði samlegðaráhrif við aðra aðstöðu til útivistar og íþrótta. Bæjarstjórn gat ekki tekið tillit til þessarar bónar og enn finnst mér að málið hafi bara snúist um stolt Sjálfstæðisflokksins að frmkvæma ekki glæsilegar tillögur fyrri meirihluta um sundlaugaraðstöðu að Varmá. Þarna vaknaði áhugi minn á íbúalýðræði.
Um nokkurra áratuga skeið hef ég unnið að´málefnum útivistar og heilsueflingar. Ég er úr sveit og allt frá bernsku hefur stór hluti af tilverunni snúist um að hlaupa á fell og fjöll. Það er sagt að sveitamenn sem leggja mikið upp úr tengslum við náttúruna setjist að í Mosfellsbæ. Við kaupum okkur raðhús í Mosfellsbæ og byrjum að rækta garðinn og höfum frá upphafi tengsl við Álafosskvos. Nýtum möguleika bæjarins til vaxtar og lífsfyllingar. Fór nokkru síðar að vinna á Reykjalundi og kynntist þeim jákvæða og góða uppbyggingaranda sem þar ríkir. Keypti hlut í hesthúsi og hef notið einstakra göngustíga og reiðstíga bæjarfélagsins. Eins og gengur með foreldri þá eru tengsl við Varmárskóla og íþróttamiðstöðina. Fljótlega fór ég að nota fellin í nágrenni bæjarins sem minn líkamsræktarsal. Eitt vorið vann ég að því í samvinnu við garðyrkjustjóra Mosfellsbæjar að merkja hringleiðir upp á fellin. Varmársvæðið með sínum perlum til útivistar og mannræktar er eins og stilkur á fjögurra laufa smára sem myndaður er af fellunum. Mín ósk var að vegur þessa útivistar- og verndarsvæðis yrði sem mestur.
Mosfellsbær byggist hratt upp og grænu svæðunum fækkar. Nýlega er búið að selja verktökum Sólvallatúnið, sem er framan við stofugluggann. Þannig að eftir nokkur ár tapa ég því frelsi að geta pissað út í garði og horft á stjörnurnar. Þeim mun verðmætara er að halda eftir útivistar- og verndarbelti upp með Varmá. Jafnframt er mikilvægt að til séu aðilar í bæjarfélaginu sem gæti hagsmuna hins almenna íbúa sem sest hefur hér að á síðastliðnum árum undir formerkjunum "sveit í borg" sem að er útgangspunktur í aðalskipulagi bæjarins. Skipulagslög, náttúruverndarlög og upplýsingalög vernda aðkomu og rétt einstaklinga að mótun síns umhverfis og skipulags. Það er hluti af lífsfyllingu að vera þátttakandi. En því fylgir ábyrgð. Að markmiðið sé að leita bestu lausna og að það sem sagt er og gert hafi það markmið að efla og styrkja samfélagið.
Gærdagurinn var með þeim erfiðari. Hafði fengið hálsbólgu daginn áður og það var seinasti dagurinn til að skila inn einkunum nemenda í Borgarholtsskóla. Upp úr klukkan tíu er hringt í mig frá blaðamanni Morgunblaðsins vegna skemmdarverka á vinnuvélum í Helgafellhverfi. Blaðamaður segir mér að framkvæmdastjóri verktakafyrirtækis tali um milljónatjón og segir að ég með minni framgöngu og Varmársamtökin séu ábyrg. Þurfti að bæta því inn í dagsverkið að standa þokkalega uppréttur í fjölmiðlum og svara þessum ærumeiðandi aðdróttunum og alvarlegri ásökunum á persónu heldur en þekkst hefur í óupplýstu lögreglumáli. Ekki virðast lögregluyfirvöld tengja málið meira við mína persónu en svo að ég hef ekki fengið hringingu eða beðin um að koma í viðtal. Hinsvegar hef ég ekki náð í þann sem rannsakar málið. Nú stend ég frammi fyrir því hvort ég eigi að nýta mér aðstoð lögfræðinga og fá þessi ummæli framkvæmdastjórans dæmd ómerk. Ég hef í raun ekki tíma eða fjármagn til að standa í slíku.
Þrátt fyrir yfirlýsingar verktakans um 2-3 daga tafir var allt á fullu í að aka burt mold og keyra inn möl og grjóti inn í kvosina, bæði í gærkvöldi og í dag uppstigningardag. Meira að segja er búið að leggja hliðarveg sem stefnir beint að Varmá. Allt þetta inngrip er talið leyfilegt á þeim forsendum að þeir hafa upp á vasann tölvupóst frá tækni- og umhverfissviði bæjarins að Mosfellsbær geri ekki athugasemdir við þessa "lagnavinnu". Ekkert deiliskupulag er í gildi. Það var afturkallað. Það sem er nokkuð sérstakt í þessari pípulögn er að ofan á hana er lagður fimm metra malarpúði sem er margvaltaður. Ég fór upp á hól ofan við gömlu Álafossverksmiðjuna og tók myndir í morgun, ég var nokkrum metrum frá Varmá sem að lítur hverfisvernd. Þar hótaði mér og ógnaði framkvæmdastjóri verktakans. Sá sami og vígreifur ásakaði mig persónulega um milljónatjón í gær í fjölmiðlum, hafa farið hamförum og hvatt til skemmdarverka. Undir þessar ásakanir hefur verið tekið af fulltrúum meirihluta í bæjarstjórn Mosfellsbæjar. Það finnst mér alvarlegt að taka undir ásakanir á persónu með þessum hætti. Það hvarflar að manni að í Mosfellsbæ ríki verktakalýðræði. Mig langar að finna leiðir til að við getum komist sæmilega frá þeim vaxtarverkjum sem Mosfellsbær gengur í gegnum þessa dagana, en vona allavega að ekki sé nauðsynlegt að hræða mig frá mínum lífsgildum og vilja til þáttöku í mótun samfélagsins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.5.2007 kl. 15:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)